Heim Ýmislegt Routerleiga símfyrirtækja

Routerleiga símfyrirtækja

eftir Jón Ólafsson

Eins og flestir vita þá er ekki hægt að tengjast interneti án þess að hafa beini (e.router) heima hjá sér eða á vinnustað. Beinir sinnir margþættu hlutiverki en eitt af því er að hafa samband við þjónustuaðila til að tengjast þeim með tengiupplýsingum eins og notendanafni og leyniorði sem gerir notenda kleift að tengjast internetinu.

Það sem mig langar að fjalla um hér er sú breyting er varð árið 2009 þegar Síminn, og í framhaldi aðrar internetveitur, tilkynntu að þessi fyrirtæki hæfu innheimtu á leigu fyrir beini til viðskiptavina sinna. Fram að þessu keyptu viðskiptavinir beina sjálfir eða fengu hjá internetveitu gegn 12 mánaða bindingu sem er bannað í dag. Ég hef ætíð verið ósáttur við þessa innheimtu en ákvað að hugsa málið í 7 ár til að segja ekkert í bræði og úr því varð þessi langloka. 🙂

Það er tvennt sem pirrar mig við þetta helst:

  1. Í mínum huga er þetta klárt dæmi um aukagjaldtöku sem bættist við internetkostnað án frekara virði fyrir viðskiptavini. Fæstir kunna að stilla beini sjálfir og hafa því ekkert val, þurfa bara að borga leiguna og brosa.
  2. Þjónustuveitur gera þeim sem vilja nota eigin beini erfitt fyrir með því að birta ekki tengiupplýsingar sem þarf á heimasíðum sínum. Með þessu þvinga þeir venjulega notendur til þess að nota leigubeinir sem er forstilltur frá þjónstuveitum.

 

 

Hversu mikið innheimta internetveiturnar alls?

Samkvæmt Hagstofu þá voru um 118.565 einkaheimili þann 31.12.2011 og ef við gefum okkur að 90% þeirra séu með beina frá þjónustuaðila eða um 106.708 heimili, og að meðalleiga sé 720 krónur á mánuði þá eru þjónustuveitur að innheimta umtalsverðar fjárhæðir með þessari gjaldtöku.

Þjónustufyrirtækin eru að innheimta fyrir leigu á beinum.

76.829.760 krónur á mánuði

921.957.120 krónur á ári

Með námundun má segja að internetveitur á Íslandi hafi innheimt um 5 milljarða króna fyrir beinaleigu síðan hún hófst árið 2009.

 

 *Með fyrirtækjum eru um 123.415 XDSL eða ljósleiðtaratengingar í dag en hér er bara horft til einkaheimila

 

Gjaldtaka

Það eru 7 ár síðan þessi gjaldtaka hófst og algengt leiguverð á beini er 650 til 790 krónur en ég gef mér hér að meðalleiga sé 720 krónur á mánuði. Með þessum upplýsingum getum við gefið okkur að venjulegt heimili hafi á þessum 7 árum greitt þjónustuveitu sinni samtals 60.480 krónur í beinaleigu á þessu tímabili.

Þetta gerir 8.640 krónur á ári eða kaupverði á ágætis beini á hverju ári.

 

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið í trúnaði frá starfsmönnum símfyrirtækja og reynslu mína, þá leyfi ég mér að áætla innkaupsverð á beini sé frá 5.000 til 8.000 krónur á algengustu beinum sem notaðir eru. Vitanlega kosta þeir meira fyrir minni internetveitur og sér í lagi ef keypt er frá umboðsaðila á Íslandi en stórfyrirtæki eins og t.d. Síminn og Vodafone borga mun minna enda kaupa þeir beina í miklu magni.

 

 

Hvað er innifalið í leigunni?

Samkvæmt upplýsingum frá þjónustuveitum þá er þessi gjaldtaka hugsuð til þess að 1) borga vélbúnaðinn (beina) og 2) þjálfa starfsmenn til þess aðstoða viðskiptavini sem lenda mögulega í vandræðum (kenna þeim að endurræsa?).

Samkvæmt heimildum mínum þá segjast internetveitur reka beinaleigur sínar með tapi.

 

Skoðum smá dæmi.

Til að setja þetta í samhengi þá skoðaði ég hvernig þessu er háttað hjá foreldrum mínum, aðallega vegna þess að þau hafa notað sömu þjónustuveitu lengi og vita nákvæmlega hvaða dag (líklega klukkan hvað) var skipt um beini síðast. Þau eru með 3 mánaða beini í dag en þar á undan með sama beininn í rúmlega 4 ár. Þjónustuveitan hefur innheimt rúmlega 33 þúsund krónur í leigu fyrir þennan beini sem kostar í dag um 6.000 á netinu (án magnafsláttar).

Með einföldun hafa því foreldrar mínir greitt þjónustuveitunni kaupverð beinis og síðan auka leigu uppá 27 þúsund krónur sem þá nýtist í þjálfun starfsmanna.

Ef ég miða við 3.000 króna tímakaup þá hafa foreldrar mínir greitt fyrir 9 klst af kennslukostnaði internetveitunar á þessum 4 árum eða um 2:15 klst á ári ásamt því að borga upp beininn á fyrsta árinu. Með mikilli einföldum heimfæri ég þessa útreikninga niður á árið og yfir á þessi 106.708 heimili þá má segja að þau greiði ansi mikið fyrir þjálfun starfsmanna þjónustuveitunnar.

 

Heimili landsins borga þjónustufyrirtækjum fyrir 240.093 klst í kennslu á ári  *

Þetta eru rúmlega 33.012 vinnudagar á ári miðað við 8 klst vinnudag   *

Þetta eru því árslaun 127 starfsmanna miðað við 3.000 króna tímakaup með gjöldum   ***

Fyrir afgangin geta heimili landsins keypt 33.613 beina á ári m.v. 6.000 króna innkaupsverð  **

 

 * 2,25×106.708=240.093 klst /8 = 33.012 vinnudagar
** 921.957.120-(240.093*3.000)=201.678.120/6.000=33.613 beinar
*** Almennt er talað um að það séu 260 vinnudagar á ári
Þessi útreikningur tekur mið af því að öll heimili séu eins og heimili foreldra minna og að beinir endist í 4 ár
Þetta dæmi er meiri leikur en alvara og því ekki hugað að því að taka vsk af  innheimtu fyrir launaútreikning o.s.frv.

 

Hvað er innifalið í leigunni?

Langflestir beinarnir eru með helstu stillingum á svæði í beinunum þar sem venjulegir notendur komast ekki í og þegar beinir er endurræstur þá hringir hann inn til þjónustuveitur og sækir nýjar stillingar. Þekkja ekki allir netvandamál sem eru leyst með því að endurræsa beininn?

Fyrir langflesta er þetta mikill kostur þar sem þjónustuveitan getur sinnt og fylgst með gæðum þjónustunnar (QoS, bestun línu, uppfærslum á beini o.s.frv.). Beinar sem viðskiptavinir fá frá þjónustuveitum duga líklega flestum heimilum en um leið og kröfur eða umferð eykst þá duga þeir varla. Held að flestir stórnotendur eða þeir sem vilja breyta stillingum (t.d. fyrir Netflix) séu sammála um að meirihluti routera sem leigðir eru út af internetveitum dugi varla í eitthvað svoleiðis.

 

Persónulega finnst mér flestir beinar sem ég hef prófað hjá þjónustuveitum….. bölvað drasl, takmarkaðir og ráða illa við mikla umferð.

 

Hvað er til ráða?

Vitanlega þarf ekkert að gera, við Íslendingar erum vön því að láta bjóða okkur svona viðbótar gjaldheimtu í ýmsum myndum, þetta eru líka bara 720 krónur á mánuði og hver hefur ekki efni á því?  #Kingpins

Ég vill meina að internetveitunum beri að vera með stillingasíðu þar sem sjá má allar stillingar sem þarf á beini til að tengjast viðkomandi fyrirtæki. Ef þetta er gert þá er gjaldtakan fyrirgefanleg þar sem viðskiptavinir sem eru minna tæknisinnaðir hafa loksins val, leigja áfram beina eða kaupa beini og stilla sjálfir. Mögulega er hægt að vera með 2 ára kaupleigu eða meðan lögbundin ábyrgð varir og eftir það ekkert support nema á vefsíðu.

Ég tók saman fyrir skemmstu hvernig hægt er að nota keyptan beini hjá Símanum og Vodafone, en þessi samantekt var erfið, ég þurfti að marghringja í þjónustuverið og fikta töluvert til að fá þetta til að virka.

Elsku þjónustuveita, viltu hættu þessari innheimtu strax eða setja upp leiðbeiningar á vefsvæði þínu sem gefur okkur neytendum val milli leigu og eigin beinis.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira