Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur Lenovo ThinkPad 13 ultrabook

Lenovo ThinkPad 13 ultrabook

eftir Jón Ólafsson

Það eru nokkur ár síðan við á Lappari.com höfum fjallað um ThinkPad vél en núna er loksins komið að því þar sem ég hef verið með Lenovo Thinkpad 13 vél í prófunum undanfarna 2 mánuði eða svo. Síðast var það ThinkPad Yoga vél en það eru liðin rúmlega 3 ár síðan það var.

 

Disclaimer
Ég er meðlimur í Lenovo Insider sem er tæplega 200 manna hópur einstaklinga víðsvegar af úr heiminum, allt frá tölvuköllum til Youtube áhrifavalda. Vegna þessa fæ ég reglulega glaðning beint frá Lenovo í Singapore til að leika mér að.

Allt sem ég skrifa um þessar sendingar eru mínar skoðanir, byggðar á prófunum mínum og áralangri reynslu, það eru engar kvaðir frá Lenovo, aðrar en þær að ég þarf alltaf að taka það fram þegar ég fjalla um vélar sem koma beint frá þeim.

 

Nýjasta sendingin frá Lenovo gladdi mig mikið en þetta er ThinkPad 13 sem er lítil og létt ultrabók. Miðað við aðrar ThinkPad vélar þá er Lenovo ThinkPad 13 í ódýrari kantinum en er þetta alvöru ThinkPad vél sem ThinkPad notandi til margra ára getur lifað með?

 

 

 

 

Hönnun og vélbúnaður

Hönnun á ThinkPad vélum hefur ávallt verið sérstök og má segja umdeild vegna þess að hún hefur ekki breyst mikið. Segja má að notendur skiptist í tvær fylkingar varðandi þetta. Þú ert með ThinkPad notendur/aðdáendur sem vilja ekki stórar breytingar og síðan ertu með þá sem vilja sjá breytingar.

Ég er sannarlega í fyrri hópnum, ég vil ekki sjá stórar breytingar á ThinkPad vélum. #IfItAintbroken

 

Fyrsta upplifun af ThinkPad 13 svíkur ekki en vélin virðist vera vel hönnuð, með gott lyklaborð, sterkbyggð og virðist því smellpassa í ThinkPad línuna.

 

 

ThinkPad 13 er eins og nafnið gefur til kynna með 13,3″ skjá og því lítil og létt. Hönnunin er látlaus og stílhrein með fullt af litlum krúsidúllum sem ég hef fallið fyrir í þessum prófunum mínum. Finnst vélin samt óþarflega þykk en það er kannski nauðsynlegt þar sem vélin er aðeins 13″.

 

Helstu stærðir í cm:

  • Breidd: 32.2
  • Dýpt: 22.3
  • Þykkt: 1,98
  • Þyngd: 1,4kg

 

Venjulega myndi ég segja að allt undir 14″ skjá sé einfaldlega of lítið fyrir mig. Þessi skoðun mín hefur svo sem ekki breyst mikið en þó verð ég að segja að skjárinn á ThinkPad 13 hafi vanist vel. Þetta er bjartur (220 nits) FHD IPS skjár með 1920×1080 upplausn og kemst því töluvert fyrir á skjánum þó að hann sé of lítill fyrir langa vinnudaga.

Lenovo ThinkPad 13 vélin sem ég fékk er vel búin vélbúnaðarlega. Hún er með Intel i5-6300U örgjörva (SkyLake) sem keyrir á 2.4 – 3 GHZ klukkuhraða. Vélin er með 16 GB af vinnsluminni sem ætti að vera yfirdrifið nóg fyrir langflesta ásamt því að vélin er með mjög hraðvirkum 256GB M.2 SSD disk.

ThinkPad 13 er með Intel HD 520 skjákorti og er með ágætis 720p vefmyndavél fyrir ofan skjáinn sem skilar sínu verkefni ágætlega. Myndavélin hentar vel í allt þetta venjulega, sem við notum þessar vélar í, eins og Skype símtölin.

 

Tengimöguleikar

Á vinstri hlið Lenovo ThinkPad 13 er hleðslutengi, doccutengi og eitt USB 3 tengi. Á hægri hlið er 4-1 kortalesari sem styður flestar gerðir minniskorta (SD, MMC, SDXC, SDHC), þægilegt að hafa til að tæma af heimilismyndavélinni. Þar eru einnig tvö USB 3 og eitt USB 3 Type C tengi ásamt HDMI í fullri stærð.

Á hægri hlið er einnig 3.5mm tengi fyrir heyrnartól.

 

 

ThinkPad 13 er með sambyggðu Bluetooth 4.1 og góðu þráðlausu netkorti (Intel 8260 AC, 2×2) sem styður öll helstu bönd og tíðnir. Ég sakna þess þó að það sé ekki 4G innbyggt í vélina, svona lítil og nett vél er tilvalin með í ferðalagið og væri því 4G góð viðbót.

Það er magnað að hafa öll þessi tengi á svona lítilli vél, sérstaklega ef þau eru borin saman við Macbook vélina sem er bara með einu USB-C tengi og töluvert heft vegna þessa. Allavega fyrir mína notkun.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Lenovo ThinkPad 13 er, eins og fyrr segir, lítil og meðfærileg vél. Því má leiða líkum að því að það sé á kostnað rafhlöðu. Vélin er með 3 sellu, 42 Wh rafhlöðu sem er gefin upp fyrir allt að 11 tíma endingu og get ég hið minnsta staðfest að rafhlaðan dugði mér vél út heilan vinnudag. Þegar vélin er fullhlaðin, power saving er á og birtan alveg niðri þá segir Windows 10 að rafhlaðan muni endast í 16 klst en ég leyfi mér að efa það.

Eins og venja er með ThinkPad vélar þá er lyklaborðið í sérflokki, það er einfaldlega frábært og þægilegt í notkun. Mér finnst ég ekki þurfa að fara nánar út í það, enda eru lyklaborðin á ThinkPad þau bestu á markaðnum og það er eins á ThinkPad 13.

 

 

Á þessum litlu vélum þá tekur það notendur oft smá tíma að venjast öðruvísi músum en eru á stærri vélum en það á ekki við um þessa vél. Snertiflötur er stór miðað við stærð á vélinni, virkni er mjög góð og einfalt er að stilla snertivirkni og næmni eftir þörfum hvers og eins. Músatakkar eru ofan við snertiflöt, þeir eru stórir og því einfalt og eðlilegt að smella á þá. Eins og venjan er með ThinkPad þá er ThinkPad 13 líka með rauðum músasníp sem staðsettur er fyrir neðan G og H takka á lyklaborði.

Frábær rafhlaða, lyklaborð og mús…. hvað getur klikkað?

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á Lenovo ThinkPad 13 er, eins og fyrr segir, góður. Þetta er kannski ekki besti eða fallegasti skjárinn á markaðnum en sinnir sínu hlutverki vel. Þó ég hafi prófað bjartari 13,3″ skjái með meiri upplausn (t.d. 3200×1800) þá eru litir skarpir, litadýpt góð og ekkert mál að nota hann þótt notandi sitji ekki alveg beint á móti vélinni.

Gallinn við meiri upplausn en FHD á svona litlum fleti er sá að þá þurfa notendur að breyta skjástillingum (DPI) til þess að ná að gera forrit góð eða í það minnsta nothæf. Þessi upplausn einfaldlega samsvarar sér vel á þessari skjástærð.

 

 

Hljómurinn úr ThinkPad 13 er þokkalegur og þá er ég að reyna að vera mjög örlátur á hrós. Skulum segja að þessi vél sé ekki hönnuð til að sjá um tónlistina í partý en hún dugar í að spila tilkynningar og flest annað en tónlistarafspilun. Samanborið við aðrar Ultrabook vélar sem ég hef prófað þá má segja að vélin sé í eða undir meðallagi góð til tónlistarafspilunar.

 

Margmiðlun

Þar sem ThinkPad 13 er vel búin vélbúnaðarlega þá gat ég með léttu móti spilað allt margmiðlunarefni, hvort sem það var netstreymi, af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með öflugan örgjörva, nóg af vinnsluminni, hraðvirkum disk og vel fær um að leysa flest margmiðlunarverkefni með stæl.

Vélin er með öllum þeim helstu tengjum sem heimili eða nemendur getur vantað til að tengja við hana USB lykla eða flakkara ásamt því að vera með HDMI tengi í fullri stærð og Miracast stuðning.

Mjög einfalt, vélin gerði allt sem ég lagði fyrir hana og gerði hún það með stæl.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Þar sem Lenovo ThinkPad 13 kemur með Windows 10 Pro, er einfalt að tengja hana við domain og setja upp öll venjuleg Windows forrit ásamt forritum sem eru aðgengileg í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Með innbyggðum forritum og Office 365 áskrift þá er þessi klár í flest öll verkefni hvort sem það er á vinnustað, heima fyrir eða í skólanum.

Eins og venjulega prófaði ég vélina með Office 2016 pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust. Vélin er spræk og skemmtileg vinnuvél í alla staði.

 

 

Það var eftirtektavert hversu lítið af viðbótar hugbúnaði var settur upp á vélinni. Lenovo virðast hafa hlustað á kvartanir notenda varðandi þetta, mjög gott mál og til eftirbreytni hjá öðrum framleiðendum.

Það er alltaf gaman að setja upp nýja Windows 10 vél því ég skrái mig bara inn með Microsoft notandanum mínum og eftir nokkrar mínúndur þá er tölvan eins og ég vil hafa hana. Tölvan sækir notandann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) og þannig fæ ég allar sérstillingar sem ég nota, bakgrunnsmynd, stillingar o.s.frv.

 

Niðurstaða

Lenovo ThinkPad 13 ber með sanni ThinkPad stimpilinn með sóma. Þetta er sterkbyggð, lítil og létt vél sem þó er vel búin vélbúnaðarlega og með frábæra rafhlöðuendingu.

Það er ýmislegt jákvætt skrifað um þessa vél hér að ofan og stend ég fyllilega við það allt því þessi vél leysti vinnuvélina mína vel af hólmi þennan tíma sem ég notaði hana. Venjulega er ég með Lenovo ThinkPad X1 Carbon vél og því ekki stórt stökk að fara úr ThinkPad yfir í ThinkPad.  🙂

Eins og með allar vélar þá er hún ekki gallalaus en helst eru það hljómlitlir hátalarar. Þessi stærð af vél (13″) er of lítil fyrir mína notkun en það flokkast varla sem galli, bara sérviska í mér.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira