Heim Föstudagsviðtalið Róbert Freyr Jónsson

Róbert Freyr Jónsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 189 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

Hver er þessi Robbi og hvaðan er kallinn?

Ég er fæddur og uppalinn á Dalvík. Ég er mjög vel giftur og á tvær yndislegar stúlkur.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er búinn að vera í tölvu og internet bransanum ansi lengi. Aðallega tengt sölu en þó líka viðgerðum og almennu stússi. Ég er sölustjóri hjá Stefnu hugbúnaðarhúsi og hef verið hér síðan Stefna var stofnuð árið 2003. Starfið mitt snýst fyrst og fremst um að selja hönnun og uppsetningu á vefsíðum. Oftast með viðmótshönnun eða sérforritun að einhverju tagi.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég vakna venjulega uppúr kl 7, sleppi morgunmat og tek þátt í morgunverkunum. Er kominn í vinnuna uppúr 8 og er oftast búinn um 17. Það er fastur liður að taka borðtennis í vinnunni eftir hádegismat og einu sinni í viku spila ég Blak. Kvöldin fara oftast í að ditta að einhverju heimafyrir, hjálpa við heimalærdóm eða bara slappa af.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Það er mjög mikið um suðurferðir þessa dagana. Það er fæðing í fjölskyldunni, jarðaför, bílakaup og tónleikar í Hörpu sem yngri dóttir mín spilar á. Það er planað blakmót á Siglufirði og vinnan er að fara í árshátíðarferð til Belfast. Það er nóg að gera 🙂

 

Hvernig voru jólin hjá þér og þínum?

Virkilega notaleg. Við erum farin að kunna að meta tímann og lágmarka allt stress í kringum jólin. Þetta snýst fyrst og fremst um að hafa það gott og njóta þess að vera saman í rólegheitum.

 

Eitthvað skemmtilegt planað í sumar?

Við ætlum að prófa Home exchange í fyrsta skipti. Við erum búin að vera í sambandi við fjölskyldu í París sem ætlar að skipta við okkur um hús. Við erum búin að kaupa flugmiðann og erum svona að skoða hvað við eigum að gera þegar við komum þangað. Væntanlega förum við í Disney World, Louvre safnið og skoðum þessa helstu túrista staði.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég er mjög ánægður í því starfi sem ég er núna. Stundum hugsa ég til þess að ég vilji þróa það yfir í meira ráðgjafastarf og þá hugsanlega líka flytja til útlanda og sinna starfinu þaðan. En það er svona á langtíma planinu. Framtíðina sé ég allavega áfram hjá Stefnu,

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Fyrir utan fjölskylduna sem er svona given þá myndi ég segja að þrjár utanlandsferðir standi uppúr. Fyrsta var Danmerkurferð með fjölskyldunni þar sem við leigðum okkur sumarhús og þvældumst aðeins um landið, fórum í Legoland, opinn dýragarð og Tívolíið í Kaupmannahöfn. Önnur var frábær ferð með fjölskyldunni, bróður mínum og foreldrum til Salou á Spáni og svo mótorhjólaferð sem ég fór í Alpana með góðum félögum. Við leigðum okkur mótorhjól í Þýskalandi og þvældumst þarna um Austurríki, Ítalíu og Sviss. Aðallega þó í Ítalíu þar sem veðrið lék við okkur, maturinn var frábær og fólkið sem við hittum yndislegt.

 

Lífsmottó?

Það er einfalt. Njóttu lífsins.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég var einusinni Drag módel í Sjallanum.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Klárlega flytja með fjölskylduna til útlanda en eiga áfram heimilið hér á íslandi svona þegar maður vill skreppa til Íslands í smá frí.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Gulli bróðir og Jónbi í Brain Police, Eyþór Ingi, Matti Matt og Friðrik Ómar.

 

Býr tæknipúki í þér?

Já já, ég er sá sem ættingjarnir leita til þegar eitthvað bjátar á og það virkar ekki restarta tölvunni. Sem er hið besta mál og heldur manni tengdum við ættingjana. Ég þarf alltaf að eiga frekar góða tölvu og set þær oftast saman sjálfur. Ég á mjög auðvelt með að missa mig í tækninýjungum og fylgist alltaf með því sem er að koma á markað.

 

Apple eða Windows?

Ætli ég verði ekki að segja Windows. Ég datt aðeins í Linux heiminn um tíma en endaði aftur í Windows. Ég reyndar verð að viðurkenna að eldri dóttir mín fékk sér MacBook pro og ég var mjög heillaður af uppsetningarferlinu. Hugsanlega á ég eftir að fá mér einhverja apple tölvu áður en langt um líður.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Heima er ég með samsetta PC með góðu skjákorti en í vinnunni er ég með Lenovo Yoga 2 fartölvu.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Huawei Honor 8

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hann er frekar hraður og góður. Mjög responsive og mjög fín myndavél. Hann er ekki með mikið af bloatware en þó eitthvað. Helsti galli er að þegar einhver hringir í mig þá kemur í fyrstu 2-3 sekúndurnar upplýsingar um þann sem ég var að tala við síðast. Svo svissast yfir í þann sem er að hringja, en þá er ég oftast búinn að svara og held að ég sé að tala við einhvern annan en hringdi. Frekar óþægilegt þegar ég held að ég sé að heilsa konunni minni en þá er þetta einhver gaur sem vantar heimasíðu eða vill selja mér tryggingar.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég er með heilsuúr og heilsuapp í símanum. Ég nota það orðið nokkuð mikið. Svo náttúrulega tjékka ég á tölvupóstum. Ég nota facebook eitthvað en reyni að forðast það. Svo náttúrulega nota ég google maps, trip advisor og uber á ferðalögum. Netflix, Spotify, Plex, google wifi, google home, Greifa appið, tjékka á veðri, set hita á bílinn minn og ýmislegt fleira. Það er ótrúlegt hvað er komið mikið í símana sem maður er farinn að nota reglulega.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110. Fékk mér stærra battery á hann. Frábært tæki.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Þunnur, endist helling og getur tengst við skjá, lyklaborð og mús þannig að þú getir notað hann sem aðal tölvuna þína. Ég hef aðeins verið að horfa á Sci-fi þætti og þar er iðulega verið að sýna gegnsæja síma. Ég hef enga trú á því að í framtíðinni sé öllum sama þó allir í kringum þig sjái hvað er á skjánum þínum, sama hvar þeir standa í herberginu.

 

Hvað sérðu fyrir þér sem næstu stóru tækniframförina?

Mér finnst mest spennandi að horfa til þróun rafbíla, það er svo margt að gerast þar. Ég var að fá mér Nissan Leaf og gæti ekki verið ánægðari með hann, en rafhlaðan mætti svo sem vera stærri. Svo er á hraðleið sjálfkeyrandi bílar og vonandi erum við að fara að sjá stórt stökk í þróun rafhlöðunnar. Ekki bara fyrir bíla heldur fyrir öll tæki. Það er alveg kominn tími á það og þörfin er orðin mikil. Það myndi t.d. hjálpa sólarverum gríðarlega ef það væri til almennileg geymsla fyrir alla orkuna sem verið er að safna þar.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég er einn af þeim fáu sem nota google+ mikið. Þar er ég áskrifandi af því sem ég hef áhuga að fylgjast með. Hvort sem það eru mótorhjól, tölvur, símar eða ljósmyndun.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Takk fyrir að hafa svona síðu. Virkilega margt gott í gangi á lappari.com sem vert er að fylgjast með. Bæði gaman og gagnlegt.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira