Heim Föstudagsviðtalið Sonja Jónsdóttir

Sonja Jónsdóttir

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 102 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Sonja Jónsdóttir, kölluð Son og er ein af venjulega fólkinu, sem vísað er til hér að ofan. Verri helmingur, mamma og Valsari úr úthverfi. Kaldhæðin og seinheppin með mögulega of svartan húmor, sem á það til að flækjast fyrir og já koma mér stundum í pínu vandræði.

Ég á mér áhugamál sem tóna illa saman eins og íþróttir og tísku, krúttast með fjölskyldunni minni og drekka bjór með félögunum, outdoorast og hanga uppí sófa yfir Netflix, stunda lyftingar og skókaup, hlusta á tónlist og dj-ast í íþróttapartýum (af því þar er andstæðan við að hlusta á tónlist), pæla í fuglum og mannlegri hegðun.

Twittervinur sagði: „lítil, en samt stór“. Skal ekki segja. Er aðallega í því að vera ekki töff.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er svo heppin að vinna á frábærum vinnustað með sjúklega skemmtilegu og góðu fólki, hvar ég á marga góða vini. Að eigin mati erum við dugleg að vera sniðug saman.

Ég á 5 ára gamla dóttur, sem kemur til með að stýra þessu landi þegar hún hefur ýtt öllum hindrunum úr vegi, og er maður aðallega búinn að vera að hjálpa henni að undirbúa það og bralla með henni og betri helmingnum síðustu árin. Við erum búin að lesa okkur gegnum öll bókasöfn borgarinnar, hlaupa öll Latabæjarhlaup síðustu ára, hjóla marga hringi kringum landið í óeiginlegri merkingu, auk þess sem rólur höfuðborgarsvæðisins eru allar fullreyndar. Og já horfa sjöþúsundogfimmhundruð sinnum á Frozen.

Ég er fyrrverandi handboltastelpa og stússast svolítið í tengslum við það líka.

 

Hvert er draumastarfið?

Þar sem mér myndi leyfast að mæta til vinnu undir hádegi. Er alger morgunhaugur.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Sama hvað ég reyni þá byrjar dagurinn alltaf á hálftíma snoozi. Skila svo litla ráðherranum á leikskólann. Vinna. Æfing. Twitter. Netflix. Twitter. Snooza…
Ég fer alltof seint að sofa. Orsakasamhengið milli þess og snoozins er samt algerlega ósannað. Í alvöru sko.

Það er auðvitað bilun hvað maður á að vera upptekinn í dag, og koma í verk til að geta talist samfélagsfær og smellt í almennilegan Facebook status. Ég reyni að falla ekki í þennan pytt og eyða tímanum í fólkið mitt og sjálfa mig eins og hægt er. Auk þess að spara Facebook. Það er mjög mikilvægt.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Er aðallega að leika mér bara með fjölskyldunni, í vinnunni, með vinum og Völsurum. Þessi mengi skarast öll.

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Ég sit við tölvu allan daginn og öll mín vinna fer fram þar. Ég þarf mikið að skoða, fylgjast með og kynna mér við mína vinnu. Bensínvélar og örgjörvar, snúrur og algóriðmar. Nýti mér þetta allt saman. Ekkert forritunarlingó hér krakkar.

 

Lífsmottó?

Æ ég er nú ekki mikið í þessari deild. Held að mottó sé konsept sem sé dæmt til að misfarast. Mér finnst þó alltaf góð ábendingin um að ef þú þarft að útskýra að þú hafir verið að segja eitthvað í hæðni þá hafi brandarinn mistekist.

Mér gengur hins vegar ekkert sérstaklega vel með þetta.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Ég veit allt um íslenska fugla. Þetta er nokkuð sem kemur sér vel ca. einu sinni á ári þegar fuglaspurningin kemur í GettuBetur, og takið eftir að hún er nánast alltaf úrslitaspurning.

Ég á Íslandsmeistaratitla og landsleiki í handbolta. Líklega enginn sem les þetta veit af því.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Kaupa efstu hæðina á Höfðatorgi, og framkvæma lokaatriðið í Fight Club.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég hlusta mjög mikið á tónlist og við hjónaleysin erum dugleg að fara á tónleika hérlendis og erlendis. Næst á dagskrá eru útgáfutónleikar Agent Fresco. Ég held að þeir séu úr Reykjavík…

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins?

Pabbi.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 7 í vinnunni og Windows 10 heima.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Iphone 6

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Góður Twitter client. Batteríð mætti þó standa sig betur þegar mikið er í gangi á Twitter.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Tölvupóst og Calendar
  2. Myndavél
  3. Netráp
  4. Twitter
  5. Messenger

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Hann var svona hvítur og blár með rauðu símtóli, augum sem gátu blikkað og fjórum hjólum og bandi þannig að ég gat dregið hann á eftir mér. Er enn í dag með síma sem blikkar mig stöðugt og eltir mig hvert sem er.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Iphone með batteríi sem tekur nokkrar sek að hlaða til fulls.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Nú auðvitað lappari.com! Svo reyni ég að fylgjast með því sem Apple er að gera, og skammast mín pínu fyrir það. Ætlaði aldrei að ganga í þann költ.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já. Með vísun í föstudagsviðtalið við Séntilmennið vil ég taka fram að denim on denim er víst leyfilegt.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira