Heim Föstudagsviðtalið Finnur Pálmi Magnússon

Finnur Pálmi Magnússon

eftir Ritstjórn

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 87 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég er Product owner hjá Meniga og fyrstu fimm árin bjó ég Reykjavíkurmegin í Fossvogsdalnum en flutti svo yfir í Kópavoginn. Hef haldið mig að mestu þar fyrir utan þrjú ár í London.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég vinn með mögnuðum hópi snillinga við að þróa Meniga og hjálpa fólki að skilja eigin fjármál betur. Þetta er líklega með skemmtilegri vinnustöðum á landinu og verkefnið er krefjandi. Það er mjög gefandi að vinna við að einfalda líf fólks og þakkarpóstarnir sem við fáum stundum eru ómetanlegir. Það verður líka seint leiðinlegt að þvælast um heiminn og sitja fundi í skýjakljúfum fullum af fólki sem treystir okkur til að poppa upp netbankana sína. Það kemur flestum hér heima á óvart að það hafa rúmlega 20 milljón manns aðgang að lausninni okkar í 15 löndum.

Ég byrjaði í vefþróun eftir fyrstu önnina í tölvunarfræði ´97 og síðan þá hef ég gert allskonar. Byrjaði að hnoða vefsíður sjálfur og færði mig svo yfir í Vefsýn þar sem við settum meðal annars upp Tilveran.is og byrjuðum með Vefverðlaunin back in the good old days. Þaðan til Íslensku Vefstofunnar það sem ég var að hanna bókunarvélar og nýja vefi fyrir Icelandair og Símann. Brann út á því og fór í jólaköfunarferð til Hondúras. Hringdi af ströndinni í forstjóra VYRE og sagði honum að ég væri að fara að vinna hjá þeim í London. Þar lærði ég helling í verkefnum fyrir Sony, Woolworths, Virgin og fleiri.
Ég vann líka í smá tíma fyrir Pluck sem þróaði social media lausnir fyrir fjölmiðla og fyrirtæki.
Flutti aftur heim 2008 og var að freelanca, vinna fyrir finnskt tölvuleikjafyrirtæki og sjá um tæknimál á þjóðfundum. Tók að mér að vera tæknistjóri Stjórnlagaráðs og náði að koma því á forsíðu TechCrunch og Mashable sama daginn 😛
Var vörustjóri í tvö ár hjá Marorku og bráðum tvö ár hjá Meniga.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég hjóla í vinnuna og fylli hausinn af súrefni, fæ mér tvöfaldan espresso og reyni að hreinsa innhólfið. Klukkan 10 tek ég uppistand með teyminu mínu og síðan tekur við rússíbani af fundum, prototyping, backlog grooming og meiri kaffidrykkju. Hjóla aftur heim og tæmi hausinn og reyni að elda eitthvað sniðugt. Oftar en ekki opna ég svo tölvuna aftur eftir að hafa lesið dóttur mína í svefn og held áfram fram eftir kvöldi.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Við erum alltaf að vinna í næstu útgáfu Meniga. Það er hellingur af sniðugum hlutum á leiðinni bæði í vefkerfinu og appinu. Nýlega unnum við til verðlauna á Finovate ráðstefnunni í London með gagnvirkri útgáfu af “Activity feed” í Meniga appinu og erum að fylgja því eftir.
Við erum meðal annars að reyna að átta okkur á því hvernig Apple úrið og önnur klæðitæki passa inn í heildarmyndina hjá okkur.
Það er líka mikill áhugi á þessari nýju tegund tilboða sem við settum í loftið á Íslandi um daginn undir nafninu Kjördæmi. Þetta er framtíðin í online marketing og það er mjög gaman að sjá viðtökurnar hér heima.
Auk þess er ég í stífum æfingum fyrir WOW cyclothon með #Menicycle.

 

Lífsmottó?

Hopeless optimism

 

Hvernig nýtast tölvur/tækni í þínu starfi?

Bara déskoti vel takk. Ég nota reyndar mikið pappír og penna í hugmyndavinnu en færi mig svo fljótlega yfir í Sketch og InVision til að þróa og prófa nýja virkni.
Við erum líka með skrifstofur í Svíþjóð og London svo við notum Slack, Hangout, Skype, Lync og Atlassian lausnir til að halda okkur í sync.

 

Hvaða nýjungum í IT eiga lesendur að fylgjast með í náinni framtíð?

Það verður alltaf einfaldara að púsla saman tæknilausnum en það sem skilur þær að er upplifun notenda. Það er alveg þess virði að gleyma sér aðeins í User Experience fræðum þegar maður er að vinna í hugbúnaðarþróun. Svo hef ég sérstakan áhuga á því hvernig hægt er að nota tækni til að hjálpa fólki að læra nýja hluti og bæta líf sitt. Hooked og Persuasive Technology eru ágætar bækur um þetta efni.
Ég hef líka brennandi áhuga á prototyping og lean vöruþróun. Nýlega hef ég verið að keyra Design Sprints eftir forskript Google Ventures með góðum árangri

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Ég kann að brugga bjór, búa til beikon og osta. Hef ekki prófað að skerpa skauta.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OS X Yosemite á Air vinnutölvunni og iMac heima.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6 plus

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég get klárað ótrúlega margt vinnutengt á breiðtjaldinu og það hjálpar að sýna nýja virkni á fundum í öllum þessum pixlum. Rafhlaðan er líka mögnuð.
Það er stundum kjánalegt að nota símann með annari hendi en ég er alltaf að verða flinkari og nota doubble-tap óspart til að draga skjáinn niður.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Samfélagsmiðlar og grúsk á víðlendum veraldarvefsins
  2. Tölvupóstur, Slack og dagatal
  3. Meniga work and pleasure
  4. Hjóla með Strava
  5. Hlusta á Spotify og Overcast

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110 með glimmer bláu cover.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Bara þessum helstu en mæli kannski sérstaklega með Medium.com sem tekur sífellt stærri skerf af mínum tíma og Invision bloggið er alltaf stútfullt af innblæstri fyrir vöruhönnuði http://blog.invisionapp.com/

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Alltaf segja já og aldrei gefast upp.
Jón (ritstjóri Lappari.com) er búinn að bögga mig reglulega síðan í Maí 2013 að svara þessum spurningalista og ég sagði alltaf já. Svo þegar ég loksins svara er þetta líklega allt of langt TL;DR.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira