Sony Xperia XZ1

eftir Jón Ólafsson

Við hér á Lappari.com höfum prófað nokkra Sony snjallsíma í gegnum árin og má segja að nær undantekningalaust höfum við verið nokkuð ánægð með tækin. Það má samt segja að Xperia símtækin hafi svo sem ekki verið gallalaus en þau hafa það sameiginlegt að vera vel hönnuð tæki með flottum vélbúnaði og á góðu verði.

Sony Xperia XZ1 er nýtt símtæki, kynnt í ágúst og kom í sölu fyrir rétt um mánuði síðan. Við höfum verið með eintak að láni í nokkrar vikur og því komin tími á að henda saman umfjöllun um tækið.

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Eftir að hafa handleikið Sony Xperia XZ1 í stutta stund þá varð ég strax mjög hrifinn af tækinu, þetta er sannarlega stórglæsilegt símtæki. Ég fékk strax á tilfinninga að í höndunum hefði ég sterkan og vel smíðaðan síma. Xperia XZ1 heldur í útlit forvera sinna í Xperia línunni, hann er samsettur utan um álramma (eitt heilt stykki) sem gerir símtækið mun sterkara og massífara þegar það er handleikið. Álramminn þekur hliðar símans og hjálpar til við að gefa þá tilfinningu að notandinn haldi á sterku og vönduðu tæki.

Fyrir utan skjáinn þá er svæðið að ofan þar sem hátalarinn er og hitt neðst þar sem hljóðneminn er. Þar er reyndar líka hátalari sem gefur góðan stereohljóm en meira um það seinna. Allur frágangur á framhlið er til fyrirmyndar og greinilega vandað vel til verka. Líkt og á Xperia Z1 og Z2 þá eru stór svæði efst og neðst á framhlið XZ1 sem pirrar mig lítillega. Efst er Sony logo og myndavél en neðst er dautt svæði sem er ekkert nýtt sem stingur í stúf á tímum borderless símtækja þar sem skjárinn nær alveg út að endum (Hæ iPhone X).

 

 

Xperia XZ1 er með þrjá takka á hægri hlið, sér takka fyrir myndavél, hækka/lækka takka ásamt power takka sem einnig er fingrafaraskanni til að aflæsa símtækinu. Þessi fingrafaraskanni í aflæsingatakkanum virkar mjög vel.

Staðsetning takka er mjög góð og einfalt að ná til þeirra með annarri hendi. Síminn er allur frekar kassalaga að sjá eins og venja er með Xperia síma. Síminn liggur þó ágætlega vel og örugglega í hendi. Bakhlið símans er þakin með einu heilu álstykki og því slétt. Það eina sem sést á bakhlið er Xperia logo, tvær myndavélar og fullt af puttaförum, en efnisval er einfaldlega þannig að síminn er mjög puttafaragjarn (er þetta orð?).

 

 

Helstu stærðir í mm.

  • Hæð: 148
  • Breidd: 73.4
  • þykkt: 7.4
  • Þyngd: 155 gr

 

Sony Xperia XZ1 tekur fullan þátt í vélbúnaðarkapphlaupi annarra framleiðenda en hann er mjög vel búinn vélbúnaðarlega. Síminn skartar Snapdragon 835 kubbasettinu og keyrir á tveimur fjórkjarna örgjörvum. Annar keyrir á 4×2.35 GHz og hinn á 4×1.9 GHz, skjástýringin heitir Adreno 540. Símtækið ætti því að ráða léttilega við flest allt sem notendur vilja keyra á símanum. Þessi öflugi örgjörvi, góð skjástýring og 4 GB af vinnsluminni skila sér í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við eitthvað hökt í símann, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu, forritum eða í leikjum sem ég prófaði.

 

 

Tengimöguleikar

Sony Xperia XZ1 er vatnsheldur eins og margir aðrir úr Xperia línunni en hann er IP68 vottaður sem þýðir að hann er rykvarinn og ætti þola vatnsskvettur ásamt því að vera vatnsheldur niður að 1.5 metra af ferskvatni í allt að 30 mínútur.

Neðst á Sony Xperia XZ1 er USB-C 3.1 tengi og á vinstri hlið er vatnshelt hólf en þar er rauf fyrir microSDXC kort (styður allt að 256 GB) og SIM kortið. Ég tengdi símtækið við tölvuna (Windows 10) til að sækja ljósmyndir sem ég hafði tekið og var það nokkuð einfalt. Síminn kom fram í My Computer og myndirnar þar inni í möppu sem heitir „innri geymsla\DCIM\“.

 

 

Efst á síma er 3.5 mm heyrnartólstengi sem er alltaf opið, þarf ekki lok yfir til að gera tækið vatnshelt. Þar er einnig annar hljóðnemi sem er notaður við myndbandsupptökur og við að eyða umhverfishljóðum (active noise cancellations).

Xperia XZ1 er með Bluetooth 5.0 (A2DP, aptX HD, LE) og með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/ac/b/g/n og þar með allar helstu dulkóðanir sem skipta máli eins og er.

Sony Xperia XZ1 er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars upp á borganir, samnýtingu gagna, og notkun NFC merkja. Símtækið styður 4G að fullu og var mjög sprækt á 4G neti Símans meðan ég prófaði það.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlöðuending hefur verið ágæt í þeim Xperia tækjum sem ég hef prófað og varð ég ekki fyrir miklum vonbrigðum með Xperia XZ1 þó svo að rafhlaðan sé aðeins 2700 mAH. Eins og gera má ráð fyrir með vatnsheld símtæki þá er hún óútskiptanleg.

 

Endurance test af GSMarena.com

 

Þó hún sé ekki léleg þá var ég ekkert alltof ánægður með rafhlöðuendinguna, hún er “bara” ágæt.

  • Tal yfir 3G: 10:22 klst
  • Video afspilun: 11:38 klst
  • Netvafr: 9:28 klst

 

 

Þrátt fyrir þetta tuð í mér þá náði ég samt yfirleitt að klára daginn með einhverja hleðslu eftir í lok dags, jafnvel þó svo að ég notaði símann og myndavél töluvert mikið í þessum prófunum. Venjulegur dagur hjá mér er að taka nokkuð af ljósmyndum ásamt því að vera ávallt tengdur við WiFi eða 4G og að samstilla 3x EAS tölvupóstreikninga. Má hafa í huga að léleg ending á fyrstu 1-2 dögum er oft eðlileg meðan símtækið er að indexa gögn notenda.

Stýrikerfið og lyklaborð eru á íslensku sem er kærkomið og ætti að einfalda og létta mörgum lífið, íslensk þýðing á kerfinu er nokkuð góð og tiltölulega einfalt að rata um kerfið. Lyklaborðið í Xperia XZ1 er gott og þægilegt er að nota það til innsláttar.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Sony Xperia XZ1 er eins og fyrr segir 5.2″ Full HD LCD skjár sem styður 1920×1080 upplausn eða 424ppi (pixel per inch). Skjárinn lítur vel út á blaði (speccalega) en það er eitthvað við hann sem pirrar mig þó að hann sé mun betri en á öðrum Xperia símtækjum sem ég hef prófað. Þetta flokkast vitanlega sem persónulegt mat því þetta er líklega ekki mælanlegt en ég get útskýrt þetta þannig að mér finnst eins að skjárinn sé frekar líflaus og það er eins og það vanti „eitthvað“.

 

 

Skjárinn er góður innanhús við kjörbirtustig en utanhús er hann frekar dapur, sérstaklega ef það skín sól á hann. Litir og texti eru í lagi ef horft er beint á símtækið en um leið og síminn hallar aðeins þá renna litir saman og texti verður illlesanlegur. Öll snertivirkni í skjánum er mjög góð en eins og við er að búast þá er erfitt er að nota símann með blauta fingur eða í vettlingum.

 

Myndavél

Sony er ekki nýliði þegar kemur að framleiðslu myndavéla og hafa þeir lagt mikið á sig til þess að geta keppt við aðra myndavélasíma. Þeir hafa í gegnum tíðina haldið því fram að þeim hafi tekist að gera Point-To-Shoot myndavélar óþarfar þar sem gæðin í Xperia símtækjunum séu sambærileg eða betri og er ég að miklu leiti sammála því (enda ekki að miklu að keppa).

Ég hef ávallt verið ánægður með myndavélar í Xperia símtækjum sem ég hef prófað en Xperia XZ1 er með 19MP f/2.0 aðalmyndavél og tekur upp myndbönd í 4K upplausn (2160p@30fps, 1080p@30/60fps, 720p@960fps). Hafa ber í huga að ef tekin eru upp 4K myndbönd þá tekur hver mín um 400MB af geymsluminni símans.

 

 

Myndavélin er með 1/2.3″ myndflögu (sensor) með EIS (Image Stabilization Gyro), HDR og Panorama svo að eitthvað sé nefnt. Síminn er með ágætri linsu sem tryggir að áhugaljósmyndarar ættu ekki að verða sviknir af myndum sem símtækið tekur á sjálfvirkum stillingum en hægt er að fara í handvirkar stillingar til að ná myndum í meiri gæðum sé þess óskað.

Xperia XZ1 er einnig með 13MP f/2.0 myndavél með EIS á framhlið sem hentar þvi vel t.d. í sjálfur, Snapchat eða myndsímtöl eins og Skype eða Hangout. Hún getur tekið 1080p myndbönd og er með 1/3″ sensor.

 

Myndavélaappið er nokkuð gott og eins og fyrr segir er hægt að fara í handvirkar stillingar og leika sér þar, sjálfvirkar stillingar sem koma á tækinu ættu samt að duga flestum. Ég lék mér aðeins með nýjan fídus sem kallast Predictive Capture en segja má að þetta þýðist sem myndaspá. Ef ég opna myndavélaappið og miða þá byrjar síminn að taka myndir sjálfkrafa og ef myndin sem ég síðan smelli af er ekki nægilega góð þá get ég valið úr öðrum myndum sem síðan verða vistaðar. Sá þetta nýtast vel í myndir af börnunum sem eru alltaf á fleygiferð, alltaf einhver með lokuð augu eða að gretta sig, þessi fídus reddaði mér oft nothæfum myndum þrátt fyrir það.

 

Ég verð samt að enda þessa samantekt um myndvélina á neikvæðum nótum en það er þrennt sem pirraði mig við myndavélina.

  1. Mér finnst sjálfvirkur focus hvorki hraður né nákvæmur sem veldur því að síminn er lengur að stilla focus á viðfangsefnið og á stundum erfitt með að halda focus í lengri upptökum.
  2. Xperia XZ1 stendur sig ekki nægilega vel í samanburði við t.d. iPhone 7 og iPhone 8 í myndatöku þar sem birta er lítil. Myndirnar eru flestar nothæfar og líklegt að margir væru bara sáttir en þeir sem hafa samanburð frá betri símtækjum sjá greinilegan mun.
  3. Mér finnst myndir oft verða yfirsamplaðar (of unnar), sem veldur því að myndir virðist oft á tíðum vera “of mjúkar” og á stundum smá ýktar. Ég sá stundum vissa ofmetun á myndum sem ég tók á símann ásamt því að litir eru margir of gerfilegum í vissri birtu.

 

Samt svo sniðugt að þegar ég var að gefast upp á myndvélinni þá skilaði hún mér frábærum myndum sem ég féll fyrir. Fyrir flesta eru vonbrigðin líklega ekki jafn mikil og hjá mér enda hafa fæstir jafn mörg tæki til samanburðar. Það má því vera að kröfurnar séu of miklar hjá mér og líklega þyrfti ég að finna betra myndavéla app sem vinnur myndirnar minna.

 

Hátalarar

Hátalarar varpa hljómi beint að notanda og skila þeir ágætis hljómi, raddir hljóma skýrt og hljóma nokkuð hátt en það er vöntun á há- og lágtónum í samanburði við t.d. iPhone 8. Það er góð HiRes afspilun af símtækinu ef notuð eru heyrnartól tengd í 3.5″ heyrnartólstengið og Xperia XZ1 styður líka AptX og LDAC kóða ef notuð eru bluetooth heyrnartól.

Síminn er með stafrænni útilokun á umhverfishljóðum sem ætti að virka vel í íslenska logninu sem hreyfist stundum hratt.

 

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Xperia XZ1 er mjög góð eins og við er að búast miðað við vélbúnað og ræður hann við að spila og gera “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var leikur sem ég sótti af Google Play, bíómynd af innra-minni, Youtube video eða aðra vefstrauma. Það er sama og ekkert hik í vinnslu (e. lag) símans enda er hann, eins og fyrr segir, mjög vel búinn vélbúnaðarlega.

 

 

Með innbyggðum tónlistarspilara ásamt þjónustu eins og Spotify áskrift eða Google Music þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Xperia XZ1 að ráða við allt sem þú gætir viljað nota hann í.

Það er kostur að hafa rauf fyrir auka minniskort þar sem einfalt er að samnýta það fyrir ljósmyndir og annað margmiðlunarefni á allt að 256 GB stóru SD korti.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Sony Xperia XZ1 kemur með Android 8.0 Oreo sem er nýjasta útgáfun af Android. Eins og venjulega bætir Sony ofan á sérstöku Sony viðmóti en það er samt ekki mikið að þvælast fyrir okkur. Þetta viðmót hefur ekki breyst mikið eða þróast í gegnum árin en kosturinn er að það er einfalt og hægir því ekkert sjáanlega á símtækinu. Sony hafa ávallt farið nokkuð góða leið með stýrikerfið að mínu mati en það er ansi nálægt Android eins og það kemur af spenanum (e. stock). Kerfið er viðbragðsgott og ekki of mikið af krúsídúllum eins og þegar Samsung er skoðað til samanburðar.

Þar sem þetta er Android sími þá fylgir Google svítan einnig með ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv. og það sem mögulega vantar á að vera fáanlegt í Google Store sem er forritamarkaður Google.

 

 

Niðurstaða

Sony Xperia XZ1 er mjög gott alhliða símtæki sem ætti að gleðja flesta. Þetta er fallegt símtæki og almennt fágaðara, öflugra og betra en margir Android símar sem ég hef prófað. Þó að ég setji út á nokkur atriði í umfjöllun þessari þá er Xperia XZ1 með betri Android tækjum á markaðnum fyrir þennan pening.

Ef þú ert að leita þér að góðu Android símtæki sem heitir ekki Galaxy eitthvað þá er Sony Xperia XZ1 sannarlega tæki sem vert er að skoða betur, sérstaklega ef þú ert að leita að vatnsheldum síma með góðri myndavél til að taka ágætis tækifærismyndir.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira