Heim Föstudagsviðtalið Hilmar Þór Guðmundsson

Hilmar Þór Guðmundsson

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 90 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Hilmar Þór Guðmundsson er nafnið og er hálfur Strandamaður og hálft borgarbarn. Tveggja barna fráskilinn faðir úr Vesturbænum og auðvitað KR-ingur í húð og hár.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég sé um markaðsmál fyrir KSÍ dags daglega. Er lærður ljósmyndari og hef verið að vinna við markaðsmál, hönnun og ljósmyndun frá því að ég man eftir mér. Ætlaði alltaf að vera lögga en endaði sem ljósmyndari og svo markaðsmálamaður. Mjög sáttur með það. Æðislegt starf!

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Núna (í dag) er t.d. landsleiksdagur þar sem Ísland og Tékkar mætast og þá er dagurinn sjálfur ekki sá annasamasti enda hafa seinustu vikur farið í að gera allt klárt. Svo fer allt á hundrað seinni partinn þegar fólk mætir á völlinn og fram yfir miðnætti. Þá er hægt að slaka aðeins á, vonandi 3 stigum ríkari. Á morgun byrjum við svo að hugsa um lokamót U17 kvenna sem haldið verður á Íslandi í lok mánaðar, það er svakalegt batterí og ekki mikill tími til að slaka neitt mikið á. Svo er ég tveggja barna fráskilinn faðir og þarf að sinna börnunum mínum – á tvö yndisleg börn sem ég reyni að ala sómasamlega upp.

 

Hver er uppskriftin að hinum fullkomna degi?

Ég reyni að skemmta mér yfir öllu sem ég geri, sama þó það sé ekki það skemmtilegasta. En fullkominn dagur væri í dag að vinna Tékkana og koma okkur á toppinn í riðlinum. Annars eru flestir dagar skemmtilegir í minni vinnu. Þeir eru fjölbreyttir og það er alltaf eitthvað nýtt að gerast. Svo er gríðarlega mikilvægt að komast í ræktina eða út að hjóla daglega. Ég reyni það eftir mesta megni og læt það yfirleitt ganga upp. Í gær var ég t.d. að vinna til um tíu en þökk sé sólahringsól þá tók ég fram hjólfákinn og þeystist um í tvo tíma. Sofnaði sæll og glaður.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Það er svo margt! Vinnan er stór partur af öllu núna útaf landsleikjum, mótum og öðru. KSÍ er stærsta sérsambandið á landinu og við höldum úti öflugu markaðsstarfi. Það er í mörg horn að líta á stóru heimili og allir þurfa að fá sína athygli – það vantar stundum nokkra klukkutíma í sólarhringinn til að koma öllu heim og saman. En einhver sagði einu sinni: „Þó fólk haldi annað á tímum, þá fara hlutirnir alltaf einhvernveginn.”

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Ég er Makkamaður og nota nánast allt frá Apple dags daglega. Það má alveg kalla mig fan-boy án þess að ég móðgist – lít meira á það sem upphefð. Ég lifi í Apple hagkerfinu með að reyna að vera með það nýjasta þegar það kemur út (og það meiki sens að eiga það). Ég er meira og minna tengdur allan daginn og stundum á kvöldin ef þarf. Ég hef valið Apple til að vera minn samstarfsaðili í því, og samstarfið er gott.

 

Einhverjar nýjungum í IT sem lesendur ættu að fylgjast með í náinni framtíð?

Sem Apple maður þá myndi ég segja bara næsta iPhone. Það er sama hvað margir agnúast út í Apple með að vera eftirá og allt það. Þeir selja mun meira en hinir og er drullusaman um slík komment. Ég hef notað marga síma en eftir að ég byrjaði með iPhone þá hef ég ekki litið um öxl.

 

Lífsmottó?

Hafa gaman af öllu – líka því leiðinlega. Og prófa allar Betur á hugbúnaði – þó það geri lífið nánast ómögulegt í smá tíma á eftir. Lifa á brúninni!

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Fyrsti iPhone-inn minn var 4S. Sem er sturlað miðað við hvað ég er mikill fan-boy. En ég var samt alltaf PC maður með Nokia síma og svo Android. Hoppaði frekar seint á Apple vagninn en sé ekki að ég sé að fara þaðan aftur.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Þar sem ég er frá Reykjavík þá eru ansi margir sem hægt er að nefna. Sem Strandamaður þá verð ég að játa án þess að blikna að ég hef ekki hugmynd um hvaða tónlistarmenn koma þaðan 🙂

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Sem stendur er ég að keyra MAC OS 10.11 El Capitan. Ég er mjög nýjungagjarn og prófa betu hugbúnað um leið og hann kemur út. Stundum hefur lífið verið óbærilegt í einhvern tíma á eftir en yfirleitt lifir maður það af. Er núna að prófa nýjasta OS frá Apple, El Capitan, og það lofar góðu.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er með iPhone 6 og meira að segja að keyra iOS 9 á honum. Ég mæli ALLS EKKI með því að setja upp iOS 9 nema þú sért gangandi hleðslutæki og getir hlaðið símann allan daginn. En ég er svo þolinmóður að ég bíð eftir næstu uppfærslu og nenni ekki að setja iOS 8 aftur á hann. Þolinmæði er dyggð.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég myndi segja að iPhone 6 sé hinn fullkomni sími – þangað til iPhone 6s kemur og þá er hann hinn fullkomni sími. Engir gallar sem vert er að minnast á (fan-boy effect).

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Facebook
  2. Twitter
  3. Snapchat (hilmartor þar)
  4. Pósturinn (Vinnan alltaf)
  5. Myndavél (instagram og slíkt)
  6. Pages / Everypost (fyrir vinnuna)

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Man það ekki en það var Nokia. Man vel að það var hægt að spila Snake á honum, og hringja símtöl.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Þetta er auðvelt. Næsti iPhone. Grínlaust.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég fylgist með þeim helstu erlendis sem fjalla um Apple. T.d. www.cultofmac.com, www.9to5mac.com og því helsta. Svo fylgist ég með þessum helstu heima eins og lappari.com, Simon.is og því. Svo líka þeim sem eru að pósta mikið á samfélagsmiðlum en þar er Macland með vinninginn, oft epík að lesa það sem þau setja inn.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég vil biðja alla að bera virðingu fyrir hvort öðru og leyfa öllum að hafa sínar skoðanir og trú. Þá er ég auðvitað að tala um Apple-trú en ég dæmi ekki þá sem nota Windows-síma né Android síma. Líða vel með það val sem maður hefur gert og standa eða falla með því sem við gerum.
Og alltaf hugsa, „hvað er það versta sem getur gerst?”

Lifið heil.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira