Heim Föstudagsviðtalið Sigfús Örn Guðmundsson

Sigfús Örn Guðmundsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 192 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

Byrjum á föstudagslaginu fyrir Sigfús

 

 

Hver er þessi Sigfús og hvaðan er kallinn?

Sigfúsi er líklega lýst sem Breiðhyltingi, íþróttaáhugamanni, bjartsýnisrómantíker, sem er mikið í tölvunni og með fjölskyldunni og drekkur góðan bjór þegar færi gefst. Hann er 41 árs og ferðast helst um vestfirði í sumarfríum. Bjó í Bústaðahverfi til sex ára, þá í Bakkahverfi í Breiðholti næstu 25+ árin. Líka Dýrafjörður öll sumur þar til hann byrjaði í FB. Svo Aarhus, nú Árbær. Og greinilega skrifar um sig í þriðju persónu við tækifæri. Sorrí.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég sé um markaðs- og samskiptasvið hjá Medis og þar með er líka samskiptasvið Actavis á Íslandi, sem líklega fleiri þekkja. Ég byrjaði þar 2013, tæpu ári eftir að ég kom frá Danmörku. Við fluttum til Danmerkur 2006 og vorum í rúm sex ár við nám og störf.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ræs kl 07:00. Þrjú börn, einn maki, smyrja nesti, skutl, leikskóli, skóli, vinna, skoða netið (les. Twitter), vinna, skoða netið, sækja, æfingaskutl, sækja, elda kvöldmat, knúsast, vinna, drekka bjór, skoða netið, jafnvel kíkja á íþróttaleik/tónleika. Fer svo að sofa um 01:00 vanalega.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Er alltaf að vinna í ýmsum misskemmtilegum verkefnum í dagdjobbinu í bæði bjúrókratísku og dýnamísku umhverfi, sem er hressandi.

 

 

Eitthvað skemmtilegt planað í sumar?

Það er ekki alveg búið að negla sumarfríið niður en fjölskylduna langar mikið að skella sér til Akureyrar og svo förum við alveg örugglega í Dýrafjörðinn; Westfjords is bestfjords. Já og bjórhátíðin á Hólum í Hjaltadal fyrstu helgina í júní, sem er árviss gleðiferð sem opnar sumarið!

 

Hvert er draumastarfið?

Það er nú ekki ósvipað mínu núverandi starfi, nema kannski að viðbættri launahækkun (wink). Sé mig reyndar fyrir mér sem nokkurs konar techno-bónda líka, vinnandi í fjarverkefnum heima, úti á landi, með lítinn sjálfsþurftarbúskap og jafnvel brugghús í hlöðunni til gerðar dundurglundurs™. Sjáum hvað gerist í næsta hruni. Aðrir synir og dætur Breiðholts hafa gert þetta, svo ég læt mig dreyma.

 

Lífsmottó?

Kannski ekki mottó en lífsskoðun kannski um að vera næs við sem flesta, slaka á og njóta. Já og „þú þarft ekki að hafa skoðun á þessu“ kemur líka sterkt inn í seinni tíð.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Fjárfesta, ferðast og njóta mín með fjölskyldunni. Boring, ég veit.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Grunar að ég geti talið upp topp tónlistarmenn fyrir bara Breiðholtsskóla, sem hefur getið af sér fjölmarga snillinga, hvað þá Breiðholtið í víðara samhengi. Margir álitlegir svo þetta verður erfitt en Breiðholtið hefur m.a. fært okkur, í engri sérstakri röð:

  • Stafrænn Hákon
  • Hljómsveitin Ég
  • Grísalappalísa
  • Hafdís Bjarna
  • Jon Bird

Ofl. ofl. ofl. Má breyta? Gæti haldið lengi áfram. Örugglega tvær kynslóðir eftir þessa ellihrelli líka. Má ég hringja í vin því ég er með gloppótt minni?

 

Býr tæknipúki í þér?

Já en það er orðið djúpt á honum. Ég hef samt mjög gaman að því að lesa greinar og pælingar um strauma og stefnur og átakalínur stafrænunnar en minna um „specs“ og „thingamajigs“ sem eru að koma í búðir.

 

Apple eða Windows?

Sígild spurning, slappt svar, því mér þykir bæði betra og þoli reyndar illa skotgrafir rétttrúaðra í öllu. Kann að meta margt í mörgu.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Ég nota lappa í allt. Er vanalega með tvo til þrjá í umferð. Tvo eins og er, ef ég tel ekki Galaxy Tab-spjaldið með. HP EliteBook heima og Lenovo Thinkpad frá vinnunni. Báðar samt rúmlega ársgamlar.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ársgamlan iPhone 7 frá vinnunni. Læt mér hann duga (einn dag í einu).

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Veit ekki hvort það skrifast á símann eða mig en ég þarf að hlaða a.m.k. tvisvar á sólarhring, sem er ánægjuhamlandi. Hann er fáum kostum gæddur umfram aðra en hann virkar og það er mikilvægur kostur.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég kann líka að meta að hafa margt við höndina í símanum og nota helst póstinn, dagatal og fjarfunda- og verkefnaöpp. Lörka líka á Twitter (HMU @sigfusorn) allan sólarhringinn.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Motorola SlimLight sem ég fékk frá TALi á kostakjörum 1997-ish.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Minn er a.m.k. nýtnari á rafmagnið og hann hleður sig á meðan ég ýti á skjáinn með fingrarafmagninu einu saman, með stórum, þunnum, samanbrjótanlegum skjá án sjáanlegra fellinga. Fallegur og léttur. Bið ekki um mikið.

 

Hvað sérðu fyrir þér sem næstu stóru tækniframförina?

Er sjálfur spenntur fyrir ýmsum hnökralusum lausnum alls konar yrkja og þjarka sem létta á hversdeginum. Svo koma vonandi fleiri snartjúllaðir hugsjónamenn eins og Elon Musk með eitthvað galið samspil rafmagns og vinnslu þess og þeir gera eitthvað geggjað svo heimurinn verði aðeins betri. Hann verður samt líklegast almennt verri, en það er út af öðru.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Í mismiklum skömmtum á netrúntinum eru m.a. BoingBoing, TechCrunch, Gizmodo, Lifehackr og Mashable, ásamt Lappara að sjálfsögðu. Ekki endilega allt tæknisíður sem slíkar en hollt fyrir miðaldra úthverfapabba eins og mig að hnjóta reglulega um óþekkt efni.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Sumarið er tíminn, sagði skáldið. Ekki efast, bara sjúga í sig lífskraftinn fyrir næsta endalausa vetur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira