Nokia Lumia 1520

eftir Jón Ólafsson

Lappari hefur fjallað um ansi marga Windows Phone síma á árinu 2013 og er við hæfi að enda það með nýjasta flaggskipi Nokia. Þetta er sími sem tilkynntur var í Abu Dhabi 22. október og er núna aðeins tveim mánuðum seinna kominn í sölu á Íslandi.

Síminn sem tekinn verður fyrir núna heitir Nokia Lumia 1520 og er fyrsti Windows Phone síminn sem er með 6“ stóran skjá og er því í Phablet flokki. Ég reikna með að þessi símar séu og verði kallaðir spjaldsímar í daglegu tali þótt að ég hafi alltaf kallað þá BSS sem stendur fyrir “Bull Stór Sími”. Það er ekki langt síðan mér þótti þessi stærð ótrúlega heimskuleg og sá ég aldrei fyrir mér að ég gæti talað í svona stórt tæki, hvað þá keypt mér svoleiðis. Þetta breytist þó eftir að ég lék mér með Samsung Note 3 sem er 5.7“ en ég fann að þetta var stærðin sem „mig hefur alltaf vantað“ því þó ég noti símann mjög mikið þá er það minnst til að tala í hann og því aukin skjástærð kærkomin.

Lumia 1520 er með öllu því nýjasta sem í boði vélbúnaðarlega og nú loksins á pari við Android flaggskip. Ég hef samt aldrei talið þörf á því þar sem Windows Phone virðist vera mun léttara í keyrslu en Android og finnst mér stýrikerfið virka nær fumlaust á 25 þúsund króna Lumia 520 eða HTC 8x eins og á dýrari símtækjum.

Það verður því áhugavert að prófa Nokia Lumia 1520 og sjá hvernig Windows Phone kemur út á svona stórum skjá og hvernig kerfið virkar á svona öflugum vélbúnaði.

 

Hér má sjá Nokia Lumia 1520 afpökkun

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Lumia 1520 er mjög stílhreinn og látlaus sími, þó svo að erfitt sé að segja látlaus um svona stórt tæki, en hann er massífur og virkar sterklegur í hendi. Ég hafði lesið áður að Lumia 1520 líkist töluvert Lumia 720 og verð ég að vera sammála því. Það er heldur alls ekki slæmt þar sem Lumia 720 er enn í dag einn af uppáhalds mid-range símtækjum ársins. Framhliðin er þakin af þessum gullfallega 6″ skjá sem rúnast út til hliða og fellur hann síðan að hliðunum sem eru úr Polycarbonate, allur frágangur til fyrirmyndar og tækið mjög sterkbyggt.

 

1520_7

 

Bakhlið og hliðar eru úr einu heilsteyptu Polycarbonate sem hægt er að fá í svörtu, rauðu og hvítu. Á bakhlið er myndavélin örlítið upphleypt, flash, hátalari og auka hljóðnemar til þess að geta tekið upp stefnumiðaðar hljóðupptökur.

Hér helstu stærðir í mm.

 • Hæð: 162.8
 • Breidd: 85.2
 • Þykkt: 8.7
 • Þyngd: 209 g

Nokia Lumia 1520 er ekki léttur sími en samanborið við samkeppnina er hann í léttari kanntinum miðað við skjástærð.

 • 217gr – 5.9″ – HTC One Max
 • 212gr – 6.4″ – Sony Xperia Z Ultra
 • 209gr – 6.0″ – Nokia Lumia 1520
 • 168gr – 5.7″ – Galaxy Note 3

 

Ólíkt t.d. Lumia 520 sem er ódýrasti Lumia síminn þá er skelin vönduð viðkomu eins og fyrr segir og þá leynist líklega engum að þetta er flaggskip Nokia. Síminn er eins og fyrr segir með 6″ HD 1080p skjá sem leggst vel í skelina, sem umleikur hann, en ystu brúnir skjásins eru lítillega kúptar til hliðana eins og Lumia 920/925/1020. Allur frágangur milli skjás og skeljar er til fyrirmyndar og greinilega vandað vel til verka.

Takkarnir á hægri hlið eru þrír eins og á öðrum Windows Phone símum, sértakki fyrir myndavél, powertakki ásamt hækka/lækkatakka. Takkarnir eru úr keramik sem gefur til kynna að þeir séu sterkir og rispufrýir. Framhliðin fer nær öll undir skjáinn fyrir utan að yst byrjar skelin sem umleikur símann eins og fyrr segir. Á framhlið eru þrír snertitakkar eins og við þekkjum á öllum Windows Phone símum, bakka, heim og Bing leit. Hliðar og bakhlið eru kúpt og því liggur símtækið vel og örugglega í hendi, en bakhlið á símans er slétt fyrir utan þar sem 20MP myndavélin er.

 

 

Lumia 1520 er með fjórkjarna 2.2GHz Snapdragon 800 örgjörva og með 2GB í vinnsluminni. Þessi gríðarlega öflugi örgjörvi skilar sér í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við hökt í símann, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu, forritum, margmiðlun eða í leikjum. Ég sótti fullt af stórum leikjum og lét reyna vel á tækið og þó að síminn hafi hitnað aðeins í leikjunum þá var afspilun og viðbragð alltaf lagglaust með öllu.

Það er mikill kostur að Lumia 1520 sé ekki bara með 32GB geymslurými, sem nýtist undir stýrikerfi eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni, heldur er hann líka með rauf fyrir microSD kort sem tekur allt að 64GB kort. Ég átti 64GB kort sem ég skellti í símann og bauð hann mér að vista ljósmyndir og myndbönd á kortinu sem er kostur þar sem símaminni myndi líklega vera fljótt af fyllast ef teknar eru upp lengri upptökur í 1080p.

 

1520_2

 

Þar sem Windows Phone er beintengt við SkyDrive þá bætist við ókeypis 7GB í skýinu sem nýtist til að taka afrit af símanum sjálfum eða af ljósmyndum og myndböndum.

Einfallt er að kaupa sér meira Skydrive geymslupláss (verð 07.07.2013)

 • auka 20GB kosta um 1200 krónur á ári
 • auka 50GB kosta um 3200 krónur á ári
 • auka 100GB kosta um 6400 krónur á ári

Hér má sjá samanburð á Skydrive við aðrar lausnir sem og verðtöflu.

 

 

Tengimöguleikar

Lumia 1520 er með Micro USB tengi (USB 2.0) neðst á símtæki þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Þetta tengi er sameiginlegt með “öllum” snjallsímum…. öðrum en iPhone.

Efst á síma er einnig 3.5 mm heyrartólstengi og á vinstri hlið eru sleðar fyrir SIM og micro SD kort en Lumia 1520 er með Bluetooth 4.0 og NFC.

 

1520_5

 

Lumia 1520 er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli fyrir heimili og fyrirtæki eins og: WPA2 (AES/TKIP), WPA, WPA-Personal, WEP, WPA2-Personal, WPA-Enterprise, WPA2-Enterprise, PEAP-MSCHAPv2, EAP-SIM, EAP-AKA.

Lumia 1520 er eins og fyrr segir með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna og notkun NFC merkja. Ég hef notað NFC merki til að setja á airplane mode en þar get ég með einu handtaki slökkt á símtölum, sms, 3G/4G. Líka er hægt að forrita merkið með heimilisfangi sem ræsir síðan upp Here Navigation, eða með símanúmeri til að hringja í.

 

4G væðingin er langt kominn á kerfum símfyrirtækja og verður notast við 800/1800 böndin á Íslandi. Nokia Lumia 1520 styður því 4G að fullu eins og margir aðrir Windows Phone símar. Það eru framleiddar tvær týpur af Lumia 1520 og er RM-937 týpann sem þú átt að kaupa fyrir Ísland en hún styður eftirfarandi bönd.

 • 2G – 850 / 900 / 1800 / 1900
 • 3G –  850 / 900 / 1900 / 2100 HSDPA
 • 4G – 800 / 900 / 1800 / 2100 / 2600

 

Rafhlaða og lyklaborð

Ég er mjög ánægður með rafhlöðuendingu á Lumia 1520 en hún er betri en ég er vanur á öðrum símtækjum almennt þrátt fyrir þennan stóra og bjarta skjá. Lumia 1520 er með innbyggða 3400mAh Li-Ion rafhlöðu sem er gefinn upp fyrir:

 • Tal yfir 2G:  27:40 klst
 • Tal yfir 3G:  25 klst
 • Biðtími: 768 klst
 • Tónlistarafspilun: 124 klst

Þetta eru gríðarlega merkilegar endingartölur og þola samanburð við allt það besta sem til er á markaðnum. Ég er ávallt tengdur við WiFi eða 3G og að samstilla 3 EAS tölvupóstreikninga ásamt því að lesa töluvert af bæði heimasíðum og nota Twitter og Facebook slatta yfir daginn og hef ég aldrei fengið meldingu eftir daginn varðandi rafhlöðuna í mínum prófunum sem samt eru nokkuð ítarlegar.

Ég skoða reglulega Battery Test hjá GSMArena og þar fær Lumia 1520 frábæra einkunn þrátt fyrir stóran skjá en oft helst í hendur stór og bjartur skjár og síðan léleg rafhlöðuending en svo er ekki með Lumia 1520. Hér er mynd sem ég sá á Facebook en þarna er búið að klippa saman niðurstöðu í rafhlöðuprófunum GSMArena á tækjum sem eru sambærileg við Lumia 1520. Eru þau í þessum spjaldsímaflokki með stóran skjá og almennt stór símtæki að öllu leiti

rafhloduprof

 

Hér má sjá nokkur ráð sem hjálpa þér að lengja rafhlöðuendinguna og hvað hægt er að gera á Windows Phone til að lengja endingu þegar verið er að ferðast.

 

1520_10

 

Lumia 1520 er með innbyggðri þráðlausri hleðslu eins og t.d. Lumia 920 og hefur Nokia því náð töluverðum árangri í að létta og minnka þennan búnað ef þykkt og þyngd er skoðuð. Mér fannst þykkt og þyngd Lumia 920 vera stærsti gallinn við hann en skýringin á þessu var þráðlausa hleðslan. Góða við þráðlausu hleðsluna í Nokia er að þeir byggja á staðlaðri tækni svo hægt verður að hlaða símann á fleiri stöðum þegar tæknin verður útbreiddari en sjá má fyrir sér að innan fárra ára verði stofuborðið orðið hleðslustöð fyrir fjarstýringar og snjallsíma.

Hér má sjá myndband þar sem maður kaupir þráðlausa hleðslu og kemur henni fyrir í náttborðinu sínu.

Lumia 1520 er eins og aðrir Windows Phone 8 símar með fullt Qwerty lyklaborð. Lyklaborðið er ekki enn komið með íslensku útliti en allir íslensku stafirnir eru engu að síður til staðar. Sem dæmi til að skrifa Þ þá er T haldið inni, til að skrifa Ð þá er D haldið inni o.s.frv. Lyklaborðið er frábært á svona stórum skjá og er allur innsláttur og skjalavinnsla mjög skemmtileg á þessu tæki

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Lumia 1520 er gullfallegur og einn sá besti sem ég hef séð og notað á símtæki. Þetta er IPS LCD skjár og er með þeim skarpari sem ég hef séð en ClearBlack tæknin gefur auka dýpt í svarta litinn ásamt því að allir litir verða líflegir og skarpir. Skjárinn er 6″ stór með Corning Gorilla Glass2 og styður upplausnin uppá 1920×1080 punkta (Full HD) og er hann því 16:9. Punktaþéttleikinn er 368ppi sem er með því hæsta sem þekkist í snjallsímum en Nokia eyddi miklum tíma og metnaði í skjáinn og hefur þeim tekist að helminga þann tíma sem tekur að skipta um lit á punktum og ræður skjárinn við að lágmarki 60 FPS í allri afspilun/myndvinnslu.

Snertivirkni er mjög góð í Lumia 1520 en Nokia segir að þú getir notar símann með vettlingum, penna, hníf o.s.frv. Ég prófaði að nota Lumia 1520 með þykkum kuldahönskum og virkaði það mjög vel. Athugið þetta var ekki „snjallsímahanski“ enda myndi ég ekki láta sjá mig með þannig 🙂

 

1520_4

Nokia hefur náð mjög langt með myndavélar í snjalltækjum og er myndavélin í Nokia Lumia 1520 engin undantekning. Vélin í Nokia Lumia 1020 er að mínu mati sú besta sem fáanleg er á síma í dag en þessi kemur fast í kjölfarið. Má segja að ég sjái ekki mikinn mun á þessum vélum annan en ég veit að Lumia 1020 er með 41MP sensor meðan Lumia 1520 er „bara“ með 20MP. Linsan er Carl Zeiss og með 1/2.5“ sensor og bæði Lumia 1020 og 1520 símtækin styðja RAW skráarform sem gerir alla eftirvinnslu mynda betri. Þegar mynd er tekin með upphafsstillingum þá verða til tvö eintök, annað minna (3072 x 1728) sem dugar fyrir flesta og tilvalið til deilinga á samfélagsmiðlum og síðan annað stærra eintak (5376 x 3024) sem er gott í eftirvinnslu eða til prentunar.

Nokia hefur þróað myndavélatækni sem þeir kalla PureView sem fyrst kom í Symbian síma sem kallast PureView 808 en sú myndavél er almennt talin vera bylting í snjallsímamyndavélum. Þegar Nokia tilkynnti að Lumia 920 notaði PureView þá var ástæða til að gleðjast en þessi tækni er líka í Lumia 925, 1020 og núna í 1520. Þó svo að myndavélin í Lumia 1520 sé eins og fyrr segir “bara” 20 MP þá er myndavélin frábær í alla staði, stillingar í myndavéla appi eru mjög þægilegar og bjóða uppá mikið af handvirkum stillingum. Carl Zeiss Tessar linsan er “fljótandi” (Optical image stabilization eða OIS hér eftir) sem þýðir, með mikilli einföldun, að myndir verða mun stöðugri heldur en þekkst hefur hingað til í snjallsímum og síminn er með tvöföldu LED flash á bakhlið. OIS gerir Lumia 1520 kleift að hafa ljósopið (f/2.4) lengur opið þegar verið er að taka myndir, sem skilar sér í mun skýrari og skarpari myndum. Þetta sést best þegar birtuskilyrði eru slæm. Gæðamunurinn milli Lumia 1520 og annara myndavélasíma við léleg skilyrði er mikill og fær myndavélin hæstu einkunn frá mér.

 

1520_11

 

Eins og komið hefur fram tekur Lumia 1520 góðar ljósmyndir en það er í videóupptöku sem OIS fær að njóta sín til fulls. Þar sem linsan skilar stöðugri mynd þá skilar hún af sér mjög skýrri og góðri videoupptöku. Hægt er að taka upp í 1080p upplausn (@30 rammar á sekúndu). Venjulega þarftu að einbeita þér að því að halda myndavélasímum alveg stöðugum til að ná góðum videóum en þetta þarf ekki með Lumia 1520. Carl Zeiss linsan skilar bjartari video og víðu sjónarhorni sem að skilar aftur af sér skarpari myndum og myndböndum en ég hef séð áður í snjallsímum (öðrum en PureView tækjum). Lumia 1520 er einnig með 1.2MP myndavél á framhlið sem tekur myndir í allt að 1280×960 (f/2.4) og hentar þvi vel t.d. í Snapchat eða myndsímtöl (t.d. Skype).

Nokia hafa uppfært myndavélahugbúnaðin með nokkrum skemmtilegum auka öppum en helst ber að nefna Nokia Storyteller.

Til að styðja við hljóðupptökur og til að bæta hefðbundin talgæði notar Nokia fjóra hljóðnema sem skilar sér í einstökum gæðum á hljóðupptökum. Símtalsgæðin eru góð en þessir fjórir hljóðnemar vinna saman að því að eyða vind- og umhverfishljóðum úr samtölum (Multimicrophone noise cancellation). Hljóðupptaka er frábær í Lumia 1520 og má lesa upplýsingar um það í þessu PDF skjali frá Nokia.

 

Hátalarar í Lumia 1520 eru góðir og skiluðu þeir ágætis hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun. Eini gallinn er að staðsetning hans er á bakhlið og því varpast hljóð frá notenda þegar t.d. er horft er á myndbönd. Ég vill líka minnast á að hljóð í venjulegum símtölum er of lágt (hálf kæft) að mínu mati og vona ég að Nokia lagi þetta með uppfærslu.

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Lumia 1520 er frábær og ræður hann við að spila allt sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var bíómynd af innra-minni, SD korti, Youtube eða aðra vefstrauma. Lumia 1520 er eins og aðrir Windows Phone símar með góðum tónlistarspilara og með XBOX music (eða Spotify) áskrift þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Lumia 1520 að ráða við allt sem þú gætir vilja notað hann í.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Windows Phone 8 stýrikerfið virkar frábærlega á Lumia 1520 og stýrikerfið, valmöguleikar og öll virkni er mjög góð. Til viðbótar við þá virkni sem við þekkjum af Lumia símum sem ég hef fjallað um (620, 720 og 920) áður þá koma nokkrar skemmtilegar viðbætur. Stýrikerfið hefur samt ekkert sjáanlega verið  breytt fyrir 6″ skjá en forrit skala sig ágætlega upp og á það sérstaklega við um skjala-, net- og tölvupóstvinnslu sem er nú enn betri en hún var.

Lumia 1520 kemur fyrst tækja með Lumia Black uppfærslu 3 (GDR3) og sem dæmi um viðbætur má nefna stuðning við öflugri vélbúnað, ökustilling, læsa veltivirkni skjás og fleira sem hægt er að skoða hér.

 

1520_9

 

Lumia 1520 kemur eins og aðrir Windows Phone 8 símar með glæsilegri hugbúnaðarsvítu sem gerir það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note, Here svítan ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv. Office pakkinn gerir notanda kleyft að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, SkyDrive eða af símanum sjálfum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Áður en ég fékk mér Windows Phone 8 síma þá hafði ég aldrei kynnst svona góðri skjalavinnslu á snjallsíma áður og verður hún mun einfaldari og betri á svo stórum skjá.

Vafrinn í Windows Phone 8 er gríðarlega góður og einn sá besti af þeim vöfrum sem ég hef prófað í snjallsímum, helst kemst Chrome á Android nálægt honum. Á þessum stóra og fallega skjá er mjög gott að vafra um á netinu og nær vafrinn að njóta sín vel og skipti ég töluvert milli desktop og mobile útgáfu á vefsíðum því sumar vefsíður þola ágætlega desktop mode vegna stærðarinnar.

Ef þig vantar fleiri forrit þá býður Microsoft Store í dag (20.12.2013) upp á rúmlega 200 þúsund forrit og fann ég forrit fyrir allt sem mig vantaði. Hér er ágætislisti yfir forrit sem Íslenskir WP notendur nota.

 

1520_8

 

Hér má lesa um Nokia Here leiðsöguforrit sem fylgja ókeypis með öllum Nokia Lumia símtækjum

 

 

Niðurstaða

Nokia Lumia línan hefur verið að þroskast og stækkað á ljóshraða síðustu mánuði, hún er að verða fágaðri og betri og núna ættu allir að geta fundið sér tæki við hæfi. Alveg sama hvort það sé 25 þúsund króna snjallsími sem „getur allt“ eða 140 þúsund króna tryllitæki.

Mér brá örlítið þegar ég tók símtækið fyrst upp því mér fannst það alltof stór en það tók ekki langa stund að jafna mig á stærðinni og ég vil meina að Lumia 1520 sé langbesti Windows Phone 8 síminn á markaðnum, að því gefnu að notendur komist yfir stærðina á honum. Hann er lang öflugastur vélbúnaðarlega og á pari við allt það besta þarna úti en 6“ tommu skjárinn er frábær og hentar minni notkun mjög vel. Ég hef ávallt notað þessi snjalltæki minnst til að hringja og hefur mig þannig „vantað“ stóran skjá til að vinna og leika mér á.

 

 

Nokia Lumia 1520 er að mínu mati í algerum sérflokki með Lumia 1020 þegar kemur að samanburði á myndavélasímum en hann tekur það sem aðrir PureView símar gera vel og gerir enn betur. Lumia 1520 er alvöru snjallsími sem getur tekið vel nothæfar tækifærismyndir hvort sem það er dagur, kvöld eða nótt. Þetta er lang skemmtilegasti sími sem ég hef handleikið og greinilegt að niðurstaðan er sú að ég hef þróast úr snjallsíma notenda í spjaldsíma notenda því ég get ekki hugsað mér minni skjá eftir að hafa leikið mér með Lumia 1520. Viðbrögð þeirra sem sjá og prófa spjaldsímann eru líka athygliverð, yfirleitt byrjar fólk á því að hlægja og síðan vill það helst ekki skila honum aftur.

Windows Phone 8 stýrikerfið er mjög stapílt og hraðvirkt á Lumia 1520 og hef ég aldrei orðið var við neina hnökra við keyslu á kerfinu sjálfu, á forritum eða leikjum sem ég nota. Windows Phone byggir á lifandi reitum sem gerir símann persónulegan og þægilegan að mínu mati.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira