Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur Lenovo ThinkPad X1 Carbon (2017)

Lenovo ThinkPad X1 Carbon (2017)

eftir Jón Ólafsson

Fyrir nokkrum mánuðum fengum við á Lappari.com, Lenovo Thinkpad X1 Carbon (GEN5 – 2017) frá Origo í prófanir. Við þekkjum svo sem ágætlega til þessara véla þar sem undirritaður á og notar daglega fyrst GEN2 (2014) og síðan seinna GEN4 vél sem kom út árið 2016. Af einhverjum ástæðum þá kom ég því aldrei í verk að skrifa um þessar vélar en ég ákvað meðvitað að bíða með þessa umfjöllun í nokkra mánuði til að vera kominn með góða reynslu á 2017 útgáfuna.

Lenovo X1 Carbon vélin er dæmigerð Ultrabook vél á pappírum, vel búin vélbúnaði en á sama tíma létt og meðfærileg og ætti því að henta notanda eins og mér sem er alltaf á miklu flakki í vinnunni minni og verður því áhugavert að prófa hana og sjá hvort hún sé verður arftaki eldri kynslóða.

Talaði um eldri kynslóðir þá er áhugavert að spá í hversu mikið ThinkPad sem vörulína hefur þróast frá upphafi en fyrir skemmstu varð vörumerkið 25 ára og til gamans má geta að Lenovo varð 33 ára á sama ári.

Hér má sjá Thinkpad 700c sem kom út árið 1992 á vinstri hönd og síðan ThinkPad árg 2016 á hægri hönd.

Eins og venja er þá byrjum við vitanlega á afpökkunarmyndbandi sem birtist fyrr á árinu.

Hönnun og vélbúnaður.

Má vera að það hljómi furðulega þar sem Lenovo X1 Carbon er svört og stílhrein eins og allar aðrar ThinkPad vélar en þetta er engu að síður mjög falleg vél. Hún ber það með sér að vera vinnuhestur en á sama tíma eru allar línur og áferð mjög vel útpældar og smekklegar. ThinkPad vélar eru svo sem ekki þekktar fyrir miklar krúsidúllur en ég held að þetta sé smekklegasta ThinkPad vélin sem ég hef notað hingað til.

Vélin er mjög sterkbyggð að finna enda með koltrefjum (Carbon) í loki og efni sem kallast súper Magnesium í botni, Hún er nokkuð massíf, svignar ekkert þó ég lyfti henni á einu horni og er allur frágangur á helstu samskeytum, val á efni o.s.frv. mjög vandað.

Vélin sem við fengum er með 14″ IPS WQHD (LED IPS) skjá sem styður 2560 x 1440 punkta upplausn en vélin er með innbyggðu Intel HD 620 skjákorti sem ræður vel við alla vinnuvinnslu ásamt létt leikjaspilerí.

Helstu stærðir:

 • Breidd: 32,4 CM
 • Hæð: 21,7 CM
 • Þykkt: um 1,6 CM
 • Þyngt: 1.13kg

Þegar vélin er lokuð þá sést ekki mikill munur á 2017 vélinni samanborið við 2014 og 2016 vélarnar og að mínu mati er það mjög gott. Vélin er enn stílhrein og ekkert sem stingur í augun varðandi hönnun.

Þegar hún er opnuð þá sést mun meiri munur, lyklaborðið er svipað að mestu og eru takkar með hæfilegri hreyfigetu, ekki of grunnir og ekki of djúpir. Það eru ekki lengur snertitakkar eins og á GEN2 þar sem F1-F12 takkar eiga að vera. Í upphafi fannst mér þessi mismunandi virkni á snertitökkum í efstu röðinni frábær en í notkun var þetta höfuðverkur. Vélin er sem sagt með hefðbundið lyklaborð og því í notkun eins og venjuleg ThinkPad vél á að vera.

Músin hefur verið endurhönnuð og mér til mikillar gleði komu hefðbundnu músatakkarnir aftur en Lenovo ákvað að hafa þá sem part af músafletinum sjálfum á GEN2 vélinni sem voru mistök að mínu mati. Músin er mun betri í notkun, öll snertivirkni (og gestures) hefur verið bætt og er á pari við það besta sem ég hef prófað hingað til. Hönnun og frágangur á lyklaborði og mús eru vel úthugsaðar, frágangur á samskeytum milli mismunandi hluta er til fyrirmyndar og efnisval vandað.

Þessi endurhönnun á vélinni er svo sem ekki gallalaus fyrir þá sem eru að endurnýja X1 vélina sína því dokkutengi hefur breyst og þarf því mögulega að skipta um dokku eða kaupa millistykki til að nýta þessa gömlu. Annað sígilt umkvörtunarefni á Ultrabook vélum er skortur á CD/DVD drif og tengi fyrir netsnúru en þetta segir sig sjálft á svona þunnri vél en þetta þarf að hafa í huga ef kaupa á Ultrabook vél, sama hvaða vél það er.

Vélin sem ég prófaði er með 512GB SSD Opal2 hörðum disk og kom hann mjög vel út í mínum prófunum. Vélin er með 16GB LPDDR3 vinnsluminni (1866 MHz) og Intel Core i7 örgjörva sem keyrir á 2,6GHz (3,4GHZ með Turbo Boost) en hann er 14 nm með 4MB Cache.

Það verður seint sagt að þessi örgjörvi sé einhver letingi og í daglegri notkun spólar vélin sig í gegnum helstu verkefni en það er helst í eftirvinnslu á myndböndum sem vélin strögglar. Kannski ekkert óeðlilegt á Ultrabook vél þar sem hún er hönnuð í eitthvað allt annað en þunga myndvinnslu.

Með þessum örgjörva, hraðvirkum disk og 16GB af vinnsluminni þá er vélin aðeins örfáar sekúndur að ræsa sig upp á skjáborð og er hún létt og skemmtileg í vinnslu. Öll forrit sem ég prófaði virkuðu hnökralaust og var almenn upplifun á stýrikerfinu og notkun mjög jákvæð og góð. Mest hef ég prófað að vera með þrjá þjóna keyrandi í Hyper-V og má segja að hún sé komin að þolmörkum þar 🙂

Lenovo X1 Carbon er með ágætis myndavél fyrir ofan skjáinn sem dugar vel í myndsamtöl. Myndavélin er 720p og sinnir sínu hlutverki ágætlega, veitir ágætis mynd í myndsamtölum við góð birtuskilyrði en strögglar við lélega birtu.

Tengimöguleikar

Lenovo X1 Carbon er vel búin tengjum miðað við hversu þunn hún er:

 • 2 x Thunderbolt 3
 • 2 x USB3 (eitt með power-hleðslu)
 • 3.5mm hljóðtengi
 • Native RJ45 fyrir netsnúrur
 • microSD
 • microSIM fyrir 4G tengingu sé það keypt með
 • HDMI (full stærð)
 • Tengi fyrir USB-C eða Thunderbolt 3 doccu og aukahluti

Ótrúlegt finnst mér hversu fáum tengjum Lenovo hafa í raun og veru þurft að fórna samanborið við hefðbundnar fartölvur vegna þyngdar og þykktar,

Það er sem sagt hægt að tengja vélina við hefðbundin jaðartæki eins og USB prentara, auka skjái, minnislykla, lyklaborð og mýs svo eitthvað sé nefnt.

Vélin er með Bluetooth 4.1 ásamt þráðlausu netkorti (Intel Tri-Band AC-8265) sem styður heilt stafróf af stöðlum eða ac/b/g/n ásamt því að vera með innbyggðu 4G korti.

Rafhlaða, lyklaborð og mús

Lenovo hefur gert góða rafhlöðuendingu enn betri í X1 Carbon en samkvæmt Lenovo þá má reikna með um 15.5 klst endingu miðað við eðlilega notkun sem er frábært á flesta mælikvarða. Ég hef verið að nota vélina töluvert í vinnu og því náð að prófa rafhlöðuendingu ágætlega. Með temmilegri notkun hef ég alltaf náð að láta rafhlöðuna duga út daginn og hef ég náð að teygja hana töluvert yfir 11 klst með umtalsverðum sparnaðaraðgerðum. Sem ultra portable þá skipta þessar tölur miklu máli enda hönnuð fyrir notendur sem eru á flakki.

Lenovo X1 Carbon er með baklýstu lyklaborði sem mér líkar frábærlega við en það er hægt að velja tvær misbjartar stillingar eða slökkva alveg á baklýsingu. Ég hef lengi notað ThinkPad sem aðalvél í vinnu og lyklaborðin á þessum vélum henta mér mjög vel og má segja að þetta séu langbestu lyklaborð sem ég hef prófað á fartölvum hingað til.

Lenovo hafa fært nokkra takka til á X1 Carbon vélunum á milli árganga og tók mig smá tíma að venjast þessar breytingu, ekkert stórvægilegt svo sem en tók mig samt tíma (gamall hundur og allt það).

Eins og fyrr segir þá hefur músin á þessari vél verið endurhönnuð og er hún núna loks með músatökkum aftur sem voru fjarlægðir á GEN2 vélinni. Ég leyfi mér að segja að músin sé í svipuðum flokki og Force Touch músin sem ég prófa reglulega á nýrri Macbook vélum. Hún er mjög nákvæm og vandist ég mjög fljótt öllum aðgerðum (gestures) sem músin býður uppá. Þar sem þetta er ThinkPad þá er vitanlega rauði músahnappurinn sem hefur einkennt ThinkPad vélar frá upphafi. Fyrir ThinkPad notendur get ég staðfest að rauði snípurinn svíkur engan 🙂

Hljóð og mynd

Skjárinn er eins og fyrr segir með 14″ TFT IPS LED sem styður 2560 x 1440 punkta upplausn eða WQHD. Allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði mjög vel. Hann er með ágætlega vítt áhorfshorn þannig að notendur þurfa ekki endilega að sitja beint fyrir framan hann til þess að gæði myndarinnar haldi sér.
Skjárinn er skarpur og skemmtilega bjartur en eftir að hafa vanist snertivirkni í GEN2 vélinni minni þá sakna ég þess lítillega í þessari vél. Þetta er vissulega persónubundið en mér finnst það auka framleiðni og notagildi vélarinnar til muna.

Hátalarar eru tveir og eru staðsettir undir vélinni og gefa þeir þolanlegan hljóm hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Almennt finnst mér hátalarar í fartölvum lélegir vegna stærðar þeirra en þessir hátalarar ollu mér vonbrigðum miðað við annað sem ég hef prófað, þeir eru með þeim lakari sem ég hef prófað í fartölvu fyrr og síðar.

Margmiðlun

Þar sem Lenovo X1 Carbon er bara venjuleg PC tölva þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með mjög öflugan örgjörva, feikinóg af vinnsluminni og hraðvirkan SSD disk, hún er því vel fær um að lesa og spila allt margmiðlunarefni með stæl.

Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum.

Hugbúnaður og samvirkni.

Vélin kemur með Windows 10 Pro og með sáralítið af forritum umfram það. Með Office 365 áskrift þá er vélin klár í flest öll verkefni hvort sem það er í vinnunni, heima fyrir eða í skólanum.

Ég setti þetta venjulega upp eins og Office 365 pakkann, Chrome, Adobe, Tweeten, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust, þetta er spræk og skemmtileg vél í alla staði.

Eins og venjulega þá skrái ég mig inn með Microsoft notandanum mínum og við það breytast allar stillingar á þann veg sem ég vil hafa þær, enda notandinn hýstur í skýinu hjá Microsoft og samstillir hann sig við aðrar Windows tölvur sem ég nota.

Það fylgir almennt lítið af auka hugbúnaði með ThinkPad vélum enda miðaðar að fyrirtækjum, annað er fljótlegt að fjarlægja.

Niðurstaða

Niðurstaðan er nokkuð einföld, mér líkaði það vel við vélina að ég keypti mér nákvæmlega svona vél, þetta er þá þriðja ThinkPad X1 Carbon vélin mín…. betri meðmæli get ég vart gefið eða hvað?

Helstu kostir fyrir mig, verandi Lenovo X1 Carbon notandi þegar ég kem að þessari umfjöllun er að hönnunin á vélinni hefur breyst lítið sem ekkert. Allt sem mér líkaði vel við vélina er þarna enn. Góð rafhlöðuending verður betri, vélin er léttari ásamt því að það sem pirraði mig eins og skortur á músatökkum og snertitakkar á GEN2 vélinni hefur verið lagað. Ég leyfi mér að segja að lyklaborðið og músin á X1 Carbon vélinni sé eitt það besta á markaðnum í dag, allavega það besta sem ég hef prófað.

Ef ég sleppi því að kvarta yfir verðinu þá er í raun og veru bara eitt sem pirrar mig við vélina og er það hátalarnir á vélinni. Þeir eru vitagagnslausir í allt nema lágmarks tilkynningar, tónlist bjagast við minnst styrk og meira að segja tal viðmælenda á Skype bjagast þegar ég hækka aðeins.

Til að summera þessu upp þá er Lenovo X1 Carbon (2017) besta og fallegast Ultrabook vél sem ég hef prófað hingað til, ég einfaldlega kolféll fyrir henni. Vélin er sterkbyggð, sexy og búin öflugum vélbúnaði og því vænlegur kostur í krefjandi vinnu.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira