Heim Föstudagsviðtalið Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 115 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Alinn upp í Hafnarfirði og hef búið þar nánast alla mína ævi utan nokkur ár í Mosfellsbæ og í Lundi í Sviþjóð. Gekk í Engidalsskóla, Setbergsskóla og loks Flensborg. Fór svo í Háskóla Íslands. Æfði fótbolta með FH í fjórtán ár en missti áhugann enda þykja mér vísindi miklu meira heillandi. Ætli ég sé ekki þekktastur fyrir að hafa, ásamt félögum mínum í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, fært öllum grunnskólanemendum og kennurum sólmyrkvagleraugu í fyrra. Sem var geggjað og einstakt á heimsvísu! Erfitt að toppa það.

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa við vísindamiðlun hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Í því felst kennsla í frábærum menntaverkefnum sem HÍ stendur að, t.d. Vísindasmiðjunni, Háskólalestinni og Háskóla unga fólksins. Ég er líka stjörnufræðikennari í Menntaskólanum í Reykjavík. Þriðja reglulega vinnan er að sýna ferðamönnum stjörnuhimininn og norðurljós frá stjörnuskoðunarhúsi við Hótel Rangá. Þar fyrir utan eru mörg önnur verkefni, t.d. heimsóknir í skóla að fræða krakka um vísindi, fyrirlestrar og námskeiðshöld um vísindi og vísindakennslu, yfirlestur á námsefni og þannig mætti áfram telja. Fyrir síðustu jól kom út vísindabók um geiminn og geimferðir sem ég skrifaði með Vilhelm Anton Jónssyni, Villa Naglbít. Ég er líka formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og umsjónarmaður Stjörnufræðivefsins, stjornufraedi.is. Hef því alveg alltof að gera.

Hvert er draumastarfið?

Geimfari. Að sjá Jörðina utan úr geimnum eða ganga á tunglinu og heimsækja Mars hefur verið draumur frá því í barnæsku. Sennilega er heldur ólíklegt að draumastarfið verði að veruleika. Raunhæfara draumastarf er einfaldlega að sama og ég hef fengist við undanfarin ár: Að miðla vísindum, reyna að kveikja áhuga barna og fullorðinna á vísindum og láta gott af mér leiða. Ég væri líka alveg til í að vinna með Elon Musk hjá Tesla og SpaceX.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna um 7-8 eftir því hvenær ég þarf að byrja að vinna. Ef veðrið er gott eftir vinnu fer ég austur á Rangá til að sýna fólki stjörnurnar. Ef tími vinnst til kíki ég í ræktina. Ég horfi aldrei á sjónvarp svo kvöldin fara í meiri vinnu, oftast undirbúning fyrir kennslu eða að skrifa fyrir Stjörnufræðivefinn.

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ansi margt. Ég vinn alltof mikið en það er bara til þess að reyna við að safna fyrir íbúð, sem gengur frekar erfiðlega og til að láta aðra drauma rætast. Þessa dagana fer allur minn frítími í að endurskrifa og skrifa nýtt efni á Stjörnufræðivefinn sem verður snjallvæddur innan tíðar. Er líka byrjaður að leggja drög að nýrri bók og svo er ég að undirbúa ferð til Indónesíu til að fylgjast með sólmyrkvanum þar 9. mars 2016.

Eitthvað slúður úr bransanum sem við þurfum að vita?

Hmm, er voða lítill slúðrari en þegar ég hitti vin minn sem er yfirmaður geimrannsókna hjá ESA þá fæ ég nýjasta slúðrið þaðan og frá NASA beint í æð, sem er skemmtilegt en mjög nördalegt vísinda- og tæknislúður.

Lífsmottó?

Vera besta útgáfan af sjálfum mér. Prófa eitthvað nýtt og stíga sem oftast út fyrir þægindarammann. Reyna að nýta hvern dag til að láta gott af mér leiða og læra eitthvað nýtt um heiminn í leiðinni til þess að gera þessa Jörð að betri stað og þannig búa syni mínum bjarta framtíð.

Sturlið staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég reyni mitt besta til að horfa á alla Seinfeld þættina á hverju ári. Er líka ástríðukokkur sem finnst gaman að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Sturlaðasta staðreyndin er samt auðvitað sú að ég er 100% úr leifum sprengistjarna. Eins og reyndar við öll. Það er klikkað!

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Byrja á að kaupa mér rauða Tesla Model S P85D. Aka honum síðan í leit að draumaíbúðinni og kaupa hana. Hjálpa mínum nánustu og tryggja syni mínum örugga framtíð. Gefa slatta í góðgerðarmál sem tengjast börnum. Leggja nokkrar milljónir í að efla Vísindasmiðju Háskólans. Loks myndi ég leggja peninga í nýsköpunarfyrirtæki og reyna að ávaxta restina þannig að ég geti lifað fremur áhyggjulausu lífi það sem eftir er.

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Jet Black Joe, Botnleðja, Björgvin Halldórsson, Jón Ragnar Jónsson, æskufélagi minn úr FH og bróðir hans Friðrik Dór.

Hver er besti tónlistarmaður landsins?

Ég er mikill aðdáandi Jónsa í Sigur Rós og alls sem hann gerir.

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Ég er Apple fanboy og nota bæði MacBook Pro og iMac svo MacOS X El Capitan er stýrikerfið.

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6s Plus.

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helsti kosturinn er góð rafhlöðuending. Helsti gallinn er stærðin sem er reyndar líka ákveðinn kostur. Kannski er helsti gallinn við símann hvað ég nota hann mikið.

Í hvað notar þú símann mest?

1. Símtöl
2. Vafra á netinu
3. Hlusta á tónlist, hlaðvörp og hljóðbækur
4. Twitter (@saevarhb)
5. Mæla næringu og hreyfingu

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 3210. iPhone 3Gs var fyrsti snjallsíminn.

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

4,7-5 tommu iPhone með tveggja daga rafhlöðuendingu og Siri sem skilur íslensku.

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

The Verge, TrustedReviews og CNET og svo auðvitað Lappari.com. Það mættu alveg vera fleiri íslenskar tæknisíður en veit að það útheimtir mikla vinnu. Simon.is og Einstein.is eru fínir vefir líka og vonandi eflast þeir.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Hvet alla til að líta annað slagið upp úr símanum og horfa til himins. Gæta sín að glata aldrei barnslegri forvitninni, spyrja alltaf af hverju og láta gott af sér leiða. Er handviss um að þá væri heimurinn enn frábærari.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira