Nokia Lumia 920

eftir Jón Ólafsson

Undir lok síðasta árs kom á markaðinn ný útgáfa af Windows Phone sem ber heitið 8 eða Windows Phone 8, fljótlega fóru að berast sögusagnir af nýjum símum sem keyra áttu á þessu stýrikerfi. Nokia veðjaði eingöngu á Windows Phone á dýrari símtækjunum og beið ég því spenntur eftir að prófa flaggskip Nokia, Lumia 920. Sama hvað menn geta sagt um Nokia, flestir geta verið sammála um að þeir kunna að smíða sterk og góð símtæki.

Lumia 920 hefur almennt fengið góðar viðtökur en hann kynnir til sögunnar margar nýjungar sem fengið hafa umtalsverða athygli í tæknitímaritum sem og hjá notendum hans.

eng-award-2012-rc

Sem dæmi þá var Lumia 920 valinn sem snjallsími ársins af lesendum Engadget

Síminn töluvert öflugri en forveri sinn Lumia 900 ásamt því að hann er hlaðinn nýjungum og stýrikerfið sjálft býður marga spennandi kosti og aðra nálgun að notendum. Nokia bindur miklar vonir við símann sem er eins og fyrr segir uppfullur af spennandi eiginleikum, spurningin er hvort að það nóg til þess að heilla snjallsímanotendur eins og hann náði að heilla mig.

 

Hönnun og vélbúnaður

Nokia Lumia 920 er “sexy sími” sem skartar 4.5“ skjá sem pakkaður er inn í heilsteypt plast (Polycarbonate). Þó svo að þetta sé plast þá virkar síminn alls ekki ódýr veikburða eða að ég fengi gervilega plasttilfinningu við notkun á honum. Það er hægt að fá Lumia 920 í nokkrum litum eins og blár, rauður, gulur, hvítur, svartur og grár.

nokia-lumia-920_clip_image002

 

Síminn er ekki líkur síma frá öðrum framleiðanda og er að mínu mati einstakt að Nokia hafi náð að framleiða fallegan og sérstakan síma á markaði sem er hlaðinn af eftirlíkingingum.

Takkarnir á honum eru þrír en það er sértakki fyrir myndavél, powertakk ásamt hækka/lækkatakka. Tvennt sem vekur athygli mína við takkana og það er að þeir eru úr keramik (sterkir og bara virka) og staðsetning powertakkans. Svona stórir símar (4″ eða meira) eiga ekki að vera með power takka efst uppi eins og t.d. Samsung S2-S3-S4 eru með því þá þarft mjög líklega að nota báðar hendur til að aflæsa skjánum.

Framhliðin fer nær öll undir þennan gullfallega skjá sem fellur að rúnuðum símanum en á framhlið eru þrír takkar eins á öllum Windows Phone símum, bakka, heim og leit. Hliðar og bakhlið eru kúpt sem lætur hann liggja þæginlega í hendi.

Lumia 920 er með 1.5GHz Snapdragon Dual-Core örgjörva og er með 1GB í vinnsluminni. Þessi öflugi örgjörvi skilar sér í virkilega vel í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við hökt í símann, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu eða í leikjum. Þetta er frábrugðið því sem ég þekki frá flaggskipum annara framleiðanda sem virðast oft vera með innbyggðu Android “laggi” sem kemur af handahófi fram víðsvegar í stýrikerfinu.

Lumia 920 er 32GB innra geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni. Þar sem Windows Phone er beintengt við SkyDrive þá bætist við ókeypis 7GB í skýinu sem nýtist til að taka afrit af símanum sjálfum eða af ljósmyndum og myndböndum.

Einfallt er að kaupa sér meira Skydrive geymslupláss

  • auka 20GB kosta um 1200 krónur á ári
  • auka 50GB kosta um 3200 krónur á ári
  • auka 100GB kosta um 6400 krónur á ári

Verð miðast við gengi á pundi 13.05.2013

 

Það má með sanni segja að það sé galli að Lumia 920 sé ekki með rauf fyrir Micro-SD minniskort eins og er í Lumia 520, 620, 720 og 820… mér finnst þetta furðuleg ákvörðun.

Nokia Lumia 920 er þungur sími í samanburði við aðra flesta aðra snjallsíma. Hann vegur 185 gr sem er umtalsvert meira en t.d iPhone 5 sem vegur 112 gr og Samsung S3 og S4 sem vega rétt rúm 130gr. Fyrst þegar ég tók hann upp þá tók ég eftir þynginni en ég vandist henni fljótt. Aðalástæður fyrir þessari þyngd er stór rafhlaða, stór og tæknihlaðinn 4.5″ skjár, þráðlaus hleðsla og PureView myndavél sem bæði bætir við þyngd sem og stærð.

 

Tengimöguleikar

Lumia 920 er með Micro USB tengi (USB 2.0) þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Gríðarlegur kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Microsoft býður uppá forrit sem hleðst sjálfkrafa niður við fyrstu tengingu (við Win8) en hægt er að nálgast efnið af símanum í gegnum “My Computer” ef notendur vilja það frekar.

Síminn er með 3.5 mm heyrartólstengi ásamt því að bjóða uppá Bluetooth 3.0.

Lumia 920 er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli eins og: WPA2 (AES/TKIP), WPA, WPA-Personal, WEP, WPA2-Personal, WPA-Enterprise, WPA2-Enterprise, PEAP-MSCHAPv2, EAP-SIM, EAP-AKA

Lumia 920 er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna, og notkun NFC merkja. Ég nota NFC eingöngu með NFC merkjum en ég er með merki á náttborðinu og þegar ég legg símann á það þá slökknar á öllum hljóðum (nema vekjara) ásamt því að póst samstilling hættir. Síðan þegar ég lyfti símanum þá koma öll hljóð aftur á og samþætting á pósti hefst að nýju.
Hér má til fróðleiks lesa pistill af vef Vodafone um NFC og greiðslur.

Fljótlega verður hægt að nota sjallsíma á 4G kerfum símfyrirtækja, verður notast við 800/1800 böndin á Íslandi. Nokia Lumia 920 styður því 4G að fullu eins og fjallað er um hér.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlöðuendingin á Lumia 920 er mjög góð og má segja að hún sé betri en ég á að venjast á tæki með svona stórann og fallegan skjá. Lumia 920 er með innbyggða 2000mAh Li-Ion rafhlöðu sem skilar mér u.þ.b. sólahringsnotkun sem er mjög ásættanlegt. Ég er ávallt tengdur við WiFi eða 3G og að samstilla 3 Nokia-Lumia-920-Wireless-chargingEAS tölvupóstreikninga ásamt því að lesa töluvert bæði heimasíður, Twitter og Facebook. Það þarf ekki átta kjarna örgjörva með 24 GB vinnsluminni til að keyra Windows Phone 8 og það hefur líklega sitt að segja með rafhlöðuendingu.
Hér má sjá nokkur ráð sem lengja rafhlöðuendinguna .

Lumia 920 kynnti til sögu nýjung sem ég trúi að við munum sjá meira af í framtíðinni en það er þráðlaus hleðsla. Í upphafi hljómaði þetta eins og hvert annað sölutrix en þetta þróaðist yfir í að verða að ómissandi hlut fyrir mig. Ég legg símann einfaldlega á lítið hleðslutæki/platta og síminn byrjar að hlaða sig. Eftir að hafa prófað þetta þá er eins og stíga eftur í tímavél þegar maður þarf að stinga síma í samband til að hlaða.

Góða við þessa tækni er að þráðlausa hleðslan í Lumia 920 byggir á staðlaðri tækni svo hægt verður að hlaða símann á fleirri stöðum þegar tæknin verður útbreiddari en sjá má fyrir sér að innan fárra ára verði stofuborðið orðið hleðslustöð fyrir fjarstýringar og snjallsíma.

Lumia 920 er eins og aðrir Windows Phone 8 símar með fullt Qwerty lyklaborð. Lyklaborðið er ekki enn komið með íslensku útliti en allir íslensku stafirnir eru engu að síður til staðar. Sem dæmi til að skrifa Þ þá er T haldið inni, til að skrifa Ð þá er D haldið inni o.s.frv.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn í Lumia 920 er ein allsherjar bylting í sjálfu sér. Skjárinn er 4.5″ Corning Gorilla Glass, IPS skjár sem styður upplausnin uppá 1280×768 punkta (WXGA) og er hann því 15:9.

Punktaþéttleikiinn er 332ppi sem er með því hæsta sem þekkist í snjallsímum og aðeins meira en Apple notar í iPhone 5 símann sinn. Nokia eyddi miklum tíma og metnaði í skjárinn er notar tækni sem kallast PuremotionHD+ en með henni hefur Nokia tekist helminga þann tíma sem tekur að skipta um lit á punktum ásamt því að Nokia tryggir með þessu skjá sem ræður við að lágmarki 60 FPS í allri afspilun/myndvinnslu.

Snertivirkni er mjög góð í Lumia 920 en Nokia segir að þú getir notar símann með vettlingum, penna, hníf o.s.frv. Ég prófaði að nota hann með vettlingum og virkaði það fumlaust en ég læt hugaðri aðila um að prófa Lumia með lyklum, hníf og hamar (Youtube).

Nokia hafa náð mjög langt með myndavélar í snjalltækjum og er myndavélin í Nokia Lumia 920 engin undantekning. Vélin er að mínu mati ein sú besta sem fáanleg er á síma í dag. Nokia hefur þróað tækni sem þeir kalla PureView sem fyrst kom í Symbian síma sem kallast PureView 808 en sú myndavél er byltingakennd að svo mörgu leiti.

Þegar Nokia tilkynnti að Lumia 920 notaði sömu tækni þá var ástæða til að gleðjast. Þó svo að myndavélin í Lumia sé “bara” 8.7 MP en ekki 41 MP eins og PureView 808 var þá er myndavélin frábær í alla staði. Carl Zeiss Tessar linsan er “fljótandi” (Optical image stabilization eða OIS hér eftir) sem þýðir í með mikilli einföldun að myndir verða mun stöðugri heldur en þekkst hefur hingað til. Myndavélin gerir þannig ráð fyrir skjálfandi höndum og leiðréttir það sjálf.

OIS gerir Lumia 920 kleift að hafa ljósopið (f/2.0) lengur opið þegar verið er að taka myndir, sem skilar sér í mun skýrari og skarpari myndum. Þetta sést best þegar birtuskilyrði eru slæm. Gæðamunurinn milli Lumia 920 og annara myndavélasíma er minni við björt skilyrði en helst sést munur sem rekja má til OIS.

Hér sést einfalt samanburðardæmi milli Lumia 920 og Galaxy S3 við léleg birtuskilyrði.

Eins og komið hefur fram tekur Lumia 920 góðar ljósmyndir en það er í videóupptöku sem OIS fær að njóta sín til fulls. Þar sem linsan skilar stöðugri myndum þá skilar hún af sér mjög skýrri og góðri videoupptöku. Hægt er að taka upp í 1080p upplausn (@30 rammar á sekúndu).

Venjulega þarftu að einbeita þér að því að halda myndavéla símum alveg stöðugum til að ná góðum videóum en þetta þarf ekki með Lumia 920. Carl Zeiss Tessar linsan skilar bjartara video og víðu sjónarhorni sem að skilar aftur af sér skarpari myndum og myndböndum en ég hef séð áður í snjallsímum. Þetta sést þó sérstaklega vel við slæm birtuskilyrði.

Þar sem ég er byrjaður á samanburði við S3 þá er hér samanburður á videoupptöku í lélegri birtu við krefjandi aðstæður.

Til að styðja við hljóðupptökur og til að bæta hefðbundin talgæði notar Nokia þrjá hljóðnema sem skilar sér í einstökum gæðum á hljóðupptökum. Símtalsgæðin eru þau ein þau bestu sem ég hef áður heyrt úr síma en þessir þrír hljóðnemar vinna saman að því að eyða vind- og umhverfishljóðum úr samtölum (Multimicrophone noise cancellation). Hátalarar símans skiluðu ágætis hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun.

Lumia 920 er einnig með 1.3MP myndavél á framhlið fyrir myndsímtöl (t.d. Skype)

 

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Lumia 920 er mjög góð og ræður hann við að spila “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var bíómynd af innra-minni, Youtube video eða aðra vefstrauma. Lumia 920 er með góðum tónlistarspilara og með XBOX music (eða Spotify) áskrift þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint að tölvu og ætti Lumia 920 að ráða við flest allt sem þú gætir vilja nota hann í.

Verð samt að ýtreka að sem margmiðlunartæki þá hefði ég óskað eftir Micro-SD rauf þannig að margmiðlunarefni gæti verið sér á stóru SD korti.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Windows Phone 8 kemur með glæsilegri hugbúnaðarsvítu sem gerir það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note, Here svítan ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.

Office pakkinn gerir notanda kleyft að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, SkyDrive eða af símanum sjálfum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Ég hef aldrei kynnst svona góðri skjalavinnslu á snjallsíma áður. Vafrinn í Windows Phone 8 er gríðarlega góður og að mínu mati einn sá besti af þeim vöfrum sem fylgja með snjallsímum í dag. Chrome fyrir Android er reyndar mjög góður en ég á erfitt með að meta hvorn mér líkar betur við.

Ef þig vantar fleiri forrit þá býður Microsoft Store í dag (13.05.2013) upp á 145 þúsund forrit sem er jú minna en Google og Apple bjóða uppá en ég verð samt að segja að ég fann forrit fyrir allt sem mig vantaði.
Forrit sem ég sótti mér til viðbótar voru Twitter  –  Facebook Beta  (eða official) – Angry Birds  (já ég veit) – Foursquare  (eða 4th & Mayor) – SophieLens for NokiaWeatherFlashlight XT112 Viper Boltagáttin

En hér er ágætislisti yfir forrit sem Íslenskir WP notendur nota. Eina forritið sem vinsælt er að kvarta yfir að vanti er Instagram en það eru þó til forrit sem bjóða notendum að hlaða myndum inn á Instagram (ekki official client).

Hér má lesa um Nokia Here leiðsöguforrit sem fylgja ókeypis með öllum Nokia Lumia símtækjum.

 

Niðurstaða

Nokia Lumia línan er svo sem ekki ný en hún fór ekkert sérstaklega vel af stað með x00 línunni og vona menn að x20 línan gangi betur. Segja má að þessi brösótta byrjun sé góð fyrir þá sem eru að leita sér að WP8 síma því Nokia virðist hafa lagt einstaklega hart að sér við að hanna Lumia 920 símann. Þetta er sannarlega hetjutæki sem dugði til þess að ég snéri bakinu við Android og sé ég ekkert eftir því þar sem þetta er nýjungagjarn sími á samkeppnishæfu verði.

 

 

Nokia Lumia 920 er að mínu mati í algerum sérflokki þegar kemur að samanburði á myndavélasímum. Get ég með sanni sagt að Lumia 920 er alvöru snjallsími sem getur tekið vel nothæfar tækifærismyndir við öll tækifæri, hvort sem það er dagur, kvöld eða nótt. Windows Phone 8 stýrikerfið er mjög stapílt og hraðvirkt á Lumia 920 og hef ég aldrei orðið var við neina hnökra við keyslu á neinu. Windows Phone byggir á lifandi reitum sem gerir símann persónulegan og þæginlegan að mínu mati.

Eins og sést hér að neðan þá var ég í brasi með að tína til galla þar sem þetta er sannarlega besti snjallsími sem ég hef prófað. Helst er það skortur á SD rauf og að Lumia 920 er þyngri en aðrir snjallsímar af svipuðum caliber.

 

Að lokum þá er hér myndband þar sem Joe Belfiore yfirmaður Windows Phone deildar Microsoft fer nokkuð ýtarlega yfir kosti WP8.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira