Nokia 3 umfjöllun

eftir Magnús Viðar Skúlason

Eins og glöggir lesendur Lappari.com vita að þá hefur HMD Global gert leyfissamning við Nokia um notkun þess fyrrnefnda á vörumerkinu Nokia í framleiðslu á símtækjum, snjallsímum og spjaldtölvum. Með þessu samstarfi var því lagður grundvöllurinn að því að vörumerkið Nokia kæmi aftur á símamarkaðinn. Án efa hefur það glatt marga íslenska símnotendur enda var Nokia lengi vel stærsti símaframleiðandi heims og var með yfirburðarmarkaðsstöðu víðsvegar um heim og ekki síst á Íslandi. Pressan er því talsverð á að HMD Global standi undir þeirri miklu ábyrgð sem því fylgir að halda utan um framleiðslu á símtækjum undir merkjum Nokia.

Tilkynnt var um fyrstu Android-snjallsímana undir merkjum Nokia núna í febrúar og nú lítur dagsins ljós fyrsti síminn í þeirri línu, Nokia 3.

Eins og nafngiftin gefur til kynna þá er Nokia 3 það sem menn nefna á ensku ‚budget smartphone‘ eða snjallsími á viðráðanlegu verði.

Hinsvegar skal það hér með undirstrikað að það er ekkert ‚budget‘ við Nokia 3 og ljóst að hinn sofandi risi í símaheiminum er snúinn aftur og það af fullum krafti.

 

Nokia 3

Það er ekki laust við að nett gæsahúð hafi farið um greinarhöfund þegar Nokia 3 var tekinn úr næturlangri upphafshleðslu og hið gamalkunna Nokia-merki birtist á skjánum þegar síminn var að ræsa sig upp. Frasar á borð við ‚The Empire strikes back‘ komu óneitanlega upp í hugann og ljóst strax á upphafsskrefum ræsingar að þetta er almennilegt símtæki sem stendur vel undir þeirri sögu og hefð sem fylgir Nokia-símtækjum.

 

 

Nokia 3 keyrir líkt og meðbræður sínir, Nokia 5 og Nokia 6, á Android 7, betur þekkt sem Nougat-útgáfan af Android. Nokia 3 er ekki í neinum vandræðum með að keyra á Android 7 og ánægjulegt að sjá loforð HMD Global um nýjasta Android-stuðning hverju sinni sé á rökum reistur.

Undirritaður notaði Nokia 3 sem sinn aðalsíma frá 29. júlí til 4. ágúst og eru þær athugasemdir sem hér eru gerðar í þessari umfjöllun byggðar á þessari notkun.

Hönnun og vélbúnaður

Það verður seint sagt að Nokia 3 sé að marka djúp spor í hönnunarsögu snjalltækja enda lítur Nokia 3 út eins og flestir snjallsímar sem hafa komið út eftir að Apple sendi frá sér sinn fyrsta iPhone-síma og þar með steypti í mót þá hönnun og útlit sem einkennt hefur snjallsíma síðan þá.

Nokia 3 er með þrjá takka á hliðinni; tveir takkar sem þjóna þeim tilgangi að annaðhvort hækka eða lækka hljóðstyrk símans og svo er þar fyrir neðan á hægri hliðinni fjölnotatakki sem nýtist við að kveikja eða slökkva á símanum, aflæsa skjálæsingu eða með því að tvíýta og ræsa þar með myndavélina.

Undirritaður saknar þess að hafa ekki sérstakan myndavélatakka neðarlega á hægri hliðinni til þess að koma myndavélinni í gang en það er hinsvegar auðvelt með áðurnefndu tvíýti eða með því að virkja myndavélina af biðskjá símans með einföldum hætti.

Það má síðan nefna að Nokia 3 styður tvö SIM-kort í einu en slík virkni hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Nokia 3 er tiltölulega einfaldur sími þegar eiginleikalýsing hans er skoðuð nánar. Seint mun hann líka teljast ‚vinnuhestur‘ í snjalltækjaskilningi en eins og viðmiðunarpróf AnTuTu segir, þá er Nokia 3 ‚middle end, satisfy your daily use‘ eins og skáldið orðaði það.

Helstu eiginleikar:

  • Símkerfisvirkni; GSM / HSPA / LTE. 4G á 700/800/850/900/1800/2100/2300 og 2600 MHz
  • Skjár; 5 tommur, IPS LED, 16M litir, 720 x 1280 díla upplausn (294 PPD)
  • Örgjörvi; Mediatek MT6737, 1,4 GHZ fjórkjarna Cortex-A53 með Mail-T720MP1-skjástýringu
  • Minni; 2GB vinnsluminni, 16GB geymsluminni ásamt microSD-kortarauf sem styður allt að 256GB
  • Myndavél; 8 MP, LED-flass með autofocus. Selfie-myndavél; 8MP með autofocus. Myndskeiðsupptaka í 720P.
  • Aðrir þættir; FM-útvarp, Bluetooth 4.0, NFC, GPS og Wifi með 801.11 b/g/n
  • Stærðir; 143,3 x 74,4 x 8,5mm. Þyngd; 140 gr.

 

Tengimöguleikar

Nokia 3 er með microUSB-tengi fyrir gagnatengingu og hleðslu og ætti því að vera hentug búbót fyrir þá sem eiga eldri microUSB-hleðslutæki að geta nýtt þau áfram. Einnig styður Nokia 3 Bluetooth 4.0-staðalinn og ætti því að vera brúkfær fyrir flestan handfrjálsan búnað sem og þráðlausa Bluetooth-hátalara. Einnig styður Nokia 3 hefðbundna Wi-Fi-staðla ásamt því að vera með möguleikann á að breyta sér í ‚heitan reit‘ þannig að önnur tæki geta þá tengst við símann í gegnum Wifi.

Í hefðbundinni daglegri notkun heldur Nokia 3 góðu gagnasambandi, hvort sem það er í gegnum símkerfið eða á þráðlausu neti og engir teljanlegir hnökrar voru í slíkri vinnslu á meðan prófanir stóðu yfir.

Einnig er ánægjulegt að sjá innbyggt FM-útvarp og FM-virkni í Nokia 3 þannig að hægt er að hlusta á hefðbundnar FM-útsendingar víða um land. FM-útvarpsvirkni var eitt af því helsta sem Nokia státaði af á sínum tíma og voru margir notendur sem nýttu sér þá virkni og gleður því eflaust marga að sjá slíkt aftur í Nokia-síma.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan er rétt rúmar 2600 milliampstundir (mAh) og í daglegri notkun sem felur í sér notkun á Facebook, Snapchat, vafri um nokkrar fréttasíður, tölvupóstsendingar og stöku leikjanotkun þá er um 20% eftir af rafhlöðunni að kvöldi til þegar maður setur símann í hleðslu.

Með takmarkaðri notkun sem myndi einskorðast við hefðbundna símvirkni eins og símtöl og SMS-skeytasendingar þá ætti ekki að vera neitt mál að ná rafhlöðuendingunni upp í tvo daga og ánægjulegt að sjá símtæki sem maður er ekki lentur í rafhlöðuveseni með kortér fyrir drekkutíma.

Líkt og með önnur Android-snjalltæki þá er lítið mál að kalla fram íslenskt lyklaborð og auðvelt vinna á það á skjánum á Nokia 3.

 

Hljóð og mynd

Eins og fram kemur í eiginleikalýsingunni þá er Nokia 3 langt í frá að skáka helstu flaggskipum snjallsímamarkaðarins þegar það kemur að vinnslu. Enda er tilgangurinn með Nokia 3 að bjóða upp á þægilegan og góðan snjallsíma á viðráðanlegu verði. Þegar slíkt er markmiðið þá er ljóst að spara þarf í íhlutainnkaupum og þarf af leiðandi er Nokia 3 ekki með FullHD-virkni í myndskeiðaupptöku né í myndaáhorfi. Hinsvegar þá ræður Nokia 3 vel við streymivinnslu líkt og hjá Netflix, YouTube og afspilun á myndskeiðum í Facebook-smáforritinu. Það kemur auðvitað upp hökt við og við í áhorfinu en þá er betra að notendur séu ekki með mörg önnur forrit í vinnslu í bakgrunninum enda er síminn ‚einungis‘ með 2GB í vinnsluminni.

Hljóð er skýrt og gott en það er einungis einn hátalari á Nokia 3 sem er staðsettur á botninum vinstra megin við hleðslutengið. Notendur þurfa því að gefa því gaum ef þeir eru að halda á símanum í hefðbundinni snjallsímanotkun (sími í lófa með þumalinn tilbúinn til notkunar) að leggja ekki fingurna yfir hátalarann því annars er það að hindra eðlilegt hljóðflæði úr símanum.

 

Myndavél

Nokia hefur haft það orðspor á sér, allt frá því að fyrstu snjallsímarnir fóru í fjöldaframleiðslu, að bjóða upp á öfluga myndavélavirkni, óháð öðrum íhlutum eða gæðum hvers síma fyrir sig, í hvaða verðflokki sem er. Nokia 3 er engin undantekning þar á og þrátt fyrir að vera ekki með öflugasta vélbúnaðinn á markaðnum í dag þá eru myndavélin sem og gæðin í myndum umtalsvert góð. Myndavélina er hægt að ræsa annaðhvort af biðskjánum eða með því að tvíýta á valmyndartakkann á hliðinni á símanum.

Það tekur myndavélina einungis örfá sekúndubrot að ræsa sig og er myndavélin snögg að ná fókus á myndefni og smella af myndum. Fjölmargir valmöguleikar eru í myndavélinni eins og möguleiki á að merkja myndir með GPS-staðsetningu, í hvaða átt myndefnið er, sjálfvirku hallamáli til að tryggja að sjóndeildarhringurinn sé jafn í landslagsmyndatöku og margt fleira. Myndavélaforritið í Nokia 3 er það sem Google hefur hannað fyrir Android 7 en eins og margir vita er einnig hægt að nálgast mikið úrval af öðrum myndavélaforritum í Play Store hjá Google.

Hægt er að sjá sýnishorn af mynd tekinni með Nokia 3 hérna fyrir neðan.

Margmiðlun og leikir

Það sem kom undirrituðum á óvart við Nokia 3 er að þó svo að vélbúnaðarlýsing símans sé ekki í takt við það sem er í helstu flaggskipum markaðarins í dag, þá var hægt að spila marga nokkuð vélbúnaðarfreka leiki án nokkurra vandræða. Það kom fram hökt í vinnslu ef mörg önnur forrit voru í keyrslu í bakgrunninum þannig að þeir allra kröfuhörðustu ættu því að athuga vinnsluminnisstöðuna áður en haldið er í hvern þann hugarheim sem fólk er að leita eftir þegar það ræsir upp sinn uppáhaldstölvuleik.

Auðvelt er að taka myndir á Nokia 3 og hefur Google gert góða hluti í að uppfæra hið sjálfvalda myndavélaforrit sem fylgir Android 7. Það tekur símann einungis örfá sekúndubrot að koma myndavélinni í gang og hægt er að smella af um leið og það er komið fyrir framan fingurna hjá manni.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Líkt og með flest alla snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfinu þá er aragrúi af smáforritum sem notendur geta sett upp á sínum símum og þannig sérsniðið símtækið að sinni daglegu notkun. Nokia 3 keyrir á því sem kallast ‚stock‘-útgáfa af Android-stýrikerfinu. Í stuttu máli þýðir það einfaldlega að Nokia 3 keyrir á Android-stýrikerfinu eins og það kemur beint frá Google. Það er því enginn viðbótahugbúnaður merktur Nokia í þessum síma og því er ekki verið að íþyngja símanum með einhverjum sérsniðnum hugbúnaði eða valmynd sem í mörgum tilfellum hefur verið þess valdandi að hægja umtalsvert á virkni símans til lengri tíma.

Í þessum prófunum var Nokia 3 uppsettur með Microsoft Outlook-hugbúnaðinum varðandi samstillingu á tölvupósti. Tveir aðgangar voru samtímis í gangi og voru engir hnökrar á vinnslu símans og allur tölvupóstur skilaði sér án vandræða.

Hægt er að tengja Nokia 3 við tölvu með microUSB-snúru og ná þannig að hlaða gögnum beint af símanum eða setja frekari gögn inn á símann.

Líkt og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki sem einblína á snjallsímamarkaðinn þá hefur Google í boði margskonar samstillingarforrit til að flytja gögn til og frá snjallsímum með Android-stýrikerfinu. Nokia 3 er engin undantekning þar á og í raun eru skilaboðin einföld; ef þú ert að nýta þér einhverja Google-þjónustu í dag, þá hentar Nokia 3 sem og aðrir Nokia Android-símar mjög vel fyrir slíka vinnslu þar sem þeir eru að keyra á ómengaðri útgáfu af Android-stýrikerfinu.

 

Niðurstaða

Það hefur verið talsverð eftirvænting eftir því að Nokia snjallsímar snúi aftur á markaðinn og því var óneitanlega mikil eftirvænting eftir því að sjá hvernig viðbrögð Nokia 3 myndi fá.

Kæru lesendur, velkist ekki í vafa, Nokia er snúið aftur!

Nokia 3 gerir það sem hinn hefðbundni notandi er að leita eftir; þægilega stór og skýr skjár með óheflaðri Android-virkni, góðri myndavél, góðu minni og góðri rafhlöðuendingu. Það sem gerir hinsvegar Nokia 3 að hinum magnaða síma sem hann er verðið á honum. Nokia 3 er kominn í sölu víða hérlendis og virðist sem verðpunkturinn sem hann er í sé í kringum 25.000. Fyrir slíkt verð eru notendur að fá síma með nýjustu útgáfunni af Android-stýrikerfinu sem gengur vel fyrir meðalnotendur í þeirra daglega amstri.

Hinsvegar er Nokia 3 ekki gallalaus. Sökum þess að vera með ‚einungis‘ 2GB vinnsluminni getur það haft áhrif á vinnslu símans þegar mörg stór smáforrit eru í gangi. Skjárinn er ‚einungis‘ með HD-upplausn en ekki FullHD-upplausn o.s.frv. Þessi atriði hinsvegar hverfa í skugga hins upprunalega markmiðs Nokia 3; að setja ‚stock-Android‘-síma á markað á eins lágu verði og mögulegt er. Það markmið hefur náðst með Nokia 3 og gott betur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira