Heim Ýmislegt Síminn og Nova eru að brjóta lög um Nethlutleysi

Síminn og Nova eru að brjóta lög um Nethlutleysi

eftir Jón Ólafsson

Friðhelgi notenda og frelsi á internetinu eru hlutir sem við hér á Lappari.com höfum lengi fjallað um. Í stuttu máli þá viljum við að notendur geti notað internetið, þjónustur eða öpp á jafnréttisgrundvelli án þess að yfirvöld eða internetveitur viti af því eða geti haft áhrif á það. Þessir aðilar eiga aldrei að vita hvað við erum að gera á netinu og verða að gefa okkur jafnan aðgang að öllu internetinu..

Annað sem er jafnvel enn mikilvægara en það er að réttur allra á internetinu skal vera sá sami. Það er því bannað er að mismuna með því að veita ákveðnum fyrirtækjum samkeppnisforskot á kostnað annara.

Fyrir okkur var Evrópu reglugerð sem samþykkt var 30. apríl 2016 áfangasigur í þessa átt en hún tekur fyrir nethlutleysi (e. Net neutrality) innan ESB. Það er búið að taka þessa reglugerð upp í EES-samninginn (íslenskt þýðing hér) sem Íslendingar eru aðilar að. Síðan eftir að Alþingi innleiddi þessar reglur/tilmæli í íslensk lög þá hafa þessi “tilmæli” nú lögfestu hér á Íslandi (sjá vef Alþingis).

Vefur Póst og fjarskiptastofnunnar er ekki uppfærður frekar en oft áður en samkvæmt honum er Nethlutleysi enn ekki innleitt hérlendis (15.07.2018).

 

Hvað þýðir Nethlutleysi?

Það má segja að Nethlutleysi og reyndar netfrelsi séu samofin hugtök, hvort um sig snúa að eins óheftu flæði upplýsinga um Internetið og möguleiki er á. Baráttan fyrir netfrelsi og hlutleysi er í raun og veru barátta fyrir málfrelsi á internetinu. Þar eiga allar hugmyndir sama rétt sér og engin samtök, fyrirtæki, regluverk eða ríkisstjórnir hafi rétt til að ritskoða þær eða almennt að skoða eða hagnast á þeim.

Stór partur af Nethlutleysi er að internetveitur mega ekki gera greinarmun á þjónustum sem við notum á internetinu og mismuna þeim, hvorki í verðum né hraða.

Allt eða ekkert er grundvöllur nethlutleysis.

 

 

Síminn

Síminn streymir Spotify ókeypis á farsímaneti sínu og hefur reyndar gert lengi.

Þú streymir tónlistinni fyrir 0 kr. á farsímaneti Símans með Spotify hjá Símanum.

Síminn hefur gert þetta lengi eins og fyrr segir en í fljótu bragði fann ég fyrst talað um þetta á Símablogginu fyrir rúmlega þremur árum síðan.

Líklega má segja að Síminn hafi líka brotið þessi lög með því að takmarka Sjónvarp Símans bara við viðskiptavini Símans en það er nú breytt. Síminn breytti þessu eftir tilmælum frá Póst og fjarskiptastofnun.

 

Nova

Snapchat telur ekki af gagnamagni notenda hjá Nova.

Nova kynnti þetta í blogg færslu sem heitir einfaldlega “endalaust snapp hjá Nova” og birtist 6. júní 2018.

Þú getur Snappað endalaust í sumar án þess að eyða gagnamagni hjá Nova!

 

 

Hvað eru Síminn og Nova að bralla með þessu?

Fyrirtækin sem við kaupum internetaðgang af, eins og Síminn og Nova í þessu tilfelli, hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Internetið er ekki þjónusta sem Síminn eða Nova eiga og selja þér aðgang að. Samkvæmt lögum ættu þau ekki að velja hvað þeir selja þér aðgang að og hvað skal vera ókeypis.

Þau eiga ekki bara að veita okkur þennan aðgang að internetinu heldur verða þau að gera það án þess að greina/flokka þá þjónustu sem við notum eins og nú hefur komið í ljós að þau gera.

Eftir að hafa skoðað ESB reglugerðina, síðan EES reglugerðina og síðast en ekki síst íslensku lögin þá er nokkuð ljóst að bæði Síminn og Nova eru að brjóta þessi lög. Þessum fyrirtækjum er ekki heimilt mismuna þeim fyrirtækjum sem við viljum mögulega versla við.

Þetta segir í nýsamþykktum lögum um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003

“Fjarskiptafyrirtæki sem veitir aðgang að internetþjónustu skal meðhöndla alla fjarskiptaumferð jafnt, án mismununar, takmarkana eða truflunar og óháð sendanda eða móttakanda, því efni sem sótt er eða miðlað, þeirri þjónustu sem notuð er eða boðin fram og þeim búnaði sem er notaður.”

Til viðbótar segir þó “er fjarskiptafyrirtæki heimilt að beita umferðarstýringu á netumferð sé stýringin nauðsynleg, gagnsæ, hófleg og án mismununar.

Fyrir mig er þetta spurning um hvort þessi aðgangstýringin (whitelist) sé “nauðsynleg, gagnsæ, hófleg og án mismununar.”….   ég mundi einmitt telja að þessi undanþága eigi ekki við, enda tilgangurinn líklega bara markaðslegur.

 

Afhverju er þetta slæmt fyrir notendur?

Þó að ég sem viðskiptavinur Símans hafi notið þess að streyma Spotify fyrir 0 kr. þá er þetta rangt. Fjarskiptafyrirtæki mega ekki mismunað fyrirtækjum á þennan hátt án þess að hafa fyrir því góðar ástæður.

Þetta hamlar samkeppni og heldur notendum kerfanna inn á þeirri þjónustu sem hentar þessum fjarskiptafyrirtækjum. Má ekki segja að íslenskar internetveitur séu með þessu að hefta það að íslenskur (eða erlendur) keppinautur geti keppt við Spotify eða við Snapchat á jafnréttisgrunni enda ólíklegt að notendur færi sig úr tónlistarveitu sem streymt er ókeypis hjá fjarskiptafyrirtæki.

 

Hvert verður framhaldið?

Ég hef trú á því að Póst og fjarskiptastofnun muni beita sér gegn þessum fyrirtækjum og mögulega öðrum fyrirtækjum á næstu vikum og misserum enda er það þeirra hlutverk.

Það er líka okkar að fylgja þessu eftir og láta vita af því sem miður fer. Ég er ánægður með að sjá stjórmálamann eins og Smári McCarthy vera vakandi yfir þessu málefni.

Þetta er nefnilega gríðarlega mikilvægir hagsmunir fyrir okkur sem notendur og í raun grundvallaratriði fyrir áframhaldandi vöxt internetsins. Netið býður uppá jafna möguleika og tækifæri fyrir alla vegna þess að allar þjónustur eiga að hafa jafnt gildi. Internetið á að gera nýliðum sömu tækifæri og þeim sem hafa veitt þjónustu á internetinu lengi.

Ef þér mundi detta í hug að stofna streymisþjónustu á borð við Spotify, þá gætir þú líklega aldrei keppt við Spotify ef notendur þeirra fá ókeypis gangnamagn…. eða hvað?

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira