Nokia Lumia 635

eftir Haraldur Helgi

Lappari hefur haft til prufu undanfarnar vikur nýja Nokia Lumia 635 sem er uppfærsla á Lumia 630. Sá sími var einmitt uppfæsla á Lumia 625 sem einmitt var uppfærsla á Lumia 620. Þetta hljómar æði flókið en sýnir ágætlega hversu mikla áherslu Nokia/Microsoft leggja á þessi símtæki sem eru í þessu “mid range” í verði og afköstum.

Síminn er einn sá nýjasti í Lumia línunni og kom út núna síðastliðinn júní eða á svipuðum tíma og Lumia 930 kom í sölu.

Lappari hefur fjallað um þrjá af fjórum í 600 línunni og sýnir það nokkuð vel hversu hratt þessi símtæki eru uppfærð. Við þekkjum til nokkurra sem keyptu sér eitthvað af þessum tækjum og bera þeir þessum símtækjum góða sögu og sérstaklega að þegar þeir átta sig á því að öll Windows Phone 8 símtæki fá uppfærslu í Windows Phone 8.1.1.

Við erum allavega spenntir að prófa tækið og hlakkar til að sjá hvernig okkur líkar við Lumia 635 í venjulegri notkun.

 

Síminn er fluttur inn af Opnum Kerfum og verðlega séð þá smellpassar tækið í neðri mörk mid range símtækja og þessu tengdu þá minnum við á útskýringar okkar varðandi einkunnargjafir.

 

 

Hönnun & Vélbúnaður

Síminn er yfirhöfuð mjög vel hannaður. Bakið á honum er sterkbyggð skel sem verndar afturhluta tækisins vel og virðist taka þokkalega á móti höggum ef tækið fellur til jarðar. Bakið er þétt uppvið símtækið sjálft og gerir það að verkum að þeir sem ekki þekkja tækið telja hann vera með áföstu baki, ekki ósvipað og iPhone.

 

Hér má sjá kynningarmyndband frá Nokia

http://youtu.be/A0nb08Gtl60

 

Það er ekki stórvægilegur munur á milli þessara símtækja en þó má segja að þeir verði sannarlega betri með hverri uppfærslu sem kemur. Hér má sjá töflu sem ber saman þessi fjögur símtæki sem komin eru.

 

Lumia 620 Lumia 625 Lumia 630 Lumia 635
Stýrikerfi WP 8.1 WP 8.1 WP 8.1 WP 8.1
Örgjörvi 1 GHz 1.2 GHZ 1.2 GHZ 1.2 GHz
Kjarnar 2 2 4 4
Vinnsluminni 512 MB 512 MB 512 MB 512 MB
Geymsluminni 8 GB 8 GB 8 GB 8 GB
Minniskort Já < 64GB Já < 64GB Já < 128GB Já < 128GB
3G eða 4G 3G 4G 3G 4G
Aðal myndavél 5 MP 5 MP 5 MP 5 MP
Skjástærð 3,8″ 4,7″ 4,5″ 4,5″
Upplausn 800 480 800 x 480 854 x 480 854 x 480
ppi 246 199 218 218

 

Við fyrstu sýn, beint uppúr kassanum, virðist þessi sími vera svolítið mikið „plastaður“ og kannski ekki nægilega spennandi, mjög sambærileg reynsla við hina símana í 600 línunni. Þegar búið er að setja símtækið saman þá breytist upplifuninn töluvert en símtækið fer vel í vasa sem og í hendi. Það má segja að hann sé í meðallagi þungur/léttur og almennt hentug stærð fyrir þá sem þurfa einfaldan síma í einföldustu hluti.

Hér að néðan má sjá helstu stærðir en við tókum eftir að hann léttist töluvert aftur og er nú aðeins 134 gr.

  • Hæð  129,5 mm
  • Þykkt  9,2 mm
  • Breidd  78,5 mm

 

Símtækið er ólíkt dýrari símum í Lumia línunni ekki með sérstakan takka fyrir myndavélina eins og t.d. Lumia 925, Lumia 930 og Lumia 1520. Þetta er galli að okkar mati en svo sem alls ekki óeðlilegt miðað við verð og markhóp. Síminn er með takka til að kveikja/slökkva á tæki og síðan öðrum til að hækka/lækka í hljóðum. Símtækið er síðan með þremur snerti tökkum á framhlið eða Windows takkinn (heim), leit og tilbaka hnappur.

Eins og sést hér að ofan þá er símtækið með fjórkjarna Snapdragon 400 örgjörva sem keyrir á 1.2 GHz. Símtækið er með 512 MB vinnsluminni og 8 Gb af innbyggðu geymslurými. Þessu til viðbótar er rauf fyrir minniskort sem tekur allt að 128 GB minniskort en því til viðbótar nýtir síminn OneDrive skýjadrif Microsoft og fá notendur ókeypis 15 GB þar ásamt 3 GB bónus ef þér nota OneDrive til þess að taka afrit af myndum.

Lumia 635 keyrir stýrikerfið og forrit nokkuð létt og vorum við ekki varir við neitt teljandi hik í eðlilegri notun. Við fundum samt við prófanir á stærri leikjum/forritum að tækið var stundum lengi að opna forritin. Þetta er mjög líklega vegna þess að tækið er aðeins með 512MB í vinnsluminni en ekki 1 GB eða 2GB eins og nýrri flagskipin eru með. Líkleg skýring er vitanlega sú að þetta tæki er ódýrt miðað við flagskipin og því eðlilegt að það sé munur á vinnslu þessara tækja.

 

L635_1

 

Tengimöguleikar

Neðst á Lumia 635 er mini-USB tenig eins og aðrir símar á markaðnum fyrir utan iPhone eru með, ásamt því að vera með 3.5 mm tengi fyrir heyrnartól efst á símanum. Það eru smá vonbrigði að það fylgja enginn heyrnartól með í pakkanum. Þó ber að geta að ég er alfarið á móti ódýrum heyrnartólum sem fylgja símum í dag þar sem þau eru einfaldlega ekki nærri því nógu góð og koma tónlist ekki nógu vel frá sér, en það er önnur og lengri saga.

Sleði fyrir microSD og SIM kort eru undir bakhliðinni og því vel varinn. Nokia Lumia 635 er með Bluetooth 4.0  en ekki með NFC sem enn og aftur er líklega til að halda verðinu niðri.

Lumia 635 er með þráðlausu neti eins og við er að búast sem styður 802.11 b/g/n og allar helstu dulkóðanir sem skipta máli ásamt því að styðja DLNA og Wi-Fi hotspot. Nokia Lumia 635 styður 4G að fullu og því kærkomin viðbót við núverandi framboð af Lumia snjallsímum sem styðja 4G og þessu til viðbótar er innbyggt FM útvarp sem er snilld.

 

Rafhlaða & lyklaborð

Líkt og áður hefur komið fram á Lappari.com þá virðist vera sem batteríin í Windows Phone taki einhvern tíma í að ná út 100% nýtingu og því var síminn nokkra daga að ná fullum afköstum. Við prófun á símanum var fyrsta verkið að setja hann í hleðslu í 14 tíma af gömlum vana. Eftir ræsingu og uppsetningu entist batteríið í rúmlega 3 daga af mikilli notkun, Exchange Sync, Facebook, Instagram, Snapchat og Here svítan sem er alveg mögnuð.

Rafhlaða: 1830 mAh
Taltími: Allt að 20 klst
Biðtími: Allt að 648 klst

Þar sem Lumia 635 kemur með Windows Phone 8.1 tilbúnu þá er nú innbyggt íslenskt lyklaborð sem er mjög þægilegt og einfalt í notkun.

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn er mjög fínn og bjartur auk þess sem svartur er virkilega svartur á honum en því er ekki alltaf að fagna á ódýrari snjallsímum. þessu er að þakka tækni sem Nokia kallar ClearBlack og er þekkt úr mun dýrari símtækjum en þessu.

Skjárinn er 4.5″ IPS LCD með Gorilla Glass 3 skjávörn og styður hann 800 x 480 upplausn og er því 218 ppi eða pixlar per inch.

Öll snertivirkni er mjög fín í símanum og heilt yfir er mjög þægilegt að lesa af skjánum, sama hvort um er að ræða video, myndir eða texta. Hann stenst vitanlega ekki samanburð við mun dýrari flagskip en það er eðlilegt.

 

L635_2

 

Myndavél

Miðað við það sem við erum orðnir vanir frá Nokia þá má segja að myndavél í Lumia 635 sé þokkaleg miðað við verð. Ég er orðinn spilltur hvað myndavélar í farsímum varðar eftir að hafa notað Lumia 1020 í um mánaðartíma fyrir rúmu ári.

Myndirnar sem komu úr símanum eru þó skárri en ég þorði að vona en myndavélin er 5MP og tekur myndir í 2592 x 1944 pixla upplausn og er með autofocus.

Eins og komið hefur fram  þá tekur hann kannski bestu myndirnar á markaðnum en samt nægjanlega góðar til þess að taka myndir fyrir samfélagsmiðlana og hefðbundnar tækifærismyndir. Vitanlega er hægt sé að þusa endalaust um verðið á símanum vs vélbúnaður en ég mundi telja að myndavélin sé fullnægjandi fyrir flesta sem eru að taka frekar einfaldar myndir

Með símanum koma Nokia Smart Camera, Cinemagraph, Photobeamer og Nokia Glam Me lens og koma þessi smáforrit með skemmtilega vinkla á myndartökur með símanum og auk þess er býr hún yfir Geo-Tagging og Panorama eiginleikum.

 

Margmiðlun & leikir

Öll margmiðlunar upplifun í símanum er með besta móti. Youtube, Netflix og Vimeo spilast allt saman mjög vel í símanum og auðvelt er að bæta við efni eins og hljóðbókum eða tónlist af Spotify eða Xbox Music.

Microsoft Store er með rúmlega 300.000 forrit og því einfalt að næla sér í leiki til að spila eða forrit til að auka notagildi símtækisins. Öll upplifun við að spila einfalda leiki var fín, þó fannst mér á tímum eins og síminn ætti í smávægilegum vandræðum með að spila hann, kom smá hik en það er vegna 512 MB vinnsluminnis eins og fyrr segir.

En eins og ég sé þetta símtæki þá er þetta ekki neitt leikfang í þeim skilningi.

 

Hugbúnaður & samvirkni

Eins og fram hefur komið hér áður þá koma allir Windows Phone 8 símar með glæsilegri hugbúnaðarsvítu sem gerir það að verkum að það ætti ekki að vanta mörg forrit til viðbótar. Sem dæmi um forrit sem fylgja ókeypis með má nefna Office Pakkinn með Word, Excel og PowerPoint, One Note, Here svítan ásamt þessu venjulega eins og tölvupóstforrit, samþættingu við Google, pdf lesara, reiknivél, dagbók, tengiliðir, vekjaraklukka o.s.frv.

Hér er hægt að lesa samantekt um Windows Phone stýrikerfið og flesta þá kosti sem reikna má með.

Það eru sannarlega færri forrit í Microsoft Store samanborið við Google Play eða Apple Store en við getum sagt með sanni að það ættu flestir að finna það sem þá vantar fyrir Windows Phone símtæki þar sem öll þessu helstu forrit eru kominn í Store.

Hér er hægt að sjá ágætis lista yfir forrit sem Íslenskir WP notendur nota og hér má lesa um Nokia Here leiðsöguforrit sem fylgja ókeypis með öllum Nokia Lumia símtækjum.

 

 

Niðurstaða

Það er einfalt að sjá þetta símtæki sem staðaltæki í fyrirtækjum sem vilja ekki eyða stórfé í snjallsíma fyrir starfsmenn. Hann styður eins og aðrir Windows Phone símar fulla samþættingu við Lync, SharePoint, Exchange og Skype og beint úr kassanum er það með flest allt sem kerfisstjórar eða innkaupaaðilar ættu að huga að.

Síminn er fínn sem byrjendasími eða  fyrir þá sem vanir eru að nota snjallsíma. Hann er kannski full dýr sem fyrsti sími fyrir barn en ef viðkomandi kann að fara vel með hlutina eru allir á grænni grein.

“Miðað við verð” samanburður er þreytt klisja, en við erum sannfærðir um að miðað við verð er erfitt að finna betri símtæki hvort sem það er fyrir einstaklinga eða fyrirtæki.

Ég prófaði að demba móður minni í djúpu laugina og skipti hennar snjallsíma út fyrir þennan auðvelda snjallsíma. Í fyrstu var hún örlítið hikandi en svo þegar á leið virtist þetta vera eina vitið fyrir konu sem komin er á sextugsaldurinn. Helstu forrit sem hún notar eru Endomondo Sports Tracker og merkilegt nokk, til að hringja.

Hún hafði áhyggjur af öllum símanúmerunum sínum en eftir að ég tengdi hana við Outlook.com í tölvunni hennar og símanum virðast hlutirnir vera að koma saman á góðan máta.
Ég býst alveg við því að innan tíðar fari að birtast ótímabærar Snapchat sendingar frá henni hvenær sem er dagsins sem og Facebook statusar um berjatýnslu, sultugerð eða pottadýfingar – from windows phone…

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira