Heim Föstudagsviðtalið Hafliði Breiðfjörð

Hafliði Breiðfjörð

eftir Jón Ólafsson

Eftir smá pásu þá er loksins komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 171 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver er þessi Hafliði og hvaðan er maðurinn?

Ég er fertugur Hafnfirðingur sem hefur búið í Grafarvogi í 12 ár. Ólst upp í Hafnarfirðinum og er alltaf á leiðinni þangað aftur. Einhleypur og á ekki börn.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er stofnandi og framkvæmdastjóri Fótbolta.net sem er fréttavefur um fótbolta eins og nafnið gefur til kynna. Fyrirtækið varð 15 ára á þessu ári og hefur verið leiðandi í íþróttaumfjöllun og langmest lesni íþróttavefur landsins.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna uppúr 8, og mæti á skrifstofuna á milli 9 og 10. Klára öll helstu verkefni sem bíða mín og fer svo í hádeginu í ræktina sem mér finnst mikilvægt til að brjóta upp daginn. Kem svo til baka og borða hádegismat með starfsfólkinu. Klára svo verkefnin á skrifstofunni út daginn. Yfir sumartímann fer ég svo oftast á fótboltaleik um kvöldið, ýmist sem ljósmyndari eða fréttamaður. Reyni samt að passa að eiga nóg af fríkvöldum líka til að brenna ekki út.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

September er mjög annasamur mánuður hjá okkur á Fótbolta.net. Öllum deildum Íslandsmótsins að ljúka, landsliðin að spila heima og úti og Evrópufótboltinn kominn á fullt. Öll athyglin er á að skila því vel frá okkur þessa dagana.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég sá einhversstaðar þessi spakmæli: ,,Finndu þér starf sem þú elskar og þú þarft aldrei að vinna aftur!” Ég er í því starfi. Það má segja að ég sé atvinnumaður í fótbolta þó ég reimi ekki á mig takkaskóna því út á það gengur starfið. Þarna fæ ég líka útrás fyrir öllum áhugamálunum, fótboltinn, ljósmyndaáhuginn, fréttamennskan, öll ferðalögin og fleira. Fæ líka að ráða mér sjálfur við að reka eigið fyrirtæki. Algjör draumur.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Ég hef verið farsæll með það sem ég hef tekið mér fyrir hendur undanfarin ár og eignast ótrúlega marga góða vini í kringum það.

 

Lífsmottó?

Ég held að það sé bara að reyna að njóta lífsins á meðan það varir því það gæti orðið of seint ef maður ætlar að geyma það.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Kannski fínt að taka tvær þarna. Ég hef ekki viljað hafa hátt um það en ég lærði bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Hafnarfirði, hef ekki minnsta áhuga á að starfa við það samt sem áður og myndi aldrei geta gert við bílinn fyrir þig. Svo rak ég pizzustað í Hafnarfirði í fjögur ár frá tvítugs afmælinu mínu.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Ég hugsa að fyrsta skref væri að efla fyrirtækið og annað skref að halda áfram að ferðast. Ég fékk ferðabakteríuna fyrir fjórum árum, hef síðan þá heimsótt 24 lönd og langar að halda áfram að bæta við það. Afgangurinn færi svo í að safna vöxtum!

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég er úr Hafnarfirði og þaðan eru margir af bestu tónlistarmönnum landsins. Björgvin Halldórs, Jet Black Joe, strákarnir í Botnleðju og svo framvegis. Maður gæti talið lengi..

 

Býr tæknipúki í þér?

Já, mikill. Ég les mikið greinar um tæki sem eru að koma og skoða review á YouTube ef eitthvað vekur áhuga minn. Þetta brýst mest út í ljósmyndaáhuganum enda passa ég upp á að vera alltaf með það nýjasta og besta frá Canon. Nýjasta dótið er svo jafnvægishandfang fyrir videoupptökur. Snilldargræja.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Ég nota nokkrar tölvur dags daglega eftir hvað ég er að gera og þá skiptir öllu að nota ský fyrir öll gögn og svo nota ég tölvupósthúsið hjá Gmail fyrir @fotbolti.net póstinn. Á skrifstofunni er ég með samsetta vél úr öllum áttum, fyrir alla ljósmynda- og videovinnslu á ferðinni er ég svo með stóra öfluga Lenovo fartölvu sem fylgir mér á fótboltaleiki um allan heim. Svo er ég með Acer Chromebook R11 í allt annað, frábær vél með 10 tíma batterý, snertiskjá sem er hægt að snúa alla leið og gera að spjaldtölvu, ræsir sig á 1 sek og kostar bara 30 þúsund kall!

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Er í dag með LG G6. Hef verið með LG símana undanfarin ár og mjög sáttur við þá.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Fyrir utan hvað hann fer vel í hendi er helsti kosturinn víðlinsan í myndavélinni og manual stillingarnar. Verandi ljósmyndari sjálfur þá gerir þetta símamyndavélina miklu meira spennandi. Helsti gallinn er að það sé ekki lengur boðið upp á útskiptanlegar rafhlöður í símum í dag. Ég ferðast oft og notaði það mikið.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég er með mjög margt fólk í vinnu og það skiptir miklu máli að vera stöðugt tengdur og allir geti náð í mig. Þróunin hefur verið þannig undanfarin ár að símtölum hefur fækkað verulega og niður í nánast ekki neitt. Í staðinn hefur fólk samband í gegnum spjallforrit og þá helst Facebook Messenger. Ég nota símann líka mikið í tölvupóst og netið, skipulagið með Google Keep og calendar, og myndavélina ýmist í ljósmyndir, video viðtöl, Snapchat og Facebook live.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Motorola 7200 um leið og GSM kerfið kom, ég var bara 17 ára og þá mátti ekki vera skráður fyrir símanúmeri fyrr en maður væri orðinn 18 ára svo pabbi kom til bjargar.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Stærsta vandamálið við síma dagsins í dag sést best á hversu margir eru að leita sér að innstungum á öllum almenningsstöðum og þá sérstaklega á flugvöllum. Fólk er alltaf í vandræðum með litla hleðslu. Þetta ætti að vera það fyrsta sem framleiðendur nýrra síma í dag horfa til, bjóða upp á síma með mun betri rafhlöðuendingu. Draumasími framtíðarinnar er því sá sími sem kemur með hleðslu sem dugar fyrir líftíma símans.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Viðurkenni að ég er bara nýlega búinn að uppgötva Lappara og er mjög ánægður með hana. Mikill metnaður í greinunum. Væri samt til í miklu meiri uppfærslur á tæknivef, helst nokkrar nýjar greinar á dag.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Takk fyrir að fá að taka þátt.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira