Heim Föstudagsviðtalið Stefán Hilmarsson

Stefán Hilmarsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 69 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Við höfum reynt að hafa viðtölin okkar fjölbreytt og þannig reynt að hafa hæfilega blöndu af nördum og þjóðþekktu fólki. Sem dæmi um þekkta einstaklinga má nefna Gumma Ben, Þórarinn H, Tobbi, Darri, Ágústa Eva, Frikka, Heiðar Örn, Arnar, Hjörvar Hafliða og svo mætti lengi telja en það má með sanni segja að skalin verður sprengdur í dag.

Það vita líklega flestir sem þekkja til ritstjóra Lappari.com að hann er mikill aðdáandi næsta viðmælenda okkar og hefur verið lengi. Hann er mikill snillingur og stórstjarna á alla mælikvarða en þetta er enginn annar en Stefán Hilmarsson tónlistarmaður..

 

Stefán hefur verið áberandi í núna fyrir jólin en hann var að gefa út nýja jólaplötu sem heitir “Í Desember” og er hægt að hlusta á hljóðdæmi eða kaupa eintak á heimasíðu Stefáns.

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég fæddist í Reykjavík og bjó þar meira og minna uns ég fluttist í Kópavog árið 1996.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er tónlistarmaður og hef brallað við það meira eða minna frá árinu 1987.

 

Hvernig er venulegur dagur hjá þér?

Dagarnir eru ólíkir, stundum er rólegt, stundum er voða mikið að gera og allt þar á milli. Þessi dægrin er ég á fullu við að kynna, selja og dreifa nýrri jólaplötu minni, á milli þess sem ég skipulegg og syng á jólatónleikum og við ýmiss önnur tækifæri um víðan völl.

 

Nú er jóladiskur frá þér kominn á markað, hvernig er að vinna að jólaplötu og er erfitt að koma sér í jólastuð um mitt sumar.

Þessi plata var nokkuð lengi í undirbúningi, í 1-2 ár lagði ég drög að henni. Upptökur hófust síðsumars og teygðu sig fram í nóvember. Það er sumpart skrýtið að syngja jólalög í ágúst, en músíkin setur mann sjálfkrafa í rétta gírinn, jafnvel þótt úti séu grundir grænar.

 

Hvernig er jóladagskráin hjá þér?

Ég hélt sjö formlega jólatónleika á aðventunni og söng að auki hér og þar. Síðan verð ég á ferðinni með Sálinni milli jóla og þrettándans. Að öðru leyti er það bara hefðbundin fjölskyldu- og vinadagskrá um og yfir hátíðarnar, nokkur boð og vinafundir yfir spilum og léttöli.

 

Er önnur plata væntanlegt frá þér eða Sálinni?

Það eru ekki uppi föst áform um það eins og er. Ég á fullt í fangi með nýju jólaplötuna um þessar mundir og sé til með framhaldið á nýju ári. Vera má að Sálin láti eitthvað að sér kveða þegar líða tekur nær sumri. Enn er þó allt óákveðið hvað útgáfu varðar.

 

Ertu með einhverja sturlaða staðreynd af þér eða samstarfsmanni sem alþjóð verður að vita.

Varla. Nema kannski það, að þegar ég les dagblöð þá ríf ég smátt og smátt litla búta úr þeim. Konunni finnst þetta undarlegt, en mér eðlilegt.

 

Lífsmottó?

Ég lifi svosem ekki eftir neinum móttóum. En málshátturinn „Hver er sinnar gæfu smiður“ finnst mér sígildur.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Minn heimabær er Kópavogur, hér býr vitaskuld margt þekkt tónlistarfólk. Í sviphendingu get ég nefnt Guðrúnu Gunnarsdóttur, Björn Thoroddsen, Þóri Úlfarsson og Insol. Rapparinn Erpur er einnig úr Kópavogi.

 

Hvernig tölvu notar þú?

Ég hef verið Makkamaður frá árinu 1984. Á tímabili var ég við það að skipta yfir í Windows, það stóð tæpt, en eftir að nafni minn Jobs kynnti til sögunnar fyrsta iMakkinn, hætti ég við og hef ekki íhugað skipti.

 

Hvaða tölva er best í geimi og afhverju?

Ég er mjög hallur undir flest sem Apple-fyrirtækið frá Kaliforníu hefur upp á að bjóða.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Svarið við þeirri spurningu er hægt að lesa úr fyrri svörum 😉

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Hann fer mér vel.

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Nei. og hann þolir mig ágætlega.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Til að tala við fólk, lesa tölvupóst, skoða fréttir, taka myndir og sem vekjaraklukku.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það hygg ég að hafi verið Siemens. Söngvarinn Pétur Örn Guðmundsson, sem á þeim tíma lék og söng með mér í Jesus Christ Superstar, keypti hann af mér þegar ég skipti yfir í Nokia. Þannig má segja að Júdas hafi selt Jesúsi notaðan farsíma. Ég fékk greitt í nokkrum silfurpeningum, minnir mig.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Þessi spurning svarar sér sjálf.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég fylgist ekki mjög mikið með tækni. Mér finnst líklegra að tæknin fylgist meira með mér, sbr. Facebook og fleiri álíka firma sem teygja anga sína um óravíddir alnetsins.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég er þakklátur fyrir allan þann stuðning sem ég hef notið í gegnum árin. Gleðileg jól og gangi ykkur vel í hverju sem þið takið ykkur fyrir hendur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira