Heim UmfjöllunUmfjöllun Fartölvur Lenovo Thinkpad Yoga

Lenovo Thinkpad Yoga

eftir Jón Ólafsson

Lenovo Yoga eru svo sem ekki nýjar vélar á markaðnum en það er samt ekki langt síðan Lenovo kom með Thinkpad Yoga línu sem hefur náð að heilla okkur töluvert. Með þessari vél virðist Lenovo hafa tekið hina vinsælu Yoga línu sína og búið til öfluga fyrirtækja útgáfu af henni.

ThinkPad Yoga er sannarlega sérstök fartölva sem sameinar far- og spjaldtölvu á mjög hugvitsamlegan hátt. Á einfaldan hátt er Yoga breytt úr fartölvu í spjaldtölvu en þegar Yoga er í spjaldham aftengist lyklaborðið og hnappanir dragast inn svo að yfirborðið verður slétt.

Lenovo Yoga er í svokölluðum Ultrabook flokki en þær eiga það sameiginlegt að vera litlar, léttar en mjög öflugar. Það var því ekkert að gera annað en að spjalla við Nýherja og fá eintak í reynslu og setja síðan eitthvað á blað um hana en einkunnargjöf verður áhugaverð því það er ekki hægt að bera þær saman við venjulegar fartölvur.

Eins og fram hefur komið þá er ég er sjálfur að leita mér að nýrri fartölvu í vinnuna og því áhugavert að sjá hvernig Thinkpad Yoga hentar mér..

 

thinkpad_yoga4

 

Lenovo Thinkpad Yoga vélarnar koma með Windows 8.1 og geta því notað öll venjuleg Windows forrit ásamt því að hafa aðgang að tugum þúsunda forrita í gegnum Windows Store sem er forrita, tónlistar og leikja markaður Microsoft. Þar sem Thinkpad Yoga er með snertiskjá þá nýtast forritin sem eru fáanleg í Windows Store mun betur en annars.

Eins og venjulega lagði ég fartölvunni minni og notaði prufuvélina eingöngu við vinnu og leik. Ég fékk ThinkPad One Link Pro dock (tengikví) með vélinni og því mjög einfalt að tengja vélina við auka skjá, netsnúru, lyklaborð, mús og hátalara sem eru í skrifstofunni.

Thinkpad Yoga er ekki með 3G-4G og því þurfti ég að bjarga mér þegar ég var að vinna úti í bæ en það er svo sem ekkert mál eins og sést hér.

 

Hönnun og vélbúnaður.

Ég hef sett upp nokkrar Lenovo Yoga vélar (ekki ThinkPad) og vissi því nokkurn veginn hverju ég átti von á en Thinkpad Yoga er mjög svipuð Yoga vélunum fyrir utan styrkleika og vélbúnað. Það finnst greinilega þegar Thinkpad Yoga er handleikinn hversu sterkbyggð hún er og er frágangur mjög vandaður að öllu leiti.

Ég fékk mjög öfluga vél í þessar prófanir og er ég enn gáttaður á því að hægt sé að koma svona öflugri vél fyrir í svona lítilli skel. Vélin er með 12.5″ Full HD IPS snertiskjá, hún er aðeins 1,63 kg og 19,4 mm að þykkt og þegar ég handlék hana þá fékk ég strax þá tilfinningu að vélin væri sterkbyggð og vel hönnuð.

 

thinkpad_yoga7

Lenovo Thinkpad Yoga vélarnar eru sérstakar að því leiti að notandi getur lagt skjáinn alveg aftur og þá verður takkaborðið óvirkt og vélin orðin venjuleg Windows 8.1 spjaldtölva.

 

Hér er myndband frá Lenovo sem rennir lauslega yfir kosti ThinkPad Yoga.


Vélin sem ég prófaði er með 180GB harðdisk, 8GB DDR3 vinnsluminni og Intel i7 örgjörva (1.8-3.0 GHz 4500U Haswell) sem er mjög öflugur og keyrir stýrikerfið og öll forrit sem ég prófaði hnökralaust, vélin hoppar milli forrita hratt og vel. Vélin ræsir upp í heimaskjá á örfáum sekúndum (2-3 sec frá cold boot) og slekkur á sér á 2-3 sekúndum.

ThinkPad Yoga er með ágætis myndavél fyrir ofan skjáinn sem hentar vel í myndsamtöl, myndavélin sinnir sínu hlutverki ágætlega og veitir skarpa mynd í myndsamtölum.

 

Tengimöguleikar

ThinkPad Yoga er með kortalesara sem styður flestar gerðir minniskorta (MMC, SD, SDHC, SDXC) sem er ódýr og einföld leið til að auka við geymsluplássið. Einnig er tvö hefðbundin USB3 port til að tengja við flakkara, mús, lyklaborð, 3G módem eða minnislykil svo eitthvað sé nefnt.

Vélin er einnig mHDMI tengi og því einfalt að tengja auka skjá eða jafnvel sjónvarp við ThinkPad Yoga. Vélin er með Bluetooth ásamt þráðlausu netkort (Intel AC7260) sem styður 802.11a (ac/b/g/n) og þannig allt að 300Mbps og vélin er einnig með tengi fyrir heyrnartól.

 

thinkpad_yoga10

 

Rafhlaða og lyklaborð

ThinkPad Yoga er með 8 sellu LiPol rafhlöðu og samkvæmt Lenovo þá má reikna með um 6-12 daga endingu í bið og um 8:40 klst endingu með við eðlilega notkun. Hugtakið eðlileg notkun er alltaf sveiganlegt en reikna má með að 1080 HD skjár og öflugur örgjörvi dragi nokkuð vel á rafhlöðuna.

Ég gat verið með vélina í nokkrar vikur og því prófað rafhlöðu endingu mjög vel og má í stuttu máli segja að hún uppfyllir mínar væntingar til ThinkPad véla sem almennt eru hærri en til annara. Mjög einfalt að láta rafhlöðuna endast heilann vinnudag og jafnvel lengur með einföldum sparnaðaraðgerðum.

Lenovo hefur breytt hleðslutækinu á Thinkpad vélunum sínum og virðast tengin vera mun sterkari og er einfaldara að stinga þeim í samband við vélarnar en áður, tengið er ekki hringlótt lengur heldur ferhyrnt (ílangt). Vélarnar eru með tvískiptu tengi eða annars vega fyrir hleðslutækið og síðan er aukahlíf fjarlægð þá komið pláss fyrir tengið frá OneLink doccunni sem er eins í laginu en aðeins breiðara.

 

thinkpad_yoga9

 

Það sem ThinkPad Yoga notar venjulegt Windows þá er lyklaborðið á Íslensku og ef stýrikerfið er stillt á Íslensku þá sækir vélin sjálfkrafa tungumála pakka frá Microsoft og breytir öllum helstu valkostum og útskýringum yfir á Íslensku. ThinkPad Yoga er einnig með venjulegu lyklaborði á skjánum (onscreen keyboard) sem verður virkt ef skjárinn á vélinni er brotinn aftur fyrir 90 gráður en þá leggjast takkarnir á lyklaborðinu einnig inn og verða óvirkir. Þetta er mikilvægt svo að ekki sé verið að slá inn á lyklaborðið meðan vélin er notuð eins og spjaldtölva en ef skjályklaborð er notað þá eru allir hefðbundnir íslenskir stafir aðgengilegir.

 

Hljóð og mynd

Skjárinn á þessari ThinkPad Yoga vél er 12.5 Full HD skjár sem styður 10 snertipunkta. Skjárinn er með mjög nákvæma snertiskynjun og lenti ég sjaldan í því að smella á eitthvað vitlaust en vélin kemur einnig með Digitizer penna sem smellur inn í vélina þegar ekki er verið að nota hann.

Mjög skemmtilegt að nota penna með vélinni til að skrifa eða teikna. Penninn virkar vel og frábært að nota hann með t.d. One Note og Fresh Paint en hægt er að snúa honum við til að stroka út eins og um blýant væri að ræða. Skjáinn er rispuvarinn (Gorilla glass) og það er ljósnemi á skjá sem stillir birtu eftir umhverfi sem sparar rafhlöðu og gerir lestur þægilegri. Upplausnin er 1920 x 1080 og allur texti og myndir komu mjög vel út á þessum skjá og virkaði hann í alla staði frábærlega, bjartur og góður skjár sem sýnir liti eðlilega og hægt er að horfa á skjáinn frá öllum hornum.

Ég varð var við “galla” við notkun á vélinni sem ég tengi beint við skjákortsrekil. Þetta lýsti sér þannig að ef tengdur var auka skjár við vélina þá fraus vélin við handahófskennd skilyrði. Vélin sjálf var svo sem ekki frosin en ekkert var hægt að opna/slá inn eða breyta í 1-2 mín en síðan losnaði vélin og hægt var að vinna áfram en ég lenti bara í þessu ef vélin var tengd við dock og aukaskjá. Það kom uppfærsla á skjákortsrekilinn nokkrum dögum áður en ég skilaði henni og virtist hann laga þetta. Líklega búið að laga þetta núna en nauðsynlegt að taka fram.

 

thinkpad_yoga3

 

Hátalarar eru tveir og eru staðsettir fremst undir vélinni og gefa þeir ágætis stereo hljóð hvort sem hlustað er á tónlist eða bíómyndir. Þeir eru einnig hannaðir þannig að þeir varpa hljóði að notenda sem er nokkuð ólíkt mörgum spjaldtölvum sem ég hef prófað.

Ég mæli alltaf með heyrnartólum við hlustun á tónlist þar sem hátalarar eru ekkert sérstaklega hljómmiklir en þeir leysa þó verkið ágætlega, ThinkPad Yoga er einnig með 2 hljóðnemum til að vinna á móti umhverfishljóðum (noice cancelation).

 

Margmiðlun

Þar sem ThinkPad Yoga er venjuleg PC tölva þá gat ég spilað allt margmiðlunarefni hvort sem það var netstreymi eða af USB lyklum eða flökkurum. Vélin er með mjög öflugum örgjörva, nóg af vinnsluminni, hraðvirkum disk og vel fær um að lesa flest margmiðlunarverkefni með stæl.

Þarf ekkert að fara nánar í þetta þar sem öll upplifun var á pari við það besta sem ég hef prófað í venjulegum PC vélum en til viðbótar við hefðbundnar fartölvur þá hefur Thinkpad Yoga sveiganleika. Það er mjög einfalt að stilla vélinni á þann veg að það henti verkefninu, hvort sem það er bíómyndagláp á stofuborðinu, í sófanum eða í þröngu flugvélasæti.

 

Thinkpad Yoga í vinnuumhverfi

Eins og alltaf þá var það fyrsta sem ég gerði að skrá vélina inn á Domain og keyra scriptu sem tengir vélina við netdrifin mín og virkaði það allt fumlaust. Eins og á fartölvu gat ég með einföldu móti tengst VPN (Cisco client og/eða innbyggt VPN) og þannig netdrifum og netþjónum yfir þráðlaust net eða 3-4G eins og ég væri staddur á venjulegri PC tölvu.

Með þetta eins og margt í þessari umfjöllun… það þarf í raun og veru ekkert að segja meira þar sem allt sem þú getur á venjulegri PC tölvu getur þú á ThinkPad Yoga. Notendur geta samt treyst því að fá sterkbyggðar og vel prófaðar vélar þegar Thinkpad merkið er á þeim og þessi engin undantekning.

Það er einnig mikill munur að losna við að bera 3-4 KG fartölvu daglega í vinnuna og skipta yfir í 1.67KG tölvu sem er samt mun öflugri. Þetta létti líka mikið á skrifborðinu þar sem vélin er miklu nettari en fartölvan mín en á móti kemur að hún er aðeins með 12,5″ skjá sem er kannski full lítið fyrir marga.

 

thinkpad_yoga2

 

ThinkPad Yoga er eins og fyrr segir ekki með venjulegu VGA/HDMI tengi fyrir auka skjá eins og stærri fartölvur eru gjarnan með. Í vinnunni er vélin tengd við dockuna en heima við þá tengdi ég skjá við mHDMI port á vélinni með einföldu breytistykki.

 

 

Hugbúnaður og samvirkni.

Öll hefðbundin forrit (vafri, póstforrit, tengiliðir, skipuleggjari o.s.frv.) fylgja með vélinni en það sem vantar uppá er aðgengilegt í gegnum Windows Store (forritamarkað Microsoft). Þar sem hægt er að leggja skjáinn alveg aftur og setja hana þannig í “spjaldtölvuham” þá er þessi forrita markaður mikilvægur. Þegar úrvalið á þessum markaði er skoðað og sú staðreynd að öll venjuleg x86 forrit virkar á vélinni þá blikna hin kerfin (Android og Apple) í samanburði. Þetta gerir það að verkum að á ThinkPad Yoga hefur notandi aðgang að markaðnum og þessum tugum milljóna forrita sem eru til fyrir Windows stýrikerfið.

 

thinkpad_yoga6

 

Þar sem ég hugsaði ThinkPad Yoga sem arftaki fartölvunar þá setti ég upp sömu forrit og ég nota þar eins og Office 2013 Pro, Chrome, Adobe Reader, TweetDesk, Skype, TeamViewer, WinRar, Cisco VPN o.s.frv. Í stuttu máli þá virkaði allt fumlaust og eins vel eða betur en það gerir á fartölvunni.

Ég skrái mig alltaf inn í öll Windows 8 kerfi sem ég nota með Microsoft notendanum mínum, hvort sem það er fartölvan, borðtölvan, spjaldtölvan eða Windows Phone síminn minn. Það sem þetta gerir er að tækin mín samstilla sig við notendann minn sem vistaður er í skýinu hjá Microsoft (á OneDrive) en þar hef ég ókeypis 7GB til að afrita ljósmyndir af símanum mínum eða til að hýsa gögn..

Eina sem pirraði mig við hugbúnað sem fylgir vélinni er að hann þvælist of mikið fyrir mér, er of mikið af hugbúnaði sem ég nota ekki.Vitanlega er þetta persónulegt mat og einfalt að fjarlægja af tölvunni. Ég hef prófað þó nokkrar ThinkPad vélar og þessi stuðar mig mest hvað varðar auka hugbúnað sem bæta engu virði við vélina (fyrir mig).

 

 

Niðurstaða

ThinkPad Yoga fjölhæf, sterkbyggð, öflug, falleg, stílhrein og góð vél sem ætti að vera öðrum framleiðendum til fyrirmyndar. Helsti kostur ThinkPad Yoga er því sá að þetta er venjuleg fartölva sem hægt er að breyta í spjaldtölvu en er samt mjög einföld í notkun og sterkbyggð.

 

thinkpad_yoga11

 

Það er spurning við hvaða vél á að bera ThinkPad Yoga saman við en að mínu mati er það helst Macbook Air en vegna stærðar, snertiskjár og Windows 8.1 þá hefur ThinkPad Yoga mun meira notagildi. Þetta á sérstaklega við í fyrirtækjaumhverfi ásamt því að samhæfni með öðrum vélbúnaði og hugbúnaðir gefur ThinkPad Yoga vinningin.

ThinkPad Yoga er mjög vænlegur kostur fyrir fyrirtæki vegna þess að það þarf ekkert að huga að breytingum á innri kerfum, allt virkar eins og áður. Kosturinn er að fyrirtæki eru þá með mjög meðfærilega tölvu sem einfalt er að tengja við staðarnet og internet með þráðlausuneti eða með 3/4G.

Thinkpad eru þekktir vinnuhestar og mikið notaðir í vinnuumhverfi hérlendis. Lenovo ThinkPad Yoga mun ekki svíkja þá sem skoða þessa og reikna með venjulegum Thinkpad gæðum.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira