Heim Föstudagsviðtalið Arnheiður Jóhannsdóttir

Arnheiður Jóhannsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 165 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver er þessi Arnheiður og hvaðan er kellan?

Ég er fimm barna móðir frá Hrísey sem býr núna á Akureyri. Get því kallað mig innfæddan Akureyring þegar við á þar sem Hrísey er orðin hluti af Akureyri. Bjó hér og þar um landið en sýnist að ég eigi best heima hér. Flakkaði líka um heiminn bæði í vinnu og skóla og hef alltaf átt erfitt með að festa rætur á einum stað, það er bara svo margt skemmtilegt sem hægt er að upplifa út um allan heim.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og starfa því við það að koma ferðamönnum norður, fá þá til að dvelja lengi og ferðast vítt og breitt um svæðið. Þar áður var ég hjá Nýsköpunarmiðstöð, starfaði við rekstrarráðgjöf, tók að mér smá kennslu í HA og svo auðvitað fóru nokkur ár í að eiga börnin.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vekjaraklukkan hringir kl 7 og ég snúsa til hálfátta þegar sturtan er laus. Reyni svo að flækjast ekki fyrir börnunum í eldhúsinu en passa að allir taki með sér nesti, húfur og íþróttaföt. Mæti í vinnuna uppúr átta og þar er ekkert sem heitir venjulegt því starfið er svo fjölbreytt. Þriðjung af tímanum er ég á ferðalögum innanlands eða utan. Hitti mikið að fólki, skrifa skýrslur og upplýsingaefni, fer á ferðasýningar, tek myndir, held kynningar og finn allskonar leiðir til að koma Norðurlandi á framfæri ásamt félögum mínum á Markaðsstofunni.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Þessa dagana er allt að verða tilbúið fyrir vorið, ferðahandbókin okkar að koma út, nýjir starfsmenn að koma inn í eflingu á vefmálum og stefnumótun fyrir svæðið og svo er náttúrulega bara páskafrí   🙂

 

Hvert er draumastarfið?

Draumastarfið er nú bara það sem ég er í, ætlaði mér alltaf að vinna við alþjóðlega markaðssetningu og reka fyrirtæki svo ég er nokkuð sátt.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Viðtalið er klárlega það besta, skil ekki af hverju ég þurfti að bíða svona lengi!

 

Lífsmottó?

Pollýana er mín fyrirmynd.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Fyrsti bíllinn minn var upphækkaður Chevrolet Blazer á 38 tommu dekkjum sem ég notaði til að þvælast um landið eða skreppa í gæsaveiði.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Hvar á ég að byrja…ætli ég myndi ekki kaupa mér hús í Hrísey og fjárfesta svo í góðu fyrirtæki.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Held þeir kenni sig ekki við bæinn en Mugison og Ásgeir Trausti voru báðir Hríseyingar um tíma. Berndsen er þaðan líka, Johnny King var frægastur allra en svo er Rúnar Þór Pétursson eiginlega sjálfskipaður tónlistarkóngur eyjarinnar.

 

Býr tæknipúki í þér?

Já og hann er frekar erfiður því hann á það til að rugla í öllum tækjum sem ég kem nálægt.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 10

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 7+, ætlaði aldrei að fá mér stóran en mun aldrei skipta aftur í minni. Langar helst að fá enn stærri síma því þetta er svo næs.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Stærðin á skjánum, þægilegur í notkun og einfaldur, virkar alltaf, endalausir möguleikar til, maður þarf bara að bera sig eftir þeim. Gallarnir eru kannski tengdir stærðinni, fer ekki vel í vasa og ekki séns að hafa kortaveski með honum sem þýðir að ég er allt of oft peningalaus!

 

Í hvað notar þú símann mest?

Vinnuna þ.e. tölvupóst, fara yfir skjöl, samskipti í gegnum ýmsa miðla, í myndatökur og dreifingu á þeim. Ótrúlega góð minnisbók líka og hvar væri lífið ef ekki væri calendar í símanum.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia eitthvað, man ekki hvað hann hét en þetta var árið 1999. Sama ár og maður þurfti að undirbúa tölvurnar sínar sérstaklega fyrir hin stórhættulegu árþúsundamót. Þá bjó ég í Bretlandi og fékk í hús sérstakan millenium leiðbeiningabækling til að tryggja að tæki heimilin kæmust örugglega í gegnum þessa breytingu.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Verður það ekki eitthvað annað en sími?

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Lappara að sjálfsögðu en annars fylgist ég bara með Halldóri vinnufélaga, hann er duglegur að setja pressu á mig. Unglingarnir á heimilinu moka svo í mig fróðleik, langbest að fá nýjasta nýtt þaðan.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Takk fyrir mig!

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira