Heim Föstudagsviðtalið Helga Ingimundardóttir

Helga Ingimundardóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 152 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver er þessi Dr. Helga og hvaðan er kellan?

Helga Ingimundardóttir er fædd 1985 og lauk BS-prófi í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2008 og MS-prófi í reikniverkfræði við sama skóla árið 2010. Árið 2009 innritaðist Helga í doktorsnám í reikniverkfræði, hlaut doktorsstyrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og titilinn philosophiæ doctor sumarið 2016. Helga er heimasæta í Garðabænum en sleit barnsskónum í Hafnarfirði. Áhugamál Helgu eru ferðalög, hannyrðir og internet-kisur.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er nýbyrjuð í tölfræðideildinni hjá Íslenskri Erfðagreiningu og mun fást við nýja tegund raðgreiningar á erfðamengi mannsins. Fyrir það hef ég verið SQL ráðgjafi hjá AGR Dynamics, sinnt hugbúnaðarþróun hjá Völku og einstaka sinnum verið í fagráði Tækniþróunarsjóðs Rannís.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Snúsa svona a.m.k. 3 sinnum.
Fæ mér kannski morgunmat, ef það er ekkert spennandi að skoða frá #næturtwitter nóttina áður.
Fer upp í vinnu og fæ mér fyrsta kaffibolla dagsins um 9 leytið.
Byrja á að kíkja á tölvupóstinn minn og athuga hvaða hlaðvarp ég á eftir óhlustað, en í uppáhaldi (í þessari röð) eru Englaryk, Fílalag og My Dad Wrote a Porno.
Kíki í löns (sem er btw geðveikur í deCODE) um 11:30. Aftur í kaffi.
Restina af vinnudeginum forrita ég og hlusta á Streymi (er að vinna mig í gegnum back catalogue’inn).
Vinyasa eða Hatha jóga í Jóga stúdíó, Ánanaustum, strax eftir vinnu.
Svo ef ég er ekki að hámhorfa á nýja seríu af Netflix, þá er líklega #hannyrðatwittingur í gangi eða ég er jafnvel á stefnumóti.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ég er með þrjú útsaumsverkefni í gangi þessa stundina. Í fyrsta forgangi er Veturinn úr Árstíðum Thorvaldsens gert í krosssaum. Næst er Þresking í góbelín, einnig eftir Thorvaldsen. Síðan hef ég verið að vinna í miðaldarábreiðunni Ævi Jesú í fléttusaum, en er að gæla við að setja aðra ævi en Jesús í mótífin. Mögulega Star Wars eða Lísu í Undralandi.

 

Hvert er draumastarfið?

Sjá svar við 500 milljóna Lottóvinningi.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Að fá doktorsritgerð mína „LÍSA: Lærdómur ítrekunarreiknirita og samtakagreining algríma“ samþykkta til varnar.

 

Lífsmottó?

Eftir aðstæðum þá „Batnandi manni er best að lifa“ eða „Betra er autt rúm en illa skipað.“

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er tvíburi fæddur í desember.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Ég myndi kaupa mér ótrúlega mikið af fínu handspunnu og handlituðu garni. Því næst stofna mitt eigið fyrirtæki, HiDefTextiles, og eyða öllum tíma mínum í að sameina helstu ástríður mínar: hannyrðir og bestun. Þá væri bestun á sníðagerð og sjálfvirk prjónamynstursgerð svona helstu viðfangsefni. Þangað til ég vinn í lottói, þá tísti ég stundum undir @hideftextiles um draumaverkefni og tengd málefni.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég var ekki nógu tónlistarlega þenkjandi á meðan ég bjó enn í Hafnarfirði, þannig að ég kýs að svara með tilliti til #90210GBR.

  1. Bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir í ADHD
  2. Dikta
  3. Mínus
  4. Of Monsters and Men
  5. Ragnheiður Gröndal

 

Býr tæknipúki í þér?

Alveg merkilega lítið, en ég er markvisst að vinna mig upp í þeim efnum. Ég á 90s prjónavél sem ég hef lengi ætlað mér að koma á „the oneties.“ Ég var komin svo langt að læra að lóða (Sjá http://wiki.fablab.is/wiki/HiKnitterStream), en þetta mun vonandi koma heim og saman 2017.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Ég er með Windows 10 Enterprise fyrir Internet, textavinnslu og tónlist en Red Hat Enterprise 7.3 fyrir alvöru forritun. Annars nota ég helst iPhone og iPad heima fyrir.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

„Bro gold“ iPhone7.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hann passar í flest öll spariveski mín. Ég átti iPhone6+ en helsti ókosturinn var að ég þurfti að velja og hafna helstu lífsnauðsynjar til að geta farið út með penari veski.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Twitter
  2. Fitbit
  3. Clue
  4. Tinder
  5. ねこあつめ (lesist: Neko Atsume eða Kitty Collector)

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Eins síma og Kristbjörg Kjeld karakterinn í Föngum, Nokia 3310.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Væri ekki bundin við efnisheiminn, heldur einhvers konar hugboð eða fjarskynjun.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég treysti að vinir og vandamenn séu dugleg að deila á twitter eða facebook. Annars hef ég delegate’að þessari tæknilegri hlið til bróður míns.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Árni Torfason, ertu laus í 8bit samstarfsverkefni fyrir #hannyrðatwitter ?

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira