Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur Microsoft Surface Pro 2

Microsoft Surface Pro 2

eftir Jón Ólafsson

Lappari prófaði Surface Pro vélina frá Microsoft um mitt síðasta ár og var í stuttu máli mjög ánægður með vélina. Hún var svo sem ekki fullkominn en það sem pirraði mig mest var rafhlöðuending, útdraganlegi standurinn og nokkur atriði sem voru í raun og veru bara í Windows 8 en ekki vélinni sjálfri. Surface Pro 2 er kominn og Lapparinn búinn að vera með hana í reynslu í nokkrar vikur og því kominn tími á að skila vélinni og setja eitthvað á blað.

Ég er sjálfur að leita mér að nýrri fartölvu í vinnuna og því áhugavert að sjá hvort að “power user” eins og ég flokka sjálfan mig geti notað 128GB Surface Pro 2 með Type Cover lyklaborði og ekkert annað í vinnu og leik. Gallinn við Surface 2 og Surface Pro 2 er að þær hafa verið uppseldar svo til síðan þær komu í sölu og því verið erfitt að fá eintak.

Surface Pro vélarnar eru spjaldtölvur frá Microsoft og koma þær í tveimur flokkum,

  • Surface sem kemur með Windows 8.x RT og er spjaldtölva.
  • Surface Pro sem kemur með Windows 8.x og er venjuleg tölva í spjaldtölvu skrokki

 

Surface_Pro2_7

 

Surface Pro vélarnar geta notað öll venjuleg Windows forrit ásamt því að hafa aðgang að tugum þúsunda forrita í gegnum Windows Store sem er forrita, tónlistar og leikja markaður Microsoft. Þar er bæði hægt að kaupa og/eða sækja ókeypis forrit.

Ég byrjaði þessar prófanir mínar á því að skilja fartölvuna eftir heima og nota bara Surface Pro 2 í vinnunni. Ég þurfti að finna útúr því hvernig ætti að tengja Surface Pro 2 við auka skjá, lyklaborð, mús og hátalara sem eru í skrifstofunni en það var svo sem ekki mikið mál. Vélin er með mini-HDMI tengi fyrir aukaskjá ásamt því að vera með USB3 tengi sem ég tengdi við USB fjöltengi.

Næsta verkefni var að tengjast 3G þegar ég var að vinna úti í bæ en það er sambærilegt við það sem sést hér, ekki erfiður hjallur að yfirstíga en Surface vélar með innbyggðu 3G/4G koma líklega á markað á næstu mánuðum.

 

Hönnun og vélbúnaður.

Ég varð strax hugfangin af hönnun Surface vélanna en Surface Pro 2 er keimlík Surface Pro í útliti. Mér finnst í raun og veru ótrúlegt að hægt sé að koma svona öflugri vél fyrir í svona lítilli skel. Vélin er eins og áður í álskel (VaporMg) sem gerir vélina sterkbyggða. Vélin er aðeins 907 g og 13 mm að þykkt og þegar ég handlék hana þá fékk ég strax þá tilfinningu að vélin væri sterkbyggð og vel hönnuð. Surface Pro 2 er örlítið þykkari en Surface 2 sem ég prófaði  undir lok síðasta árs en Microsoft hefur sett á vélina örþunna rauf umhverfis bakhlið þar sem heitt loft kemst út.

 

Mynd tekin af TheVerge

Mynd tekin af TheVerge

 

Surface 2 vélarnar eru eins og útgáfa 1 með útsmellanlegan fæti (Kickstand) sem hefur ekki sést áður á spjaldtölvum en núna er hann með 2 stillingum. Þessi litla einfalda breyting gerir mjög mikið fyrir vélina og eitt af því fáa sem ég kvartaði yfir Surface 1 vélinum, gott að sjá hvað Microsoft hlusta vel á Lapparann. Standurinn er skemmtileg viðbót og gerir innslátt með lyklaborði mjög þægilegan hvort sem vélin er á borði eða standandi á fótum notenda þegar setið er með vélina.

 

Surface Pro 2 vélarnar koma í fjórum útgáfum

  • 64GB harðdisk og 4GB í vinnsluminni
  • 128GB harðdisk og 4GB í vinnsluminni
  • 256GB harðdisk og 8GB í vinnsluminni
  • 512GB harðdisk og 8GB í vinnsluminni

 

Vélin sem ég prófaði er með 128GB harðdisk, 4GB DDR3 vinnsluminni og fjögurrakjarna Intel i5 örgjörva (1.6 GHz 4200U Haswell) sem er mjög öflugur og keyrir stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Vélin ræsir upp í heimaskjá á 2-3 sekúndum (e.cold boot) og slekkur á sér á 2-3 sekúndum.

Eins og á Surface 2 þá eru tvær 720p myndavélar á Surface Pro 2, ein að framan fyrir ofan skjáinn sem hentar vel í myndsamtöl og síðan önnur aftaná skjánum fyrir myndatökur. Báðar sinna sínu hlutverki ágætlega en sem áður myndi ég aldrei ráðleggja notendum að nota spjaldtölvu við myndatökur.

 

Surface_Pro2_6

 

Mikið var talað um pláss og plássleyfi þegar Surface vélarnar komu á markað á sýnum tíma en einfalt er að auka laust geymslupláss með einfaldri aðgerð. Vélin sem ég fékk er með 128GB geymslurými og þegar ég var búinn að setja upp allt mitt á henni þá var ég með 86GB laus sem er (vitanlega) samabærilegt og ég er með á fartölvunni sem er líka með 128GB disk.

Stærðir á geymslurými er reyndar aðeins flóknari eins og ég hef fjallað um hér á lappari.com áður. Í þessum pósti ber ég saman laust geymsluplás á MacBook Air og Surface Pro (bæði 64 og 128GB), sést að það munar litlu sem engu á lausu plássi á þessum vélum.

 

 

Tengimöguleikar

Surface Pro 2 er með microSDXC rauf sem styður allt að 64GB minniskort sem er ódýr og einföld leið til að auka við geymsluplássið. Einnig er hefðbundið USB3 port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil svo eitthvað sé nefnt en ég var með 8 porta USB3 hub í mínum prófunum.

Á Surface Pro 2 er einnig hefðbundið Mini DisplayPort tengi þannig að einfalt er að tengja vélina við auka skjá, sjónvarp eða skjávarpa og senda þannig mynd og hljóð á stærri skjá með stafrænum gæðum. Það gleður líklega marga að Haswell styður DisplayPort 1.2 sem meðal annars styður 4K skjái og bíður uppá möguleikann að raðtengja (e. Daisy Chain) allt að fjóra skjái í 1920 x 1200 upplausn.

Vélin er með Bluetooth 4 ásamt þráðlausu netkort sem styður 802.11a (a/b/g/n) og þannig allt að 300Mbps og vélin er einnig með tengi fyrir heyrnartól. Fyrir utan þetta þá styður Surface 2 Miracast sem er þráðlaus staðall sem varpar 1080p mynd og 5.1 hljóð frá tæki og í sjónvörp, skjávarpa eða skjái sem styðja staðalinn.

 

Hér er myndband frá Microsoft sem rennir lauslega yfir kosti Surface Pro 2.

 

 

Rafhlaða og lyklaborð

Samkvæmt Microsoft þá má reikna með 7-15 daga endingu í bið og um 9 klst rafhlöðuendingu með Surface Pro 2 við eðlilega notkun. Hugtakið eðlileg notkun er alltaf sveiganlegt en reikna má með að 1080 HD skjár og öflugur örgjörvi dragi nokkuð vel á rafhlöðuna. Með nýjum (4th gen) Haswell örgjörva segir Microsoft að rafhlöðu endingin væri allt að 75% betri en hún var á Surface Pro 1 og prófanir mínar staðfesta það ágætlega.

Það má segja að ég hafi legið lengi á Surface Pro 2 og reynt seinkaði skilum á henni eins og ég gat, aðallega til þess að geta tekið vélina með mér í vinnuferð til að láta reyna vel á rafhlöðuna. Vélin dugði vel í þetta 7 tíma ferðalag og spilaði ég fjóra þætti og vann töluvert í Office á meðan en hægt er að lengja endingu með því að lækka birtistig í skjánum lítillega. Samkvæmt mælingum náði ég um 8 tímum að meðaltali útúr rafhlöðunni miðað við hefðbundinn vinnudag sem í mínum huga er fullur vinnudagur og vel það.

Microsoft gerði smávægilegar breytingar á hleðslutækinu á Surface Pro 2 en helst ber að nefna að samkvæmt þeim er nú mun léttara að stinga vélinni í samband þó svo að ég hafi ekki tekið eftir því. Mér finnst reyndar segullinn mun sterkari og sem betur fer er hleðslutækið enn með USB tengi á hleðslutækinu þannig að það er t.d. hægt að hlaða símann þar sem er góður kostur.

 

Surface_Pro2_1

 

Microsoft hafa aukið úrval af aukahlutum sem notendum stendur til boða og vill ég helst nefna þráðlaus lyklaborð, nýtt Type 2 lyklaborð og standur (dock) en doccan virkar með Surface Pro 1 og Pro 2. Þetta Type 2 lyklaborðið er nú með baklýsingu þannig að mun einfaldara er að nota vélina þar sem birta er léleg ásamt því að mér þykir það mun nákvæmara og betra þegar hamraður er inn texti.

Einng ber að nefna Microsoft Power Cover sem er að koma í sölu núna í Mars en þetta er sambærilegt við Type Cover (án baklýsingu) en með auka rafhlöðu og eykur þannig endingu á Surface 2 / Surface Pro 2 til muna.

 

dock

 

Ég fékk ekki tækifæri til að prófa doccuna en þetta er nauðsynlegur aukahlutur að mínu mati en þetta er “venjuleg” docca sem stendur á skrifborðinu og þegar Surface Pro 2 vélin er sett í doccuna þá hleðst vélin ásamt því að auka skjárinn getur verið beintengdur í doccuna og notandi fær aukalega 1x USB3 og 3x USB2. 

Það sem Surface Pro 2 notar venjulegt Windows þá er lyklaborðið á Íslensku og ef stýrikerfið er stillt á Íslensku þá sækir vélin sjálfkrafa tungumála pakka frá Microsoft og breytir öllum helstu valkostum og útskýringum yfir á Íslensku. Surface Pro 2 er einnig með venjulegu lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef annað lyklaborð er ekki tengt við vélina. Ef skjályklaborð er notað þá eru allir hefðbundnir íslenskir stafir aðgengilegir.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Surface Pro 2 er 10,6 ClearType Full HD skjár sem styður 10 snertipunkta. Skjárinn er með mjög nákvæma snertiskynjun og lenti ég sjaldan í því að smella á eitthvað vitlaust.

Mjög skemmtilegt að nota penna með vélinni til að skrifa eða teikna. Penninn virkar vel og frábært að nota hann með t.d. One Note og Fresh Paint en hægt er að snúa honum við til að stroka út eins og um blýant væri að ræða. Skjáinn er rispuvarinn (Scratch-resistant) og það er ljósnemi á skjá sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri.

Upplausnin er 1920 x 1080 (208 ppi, 16:9) og allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði frábærlega, það má með sanni segja að þetta sé bjartur og góður skjár sem sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.

 

Surface_Pro2_4

 

Hátalarar eru tveir og eru staðsettir efst á báðum hliðum Surface sem gefur henni ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir eru einnig hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notenda sem er nokkuð ólíkt mörgum spjaldtölvum sem ég hef prófað.

Ég mæli alltaf með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó verkið ágætlega, Surface Pro 2 er einnig með 2 hljóðnemum.

 

Margmiðlun

Á heimaskjá er flýtivísun í venjulegt skjáborð (desktop) sem Windows notendur þekkja vel en heimaskjáinn er eins og á öllum útgáfum af Windows 8.x. Þaðan er hægt að nálgast „My Computer“ og þau drif sem eru aðgengileg þaðan og umhverfið eins og á venjulegri fartölvu að sjá.

Þar sem Surface Pro 2 er venjuleg PC tölva þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum.

Eina sem ég get bætt við er að mér líkar mjög vel í snap kostinn þar sem hægt er t.d. að horfa á bíómynd og vera með Word eða Twitter opið á sama tíma. Þessa virkni nota ég mikið og hefur hún verið bætt mikið í Windows 8.1 uppfærslu eins og ég fjalla um hér.

Skjáhlutföllin á Surface Pro 2 eru eins og fyrr segir 16:9 sem á mannamáli þýðir að skjáinn er Widescreen (breiður og ekki hár), það getur því verið klaufalegt að halda á henni nema að hún sé lárétt. Þetta hentar minni notkun samt mun betur en 4:3 (iPad) þar sem ég nota vélina mest sitjandi við skrifborði eða liggjandi í sófanum að horfa á margmiðlunarefni. Í vinnu er ég annað hvort með aukaskjá við vélina eða með forrit smellt (snap view) til hliðar og nýtist breiðari skjárinn því mun betur.

 

Surface í vinnuumhverfi

Eins og þegar ég prófaði Surface Pro (v1) þá var það fyrsta sem ég gerði að skrá vélina inn á Domain og keyra scriptu sem tengir vélina við netdrifin mín og virkaði það allt fumlaust. Eins og á fartölvu gat ég með einföldu móti tengst VPN (Cisco client og/eða innbyggt VPN) og þannig netdrifum og netþjónum yfir þráðlaust net eða 3-4G eins og ég væri staddur á venjulegri PC tölvu.

Með þetta eins og margt í þessari umfjöllun…  það þarf í raun og veru ekkert að segja meira þar sem allt sem þú getur á venjulegri PC tölvu getur þú á Surface Pro 2.

Það er samt mikill munur að losna við að bera 3-4 KG fartölvu daglega í vinnuna og skipta yfir í 907 g spjaldtölvu sem er samt mun öflugri. Þetta létti líka mikið á skrifborðinu þar sem vélin er miklu nettari en fartölvan mín.

 

Surface_Pro2_3

 

Surface Pro 2 er eins og fyrr segir ekki með venjulegu VGA/HDMI tengi fyrir auka skjá eins og fartölvan er með, heldur venjulegt mini displayport 1.2 þá fór ég í Tölvutek til að redda því . Ég fann þar Mini DisplayPort í VGA breytistykki en ásamt því eiga þeir breytistykki í DVI og Full-HDMI ef það hentar betur.

 

 

Hugbúnaður og samvirkni.

Öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) fylgja með vélinni en það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Þegar úrvalið á þessum markaði er skoðað og sú staðreynd að öll venjuleg x86 forrit virkar á Surface Pro/Pro 2 vélunum þá blikna hin kerfin (Android og Apple) í samanburði. Þetta gerir það að verkum að á Surface Pro 2 hefur notandi aðgang að markaðnum og þessum tugum milljóna forrita sem eru til fyrir Windows stýrikerfið.

 

Surface_Pro2_2

 

Þar sem ég hugsa Surface Pro 2 sem arftaki fartölvunar þá setti ég upp sömu forrit og ég nota þar eins og Office 2013 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust og eins vel eða betur en það gerir á fartölvunni.

Ég skrái mig alltaf inn í öll Windows 8 kerfi sem ég nota með Microsoft notendanum mínum, hvort sem það er fartölvan, borðtölvan, Surface RT/Pro eða Windows Phone síminn minn. Það sem þetta gerir er að tækin mín samstilla sig við notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) en þar hef ég ókeypis 7GB til að afrita ljósmyndir af símanum mínum eða til að hýsa gögn..

 

 

Þetta þýðir í mjög stuttu máli:

  • Þegar ég breyti um skjámynd á Windows 8 fartölvunni þá breytist skjámyndin á Surface.
  • Þegar ég bý til Office skjal á fartölvu þá verður það strax aðgengilegt á Surface (vice versa)
  • Þráðlaus net sem ég tengist með fartölvu afritast yfir á Surface. Því þurfti ég bara að setja inn WEB lykill við fyrstu uppsetningu og síðan þekkti Surface þráðlausu netin sem ég nota að staðaldri. Hvort sem það eru net sem ég hef bara tengst með símanum eða önnur.
  • Ég er alltaf með sömu upplýsingar á Surface og á fartölvunni og þarf því ekki lengur að senda skjöl sem ég útbý á spjaldtölvunni yfir á fartölvu með tölvupósti.

Sumt (alls ekki allt) af þessu er hægt í iPad og Android en ekki án auka hugbúnaðar (t.d. með Dropbox eða Google Drive).

Flash efni og annað netstreymi hefur fullan stuðning á Windows 8.1 og RT. Þetta þýðir að ég gat spilað allt flash efni af heimasíðum sem er mikill kostur þar sem mikið af efni er enn í Flash. Tilraunarinnar vegna þá prófaði er ég að horfa á nokkra fótboltaleiki yfir internetið með Surface Pro 2 og gekk það hnökralaust fyrir sig.

 

 

Niðurstaða

Surface Pro 2 sterkbyggð, öflug, falleg, stílhrein og góð hybid vél sem veitir öðrum framleiðendum (OEM) gott aðhald og sýnir þeim hvað hægt er að gera með góðum hugbúnaði, vélbúnaði og góðum hönnuðum. Það er margt sem ég hefði getað farið mun dýpra í hér en ákvað að sleppa en minni bara aftur á að Surface Pro (v1 og v2) eru “bara” venjulegar PC tölvur, þær geta líklega gert allt sem borð/fartölvan þín getur gert. Helsti munurinn er samt sá að Surface Pro 2 er bara 907 g að þyngd og mun þynnri og minni en hin hefðbundna tölva.

 

 

Helsti kostur Surface Pro 2 er því sá að þetta er venjuleg PC tölva í spjaldtölvu “skrokki”. Þannig er mjög einfalt að taka með sér fullvaxta tölvu á ferðalög eða í vinnuferðir án þess að þurfa að burðast með þunga fartölvu. Vélin er mjög einföld í notkun og þar sem flestir nota venjulegar PC vélar þá ættu flestir „venjulegir“ notendur að geta notið hennar strax og án málamiðlana.

Microsoft hafa  tekið alvarlega umkvörtunum notenda á Windows 8 með fjölmörgum breytingum á stýrikerfinu sjálfu ásamt því að Surface Pro 2 tekur á flestu sem sett var útá við Surface Pro (v1). Helst breytingin er stórbætt rafhlöðuending ásamt því að standurinn (Kick-stand) er nú mun betri og eykur notagildi vélarinnar mikið.

 

Surface_Pro2_5

 

Það er spurning við hvaða vél á að bera Surface Pro 2 saman við en að mínu mati er það helst Macbook Air en vegna stærðar þá hefur Surface Pro 2 mun meira notagildi ásamt því að samhæfni með öðrum vélbúnaði og hugbúnaðir gefur Surface Pro 2 vinningin.

Surface Pro 2 er mjög vænlegur kostur fyrir fyrirtæki vegna þess að það þarf ekkert að huga að breytingum á innri kerfum, allt virkar eins og áður. Kosturinn er að fyrirtæki eru þá með mjög meðfærilega tölvu sem einfalt er að tengja við staðarnet og internet með þráðlausuneti eða með 3/4G.

Microsoft hafa verið duglegir að vinna í hugbúnaðarþróun og uppfærslum á Surface vélunum og verða þær bara betri og léttari í keyrslu við hverja uppfærslu.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira