Heim Föstudagsviðtalið Jónas Sigurðsson

Jónas Sigurðsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 199 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur…

Föstudagslagið er nýjasti singullinn hans Jónasar..

Hver er þessi Jónas Sig og hvaðan er kallinn?

Ég er frá Þorlákshöfn upprunalega. Hef síðan verið hér og þar eins og skáldið sagði. Ég er tónlistarmaður og forritari. Ég er fjölskyldumaður og frumkvöðull sem elska sköpun og elskar að sjá sköpunina verða að veruleika í heiminum.

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég hef í rauninni verið þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa drauma mína rætast. Draumar mínir snerust um það að fá að vera starfandi í tónlist að geta gefið út eigin tónlist, vera með hljómsveit, halda tónleika og njóta nægrar velgengni til að greiða öllum laun og láta hlutina ganga upp. Það hefur gengið eftir hjá mér og gott betur en það. Á sama tíma óskaði ég mér þess að fá að njóta þess hvað ég er mikið nörd. Þar hef ég verið að njóta mín mest gegnum þáttöku í sprotafyrirtækjum þar sem ég hef forritað og svo með tímanum meira færst yfir í arkitektúr hugbúnaðakerfa og síðar sem frumkvöðull.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Týpískur dagur. Þá er ég vakna svona rúmlega 9. Steiki nokkur egg eða þá að konan mín er búinn að malla einhverja eggjakökusnilld með rifnum ítölskum parmesan osti. Þá tek ég yfirleitt svona hálftíma í að skrifa í dagbókina mína eða fara gegnum Yoga Nidra hugleiðslu. Eftir það taka gjarnan við “remote” fundir í sprotanum mínum fram að hádegi. Eftir hádegi kíki ég á skrifstofuna og forrita eða brainstorma einhverja hugbúnaðarhönnun. Nú, eða ef það er músiktími hjá mér þá fer ég á kaffihús að hugsa um texta eða í upptökusession með góðum vini eins og Ómar Guðjónsson. Hann er svo mikill meistari og höfðingi heim að sækja að dagurinn með honum byrjar alltaf á gúrme máltíð sem hann eldar sjálfur og þar er ekki slegið slöku við, enda meistarakokkur. Eftir máltíðina er hefð að laga kaffi úr sérinnfluttum baunum auðvitað og þá er loks hægt að kíkja í stúdíóið að skoða tónlistina í góðum fíling.

Það rennur eiginlega upp fyrir mér við að svara þér að líf mitt er fullkomið 🙂

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Aðeins of margir hlutir í gangi líklega. Það er saga lífs míns og ég hef sætt mig við það. Ég er náttúrulega með einhverskonar ADHD og fjöldi verkefna í hausnum eftir því. Nú um nokkurt skeið hef ég unnið með “business-coach” / markþjálfa sem fer reglulega yfir stöðuna með mér og hjálpar mér að hoppa ekki bara alltaf í næsta verkefni, og svo næsta og næsta, heldur fókusera og klára það sem ég er með í gangi. Það hjálpar. Akkúrat núna er ég að klára nýja plötu “Milda hjartað” sem kemur út í lok Nóvember. Því fylgir mikil vinna og álag að loka svona stóru verkefni. Heilli plötu. Mix eftir mix sem þarf að grandskoða og vinna í dögum, vikum, mánuðum saman. Það er allt að smella saman. Við erum að æfa band sem mun fylgja eftir plötunni með miklu tónleikahaldi og ég hlakka mikið til þess. Þá er ég líka að skrifa bók með sama útgangspunkt og platan. Þar verða hugleiðingar í tengslum við hvern texta plötunnar og mun bókin koma út eitthvað á eftir plötunni. Ofan á allt saman er ég síðan búinn að vera með eigin sprotafyrirtæki í hugbúnaðargerð síðustu árin sem gengur vel. Þar er að verða til frábær hópur af snillingum sem ég elska að vinna með, hitta og brainstorma. Bæði innanlands og erlendis. Það er virkilega mikill innblástur að umgangast skapandi fólk, frumkvöðla og nörda því það er engin skortur á málum til að ræða, hugleiða og taka flugið með himinskautunum.

Eitthvað skemmtilegt planað í vetur?

Já, gefa út plötu. Gefa út bók. Koma fyrirtækinu mínu á næsta skref í lífinu með aðkomu fleiri hluthafa og fleiri spennandi verkefna. Við konan ætlum að flytja til Spánar í Janúar og vera eitthvað út árið, þó auðvitað alltaf með annan fótinn hérna heima. Bara spennandi hlutir.

Hvert er draumastarfið?

Draumastarfið er nákvæmlega það sem ég er að gera í dag. Ég áttaði mig á því fyrir um 10 árum að ég gæti hreinlega aldrei ráðið mig í vinnu aftur. Þ.e. sem launþegi. Þá tók við langur, stundum erfiður tími þar sem ég var að verktakast og vinna í sprotafyrirtækjum í bland auk tónlistarinnar. Sem er fyrir flesta eðlilegt millistig milli þess að vera launþegi og síðan alveg sjálfstæður. Í þessu samhengi verð ég að minnast á eina (af mörgum) frábæru greinum Paul Graham um akkúrat þetta. “You Weren’t Meant to Have a Boss“. Verð samt líka að taka fram að það er ekkert að ærlegri vinnu. Ég hef lært ótrúlega mikið af því sjálfur. En það er gott að hafa það sem lokamarkmið að verða frjáls.

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Það er svo margt sem mér finnst stórmerkilegt. Konan mín er til dæmis stórmerkilegt undur sem hefur haft ótrúlega mikil áhrif á mig, til góðs. Börnin mín hafa sama eðli. Svo hef ég verið heppinn að fá að upplifa margt misjafnt, upp & niður, út og suður. Þar er ekki hægt að gera upp á milli.

Lífsmottó?

Ég hef sett mér það markmið að reyna á hverjum degi hvað ég get til að muna eftir því að ég er lifandi. Það er ekki sjálfgefið. Hreint ekki. Ég gleymi oft að muna og vera þakklátur. Það er fáránlegt tækifæri að fá að vera lifandi í þessum heimi. Og á þessum tíma líka. Afi minn átti eiginlega ekkert val um nokkurn skapað hlut, þannig séð. Langafi minn vann eins og þræll og dó úr lungnabólgu langt fyrir aldur fram frá fjölda barna. Ég reyni að muna þetta þegar ég kem því við. Það er hollt og gott.

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Ég myndi hrinda í framkvæmd einhverri af þeim fjölmörgu hugmyndum um “samfélagsbætandi sprotafyrirtæki” sem ég hef í hausnum en sé ekki hverni væru framkvæmanlegar annars. T.d. sé ég fyrir mér að nota tækni til að styðja við gamalt fólk, sérstaklega varðandi yfirsýn yfir heilsufar og samskipti við “kerfið”. Það er merkilegt til þess að hugsa hversu mörg sprotafyrirtæki eru að verða til í kringum markaðssetningu í tengslum við áhrifavalda á samfélagsmiðlum og aðra auglýsingadrifna afþreyingu á sama tíma og ótrúlega lítil nýsköpun er í kringum þjónustu við fólk sem á verulega undir höggi að sækja. Ég er ekki með svarið hérna. 500 milljónir væru ágætis byrjun.

Býr tæknipúki í þér?

Já, en samt alltaf á einhvern hátt praktískur. Ég elska tækni en nenni ekki að vera að kaupa rándýr tæki til að elta einhverja nýjustu tækni. Til dæmis nota ég bara “standard” tölvuskjái. Og kaupi yfirleitt “næst-nýjasta” módelið af öllu þegar ég kaupi ný tæki.

Apple eða Windows?

Sko, ég nota Apple fartölvur. MacBook Pro fram til 2015 er að mínu viti einhverskonar hápunktur á fartölvu-verkfræði mannkynssögunnar. Þannig að ég nota hana í allt persónulega og líka þegar ég er að vinna í tónlist. Síðan er ég með PC sem ég nota til að forrita þegar ég er að vinna með ákveðin tól þar sem það umhverfi hentar betur. Annars er ég mest hrifinn af open-source og nota því Linux þegar ég get. Sem er bara því miður ekki nógu oft. En Linux hentar sérstaklega vel í rekstri á hugbúnaði og vefþjónum og allt slíkt. Þar myndi ég alltaf nota Linux þegar því er viðkomið. Apple hafa verið að hrapa hjá mér niður virðingarstigann síðustu ár með óhóflegri græðgi þar sem hefur verið sorglegt að fylgjast með þeim breytast í samskonar einokunarfyrirbæri og Microsoft var talið vera hérna kringum aldamótin síðustu í skjóli einokunnaraðstöðu og lokaðs hagkerfis sem þeir hafa nú komið fyrir á ákveðum sviðum. Þess vegna nota ég bara Android síma.

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

MacBook Pro 2015. 16GB minni og SSD diskur.
Lenovo IdentityPad svipaðir spekkar.

Hvernig síma ertu með í dag?

Samsung S6. Geggjaður sími. Elska hann.

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Endalausir kostir. Hann er til dæmis tengdur internetinu. Ég get setið út í garði og fylgst með öllu sem er að gerast í heiminum gegnum þetta litla tæki. Sturlað dæmi. Ég tek hann með í ræktina og hlusta á podcast eða bækur í Audable. Ég er alltaf með Evernote opið og fanga allar hugmyndir þangað inn. Ég tek hann með í hlaup og nota þá Runkepper til að halda utan um hlaupið auk þess að hlusta á hljóðbækur með Audible. Svo tek ég fínar myndir með símanum. Þetta er náttúrulega bara rugl. Ég lifi í framtíðinni.

Í hvað notar þú símann mest?

Hlusta.

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 1610. Ég man hvað ég elskaði hann. Þetta var einhverskonar “iðnaðarmannaútgáfa”. Ég þorði ekki öðru. Þetta var einhver 40 þúsund króna fjárfesting á þeim tíma. Það var fáránleg tilhugsun að ganga um með svona dýrt tæki á sér.

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Draumasími framtíðarinnar er ekki hannaður til að úreldast. Hann er ekki hannaðar til að gera mig að mjólkurkú fyrirtækja eins og Apple eða Goggle. Hann þarf því að vera opinn og “extensible”. T.d. að ég gæti helst sjálfur skipt um batterý, skjá og svoleiðis. Það er grátlegt finnst mér að henda svona margslungnum tækjum eins og síma þegar eitthvað eitt lítið element skemmist í honum. Að hugsa um alla vinnuna í tækinu, málmana, efnið. Allt þetta sem við erum að henda á hverjum degi. Þannig að draumasíminn er nettur og hann er hannaður til að endast. Í alvöru, að endast. Hann þarf í raun ekki að hafa mikið meiri eiginleika en símar hafa í dag. Öll stærsta byltingin verður í hugbúnaði og virkni sem hægt verður að nálgast gegnum skýið með opnum stöðlum eins og HTTP/HTML. Við þurfum ekki endilega fleiri milljón pixla myndavélar eða fleiri örgjörva í tækið.

Draumasími framtíðarinnar er síðan líka örlítið IoT tæki sem er innbyggt í klósettið mitt og lætur mig vita um heilsu mína og hvernig ég gæti bætt mataræðið. Örlítil IoT tæki inn í öllum mögulegum og ómögulegum hlutum sem saman munu mynda veruleika sem verður svo óskiljanlega furðulegur að við getum ekki einu sinni ímyndað okkur hvernig það verður. Hver hefði getað séð fyrir sér samfélagsmiðla og 10 ára krakka að eiga öll samskipti sín á milli gegnum Snapchat / Instagram.? Ormagryfjuna sem Facebook hefur opnað í samfélaginu þar sem öfl sem áður kraumuðu undir niðri hafa fengið andlit og valdeflst með ótrúlegum hætti. Líka allt þetta jákvæða og skemmtilega sem tæknin hefur gert okkur kleyft. T.d. allir gestir í brúðkaupsveislu að tagga myndir sem birtast á stórum skjá jafnóðum. Hver hefði séð þetta fyrir?

Hvað sérðu fyrir þér sem næstu stóru tækniframförina?

Gervigreind inn í öllu. Svo ósýnileg að við tökum ekki einu sinni eftir því. Hlutirnir “bara virka”, eins og af sjálfu sér.

Fyrir 10 árum hefði mér fundist ævintýraleg tilhugsun að geta sagt við símann eitthvað eins og: “Indian restaurants near me” til að sjá á augabragði bestu indversku veitingastaðina í nágreninu ásamt leiðbeiningum um hvernig ég komist þangað. En núna treysti ég á það hvar sem er í heiminum. Og margt annað sambærilegt þessu.

Ég sé fyrir mér innan 10 ára geti ég sagt: “Google, finndu fyrir mig best staðinn til að slaka á við strönd innan við 4 klukkutíma flug þar sem er líka líf og fjör á kvöldin, tónlist og menning. Ég myndi vilja vera í íbúð með þaksvölum, ekki meira en 500 metrum frá ströndinni. Helst að flugvöllurinn sé ekki lengra en 30 mín akstur frá íbúðinni. Taktu saman fyrir mig 10 mögulegar ferðaáætlanir miðað við dagatalið mitt í september.” BúMM allt komið til þín nokkrum sek síðar. Þú velur einn valkost og “agentinn” gengur frá öllu, miðum, bókunum, losar dagatalið. Því miður verður ólíklegt að þú getir sagt þetta á Íslensku reyndar.

Eftir 20 ár get ég síðan örugglega sagt við símann minn: “Goggle, please run my company for the next year. I’m going offline”. Og fyrirtækið verður í margfalt betri höndum en nokkurntíma áður. Það er svo sturluð þróunin á þessu sviði.

Önnur stór tækniframför, sjálfkeyrandi ökutæki sem mun breyta algjörlega upplifun okkar af því að lifa í borgum. T.d. Reykjavík. Að sama skapi mun verða mun auðveldara að búa í dreifbýli utan við borgina því samgöngur verða svo fáránleg auðveldar og fyrirferðalitlar. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað sjálfkeyrandi ökutæki munu fljótt taka yfir einkabílinn. Sjálfkeyrandi farartæki verða í allskonar myndum. Sjálfkeyrandi skrifstofur, sjálfkeyrandi kaffistofur sem ferðast um bæinn og pikkar upp fólk úr vinahópnum. Eðli farartækja mun breytast svo mikið. Það er það sem verður algjör game-changer.

Ég held líka að við eigum eftir að sjá eitthvað ótrúlegt gerast með drónum. Til dæmis sá ég nýlega demó af drónum frá Intel sem geta búið til “flugeldasýningu” á himninum, þúsundir samhæfðra dróna í loftinu mynda sýninguna með LED ljósum. Allt samhæft með ótrúlegri nákvæmni. Sturlað dæmi. Maður getur ekki byrjað að sjá fyrir sér hvað verður hægt að þróa með svona drónum. Hverskonar flutningur á fólki, varningi. Margir drónar grúppaðir saman til að mynda ákveðnar þjónustur. Svo bætirðu gervigreind í mengið og þá eru möguleikarnir orðnir óendanlegir. Það eru ekki mörg ár í viðbót þar sem mannlegur hugur mun geta haldið utan það hvað drónarnir og gervigreindin er að gera.

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Alltaf Hacker News. Digg og Reddit líka en það er meira allskonar. Kíki svo endrum og eins inn á Slashdot af gömlum vana.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Takk fyrir mig.

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira