Heim Föstudagsviðtalið Sigurður Sæberg Þorsteinsson

Sigurður Sæberg Þorsteinsson

eftir Jón Ólafsson

Eftir smá dvala þá er loksins komið að næsta viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 194 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Byrjum á einu af uppáhaldslögum Sigga frá síðasta ári.

 

Hver er þessi Sigurður Sæberg og hvaðan er kallinn?

Vonandi bara ágætis 38 ára náungi, sem á þrjár stúlkur á aldrinum 3-14 ára, eina fína frú og ágætan garð. Fæddur og uppalinn í Breiðholtinu, gekk í Verslunarskólann og sinnti háskólanámi í suðurríkjum Bandaríkjanna ásamt því að spila fótbolta með skólaliðinu. Hef því eytt drjúgum hluta ævinnar í að elta fótbolta um misslétta íslenska og ameríska fótboltavelli í treyjum hinna ýmsu liða, þó aðallega hinni glæsilegu rauðu Valstreyju. Uni nú hag mínum vel með fjölskyldunni í Lindahverfinu í Kópavogi og berst daglega við að halda einhvers konar vinnu-einkalífs jafnvægi.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er framkvæmdastjóri rekstrarlausna hjá Advania og er á mínu þriðja starfsári hjá því góða fyrirtæki. Ég hef mestan part starfsævinnar sinnt störfum í tæknigeiranum, en á einnig að baki nokkur ár í flugrekstri hjá Air Atlanta og Íslandsflugi auk þess að hafa sinnt starfi sölu- og markaðsstjóra Líflands í eitt ár.

 

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Dagarnir geta verið æði misjafnir en nokkuð dæmigerð útgáfa hefst með því að ég vakni um kl. 6.30 og rölti með elstu dóttur minni blaðburðarhringinn í hverfinu. Morgunverkin eru nokkuð hefðbundin og miða að því að nærast hratt og örugglega, skima yfir blöðin og tryggja að dæturnar geti rölt af stað í skólann um 8 leytið. Í kjölfarið liggur mín leið niður í Guðrúnartún þar sem besti kaffibolli borgarinnar bíður mín hjá honum Árna okkar. Verkefnin í vinnunni eru ansi fjölbreytt, en alla jafna er dagskráin frekar þétt og mikill tími sem fer í fundarsetu og símtöl. Það er misjafnt hvenær ég held heim úr vinnunni, en þrátt fyrir nokkuð stífa dagskrá flestra fjölskyldumeðlima tekst ágætlega að halda því til streitu að við setjumst saman við kvöldverðarborðið um kl. 19. Eftir matinn les ég fyrir yngstu dömuna eða læt þá í miðjunni lesa fyrir mig og svo taka við hin ýmsu hefðbundnu verkefni sem fylgja fimm manna fjölskyldu og heimili. Ég reyni að koma við æfingu flesta daga og ósjaldan er tikkað í það box eftir kl. 20 á kvöldin með því að heimsækja World Class og horfa á seinni hálfleik af góðum íþróttaleik á hlaupabrettinu. Ég gríp svo ósjaldan í einhver vinnutengd verkefni í sófanum á meðan við Tinna horfum á upptökur af fréttum fyrir svefninn.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Það er alltaf eitthvað í gangi hjá okkur í Advania og mikið af spennandi verkefnum sem við erum að vinna að. Viðskiptavinum okkar og um leið starfsmönnum hefur fjölgað talsvert á síðustu árum og við höfum tekið stór skref í því að efla þjónustuna hjá okkur með ýmsum skemmtilegum aðgerðum. Nánast í hverjum mánuði skila sér nýjungar í okkar þjónustukerfum sem auðvelda líf okkar starfsfólks og viðskiptavina og á næstu vikum og mánuðum munum við m.a. setja í loftið nýja þjónustugátt, efla enn frekar nýju vefverslunina okkar og Markaðstorg Advania sem við settum í loftið á síðasta ári.

 

Eitthvað skemmtilegt planað í sumar?

Ég treysti á að sumarið skili sér í hús fljótlega og þá reyni ég að sinna áhugamálunum og garðinum eitthvað á milli þess sem ég elti Blika-stelpurnar mínar á milli fótboltavalla þessa lands. Fyrirhugaðar eru fjölskylduferðir bæði til Vestmannaeyja og Spánar, þar sem dæturnar taka þátt í fótboltamótum. Sjálfur ætla ég að spila nokkra golfhringi, njóta veðurblíðunnar og fylgjast eins og aðrir landsmenn með því þegar við verðum heimsmeistarar í fótbolta.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég kann afskaplega vel við mig í núverandi starfi, en myndi líklega rétta Ægi forstjóra bréf ef mér byðist að taka við stjórnartaumunum hjá Manchester United. Er ekki José tæpur eftir þennan vetur?

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Það kemst ekkert nærri því þegar ég hitti stelpurnar mínar fjórar í fyrsta skipti.

 

Lífsmottó?

Ég á ekkert ákveðið lífsmottó, en hef reynt að tileinka mér bæði jákvæðni og auðmýkt í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og koma fram við aðra eins og ég vænti þess að þeir komi fram við mig.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég get hent í loftið einhverjum staðreyndum, en þær teljast líklega ekki sturlaðar. Mörgum finnst sérstakt að heyra að ég hef hvorki borðað sætindi, kökur né drukkið gos síðustu 13 árin. Einhverjum finnst fróðlegt að árið 1997 mætti ég á fótboltaæfingar með skoska stórveldinu Glasgow Rangers og svo er það sem betur fer lítið kynnt staðreynd að á ferlinum setti ég boltann oftar í eigið mark, en mark andstæðinganna í íslensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Ég spila aldrei í Lottóinu þ.a. ég myndi gera mitt besta til að finna eigandann. Ef 500 milljónir kæmu óvænt upp í hendurnar á mér myndi ég vonandi hafa vit á því að deila þeim með mínum nánustu, styrkja góð málefni og setja afganginn í sjóð handa stelpunum.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég þekki líklega ekki nógu marga tónlistarmenn úr Kópavoginum, en er nokkuð viss um að Emilíana Torrini komi þaðan. Og hún er þá pottþétt á topp 5. Svo eru bæði Blaz Roca og Herra Hnetusmjör úr Kópavogi veit ég og þeir eru góðir. Ég man hreinlega ekki eftir fleiri nöfnum sem ég treysti mér til að mæla með þ.a. til viðbótar nefni ég Karlakór Kópavogs, en þar sem ég hef sterkar tengingar þangað inn hef ég verið nokkuð duglegur að sækja þeirra tónleika og haft mjög gaman af.

 

Býr tæknipúki í þér?

 

Apple eða Windows?

Windows

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Ég er svo heppinn að fá að vinna daglega á Dell XPS 13, sem er algjörlega geggjuð og margverðlaunuð fartölva sem var meðal annars valin besta fartölvan á CES 2018 (Innovation awards). Áhugasamir geta kynnt sér gripinn hér.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Samsung Galaxy 8+

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég á erfitt með að finna galla við hann, nema kannski helst að hann á það til að hitna nokkuð mikið. Kostirnir eru fjölmargir; léttur, góður skjár, góð myndavél, hraði, ofl.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Outlook (vinnupóst), Inbox frá Google (persónulegan póst), Social miðla (Twitter, Facebook, Snapchat, Instagram), Podcast, Spotify og svo auðvitað símtöl.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Við nálgumst nú hratt flesta þá möguleika sem ég get látið mig dreyma um í framtíðartækinu. Nú þegar finnst mér ég geta sinnt flestum daglegum verkefnum með símanum þ.a. ég myndi helst horfa til breytinga á tækinu sjálfu. Það væri frábært ef hægt væri að lengja líftíma rafhlöðu og einfalda hleðsluferlið umtalsvert með snjallri tækni. Fyrir Odd Hafsteinsson vin minn væri mikilvægt að tryggja að tækið gæti tekið á sig þung högg og beygst og sveigst án þess að brotna. Annars held ég að við hljótum fljótlega að fara að færast frá þessum handtækjum yfir í aðrar sniðugar lausnir.

 

Ertu með snjallheimili?

Ég er hægt og bítandi að snjallvæða heimilið. Kominn með Alexu og nokkrar nettengdar heimilisgræjur, sem kannski gera lífið ekki strax einfaldara en allavega skemmtilegra.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Fyrir utan lappari.com er alveg ógrynni af tæknisíðum sem ég heimsæki í hverri viku. Það sem áður var þó fastur vefrúntur á milli ákveðinna síða hefur að miklu leyti færst yfir í það að ég fylgist með áhugaverðu fólki á samfélagsmiðlum sem leiðir mig inn á hinar og þessar greinar og þ.a.l. tæknisíður. Svo fæ ég sent ansi mikið af efni frá samstarfsaðilum og greiningarfyrirtækjum sem ég reyni að komast yfir.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Nú nýlega gerðum við breytingar hjá okkur í Advania og lokuðum versluninni sem við höfum starfrækt í Guðrúnartúni. Á sama tíma opnuðum við nýja og glæsilega verslun á vefnum og ég vil að sjálfsögðu nýta tækifærið og hvetja alla til að heimsækja hana á vefverslun.advania.is.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira