Heim Föstudagsviðtalið Tómas Steindórsson

Tómas Steindórsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 178 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver er þessi Tommi og hvaðan er maðurinn?

Tommi er hamborgarakallinn. Ég heiti Tómas (samt stundum kallaður Tommi og það er allt í lagi) og er 26 ára gamall. Flutti til Reykjavíkur 2011 en er fæddur og uppalinn á Hellu.

 

Föstudagsóskalagið fyrir Tómas er hér, Svört Sól með Sóldögg   🙂

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Flutti upphaflega til Reykjavíkur til þess að fara í háskóla. Það var nokkuð erfitt fyrir óharðnaðan sveitastrák að koma til Reykjavíkur og fatta að það voru fleiri að djamma á þriðjudegi í Reykjavík en á mjög góðum laugardegi á Hellu, svo ég var eiginlega meira á Bakkus og Ellefunni en í háskólanum þessa einu önn sem ég var þar. Var svo að vinna á leikskóla og í félagsmiðstöð í fimm ár en vinn núna á Lyngási, sem er dagvist fyrir fatlaða. Svo vinn ég líka á sambýli fyrir fatlaða og DJ-a á Hverfisgötu 12 (er að spila þar á morgun, allir að koma og hlusta á mig og drekka bjór eða kokkteil). Hjálpa líka stundum Margréti kærustunni minni að klæða sig í blöðrur þegar hún er að vinna.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna 07:30, tek mín þrjú snooze og tek síðan strætó í vinnuna. Fæ mér þrjá power kaffibolla fyrir klukkan 09:00 og er síðan að vinna til klukkan 16. Eftir það fer ég annaðhvort í hina vinnuna mína eða á körfuboltaæfingu. Er svo bara að “tjilla”(eins og krakkarnir segja) þess á milli.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Svona fyrir utan vinnu og þessháttar þá er ég aðallega að æfa og spila körfubolta með vinum mínum í Gnúpverjum. Svo er ég líka að fara útað borða á Dill með Margréti, það verður gaman.

 

Hvert er draumastarfið?

Væri til í að starfa á einhverjum fjölmiðli og fá borgað fyrir að vera með fíflagang, alveg eins og Auddi og Sveppi. Samt eiginlega nokkuð sama hvað ég vinn við á meðan það er vel borgað, lítil sem enginn ábyrgð og sveigjanlegur vinnutími. Væri til í að vera þingmaður og reyna að komast upp með að gera ekki neitt. Bara að fá mér á Ölstofunni á virkum dögum, mæta hlæjandi í bankann í lok mánaðar og taka mér svo gott sumarfrí á Tenerife.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Svosem ekkert eitt sem stendur uppúr enn sem komið er. Á marga góða vini, góða fjölskyldu og góða kærustu. Ekki allir svo heppnir. Finnst það frekar merkilegt.

 

Lífsmottó?

Ekkert sérstakt sko, reyni samt að vera næs við alla.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er svo mikið montrassgat að þegar eitthvað sturlað og skemmtilegt gerist fyrir mig þá er ég yfirleitt búinn að segja fólki frá því samdægurs. Nokkuð sturlað samt að ég var 5,5 kg og 60cm þegar ég fæddist. Sorry mamma.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Dæla peningum í Gnúpverja og gera það að körfuboltastórveldi. Kaupa hús og Volvo og halda geggjað partý fyrir alla vini mína. Svo bara gera eitthvað mjög leiðinlegt og skynsamlegt við rest.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Þar sem ég er frá Hellu er af nógu að taka en ætli þetta sé ekki top 5 listinn

  • Hrafnkell Sigurðsson og félagar í hljómsveitinni Motyl
  • Ómar Diðriksson
  • Þorsteinn Darri Sigurgeirsson
  • Rodolfo vinur minn sem er mjög góður á gítar
  • Sigurgeir gamli skólastjórinn minn sem spilar á munnhörpu í Blúsþrjótunum
  • Honorable mention: Benni Benz sem vann einu sinni jólalagakeppni Rásar 2.

 

Býr tæknipúki í þér?

Alls ekki

 

Apple eða Windows?

Segi Windows en bara afþví ég er þrjóskupúki og ákvað það einu sinni. Finnst bæði bara vera mjög næs.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Ég er núna með HP tölvu sem ég keypti af Gumma vini mínum í skiptum fyrir bjór afþví ég braut skjáinn á Dell tölvunni minni í sumar þegar ég var að spila Football Manager. Hún er mjög fín nema batteríið er ónýtt svo hún verður alltaf að vera í sambandi, annars slökknar á henni.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég keypti Samsung Galaxy S7 í sumar. Það var held ég í annað skipti sem ég keypti síma, var mikið að vinna með að fá gefins síma hjá vinum og vandamönnum þegar þau keyptu sér nýjan.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hef verið með mjög slappa síma í gegnum tíðina svo mér finnst síminn sem ég er með núna bara geggjaður.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Twitter, Facebook, Spotify og svo skoða ég internetið mikið í honum. Einnig hringi ég stundum símtöl.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Appelsínugulur Bosch 509e sem þótti frekar ljótur, meira að segja á þeim tíma. En það fylgdi Fóstbræðraspóla með honum sem ég horfði mjög mikið á.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Alveg eins og þeir eru núna nema bara með endalausu batterí.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Hahahahahaha

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Hey, ég er geggjaður DJ. Endilega ráðið mig. [email protected]

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira