Nokia 8

eftir Magnús Viðar Skúlason

Undanfarnar vikur höfum við á Lappari.com fengið að taka snúning á nýjustu snjallsímalínunni frá Nokia. Á heildina litið þá hafa Nokia 3, Nokia 5 og Nokia 6 vakið verðskuldaða athygli og fallið vel í kramið hjá íslenskum notendum enda gefa sölutölur ekki annað til kynna en svo sé. Hinsvegar þá þarf ekkert að fara í grafgötur með það að það er einn sími sem mikil eftirvænting hefur verið eftir og sá sími heitir Nokia 8.

Nokia 8 er hin fullkomni punktur fyrir aftan endurkomu Nokia á snjallsímamarkaðinn árið 2017 og því er kærkomið ekki bara að fá að handleika þetta tæki heldur einnig að sjá hvort að mögulega sé Nokia að slá við annaðhvort Samsung Galaxy S8 eða iPhone 8 í keppninni um hvað sé öflugasta flaggskipið á markaðnum í dag.

Nokia 8

Þegar kassinn er opnaður og maður fer í gegnum innihald kassans þá fær maður strax á tilfinninguna að hér er eitthvað stórkostlegt tæki á ferðinni. Að handleika Nokia 8 er draumkennd upplifun sem gefur aðeins innsýn í þau fyrirheit sem símtækið sannarlega býður upp á. Rennimjúk hönnunin fer vel í hendi og í raun ótrúlegt að hvað tækið virðist létt í notkun.

Hleðslan er í gegnum USB-C-tengi á botninum á símanum þar sem hljóðneminn fyrir símtöl sem og stereo-hátalarinn er staðsettur. Að ofanverðu er 3,5mm hátalartengi eins og alvöru flaggskipum sómir og á hliðinni eru hljóðtakkar og valmyndartakki.

Nokia 8 er með 5,3 tommu skjá sem gerir hann jafnstóran og Nokia 5 og skör minni en Nokia 6 sem er stærsti síminn í Nokia-línunni um þessar mundir. Að auki er Nokia 8 með stærra geymsluminni en í boði eru 64GB ásamt því að hægt er að stækka það til viðbótar alveg upp í 256GB með minniskorti. Til samanburðar þá eru Nokia 3 og Nokia 5 ‚aðeins‘ með 16GB í boði auk minniskortsins og Nokia 6 með 32GB.

Nokia 8 keyrir líkt og meðbræður sínir, Nokia 3, Nokia 5 og Nokia 6, á Android 7.1.1, betur þekkt sem Nougat-útgáfan af Android. Það er í raun ótrúlegt að sjá hversu fljót og hraðvirk valmyndin í Nokia 8 er í samanburði við meðbræður sína í Nokia-snjalltækjalínunni. Með fullri virðingu fyrir þeim þá er Nokia 8 að skjóta þeim feitan ref fyrir rass þegar það kemur að allri vinnslu, hvort sem það snýr að margmiðlun, streymi, vinnslu forrita eða almennar flettingar í gegnum efni símans eða valmynd. Það eru allir stimplar að keyra þétt þegar Nokia 8 er að sýna sitt besta og ljóst að HMD hefur hitt naglann á höfuðið með þessum gríðarlega öfluga vélbúnaði sem síminn hefur upp á að bjóða.

Hönnun og vélbúnaður

Eins og áður hefur verið minnst á þá er hönnunin á Nokia 8 á pari við það besta sem gerist á markaðnum í dag. Síminn er smíðaður úr heilli álskel eins og Nokia 5 og Nokia 6 og rennislétt yfirborðið helst einstaklega vel og ekki mikið um að rispur komi fram á símanum í venjulegri notkun. Það sem hinsvegar gerir Nokia 8 að því glæsilega tæki sem hann er, er þessi stórkostlega skjár sem síminn er með.

Nokia 8 er með 5,3 tommu skjá sem skilar af sér 1140 x 2560 díla upplausn. Upplausnin er slík að eiginlega er erfitt fyrir mann að taka augun af skjánum.

Nokia 8 er síðan með fingrafaraskanna sem er innbyggður í miðjutakkann neðst á símanum. Þetta er án efa kærkomið fyrir þá sem eru farnir að stóla á þetta sem sína auðkenningu inn í sitt símtæki og í prófunum hefur þessi skanni virkað hnökralaust og án vandræða. Hægt er að nota fingrafaraskannann til þess að opna símtækið þegar það er læst eða til þess að auðkenna sig t.d. inn í Play Store til þess að staðfesta kaup á forriti eða niðurhal.

Nokia 8 er ekki með sérstakan myndavélatakka neðarlega á hægri hliðinni til þess að koma myndavélinni í gang en það er hinsvegar auðvelt með áðurnefndu tvíýti eða með því að virkja myndavélina af biðskjá símans með einföldum hætti. Myndavélin er mjög snögg í gang og hægt að smella myndum af á augabragði.

Eitt af einkennum Nokia 8 er innbyggða kælingin sem er í símanum. Þetta hangir saman með samstarfi Nokia og Qualcomm, sem ber ábyrgð á Snapdragon-örgjörvalínunni sem er notuð í fjöldamörgum snjalltækjum í dag. Svokölluð fljótandi kæling eða ‚liquid cooling‘ er í símanum sem sér um að halda örgjörvanum við rétt hitastig þannig að notendur finna ekki fyrir hitamyndun frá honum þegar mikil vinnsla er í gangi. Í okkar prófunum þá getum við staðfest að það er ekki mikil hitamyndun í simanum sjálfum þegar mikil vinnsla er í gangi og er þetta kærkomin viðbót þar sem kælingin hjálpar við að halda símanum í jöfnu hitastigi og þar með gerir rafhlöðuendinguna betri.

Nokia 8 kemur einstaklega vel út úr viðmiðunarprófum AnTuTu og er niðurstaðan þar að leikjavinnsla sé fyrsta flokks í 3D og að almenn vinnsla sé í takt við síma sem er á efri skalanum fyrir síma sem keyra á öflugum vélbúnaði og að stór forrit virki mjög vel sem og vinnsla margra forrita í einu.

Ef samanburðurinn er tekinn saman þá sést vel hvað Nokia 8 er öflugur þegar það kemur að vélbúnaðinum:

Nokia 3 Nokia 5 Nokia 6 Nokia 8
27086 44626 47307 175091

Ef farið er lengra í samanburðinum þá sést augljóslega hversu mikið tryllitæki Nokia 8 því hann er að skora talsvert hátt á samanaburðarlistanum:

Tæki CPU UX 3D Heildarskor
1 OnePlus 5 39184 57385 73603 181042
2 HTC U11 38608 57355 73213 179883
3 nubia Z17 37300 55697 73369 177122
4 Nokia 8 39170 55514 69990 175091
5 Samsung Galaxy S8+ 38217 51777 72418 172711
6 Samsung Galaxy S8 38351 51537 72397 172610
7 Mi 6 36222 54233 71282 172075
8 Samsung Galaxy S8+ 37189 52574 70063 170487
9 Sony Xperia XZ Premium 35899 53133 68985 168336
10 iPhone 7 Plus 48040 54381 52904 167891

Helstu eiginleikar:

  • Símkerfisvirkni; GSM / HSPA / LTE. 4G á 700/800/850/900/1800/2100/2300 og 2600 MHz
  • Skjár; 5,3 tommur, IPS LCD, 16M litir, 1140 x 2560 díla upplausn (554 PPD), Corning Gorilla Glass 5
  • Örgjörvi; Qualcomm MSM8987 Snapdragon 835, 1,4 GHZ áttkjarna Kryo 2,5 og 1,8 GHz með Adreno 540-skjástýringu
  • Minni; 4GB vinnsluminni, 64GB geymsluminni ásamt microSD-kortarauf sem styður allt að 256GB
  • Myndavél; Dual 13 MP Carl Zeiss, DUAL LED-flass með autofocus. Selfie-myndavél; 13MP með autofocus. Myndskeiðsupptaka í 4K og 1080P@30FPS með Nokia OZO Audio.
  • Aðrir þættir; Bluetooth 5.0, GPS og Wifi með 801.11 b/g/n
  • Stærðir; 151.5 x 73,7 x 7,9 mm. Þyngd; 160 gr.

Tengimöguleikar

Ólíkt hinum Nokia-snjallsímunum þá er Nokia 8 með USB-C tengi. Það nýtist fyrir hraðhleðslutækið sem fylgir með Nokia 8 en samkvæmt fullyrðingum HMD þá er hægt að ná 50% hleðslu á símanum á innan við 30 mínútum. Tengið nýtist líka fyrir gagnatengingu við tölvu og er hægt að nýta sér þá símann sem geymslueiningu eða til að flytja gögn af símanum yfir á tölvu. Nokia 8 styður Bluetooth 5.0-staðalinn og ætti því að vera brúkfær fyrir flestan handfrjálsan búnað sem og þráðlausa Bluetooth-hátalara. Einnig styður Nokia 8 hefðbundna Wi-Fi-staðla ásamt því að vera með möguleikann á að breyta sér í ‚heitan reit‘ þannig að önnur tæki geti þá tengst við símann í gegnum Wifi.

Í hefðbundinni daglegri notkun heldur Nokia 8 góðu gagnasambandi, hvort sem það er í gegnum símkerfið eða á þráðlausu neti og engir teljanlegir hnökrar voru í slíkri vinnslu á meðan prófanir stóðu yfir.

Það sem hinsvegar olli gríðarlegum vonbrigðum hjá undirrituðum er að Nokia 8 er ekki með innbyggt FM-útvarp. Mun þetta vera vaxandi hegðun hjá símaframleiðendum á heimsvísu og mun þarna spila inn í að einhverju leyti að stærri símafélögin hafa verið að óska eftir því að þessi virkni sé ekki til staðar. Án þess að kafa of djúpt í þær fullyrðingar nú þá er það vissulega vonbrigði að þessi virkni, sem er til staðar í Nokia 3, Nokia 5 og Nokia 6, skuli ekki vera til staðar í Nokia 8. Ekki er útilokað að opnað verði fyrir þessa virkni í framtíðinni en ekkert er staðfest í þeim efnum og lítið sem ekkert af forritum frá þriðja aðila sem gerir þessa notkun virka í símanum. Ef einhver veit þó um eitthvað forrit sem gerir það þá má gjarnan benda á það í athugasemdum hérna fyrir neðan færsluna.

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan er 3000 milliampstundir (mAh) og í daglegri notkun sem felur í sér notkun á Facebook, Snapchat, vafri um nokkrar fréttasíður, tölvupóstsendingar og stöku leikjanotkun þá er um 25% til 30% eftir af rafhlöðunni að kvöldi til þegar maður setur símann í hleðslu.

Með takmarkaðri notkun sem myndi einskorðast við hefðbundna símvirkni eins og símtöl og SMS-skeytasendingar þá ætti ekki að vera neitt mál að ná rafhlöðuendingunni upp í tvo daga og ánægjulegt að sjá símtæki sem maður er ekki lentur í rafhlöðuveseni með kortér fyrir drekkutíma.

Nokia 8 er með íslenska útgáfu af Android-stýrikerfinu og kemur hún sjálfvalinu í símanum. Google hefur verið að betrumbæta íslensku þýðinguna á Android-stýrikerfinu og segja má að hún sé svo gott sem komin á par við það sem þekktist áður í Symbian-stýrikerfinu sem og S40-stýrikerfinu sem Nokia notaði á sínum eldri símum á sínum tíma.

Hljóð og mynd

Nú erum við komin á heimavöllinn hjá Nokia 8 þar sem þessi sími ber hreinlega af þegar það kemur að myndgæðum. Skjárinn er 5,3 tommur að stærð sem gerir hann nokkuð hentugan í hendi, hvað þá í vasa. Upplausnin er 1140 x 2560 dílar sem er að skila sér í 2K-upplausn og það er vægast ótrúleg upplifun að fylgjast með allri virkni á skjánum, hvort sem það er hefðbundin notkun, að horfa á myndskeið eða greina myndir sem teknar hafa verið með myndavélinni.

Gamli góði biðskjárinn sem var í boði í eldri Symbian-símum frá Nokia er til staðar í Nokia 8 og er þetta kærkomin viðbót í staðinn fyrir að ekkert gaumljós er á Nokia 8 eins og er orðið mjög algengt á snjalltækjum í dag. Á biðskjánum sést klukkan og hvort það séu komin skilaboð í símann eins og SMS, tölvupóstur eða skilaboð úr spjallforritum auk þess sem að það sést hvort símtali hafi ekki verið svarað.

Hátalarinn er staðsettur neðst til hægri á símanum og er bara nokkuð góður hljómur úr símanum. Það er sérstaklega magnað að hlusta á myndskeið sem eru tekin upp með myndavélinni í Nokia 8 en þar er verið að nýta Nokia Ozo-hljóðstaðalinn sem hannaður var með það í huga að geta tekið upp meira af hljóði í umhverfinu. Niðurstaðan er sú að það er meiri dýpt í hljóðinu og fær maður það á tilfinninguna að maður sé hreinlega á staðnum þegar maður hlustar á hljóðupptökurnar.

Myndavél

Samhliða skjánum þá er myndavélin í Nokia 8 eitthvað sem margir voru spenntir fyrir að sjá í virkni. Líkt og með aðrar flaggskipsmyndavélar þá bregst Nokia ekki bogalistin hér. Myndavélin er samsett úr tveimur aðskildum linsum, annarsvegar ein linsa sem sér um að fanga svarta og hvíta tóna, önnur linsan fangar flesta aðra liti og svo þegar þessar linsur eru settar saman þá er myndin mjög skýr og gefur góða dýpt. Nokia hefur haft það orðspor af sér, allt frá því að fyrstu snjallsímarnir fóru í fjöldaframleiðslu, að bjóða upp á öfluga myndavélavirkni, óháð öðrum íhlutum eða gæðum hvers síma fyrir sig, í hvaða verðflokki sem er. Nokia 8 er með 13 megapixla myndavél og ræður vel við þá upplausn enda eru myndirnar koma úr símanum kristaltærar. Einnig er hægt að ræsa myndavélina annaðhvort af biðskjánum eða með því að tvíýta á valmyndartakkann á hliðinni á símanum.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá sýnishorn af myndum teknum með þessum þremur mismunandi linsustillingum þannig að hægt er að sjá muninn á því hvernig myndirnar koma út.

 

 

 

 

 

Nokia 8 er líka fyrsti síminn í nýju snjallsímalínunni frá Nokia sem er með linsur frá Carl Zeiss. Þar með er hið fornfræga samstarf þessara aðila hafið aftur en á gullaldarárum Nokia í símaframleiðslu þá komu fjölmargir Nokia-símar með Carl Zeiss-myndavélalinsu.

Það tekur myndavélin einungis örfá sekúndubrot að ræsa sig og er myndavélin snögg að ná fókus á myndefni og smella af myndum. Fjölmargir valmöguleikar eru í myndavélinni eins og möguleiki á að merkja myndir með GPS-staðsetningu, í hvaða átt myndaefnið er, sjálfvirku hallamáli til að tryggja að sjóndeildarhringurinn sé jafn í landslagsmyndatöku og margt fleira. Myndavélaforritið í Nokia 8 var hannað af Nokia fyrir Android 7.

Það sem er líka frábært við myndavélina í Nokia 8 er að það er hægt að deila myndupptöku beint á netið úr myndavélinni, annaðhvort inn á Facebook eða á YouTube.

Bothie er hugtak sem var kynnt samhliða Nokia 8 en með bothie er verið að vísa í hið margumtalaða hugtak selfie. Bothie felst í því að taka bæði mynd af þér og viðfangsefninu þínu þannig að bæðia bak og frammyndavélin er í gangi á sama tíma. HMD hefur verið að hamra á hashtagginu #bothie á samfélagsmiðlum þannig að ef þið hafið áhuga á því að kynna ykkur bothie í virkni, leitið eftir tagginu.

Svo er ekki hægt að ræða myndavélina í Nokia 8 án þess að minnast á Ozo Audio-virknina þegar tekin eru upp myndskeið. Fyrir utan þá sturluðu staðreynd að þessi sími getur tekið upp 4K-myndskeið með 30 römmum á sekúndu þá eru þrír stefnuvirkir hljóðnemar í símanum sem auðvelda við að ná 360-gráðu hljóðupptöku þegar verið er að taka upp myndskeið. Niðurstaðan er framúrskarandi upptaka sem skilar sér vel í deilingu á samfélagsmiðlum. Hér fyrir neðan er síðan stutt myndskeið sem sýnir í raun hvernig hljóðið færist milli stereo-rásanna þannig að upplifunin er eins og maður sé á staðnum:

Margmiðlun og leikir

Það er síðan ekki að spyrja að því þegar það kemur að margmiðlunarvinnslu og leikjum í Nokia 8, slík vinnsla er ekki að vefjast fyrir þessum síma. Vélbúnaðurinn í Nokia 8 er með slíkum eindæmum að notendum ætti að líða sem þeir séu með mjög öfluga leikjatölvu í vasanum. Það var ekki sá leikur eða vinnsla í þessum prófunum sem Nokia 8 náði ekki að vinna úr og virkilega skemmtilegt að nýta þennan síma í leik eða áhorf.

Það sem gerir þessa upplifun líka skemmtilega er kælingin í símanum en eins og áður hefur komið fram þá er vökvakæling í símanum sem heldur hitastiginu í skefjum í mikilli vinnslu.

Líkt og með aðra Android-síma þá er auðvitað alltaf gott að slökkva á þeim forritum sem eru í gangi hverju sinni en miðað við vinnsluminnið og örgjörvann sem Nokia 8 býr yfir þá er yfir litlu að kvarta í þeim efnum.

Hugbúnaður og samvirkni

Líkt og með flest alla snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfinu þá er aragrúi af smáforritum sem notendur geta sett upp á sínum símum og þannig sérsniðið símtækið að sinni daglegu notkun. Nokia 8 keyrir á ‚stock‘-útgáfu af Android-stýrikerfinu. Í stuttu máli þýðir það einfaldlega að Nokia 8 keyrir á Android-stýrikerfinu eins og það kemur beint frá Google. Það er því enginn viðbótahugbúnaður merktur Nokia í þessum síma og því er ekki verið að íþyngja símanum með einhverjum sérsniðnum hugbúnaði eða valmynd sem í mörgum tilfellum hefur verið þess valdandi að hægja umtalsvert á virkni símans til lengri tíma. Það sem kom síðan skemmtilega á óvart að á meðan prófunum stóð þá kom tilkynning frá Nokia um að búið væri að opna fyrir aðgang að beta-útgáfu af Android 8 (Oreo) fyrir Nokia 8. Sagt verður frá því síðar hvernig sú útgáfa fer með Nokia 8 en fyrstu fregnir herma og sýna að Nokia 8 tekur þessari uppfærslu fagnandi.

Í þessum prófunum var Nokia 8 uppsettur með Microsoft Outlook-hugbúnaðinum varðandi samstillingu á tölvupósti. Tveir aðgangar voru samtímis í gangi og voru engir hnökrar á vinnslu símans og allur tölvupóstur skilaði sér án vandræða.

Hægt er að tengja Nokia 8 við tölvu með USB C-snúru og ná þannig að hlaða gögnum beint af símanum eða setja frekari gögn inn á símann.

Líkt og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki sem einblína á snjallsímamarkaðinn þá hefur Google í boði margskonar samstillingarforrit til að flytja gögn til og frá snjallsímum með Android-stýrikerfinu. Nokia 8 er engin undantekning þar og í raun eru skilaboðin einföld; ef þú ert að nýta þér einhverja Google-þjónustu í dag, þá hentar Nokia 8 sem og aðrir Nokia Android-símar mjög vel fyrir slíka vinnslu þar sem þeir eru að keyra á ómengaðri útgáfu af Android-stýrikerfinu.

Niðurstaða

Það er ekki tilviljun að lengra hefur liðið milli umfjöllunar á Nokia 8 og þegar Nokia 3, 5 og 6 komu út fyrr á þessu ári. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að við hér á Lappari.com vildum taka Nokia 8 í langtímaprófun og koma með þannig aðeins öðruvísi umfjöllun að þessu sinni. Að auki þá virðist sem í mörgum tilfellum séu umfjallanir gerðar á símtækjum sem eru ekki endanlegar útgáfur af þeim tækjum sem koma síðan í sölu. Oftar en ekki er ástæðan fyrir því sú að þeir sem vinna slíkar umfjallanir vilja koma með þær út um svipað leiti og símtækin eru að koma í sölu.

Að því sögðu þá sjáum við ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun þar sem símtækið sem við fengum í hendur í þessum prófunum var talsvert betra og öflugra en fyrsta frumgerðin sem við fengum að taka snúning á. Talsverðu munaði t.d. í viðmiðunarprófunum sem og að myndavélin var að skila talsvert betri myndum en við áttum von á.

Í ljósi alls þessa þá er ljóst að Samsung og Apple þurfa að gefa Nokia aftur gaum. Nokia 8 nær að skora það hátt á öllum sviðum að það er ekki hægt að horfa framhjá því þegar flaggskip símaframleiðandann eru annarsvegar.

HMD hefur tekist vel til með Nokia 8 á alla kanta. Hönnunin sver sig í ætt við það besta sem komið hefur frá Nokia á símamarkaðnum undanfarin ár og þegar ekkert til sparað í vélbúnaðinum þá er ljóst að niðurstaðan er aðeins ein; hreint út sagt magnað tæki.

Líkt og með aðra síma í nýju Nokia-snjallsímalínunni þá verðið á Nokia 8 hreint út sagt ótrúlegt og verður það erfitt fyrir aðra framleiðendur að ná að leggja að jöfnu jafn öflugan og glæsilegan síma á jafn góðu verði.

Þó svo að það vanti innbyggt FM-útvarp í Nokia 8 og að það sé ekkert sérstakt gaumljós þá eru það lítilvæg atriði í samanburði við allt það frábær sem þessi sími hefur upp á að bjóða.

Nokia 8 er frábær endapunktur á snjallsímalínu Nokia fyrir 2017 og fyrir Android-notendur þá er það frábær staðreynd að Nokia er snúið aftur á snjallsímamarkaðinn með nýja línu og verður áhugavert að sjá hvaða tæki skila sér inn á markaðinn á næsta ári.

Það er því alveg óhætt fyrir kröfuharða notendur að mæla með Nokia 8 fyrir hvaða vinnslu sem er, hvort sem það er sem vinnutæki fyrir þá sem eru mikið á ferðinni, fyrir þá sem eru að leita eftir öflugu margmiðlunartæki til að taka frábærar myndir eða til að streyma efni eða til að nota á samfélagsmiðlum.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira