Samsung Ativ S

eftir Jón Ólafsson

Ef snjallsímaumfjallanir hér Lappari.com eru skoðaðar þá mætti halda að ég fjalli bara um Nokia en svo er ekki. Staðreyndin er bara sú að Nokia selur um 80% af Windows Phone símum og því miklu meira um þá en aðra.

Þess vegna fagnaði ég þegar félagar mínir hjá emobi höfðu samband og buðu mér að prófa Samsung Ativ S. Emobi hafa verið duglegir að flytja inn Windows Phone síma og eru með nokkuð gott úrval sem vert er að skoða.

Ég prófaði Nokia Lumia 925 fyrir stuttu síðan var niðurstaða mín að hann sé besti Windows Phone síminn á markaðnum í dag og verður því áhugvert að sjá hvernig Ativ S stendur sig í samanburði við Lumia 925.

Eins og má sjá á þessum samanburði þá er Samsung Ativ S búinn svipuðum vélbúnaði og öflugustu Nokia símarnir ásamt því að vera með stóran og fallegan skjá þannig að þetta fer vel af stað.

 

Hönnun og vélbúnaður

Ativ S er nokkuð fallegt símtæki að sjá og minnir mig mjög mikið á Samsung Galaxy S2 að útliti. Ativ S notar sama 4.8″ skjá og er á Galaxy S3 og er þetta því stærsti Windows Phone síminn á markaðnum. Til samanburðar nota Nokia Lumia 920 og 925 4.5″ skjái og Lumia 820 er með 4.3″ skjá.

Þeir sem hafa handleikið Samsung Galaxy S2-S3, og þann nýjasta sem heitir S4, vita að þetta eru nú ekki beint sterklegir eða massívir símar. Samsung leggja samt töluvert á sig við að gefa plastinu í Ativ S sterklegt ál útlit og er bakhlið þykk og sterkleg samanborið við Galaxy S símana.

Samsung_Ativ_S_6

Framhliðin er að mestu þakin af fallegum 4.8″ skjá sem fellur inn í gráa plastumgjörð. Glerið á skjánum gengur yfir skjáinn og plastumgjörðina og er framhlið því heilt stykki án samskeyta og fær vandaðra yfirbragð fyrir vikið.

Hliðar eru úr plasti sem lítur út eins og vel pússað ál, þær eru kúptar og fellur síminn vel í hendi. Hægt er að fjarlægja bakhlið til að komast að rafhlöðu, microSD rauf og SIM korti. Á bakhliðinni er einnig myndavél, flash og hátalari.

Samsung Ativ S er léttur sími en hann vegur aðeins 135 gr sem er sambærilegt við Lumia 925 og Samsung Galaxy S línuna. Á framhlið eru þrír takkar, tveir snertitakkar og síðan hefðbundinn heimtakki. Takkarnir á framhlið eru eins á öllum Windows Phone símum, bakka, heim og leit. Þar fyrir utan eru þrír hefðbundnir takkar en það er sér takki fyrir myndavél, powertakki ásamt hækka/lækkatakka.

Staðsetning á þessum tökkum er ágæt en power- og myndavélatakkar eru á hægri hlið meðan hækka/lækkatakkinn er á vinstri hlið. Með smá æfingu er hægt að nota símann með einni hendi en power takki er reyndar frekar of hátt uppi að mínu mati. Takkarnir eru eins og ég er vanur af öðrum Samsung símum, frekar litlir og ekkert alltof sterklegir.

 

 

Samsung Ativ S er með 1.5GHz Snapdragon Dual-Core örgjörva og með 1GB í vinnsluminni. Þessi öflugi örgjörvi skilar sínu í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við hökt í símanum, hvort sem er í stýrikerfinu sjálfu, forritum eða í leikjum.

Samsung Ativ S er bara með 16GB geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi, forrit eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni. Það er kostur að hafa microSD rauf fyrir minniskort því þannig er hægt að bæta við allt að 64GB af geymslurými fyrir tiltölulega lítinn pening.

Samsung_Ativ_S_8

Þar sem Windows Phone stýrikerfið er beintengt við SkyDrive þá bætist við ókeypis 7GB í skýinu sem nýtist til að taka afrit af símanum sjálfum eða af ljósmyndum og myndböndum.

Einfalt er að kaupa sér meira Skydrive geymslupláss (verð 12.07.2013)
•auka 20GB kosta um 1200 krónur á ári
•auka 50GB kosta um 3200 krónur á ári
•auka 100GB kosta um 6400 krónur á ári

Hér má sjá samanburð á Skydrive við aðrar lausnir sem og verðtöflu.

 

 

Tengimöguleikar

Samsung Ativ S er með Micro USB tengi (USB 2.0) neðst á símtæki þannig að einfalt er að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Þetta er kostur þar sem notendur geta notað allar Micro USB snúrur sem þeir eiga fyrir, það er ekkert sérstakt tengi eða millistykki sem þarf. Þetta tengi er sameiginlegt með flestum snjallsímum…. öðrum en iPhone.

Efst á síma er 3.5 mm heyrartólstengi og auka hljóðnemi sem gerir símanum kleyft að eyða umhverfishlíðum, Ativ S er með Bluetooth 3.1. Síminn er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 a/b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli.

Samsung_Ativ_S_14

Samsung Ativ S er einnig með NFC kubb sem býður meðal annars uppá borganir, samnýtingu gagna og notkun NFC merkja. Ég nota NFC eingöngu með NFC merkjum en ég er með merki á náttborðinu og þegar ég legg símann á það þá slökknar á öllum hljóðum (nema vekjara) ásamt því að póst samstilling hættir. Síðan þegar ég lyfti símanum þá koma öll hljóð aftur á og samþætting á pósti hefst að nýju.

Samsung Ativ S er ekki 4G sími en virkar hratt og vel á 3G.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Ég er mjög ánægður með rafhlöðuendingu á Samsung Ativ S en hún er með því besta sem ég hef séð í síma með svona stórum og björtum skjá. Ativ S er með útskiptanlega 2300mAh Li-Ion rafhlöðu sem er gefinn upp fyrir.

Tal yfir 3G: 13.5 tíma
Biðtími: 340 tímar (enginn reynsla á þessu hjá mér)

Ég náði aldrei að fá meldingu um að rafhlaðan sé að tæmast hjá mér þessa daga sem ég hef verið að prófa tækið. Ég er samt ávallt tengdur við WiFi eða 3G og að samstilla 3 EAS tölvupóstreikninga ásamt því að lesa töluvert af bæði heimasíðum og nota Twitter og Facebook slatta yfir daginn.

Hér má sjá nokkur ráð sem hjálpa þér að lengja rafhlöðuendinguna.

 

Samsung_Ativ_S_17

Samsung Ativ S er ekki með innbyggðri þráðlausri hleðslu eins og t.d. Lumia 920 og það er ekki hægt að kaupa hana sem aukahlut eins og er hægt með Lumia 925.

Samsung Ativ S er eins og aðrir Windows Phone 8 símar með fullt Qwerty lyklaborð en það nýtur sín mjög vel á svona stórum skjá. Lyklaborðið er ekki enn komið með íslensku útliti en allir íslensku stafirnir eru engu að síður til staðar. Sem dæmi til að skrifa Þ þá er T haldið inni, til að skrifa Ð þá er D haldið inni o.s.frv.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Samsung Ativ S er HD Super Amoled skjár og er með þeim skarpari Samsung skjáum sem ég hef séð. Það vann samt ekki með honum að ég er með Nokia Lumia 925 síma til samanburðar en hann er mun skarpari en Ativ S skjárinn. Skjárinn er eins og fyrr segir 4.8″ stór og styður upplausnin uppá 1280×720 punkta (WXGA) og er hann því 16:9.

Punktaþéttleikinn er 306ppi sem er kannski ekki mikið á svona stórum skjá en til samanburðar þá er Nokia Lumia 925 með 336ppi á 4.5″ skjá og því eðlilega mun skarpari.

Almennt má segja að skjárinn sé samt nokkuð skarpur og skilar sínu hlutverki ágætlega. Lestur texta var mjög þæginlegur ásamt því að ljós- og bíómyndir komu vel út á þessum stóra skjá. Það er helst þegar ég ber hann saman við Nokia Lumia 920 og 925 sem ég sé hvað mætti betur fara. Ég prófaði Ativ S úti í sólinni hér á Akureyri og ég þurfti annað hvort að hafa birtu á sjálfvirkri stillingu eða á MAX til að sjá vel á skjáinn.

Myndavélarnar eru teknar beint af Samsung Galaxy S3 og skellt beint á Ativ S. Að framan er 1.2MP myndavél sem er ágæt í tækifæris sjálfsmyndir fyrir Instagram, Snapchat eða í myndsímtöl með Skype.

Samsung_Ativ_S_4

Aðalmyndavélin í Ativ S er 8MP og leysir hún sitt hlutverk ágætlega þó hún blikni í samanburði við Lumia 920 og sérstaklega 925. Vélin tekur líflegar og góðar myndir við góð birtuskilyrði og má segja að notendur ættu að verða ánægðir með flestar myndir sem þeir taka á símann.

Hér má sjá samanburðar myndir teknar á Samsung Ativ S, Nokia Lumia 925 og iPhone 5 þegar farið er að rökva úti. Þó svo að myndirnar séu flestar ásættanlegar miðað við símtæki þá má greinilega sjá að myndir úr Ativ S og iPhone 5 eru grófkorna og dimmar samanborið við Lumia 925.

Eins og komið hefur fram tekur Samsung Ativ S nokkuð góðar ljósmyndir og er myndbandsupptakan sambærileg. Hægt er að taka upp í 1080p upplausn (@30 rammar á sekúndu) og eru myndgæðin góð í ágætri birtu og slök við erfiðari skilyrði.

Minni samt á að það er erfitt að keppa við Nokia Lumia síma þegar kemur að myndavélum og þá sér í lagi Lumia 920 og 925.

Hátalarinn sem staddur er á bakhlið er góður og skilar ágætis hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun.

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Samsung Ativ S er frábært eins og á öðrum Windows Phone símum sem ég hef prófað. Hann réð vel við að spila “allt” það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var bíómynd af SD korti, Youtube video eða aðra vefstrauma.

Samsung_Ativ_S_15

Samsung Ativ S er eins og aðrir Windows Phone símar með góðum tónlistarspilara, með XBOX music (eða Spotify) áskrift þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti.

Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Samsung Ativ S að ráða við allt sem þú gætir vilja notað hann í.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Windows Phone 8 stýrikerfið virkar líflegt og skemmtilegt Samsung Ativ S, stýrikerfið, valmöguleikar og öll virkni er mjög góð. Með símanum koma einnig nokkur Samsung forrit sem gaman var að prófa en ólíkt Android þá er hægt að fjarlægja öll forrit sem framleiðendur láta fylgja með.
Sem dæmi má nefna Live Wallpaper, MiniDiary, Music Hub, Now, Photo editor og RSS Times.

Samsung_Ativ_S_3

Samsung Ativ S kemur eins og aðrir Windows Phone 8 símar með glæsilegri hugbúnaðarsvítu sem gerir það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.

Office pakkinn gerir notanda kleyft að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, SkyDrive eða af símanum sjálfum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Áður en ég fékk mér Windows Phone 8 síma þá hafði ég aldrei kynnst svona góðri skjalavinnslu á snjallsíma áður.

Samsung_Ativ_S_19

Internet Explorer vafrinn í Windows Phone 8 er mjög góður og að mínu mati einn sá besti af þeim vöfrum sem fylgja með snjallsímum í dag. Chrome fyrir Android er reyndar góður en ég á erfitt með að meta hvorn mér líkar betur við.

Ef þig vantar fleiri forrit þá býður Microsoft Store í dag (14.07.2013) upp á rúmlega 160 þúsund forrit sem er jú minna en Google og Apple bjóða uppá en ég verð samt að segja að ég fann forrit fyrir allt sem mig vantaði.

Hér er ágætislisti yfir forrit sem Íslenskir WP notendur nota.

Ég sótti mér Here Maps sem er ókeypis kortalausn fyrir alla Windows Phone síma. Hægt er að kaupa og sækja Here Drive sem er leiðsöguhugbúnaður og fylgir ókeypis með Nokia símum. Hugbúnaðurinn er hluti af HERE svítu sem samanstendur af Here City LensHere MapsHere DriveHere Transit.

 

 

Niðurstaða

Ég verð að játa að eftir að hafa prófað Nokia Lumia 925 sem er eins og fyrr segir besti Windows Phone síminn á markaðnum að mínu mati, þá var ég fyrirfram undirbúinn undir töluverð vonbrigði. Það kom mér á óvart hversu sáttur ég er með Samsung Ativ S en símínn venst strax þrátt fyrir að stóran skjá en það er líklega vegna þess hversu þunnur og léttur hann er.

Samsung Ativ S er að mínu mati mun fallegri en Samsung Galaxy Sx símarnir en þeir gera litla tilraun til þess að fela plastið sem Ativ S gerir þó ágætlega. Þó svo að Nokia Lumia 925 sé aðeins 4 gr þyngri en Ativ S þá virkar hann mun massífri og sterkari en Ativ S.

 

 

Það er gott að finna og sjá að það er sama og engin munur á Windows Phone 8 kerfinu milli framleiðanda, upplifun notenda er mjög svipuð. Samsung hafa ekki einbeitt sér jafn mikið á Windows Phone eins og Nokia gerir og þá sést best á þeim Samsung forritum og símtækjum sem fáanleg eru. Úrvalið og gæðin á Nokia forritum eru mun betri en á þeim sem eru fáanleg frá Samsung.

Í GDR2 uppfærslu sem kemur í lok sumars má eiga von á nokkrum skemmtilegum uppfærslum sem munu gera þennan síma enn betri. Ég sé fyrir mér að skjástillingar sem ég prófaði í Lumia 925 (er með GDR2) muni gera þennan stóra skjá betri.

Samsung Ativ S er að mínu mati með góða myndavél þegar hann er borinn saman við venjulega snjallsíma, það er bara í samanburði við Nokia síma eins og Lumia 925 þar sem hann kemur illa út. Samsung Ativ S er alvöru snjallsími sem ræður við allt sem ég ætlaði honum, getur tekið vel nothæfar tækifærismyndir og myndbönd og mæli ég því með að þú skoðir þennan alvarlega.

Windows Phone 8 stýrikerfið er mjög stöðugt og hraðvirkt á Samsung Ativ S og hef ég aldrei orðið var við neina hnökra við keyrslu á kerfinu sjálfu, í forritum eða leikjum sem ég nota.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira