Heim Föstudagsviðtalið Ásdís Ómarsdóttir

Ásdís Ómarsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 179 í röðinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

Föstudagslag viðmælanda okkar er ekta stelpurokk og hennar uppáhalds karaókílag:

 

Hver er þessi Ásdís og hvaðan er konan?

Ásdís er nörd, móðir, dóttir, systir, kærasta, vinkona. Hún ólst upp í Mosfellsdal en hefur búið rúmlega helming ævinnar í Kópavogi, þar af 18 ár á Kársnesinu.

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég lenti óvart í bókarastarfi árið 1997 eftir að hafa náð mér í diplómu í allt öðrum fræðum. Hef unnið í alls konar bókhaldi fyrir alls konar fyrirtæki og tölurnar eiga nokkuð vel við mig. Það er einhver fullkomnunarárátta sem hjálpar til við að halda þessu áhugaverðu fyrir mig.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna 6:35, sturta, amínó og morgunmatur. Tek strætó í vinnuna og er yfirleitt mætt þangað um eða upp úr kl 8. 9 tíma vinnudagur með öllu sínu brjálæði og svo fer ég ræktina, þar sem ég lyfti lóðum og bæti kropp og skap. Elda rétt með kæró og kvöldin eru yfirleitt róleg með uppáhalds þætti í sjónvarpi eða bara lesa bók.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Kærastinn minn flutti til mín fyrir stuttu síðan svo við erum búin að vera að komast í rútínu með daglega lífið. Svo er ég alltaf með spilakvöld tvisvar í mánuði með bestu vinkonum mínum og er hrikalega dugleg í ræktinni. Reyni að fylgjast með lífinu hjá dætrum mínum sem eru miklu fullorðnari en mér finnst þær ættu að vera (enda voru þær bara 3ja og 8 ára í “fyrradag”).

 

Hvert er draumastarfið?

Ég ætlaði alltaf að vera flugmaður. Það hefur ekki enn tekist að byrja á því ferli. Það væri mjög indælt að fá að gera það sem ég geri í dálítið styttri tíma á dag en fyrir sama pening.

 

Lesendur vita það kannski ekki en þú tekur stundum að þér yfirlestur fyrir okkur hér á Lappari.com, hversu skemmtilegt er það (og við) á skalanum 1-10?

Það er svo skemmtilegt að yfirleitt er ég flissandi við yfirlesturinn. Ég hef nefnilega mikið gaman af innsláttar- og málvillum (sjá fullkomnunaráráttu!). 10 í einkunn fyrir skemmtanagildi og 10 fyrir mannskap. Annað eins finnst varla norðan Alpafjalla!

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Án efa er það að hafa fengið að eignast og ala upp gæðablóðin sem dætur mínar eru. Þær hafa haft meiri áhrif á mig en nokkuð annað í lífinu.

 

Lífsmottó?

“Listen, smile, agree, and then do whatever the fuck you were gonna do anyway” Mér skilst að Robert Downey Jr hafi sagt þetta en þetta á allavega mjög vel við um minn persónuleika.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég hef “búið” á internetinu í 25 ár. Þeir sem ekki hafa spilað textabased Multiple User Dungeon leiki eru ungabörn í mínum augum þegar það kemur að internetmálum. Svo má líka nefna að ég sá um uppfærslu á bíósíðu Hringiðunnar á tímabili, en það var fyrsta vefsíða landsins sem var uppfærð daglega með upplýsingum um hvaða myndir væru í bíó og hvar.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Borga skuldir, gera upp íbúðina mína, kaupa Teslu handa mér og spikfeitan pickup fyrir kærastann. Sjá til þess að dætur mínar geti látið drauma sína rætast og setja rest á öruggan stað.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Hér í Kópavoginum er fullt af flottu liði

  1. Emilíana Torrini
  2. Blaz Roca
  3. Sigga Beinteins
  4. Valgarður úr Fræbblunum
  5. Birnir

Býr tæknipúki í þér?

Jaaaaá, myndi segja það. Ég hef afskaplega gaman af tæknidóti, misnothæfu!

 

Apple eða Windows?

Windows síðan það byrjaði.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

Turninn minn hérna heima er orðinn vel gamall og ætti ekki að virka, en hann gerir það nú samt. Hann er samsetning af alls konar dóti sem var kúl í lok ársins 2011.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Samsung Galaxy 7 Edge.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hann er hraðvirkur, með góðum skjá og frábærri rafhlöðuendingu. Gerir allt sem ég vil að hann geri og getur eflaust miklu meira en það. Eini gallinn er að ég hef ekki fundið neitt hulstur fyrir hann sem er nógu þægilegt.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Twitter, Sandbox og Messenger.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Blásanseraður Nokia 6110. Gullfallegur og ódrepandi.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Staðsettur í heilanum og sendir hljóðmerki í eyrun og myndefni í augun.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Hangi á Lappari.com allan daginn.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já, áfram mannréttindi og virðing. Ef fólk gæti almennt sinnt þessum atriðum betur, væri lífið svo miklu ánægjulegra fyrir alla.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira