Microsoft Lumia 640

eftir Jón Ólafsson

Nýlega kom í sölu Nokia Lumia 640 sem er uppfærsla á Lumia 620, 625, 630 og síðan Lumia 635 sem Lappari.com fjallaði um á síðasta ári. Lumia 6xx línan er næsta skref við Lumia 5xx línuna (t.d. Lumia 530) sem eru ódýrust símarnir með Windows stýrikerfi. Í mjög stuttu máli er 600 línan með selfie myndavél og töluvert betri vélbúnaði en 500 línan

Það er athyglivert að bera saman Lumia 640 og 635 og þær uppfærslur sem Microsoft bætir við ársgamlt Lumia 635 símtæki. Síminn er fluttur inn af Opnum Kerfum og verðlega séð þá smellpassar tækið í neðri mörk mid range símtækjaen í dag kostar hann þar 37.990 m/vsk.

Minnum við á útskýringar okkar varðandi einkunnargjafir.

Þetta símtæki hefur almennt fengið mjög jákvæðar undirtektir í erlendum tæknimiðlum og því spennandi að sjá hvernig okkur líkar við hann.

 

Hér má sjá afpökkunarmyndbandið okkar.

 

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Lumia 640 svipar örlítið til Lumia 635 í útliti og er jafn ódýr og forveri sinn. Þetta símtæki er þó dálítið breytt og mér finnst það mun fallegra. Það finnst samt vel að hann er úr plasti en þó mun massífari að finna og virkar sterklegri í hendi. Bakið á honum og hliðar eru úr einu stykki sem er sterkbyggð skel sem verndar símtækið vel og virðist taka þokkalega á móti höggum ef tækið mundi falla til jarðar.

 

L640_10

 

Það er ekki stórvægilegur munur á milli þessara símtækja en þó má segja að þeir verði sannarlega betri með hverri uppfærslu sem kemur.

 

Hér má sjá töflu sem ber saman þessi fjögur símtæki sem við höfum prófað í 600 línunni.

Lumia 620 Lumia 625 Lumia 635 Lumia 640
Stýrikerfi WP 8.1* WP 8.1* WP 8.1* WP 8.1*
Örgjörvi 1 GHZ 1.2 GHz 1.2 GHz 1.2 GHz
Kjarnar 2 2 4 4
Vinnsluminni 512 MB 512 MB 512 MB 1 GB
Geymslurými 8 GB 8 GB 8 GB 8 GB
Minnikort Já < 64 GB Já < 64 GB Já < 128 GB Já < 128 GB
3G eða 4G 3G 4G 4G 4G
Aðal myndavél 5 MP 5 MP 5 MP 8 MP
Auka myndavél VGA VGA 1 MP
Skjástærð 3,8″ 4,7″ 4,5″ 5″
Upplaun 800 x 480 800 x 480 854 x 480 1280 x 720
ppi 246 199 218 294

* ATH öll þessi sem og önnur WP 8.1 símtæki verður hægt að uppfæra í Windows 10

 

Beint uppúr kassanum virðist þessi sími vera svolítið mikið plastlegur eins og fyrr segir og kannski ekki nægilega spennandi, mjög sambærileg reynsla við hina símana í 600 línunni. Þegar búið er að setja símtækið saman þá breytist upplifunin töluvert en símtækið fer vel í vasa sem og í hendi. Það má segja að hann sé í meðallagi þungur og almennt hentug stærð fyrir þá sem þurfa að geta gert allt á símtækinu en vilja ódýran og einfaldan síma.

Hér að neðan má sjá helstu stærðir en við tókum eftir að hann þyngist aftur og hækkar, enda nú með 5″ skjá.

  • Hæð 141,3 mm
  • Þykkt 8,8 mm
  • Breidd 72,2 mm
  • Þyngd 145 gr

 

Framhliðin er þakin af 5″ IPS LCD snertiskjá en hann er með 1280 x 720 upplausn (um 294 ppi). Allur frágangur á framhlið er góður en smá rauf er þar sem símtækið/skjárinn fellur í skelina. Framhliðin er mjög stílhrein, látlaus og lítið að sjá þar annað en efst þar sem er rauf fyrir hátalara, látlaust Microsoft logo ásamt 1 MP (720p) selfie myndavél. Eina sem pirrar mig við framhlið er að það er töluvert pláss fyrir néðan skjá sem er ekki notað….

 

L640_9

 

Það eru ekki þessi hefðbundnu snertitakkar á framhlið eins og venja er heldur eru takkarnir nú á skjánum sjálfum og þeir felast ef notað er app sem notar allan skjáinn. Það er samt einfalt að komast í þessa takka með því að strjúka upp skjáinn frá botni en þessir takkar eru bakka, heim og leit. Þar fyrir utan eru tveir hefðbundnir takkar og eru þeir báðir á hægri hlið símans. Það er powertakki ásamt hækka/lækkatakka en staðsetning á þessum tökkum er mjög góð og næst með léttu móti í alla takka með annari hendi. Takkarnir eru frekar stífir og virðast vera mjög sterklegir en það er galli að ekki sé sértakki fyrir myndavélina. Það er samt mögulega hægt að fyrirgefa þetta á svona ódýrum síma.

Bakhlið er úr Polycarbonate sem hægt er að fá í svörtu og hvítu en þar er 8 MP myndavél (1/4″ sensor / 1080p), LED flash, hátalari og Microsoft logo.

 

L640_8
Lumia 640 notar Snapdragon 400 kubbasettið frá Qualcomm og er með fjórkjarna Cortex-A7 örgjörva sem keyrir á 1.2 GHz (Adreno 305 GPU) og með 1GB í vinnsluminni. Þessi örgjörvi skilar sínu verki ágætlega í viðbragðsgóðu viðmóti og hef ég aldrei orðið var við mikið hökt í símann. Það er helst í stærri forritum eða leikjum sem maður tekur eftir því að hann er lengur að ræsa forritin en þá í samanburði við Lumia 1520 sem er með mun öflugri vélbúnað.

Microsoft Lumia 640 er með 8 GB geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi, ljósmyndir og annað margmiðlunarefni. Það er lítið á flest alla mælikvarða en samkvæmt minni reynslu þá dugar þetta þó merkilega mörgum þó það dugi mér ekki. Það vinnur samt með honum að símtækið styður allt að 128 GB microSD minniskort og því einfalt og nokkuð ódýrt að stækka geymslurýmið. Það er hægt að láta símtækið vista myndir og myndbönd á kortið ásamt því að mörg forrit er hægt að setja upp á minniskortinu.

 

Stutt kynningarmyndband frá Microsoft.

 

Þegar ég var búinn að setja upp forritin mín, þrjá tölvupóst reikninga, nokkra leiki, og taka slatta af ljósmyndum þá var ég með um 2 GB laust. Ég gæti komist af með þetta pláss með því að eyða ljósmyndum reglulega af símanum en ég get gert það vitandi að símtækið tekur afrit af öllum myndum og myndböndum beint á OneDrive en þar fá allir notendur að lágmarki 15 GB ókeypis. Notendur ættu því að huga að því fljótlega að fá sér microSD minniskort til að lenda ekki í vandræðum með plássleysi.

 

 

Tengimöguleikar

Microsoft Lumia 640 er með microUSB tengi (USB 2.0) neðst á símtæki sem nýtist til þess að hlaða símtækið eða til að tengja símann við tölvu til að sækja eða setja á hann efni. Efst á síma er 3.5 mm heyrartólstengi en sleði fyrir SIM kort (Micro-SIM) og minniskort (microSD) er undir bakskel sem er einfalt að komast í. Lumia 640 er vitanlega með Bluetooth 4.0, NFC, FM útvarpi og GPS (Glonass og Beidou).

 

L640_7

 

Microsoft Lumia 640 er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 b/g/n og allar helstu dulkóðanir. Eins og nafnið gefur til kynna þá styður símtækið 4G að fullu eins og reyndar flestir Lumia símar gera.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Segja má að ég sé orðinn spilltur af einstakri rafhlöðuendingu í Lumia 1520 en Lumia 640 kom mér engu að síður á óvart. Lumia 640 er með útskiptanlegri 2500 mAh rafhlöðu sem er gefinn upp fyrir.

Tal yfir 2G: 26:30 tíma
Tal yfir 3G: 17:30 tíma
Biðtími: 36 dagar

Þetta er töluverð uppfærsla frá t.d. Lumia 635 en ég klára yfirleitt daginn með 30-60% eftir af hleðslu. Ég er samt ávallt tengdur við WiFi eða 4G og að samstilla 3 EAS tölvupóstreikninga ásamt því að taka slatta af myndum og almennt nota þessi tæki mikið. Mér fannst rafhlaðan fyrst klárast hratt þegar krakkarnir fengu hann lánaðan í leiki en það er nú nokkuð eðlilegt.

 

L640_2

 

Hér má sjá nokkur ráð sem hjálpa þér að lengja rafhlöðuendinguna.

 

Microsoft Lumia 640 er eins og aðrir Windows Phone 8 símar með fullt íslenskt Qwerty lyklaborð.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Microsoft Lumia 640 er einn sá besti sem ég hef séð í snjallsíma á þessu verði. ClearBlack tæknin gefur auka dýpt í svarta litinn ásamt því að allir litir verða líflegir og skarpir. Skjárinn er eins og fyrr segir 5″ stór með Corning Gorilla Glass 3 sem styður upplausnin uppá 1280 x 720 punkta (720p upplausn). Skjárinn er því um 294 ppi (Pixel per inch) sem er nú bara nokkuð gott miðað við verð.

Eina neikvæða sem ég get sagt um skjáinn er að ég þyrfti nokkrum sinnum að smella á takka í Facebook appinu (til að opna spjallið) til þess að þeir virkuðu en ég átta mig ekki á því hvort þetta hafi verið skjárinn eða appið sjálft.
Það var helst við notkun á móti birtu eða í úti í sól sem endurvarp af skjánum truflaði mig en það á við um flesta Gorilla Glass síma. Síminn var samt aldrei ónothæfur í útibirtu þar sem ljósnemi í tækinu í samvinnu með Windows símkerfinu stilltu liti og birti þannig að hann yrði nothæfur.

 

L640_4

 

Nokia (nú Microsoft) hafa þróað myndavélatækni töluvert og má segja að þeir hafi verið leiðandi undanfarin ár. Lumia 640 er alls ekki ljósmyndasími sem slíkur en tekur þó ágætist myndir við eðlileg birtuskilyrði. Myndgæðin sem koma úr vélinni eru á pari við það sem má búast miðað við 8 MP myndavél. Ekki kannski bestu myndirnar en nægjanlega til þess að taka myndir fyrir samfélagsmiðlana og til að grípa í.

Vitanlega gæti ég gagnrýnt myndvélina meira en ég mundi telja að myndavélin sé fullnægjandi fyrir flesta sem eru að taka frekar einfaldar myndir við þokkaleg birtuskilyrði. Myndavélin skilar notenda myndum í allt að 3264 x 2448 pixlum og tekur 1080p myndbönd við 30fps. Selfie myndavélin er aðeins 1 MP en ætti samt að duga langflestum í einfaldar sjálfu myndir.

Ef ég væri sjálfur í leit að alvöru myndvélasíma með betri myndavél þá færi ég í beint í Lumia 1520Lumia 930 eða jafnvel Lumia 830.

Símtalshátalari á framhlið er mjög góður og vert að taka fram að símtalsgæðin eru ein þau bestu sem ég hef áður heyrt úr síma. Hátalarar á bakhlið Lumia 640 skila þokkalegasta hljómi hvort sem var við símtöl með hátalara eða við tónlistarafspilun.

 

Margmiðlun og leikir

Margmiðlunarupplifun á Lumia 640 er mjög fín og réði hann við að spila allt það sem ég ætlaði honum. Hvort sem það var bíómynd af innra-minni, minniskorti, Youtube video eða aðra vefstrauma. Lumia 640 er eins og önnur Windows símtæki með góðum tónlistarspilara og með XBOX music (eða Spotify) áskrift þá ertu kominn með öfluga tónlistarkosti. Einfalt er einnig að bæta við tónlist eða bíómyndum beint af tölvu og ætti Lumia 640 að ráða við allt sem þú gætir vilja notað hann í.

Skjárinn kom vel út í myndbandsafspilun og virkaði bjartur og skarpur í flestu.

 

L640_6

 

 

Hugbúnaður og samvirkni

Það er ánægjulegt að allir Windows 8.1 símar fá ókeypis uppfærslu í Windows 10 þegar það kemur seinna í sumar/haust. Svona stuðningur er einstakur og sér í lagi þegar horft er til miðlungs eða ódýrari símtækja, Android hefur sinnt þessum markaði nær eingöngu en þar er þekkt að símtæki eru yfirgefinn eftir nokkra mánuði og fá þau lítinn eða engann stuðning eða uppfærslur út líftíma sinn.

Microsoft Lumia 640 kemur með Windows Phone 8.1 Update 2 sem er uppfærsla sem kallast Denim. Stýrikerfið virkar vel á þessum vélbúnaði og eru flettingar um stýrikerfið fumlausar og öll virkni er frekar hröð og góð. Það fylgir með góð hugbúnaðarsvíta sem gerir það að verkum að mig vantaði ekki mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note, Here leiðsögusvítan ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.

 

Lestu um Here leiðsöguforrit.

 

Office pakkinn gerir notanda kleyft að vinna með Word, Excel og PowerPoint skjöl beint af SharePoint, OneDrive eða af símanum sjálfum. Hægt er að breyta þeim, senda með tölvupósti eða bara vista í skýið án þess að þurfa að kaupa auka hugbúnað. Áður en ég fékk mér Windows símtæki síma þá hafði ég aldrei kynnst svona góðri skjalavinnslu á snjallsíma áður en núna er hægt að fá Office pakkann með tengingu við OneDrive á iOS og Android.

Eins og við höfum fjallað um áður þá fylgir með símanum Office 365 og er það gríðargóður kaupauki.

 

Hér er ágætislisti yfir forrit sem Íslenskir Windows Phone notendur mæla með.

 

 

Niðurstaða

Microsoft hafa einbeitt sér nær eingöngu á ódýr og miðlungs dýr símtæki undanfarið árið. Þó að þetta pirri tækjafíkla eins og mig þá sannast ágætlega hér að æfingin skapi meistarann. Það bara verður að segja að þessi ódýru símtæki eru orðin ansi mögnuð og fær um að leysa flest allt sem snjallsímanotendur ættu að þurfa.

Microsoft Lumia 640 er góður arftaki eldri símtækja í 600 línunni og orðið betra símtæki í alla staði. Með því að stórbæta skjáinn, bæta við vinnusluminni og bæta myndavélina þá verður góður sími enn betri.

Hvort sem viðkomandi er snjallsíma notandi að taka sín fyrstu skref eða bara venjulegur notandi sem vill ekki eyða of miklu í tækið þá ætti Microsoft Lumia 640 ekki að svíkja viðkomandi. Fyrir þennan penning þá ertu að fá ansi mikið tæki sem slær við flest öllu öðru á markaðnum sem er á þessu verði.

 

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira