LG G6

eftir Jón Ólafsson

Í síðasta mánuði kynnti LG nýtt símtæki sem heitir einfaldlega G6 en reiknað er með að hann komi í sölu á næstu dögum. Þetta símtæki er því uppfærsla í G-fjölskylduna hjá LG. Því miður var hann ekki í kassa þegar við fengum hann og því ekki mögulegt að taka upp afpökkunarmyndband að þessu sinni.

Lappari.com hefur verið með kynningareintak til prófunar og höfum við látið hann finna fyrir því í prófunum. Fyrir skemmstu tókum við saman spekkana og hver okkar fyrsta upplifun af tækinu var.

Við höfum almennt verið ánægðir með þá LG síma sem við höfum prófað eins og til dæmis G2, G3 og V20 og það verður áhugavert að sjá hvernig LG G6 kemur til með að standa sig.

 

 

Eins og sjá má fær LG G6 mjög góða einkunn hjá okkur, lestu áfram til að sjá á hverju við byggjum niðurstöðu okkar.

 

Hönnun og vélbúnaður

Fyrsta upplifun mín af tækinu var mjög jákvæð. Gullfallegt og vel hannað símtæki, athyglisvert hversu langt skjárinn nær út að frambrún tækisins. Bakhliðin fannst mér aftur frekar leiðinleg og stíllaus en það er bara upplifun mín. Bakið er með Corning Gorilla Glass 5 yfirlagi sem ætti að verja tækið vel fyrir rispum. Við skulum allavega vona það þó að tíminn verði að leiða það í ljós.

Símtækið er IP68 vottað sem þýðir að það er raka- og rykvarið ásamt því að þola að liggja í allt að 1,5M dýpi í allt að 30 mínútur.

 

 

Það var því tvennt sem heillaði mig strax við LG G6 en fyrir það fyrsta er það vélbúnaðurinn sem ég var búinn að lesa um áður en ég fékk tækið í hendurnar. Hitt er útlit og hönnun á símtækinu sjálfu en línur sem mætast gera það á þann hátt að nær ómögulegt ætti að vera fyrir ryk, hár og annað eins að komast innundir skjáinn. Framhlið sem er alveg flöt er svo til öll þakin af þessum glæsilega skjá en hann nær alveg til hliðanna og nær svo til alveg að toppi og botni símtækisins. Það var sama með G6 og með V20, sjaldan séð svona fallega útfærslu á framhlið símtækis.

Bakhlið er sveigð sem er bæði skemmtileg andstæða við framhlið og gerir einnig að verkum að símtækið fer vel í hendi. Á bakhlið eru tvær myndavélar, flash og fingrafaraskanni sem er einnig powertakki. LG heldur þannig í þessa venju sína að hafa power takka á bakhlið, ákvörðun sem ég hef lengi furðað mig á en þessi staður venst. Á vinstri hlið eru takkar til að hækka og lækka í tækinu og á hægri hlið er sleði fyrir SIM og microSD kort.

 

 

Síminn sem við prófuðum er með 32GB geymslurými sem er á mörkum þess að vera nóg. Þetta segi ég vegna þess að stýrikerfi og helstu forrit taka rúmlega 11GB og þess til viðbótar þá er hægt að taka upp 2160p video og því eru þessi 20GB fljót að fyllast. Það er því gott eða nauðsynlegt að símtækið sé með rauf fyrir microSD minniskort en síminn styður einmitt allt að 256GB minniskort.

Síminn er merkilega nettur í hendi og vasa þó að hann sé alls ekki lítill enda 5,7″ að stærð. Hann virkar samt einhvern veginn mun nettari en svona stór símtæki eru almennt. Eins og fyrr segir er hann vel búinn vélbúnaðarlega, hann laggar ekkert í neinum aðgerðum í stýrikerfinu eða þeim forritum og leikjum sem ég prófaði. Þetta er ekki alveg sjálfgefið með Android síma.

LG G6 er með 4GB vinnsluminni og keyrir á Snapdragon 821 kubbasettinu frá Quadcomm sem er það vinsælasta í flaggskipum þessa dagana. Símtækið er með Adreno 530 skjástýringu ásamt því að vera með fjórkjarna örgjörva, tvo sem keyra á 2.35 GHZ og aðra tvo sem keyra á 1.6 GHz.

 

Helstu stærðir:

  • Hæð 148.9 mm
  • Þykkt 7.9 mm
  • Breidd 71.9 mm
  • Þyngd 163 gr

 

Til að taka útlitið saman þá er ég mjög ánægður með útlit og almennt hönnun á LG G6, eitt fallegasta símtækið sem ég hef prófað lengi. Frágangur er vandaður, það fer vel í hendi og virkar sterklegt.

 

 

Tengimöguleikar

Síminn er eins að önnur flaggskip, hlaðinn ýmiskonar aukabúnaði og leiðum til þess að tengjast öðrum hlutum. Þar má nefna bluetooth 4.2 (með aptX HD fyrir hljóð), NFC, fingrafaraskanna til aflæsingar, hröðunarmæli (e.accelerometer), snúðvísi (e.gyroscope) og GPS svo að eitthvað sé nefnt. LG G6 styður ýmsa þráðlausa staðla eins og t.d. 802.11 a/b/g/n/ac og styður vitanlega GSM, 2G, 3G og 4G.

Síminn er með USB-C tengi neðst á símanum en með því þá er t.d. mun einfaldara að stinga tækinu í samband við tölvu eða hleðslutæki því það skiptir engu máli hvernig snúran snýr.

 

Efst á síma er aukahljóðnemi (fyrir noise cancelling) og þar er einnig 3.5mm tengi fyrir heyrnartól sem maður þarf að vera þakklátur fyrir að hafa.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlöðuending á LG G6 kom mér nokkuð á óvart samanborið við aðra Android síma með svipuðum vélbúnaði. En fyrstu 1-2 dagana var hún bara þokkaleg en eftir það þá náði ég léttilega að klára fullann vinnudag og vel það. Eins og venjulega þegar ég prófa síma þá var ég ekki að huga að neinum sérstökum rafhlöðusparnaði þegar kemur að notkun. Ég setti upp öll venjuleg forrit sem mér datt í hug eins og Facebook, Twitter, Skype, Instagram, Snapchat, ýmsa leiki, fjóra EAS tölvupóst reikninga en við frekar mikla notkun í þessum prófunum endist rafhlaðan út daginn eins og fyrr segir og var yfirleitt á milli 30-40% eftir 14 tíma notkun.

 

LG er nota 3300mAh rafhlöðu í G6 sem er ekki útskiptanleg af notendum. Hér gefur að líta uppgefinn endingartíma rafhlöðunnar miðað við prófanir hjá GSMArena.

Tal yfir 3G: 22:30 tímar
Netvafr: 8:31 tímar
Myndbandsafspilun: 10:27 tímar

Sumar týpur af LG G6 styðja þráðlausa hleðslu en samkvæmt upplýsingum okkar þá verða þær ekki fáanlegar í Evrópu.

 

 

Hljóð og mynd

Skjárinn í þessum síma er ekkert annað en magnaður, hann er bjartur, skýr og snertivirkni á honum er ótrúlega góð. Skjárinn er 5,7″ IPS LCD með Gorilla Glass 3 rispuvörn og styður QHD 1440 x 2880 upplausn við 564 pixla á tommu (564 ppi). Þar sem skjáupplausnin er í raun 2:1 þá hefur LG unnið meira með split screen forrit í G6. Með því er hægt að vera með 2 forrit í nothæfri stærð og upplausn í gangi á sama tíma.

Allar myndir, letur eða kvikmyndir eru kristaltær á þessum skjá.

Svipað er með G6 og V20 frá LG, ég hef ekkert neikvætt að segja um skjáinn og það gerist ekki oft. Skjárinn er með Dolby Vision og HDR 10 og samkvæmt LG þá mun hann virka mjög vel þegar HDR efni fer að berast frá netveitum eins og t.d. Netflix.

LG G6 er með ágætis hátalara og góðum hugbúnaði til að stýra þeim sem gerir það að verkum að hljómurinn úr símtækinu er góður. Eins og venjulega mundi ég samt alltaf velja mér heyrnartól en þeir sinna samt starfi sínu. Þeir eru þó ekki á pari við t.d. iPhone eða HTC 10.

Hljóðafspilun er mjög tær og ræður LG G6 við að spila 32-bit/192KHz. Ég prófaði tónlistarafspilun með RCA og Bose heyrnartólum og var öll afspilun óaðfinnanleg, kristaltær og hljómmikil. Asiu útgáfan af LG G6 er með fjórum DAC eins og V20 og smá vonbrigði að fá þá ekki í Evrópu útgáfunni.

Síminn er með active noise cancellation eins og fyrr segir, sem vinnur að því að hreinsa umhverfishljóð eins og vind frá þegar talað er í síma eða tekið er upp hljóð með honum.

 

Myndavélin kom mér skemmtilega á óvart en hún var hraðvirk, einföld og skilaði mér ágætis myndum við flest tækifæri, hvort heldur sem er ljósmyndataka eða myndbandsupptakan. Helst ber að nefna hversu ótrúlega snögg og þægileg myndavélin er í vinnslu, mjög fljótlegt að kveikja á vélinni og byrja að mynda en þetta er lykilatriði þegar ná þarf góðri tækifærismynd. Það er ekki sérstakur myndavélatakki sem er vissulega vonbrigði en þetta er orðin regla frekar en undantekning með nýleg símtæki.

Fram myndavélin (fyrir Selfie) er 5MP (f/2.2) 100 gráðu víðlinsu. Vélin er með auto HDR og er mjög góð í öll myndsímtöl og sjálfsmyndir. Aðalmyndavélarnar á bakhlið eru tvær 13MP (önnur f/1.8 og hin f/2.4). Sú fyrri er venjuleg 71 gráðu meðan hin er 125 gráðu eða víðlinsu.

Hér er prufumyndir sem ég tók á vélina (ath, myndirnar eru þjappaðar hér)

 

Myndavélin er hlaðin auka krúsidúllum eins og 4K upptöku, GEO merkingu, snertifocus, andlits/bros nema (fyrir focus), panorama og HDR svo eitthvað sé nefnt.

Litir voru afbragðsgóðir og við góð birtuskilyrði var mjög gaman að skoða dýptina á litunum sem myndavélin náði að beisla. Myndavélin er með tvöföldu LED flash, býður upp á ýmsar mismunandi stillingar og er nokkuð einfalt að fara inn í frekari stillingar og leika sér með ISO stillingar, næturstillingar, manual HDR stillingu sem getur gefið myndum meiri dýpt og reyndar oft á tíðum eilítið ýktan blæ, sem er hugsanlega það sem menn eltast við með HDR myndatökum.

Myndbandsupptakan í vélinni er góð og býður upp á upptöku í eftirfarandi upplausnum
2160p við 30 fps
1080p við 30/60 fps

 

 

Myndbandsupptaka er hraðvirk og einföld í notkun en hægt er að leika sér með HDR og dual-video upptökur. Í samanburði við iPhone 6s Plus sem ég er með hér hjá mér, þá finnst mér myndavélin í LG G6 mun betri. Kannski ósanngjarn samanburður þar sem 6S er orðinn gamall í dag.

Samt eftirtektarvert hversu fljótari hún var að starta sér upp, fljótari að focusa og tók mun skarpari myndir og þá sér í lagi ef birtuskilyrði minnka. Kannski væri betra að bera hann við Galaxy S7 eða iPhone 7 en ég er því miður ekki með þess lags tæki við höndina eins og er.

 

 

Margmiðlun og leikir

Tónlistarspilarinn sem kemur með símanum er auðveldur í notkun og þægilegt að skruna í gegnum hann. Þar er hægt að stilla, breyta og bæta hljóðið sem gæti hentað fyrir þá sem vilja. Myndbandsafspilun í símanum er mjög þægileg og spilar síminn flest þau form af myndböndum sem finnast á stafrænu formi í dag. Eins og með aðra Android síma þá er ekkert mál að sækja sér önnur og mögulega betri forrit til að leysa media afspilun ef þurfa þykir.

 

LG býður uppá sérstaka rafhlöðustillingu fyrir leiki og einnig er hægt að sérstilla t.d. FPS fyrir hvern leik fyrir sig til að hámarka endingu rafhlöðu. LG G6 tækið sem við prófuðum er með 32GB geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi, ljósmyndir og annað margmiðlunarefni en eins og fyrr segir þá er hann með rauf fyrir Micro-SD kort sem styður allt að 256 GB minniskort sem er ekkert slor.

Það er líklega nauðsynlegt að kaupa minniskort strax ef nota á símann við myndatökur, sérstaklega ef nota á 2160p við myndbandsupptökur sem taka mikið geymslupláss.

 

Hugbúnaður og samvirkni

LG G6 kemur með Android 7.0 Nougat sem er nýjasta útgáfan af Android stýrikerfinu. Að venju hafa LG sett sitt eigið viðmót yfir stock Android kerfið í G6 og heitir viðmótið Optimus UI 6.0. Þetta viðmót breytir tækinu töluvert frá stock Android eins og Google hannar það en í tilfelli LG er ég ekki viss um að það sé nokkuð svo slæmt. Þessar krúsídúllur eru reyndar stundum á kostnað framleiðni og þvælast fyrir venjulegu vafri um símann en ég vandist þessu LG viðmóti mjög hratt og stöggla við að finna eitthvað neikvætt um það að segja.

Android er með öllum helstu möguleikum sem snjallsímanotendur geta vænst og hefur þroskast ansi vel síðustu árin, kerfið er orðið mun stöðugra og hraðvirkara en það var. Ef notendur vantar einhver forrit til viðbótar við grunnvirkni sem er innbyggð þá eru allar líkur á að það finnist í Google Play Store, sem er forritamarkaður Google en hann er pakkaður af forritum og þjónustum sem er hægt að sækja ókeypis eða kaupa.

 

 

Í þann tíma sem ég hef haft LG G6 til afnota þá hefur hann fyrst og fremst verið notaður sem vinnutæki. Það eru öll helstu Microsoft forrit eins og Office pakkinn og OneDrive löngu komin á Android og virka vel þar. Ég notaði Outlook appið til að samstilla fjögur EAS netföng, Gmail auk þess sem ég setti upp Simnet póstinn minn (IMAP) á hann. Öll vinna í póstumhverfi er mjög einföld og þægileg og á pari við það besta sem ég hef prófað.

 

Niðurstaða

LG G6 er frábær Android sími með endingargóða rafhlöðu, hann er gullfallegur og fer vel í hendi. Símtækið er sterkbyggt að finna og býr yfir öllum þeim helstu kostum sem maður getur reiknað með í fullorðins Android snjallsíma.

Ég er ánægður með að LG virðast vera hættir að eltast við aðra þegar kemur að hönnun og stælum (gimmicks). LG virðast hafa ákveðið að búa til og hanna góðan síma í staðinn.

LG G6 er með frábærum skjá en hann er einn af stóru kostunum við þetta símtæki. Myndavélin kom mér einnig skemmtilega á óvart en LG hafa einbeitt sér að því að gera grunnkosti myndvélarinnar góða, frekar en að troða inn óþarfa krúsidúllum sem þvælast bara fyrir notendum. Fyrir áhugamenn er samt gott að vita af því að einfalt er að fara inn í stillingar og stilla vélina handvirkt eins og hæfir hverju sinni.

Ég hef líklega sagt þetta of oft hér í lokaorðum mínum en LG G6 er með fallegri símtækjum sem ég hef prófað og mögulega einn besti alhliða Android síminn sem ég hef prófað hingað til. Þetta er sannarlega símtæki sem ég gæti hugsað mér að kaupa og lifa með.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira