Heim Föstudagsviðtalið Föstudagsviðtalið – Þorsteinn Baldur Friðriksson

Föstudagsviðtalið – Þorsteinn Baldur Friðriksson

eftir Jón Ólafsson

Þá er kominn tími á föstudagsviðtalið en þetta viðtal er partur af viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 23 í röðinni. Eins og venjulega þá er tilgangurinn fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Viðmælandi minn að þessu sinni heitir Þorsteinn Baldur og hefur hann verið mikið í umræðunni síðustu daga og vikur en fyrirtæki hans Plain Vanilla setti fyrir skemmstu á markað leikinn QuizUp fyrir iPhone sem hefur slegið all hressilega í gegn. Þessi leikur hefur slegið flest ef ekki öll fyrri met varðandi vinsældir og keppast erlendir sem innlendir miðlar við að hlaða leikinn og fyrirtækið lofi.

Ég leyfði mér þó að taka þessar tölur með fyrirvara og taldi gáfulega að bíða aðeins áður en nýtt óskabarn þjóðarinnar yrði krýnt en þetta tuð í mér virðist hafa verið af ástæðulausu þar sem mikið niðurhal og gríðarleg fjölgun í notendahópi heldur áfram. Fréttir um velgengni leiksins og áhuga á leiknum eru frábærar og er óskandi að þeir haldi áfram á þessari braut.

Gaman er að fylgast með raunverulegum notendum á Twitter með þessari leit  #QuizUp

Eina sem ég get nú beðið um er að Plain Vanilla komi með QuizUp fljótlega á Windows Phone og er þetta viðtal “mögulega” tilraun til að ýta við því.  🙂

En jæja, þið komuð líklega ekki hingað til að lesa ruglið í mér og því ekkert annað en að hleypa Þorstein að.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Þorsteinn Baldur og er héðan og þaðan

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er stofnandi Plain Vanilla, sem er framleiðandi tölvuleiksins QuizUp

 

Lífsmottó?

Hví ekki? (why not?)

 

Wham eða Duran Duran?

Bara hvorug..

 

Hvernig er tölfræðin þín í QuizUp?

Hún er ekkert sérstaklega góð. Ég er alltaf út um hvippinn og hvappinn að sýna fjárfestum og samstarfsaðilum leikinn og ég leyfi þeim yfirleitt að vinna.

 

Hvað eru margir búnir að sækja QuizUp?

Ólíkt flestum öðrum þá tölum við ekki um hversu margir hafa hlaðið leiknum niður, heldur teljum við skráða notendur. Það er miklu betri mælieining á gengi leiksins.

 

Hvað er QuizUp með marga skráða notendur?

Við erum með um 3 milljónir skráða notendur núna þremur vikum frá því að við gáfum leikinn út.

 

Hvað eru margir daglegir notendur á QuizUp?

Ég held það sé rétt um milljón daglegir notendur.

 

Hvernig er hlutfall milli niðurhals vs skráðir notendur (brottfall)?

Við fylgjumst ekki sérstaklega með niðurhali, en það er alltaf eitthvað hærra en skráðir notendur. Brottfallshlutfallið okkar er með því lægsta sem gerist í farsímaleikjum.

 

Hversu lengi spilar hver skráður notandi að meðaltali á dag/viku?

Þetta er hugsanlega sú tölfræði sem kom okkur hvað mest á óvart. Notendur spila leikinn mjög mikið, eða í tæpar 40 mínútur að meðaltali á dag. Fólk í bransanum trúir þessari tölu varla. 🙂

Eru fleiri smáforrit í þróun hjá ykkur?

Við erum að einbeita okkur að því að gera viðbætur við QuizUp. Það er ýmislegt skemmtilegt framundan.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Vinur minn Hörður Macland kynnti mig fyrir Apple þegar við unnum saman í netfyrirtækinu Hive fyrir að verða 10 árum. Ég var mjög skeptískur til að byrja með en gaf því þó séns. Ég hef aldrei litið aftur síðan. Sjálfur nota ég Macbook Air, sem er held ég ein besta fartölva sem ég hef átt. Ég ferðast mjög mikið og hún hentar mér því fullkomnlega þar sem hún er mjög létt og með næstum endalaust batterílíf.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er með tvo síma, einn iPhone 5S með íslenska númerinu og einn iPhone 5 fyrir bandaríska númerið mitt

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Uhmm, ég get spilað QuizUp á honum! 🙂

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Já, batteríið er algjörlega óþolandi lélegt. Ég þarf alltaf að vera meðvitaður um hleðsluna á honum og reyni að setja símana í hleðslu þegar ég sit við skrifborðið mitt.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Email
  2. Facebook
  3. QuizUp
  4. Chrome
  5. Google Maps

já og svo er stundum hringt í mig.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Fyrst farsíminn minn var einhver Siemens sími sem ég fékk þegar ég var í MR. Mér fannst hann vera fáránlega töff á sínum tíma en hann lifði ekki lengi. Sími númer tvö lifði hinsvegar mjög lengi en það var Nokia 5110. Það má segja að grunnurinn af Plain Vanilla hafi verið lagður þá, en ég gat verið endalaust í leiknum “Snake” á gamla Nokia símanum mínum.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Nú erum við að vinna að Android útgáfu af QuizUp, og mig langar að fá mér nýjasta Nexus símann frá Google. Ég hef verið lengi með iPhone, og það er áhugavert að sjá hvað bæði Android og Windows Phone eru að gera góða hluti þessi síðustu misseri.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég reyni að fylgjast með allri umfjöllun um QuizUp á tæknisíðunum. Þannig ég hugsa að ég skoði þær stærstu frekar reglulega.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Mér finnst vanilluís vera vanmetinn.

 

Mynd tekinn af mbl.is

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira