Heim Föstudagsviðtalið Þóra Sif Guðmundsdóttir

Þóra Sif Guðmundsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 198 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Byrjum á föstudagslaginu hennar Þóru en það er Dreams með Fleetwood Mac.

 

Hver er þessi Þóra Sif og hvaðan er daman?

Ég er 29 ára stelpa úr Hafnarfirði, en flutti í miðbæ Reykjavíkur fyrir rúmu ári síðan. Stunda nám við Háskóla Íslands í bókmenntafræði og ritlist og á fyndnasta kött landsins.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég hef starfað við ýmislegt. Ég er menntuð sem klæðskeri þannig ætli það sé ekki aðal atvinnan sem ég hef haft síðastliðin ár. Núna er ég hins vegar 100% námsmaður.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Byrja á því að snúsa vekjaraklukkuna allt of oft, kúri smá með kisu og flýti mér svo að hafa mig til og fer í skólann. Þegar ég er ekki í skólanum eða að læra heima þá finnst mér lang best að liggja eins og klessa yfir góðu sjónvarpsefni eða lesa bók. Svo er líka alveg næs að hitta vini sína.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Eins og er þá er ég bara á fullu í verkefnaskilum í skólanum, fátt annað sem kemst að á miðri önn. Frekar óspennandi.

 

Eitthvað skemmtilegt planað í vetur?

Ég er að fara til Kaupmannahafnar í lok október með vinkonu minni á Bon Iver tónleika og að hitta vinkonu okkar sem er nýbúin að eignast barn. Mjög spennt fyrir þeirri ferð! En annars er ekkert annað svakalegt planað.

 

Hvert er draumastarfið?

Þetta er erfið spurning. Ég er svo mikill sveimhugi og fiðrildi, er alltaf að skipta um skoðun. Ég á smá erfitt með að vera of föst í rútínu, væri geggjað að vera með sveigjanlegan vinnutíma og fjölbreytt verkefni. Hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur bókum og svo finnst mér sjúklega gaman að þýða, væri til í að vinna við það. Elska líka að ferðast og koma til nýrra landa, þannig ef að væri partur af starfinu þá væri það sweet! En ætli draumurinn sé ekki bara að vera með góða og stabíla vinnu sem ég hef gaman af og líður vel í, fæ nógu mikið borgað þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Það gerist nú ekki mikið merkilegt hjá mér og ef eitthvað gerist sem telst merkilegt þá passa ég mig á að láta alla vita sem fyrst.

 

Lífsmottó?

Grín mottóið mitt er fólk er fífl, en mömmu minni finnst það ekki fyndið.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er latasta manneskja Íslands.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Myndi byrja á því að taka allan peninginn út og leigja sundhöllina svo ég gæti synt í seðlunum mínum eins og Jóakim Aðalönd. Síðan myndi ég gera það leiðinlegasta og borga upp allar þær skuldir sem ég hef, sem eru svo sem ekki miklar. Svo myndi ég kaupa mér lítið, fallegt og gamalt hús með sætum garði sem ég myndi breyta og bæta og gera upp svo það væri nákvæmlega eins og mig dreymir um. Ég myndi pottþétt gefa foreldrum mínum einhvern pening, en það væri svo sem hægt að flokka það undir að borga skuldir. Svo myndi ég fara í heimsreisu og njóta lífsins.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Fyrst ber að nefna Friðrik Dór og Jón Jónsson súperstjörnur. Svo eru stelpurnar í Ylju báðar úr Hafnarfirði. Svo hefur Laddi búið í Hafnarfirði síðan ég veit ekki hvenær. Var einu sinni að bera út bæklinga þegar ég var krakki, ásamt vinkonu minni, og við bönkuðum upp á hjá honum og heilsuðum upp á hann. Það var MJÖG spennandi.

 

Býr tæknipúki í þér?

Nei ég get svo sem ekki sagt það. Næ að klóra mig fram úr dags daglegum tæknivandamálum sem kunna að koma upp, en ekkert meira en það.

 

Apple eða Windows?

Apple

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Ég er með MacBook Pro fartölu sem ég elska.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 7

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Frábær sími í alla staði. Áður en ég keypti hann var ég með iPhone 5 sem var við það að gefa upp öndina þannig mér finnst þessi mjög hraður og flottur! Eina sem er alltaf vesen hjá mér er að ég væri til í að vera með meira minni í honum, ég tek alltaf svo mikið af myndum. En það er svo sem bara nískan í mér að kaupa ekki síma með fleiri gb.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég nota símann í samfélagsmiðla (þá helst twitter og Instagram), vafra um veraldarvefinn, taka myndir, skoða tölvupóstinn, hringja og eiga í samskiptum við vini og vandamenn.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég keypti fyrsta símann minn í BT og það var Nokia 3310, þetta var eitthvað fáránlegt opnunartilboð þar sem voru nokkur eintök á 10 krónur ef ég man rétt. Ég nældi mér í þannig eintak og var gífurlega ánægð með hann. Var mikið í snake og að skrifa upp mína eigin hringitóna. Keypti líka super cool front sem var dökkblár og með eldingum.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Ótakmarkað minni, rafhlöðuendingin þúsundföld og fullkomin myndavél, sem væri hægt að stilla meira eins og á venjulegum myndavélum. Skjárinn væri þannig að maður gæti stækkað hann ef maður þyrfti og birtan frá honum væri ekki slæm fyrir augun.

 

Ertu með snjallheimili?

Alls ekki.

 

Hvað sérðu fyrir þér sem næstu stóru tækniframförina?

Æ ég veit það ekki… vona alltaf bara að það komi einhver framför í læknavísindum svo hægt verði að hjálpa fólki sem er með ólæknandi sjúkdóma.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Fylgist ekki með neinum sérstökum síðum. Bara ef það gerist eitthvað hellað sem kemur í fréttirnar og þá les ég greinar um það.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Góða helgi og ráðið mig í vinnu takk!

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira