Heim Föstudagsviðtalið Álfrún Pálsdóttir

Álfrún Pálsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 172 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

Hver er þessi Álfrún og hvaðan er konan?

34 ára tveggja barna móðir búsett í Vesturbænum í sambúð. Fædd í Vesturbænum en ólst í Kópavogi og í Uppsölum í Svíþjóð.

Antísportisti sem kann núna rangstöðuregluna eftir að hafa verið neydd til að fá áhuga á fótbolta fyrir 12 árum síðan og er núna fastagestur í stúkunni þegar minn maður er á vellinum. Er með bullandi keppnisskap og þoli ekki að tapa. Með brennandi áhuga á tísku og pólitík. Ólík málefni en tengjast samt meira en marga grunar.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Núna er ég ritstjóri íslensku útgáfu tímaritsins Glamour. Ég hóf störf í fjölmiðlum árið 2006, þá á Fréttablaðinu og eftir það var ekki aftur snúið. Ég fékk þessa svokölluðu fjölmiðlabakteríu og þegar tuðruspark bóndans leiddi okkur í Noregs hóf ég nám í fjölmiðla – og kynjafræði við Háskólann í Osló. Fjórum árum seinna sneri ég reynslunni ríkari aftur á ritstjórn Fréttablaðsins árið 2010. Sá um helgarblað Fréttablaðsins og dægurmáladeildina árið 2014 og þaðan fékk svo tækifærið að koma íslenska Glamour á koppinn árið 2015 og sit hér ennþá tæplega 3 árum seinna.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Tvisvar í viku vakna ég 5.45 og fer í ræktina. Kem svo heim og kem fjögurra manna fjölskyldunni út í daginn. Mæti um 8.30 í vinnuna og sit við tölvuna til rúmlega 16.30 eða þangað til að ég þarf að sæki börn í skóla. Yfirleitt reyni ég að eyða tíma með krökkunum fram að háttatíma og stelst svo aftur í tölvuna eftir allt er komið í ró.

Verkefnin í vinnunni eru jafn ólík og þau eru mörg. Það er það sem gerir það svo skemmtilegt að vinna í fjölmiðlum – enginn dagur er eins.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Þessa dagana er ég bæði að undirbúa nóvembertölublað Glamour sem er virkilega spennandi og stórt tölublað auk þess að fylgja á eftir októbertölublaðinu sem kom út í þessari viku. Það má segja að það sé deadline á hverjum degi hjá mér.

 

Hvert er draumastarfið?

Ætla það sé ekki bara starfið sem ég er í í dag. Það er meira krefjandi en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Mikil reynsla komin í bankann og ég nýt þess fram í fingurgóma að gefa út tímarit sem snýr að áhugamálinu. Það eru í raun forréttindi að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt og með gott teymi mér við hlið sem er er tilbúið að gefa sig alla í verkefnið og gera alla vinnudaga frábæra.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Fæðing barnanna tveggja. Fáir aðrir hlutir hafa umturnað lífinu jafn mikið. Svo er mér það ansi minnistætt þegar karlinn skellti sér á skeljarnar fyrir nokkru síðan.

 

Lífsmottó?

Er að reyna að temja mér þetta hér “góðir hlutir gerast hægt” – get verið of óþolinmóð.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Björk Guðmundsdóttir var ein af fóstrunum mínum þegar ég hóf minn leikskólaferil í kringum tveggja ára. Ég kann plötuna Crazy, Sexy, Cool með TLC utanað.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Gera vel við mína nánustu, kanna heiminn og gefa stóran hluta til góðgerðastofnana sem fókusera á konur og börn.

 

Apple eða Windows?

Apple.

 

Hvernig tölvu notar þú heima/vinnu?

iMacpro í vinnu og heima.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 7+

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég hef verið í iPhone núna í nokkur ár. Yfirleitt hoppað yfir eina kynslóð – frá 5 í 7 odfrv. Ég er mjög sátt að hafa farið í 7+, var fljót að venjast stórum skjánum og myndavélin er frábær. Það er lítið sem ég þoli ekki við símann nema kannski þetta iCloud storage dæmi sem gerir vart við sig endrum og eins. Svo er auðvitað ákveðinn ókostur að geta í raun verið stöðugt í símanum og að vinnan minni á sig í gegnum símann hvenær sem er sólarhrings. En það er undir mér komið að stjórna því.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Ég nota hann mest vinnutengt – svara tölvupóstum og vera á samfélagsmiðlum.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það var Nokia 5110. Dökkblár að mig minnir.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Draumasíminn væri með endalaust minni, góðan skjá, klassa myndavél og allt það helsta en líka fyrirferðalítill og svo skiptir máli að hann sé líka smart þar sem síminn er nú orðinn einn af okkar mikilvægustu fylgihlutum.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég hvet alla til að fylgjast vel með íslenska Glamour, bæði í prenti, á vef og á samfélagsmiðlum – konur og karla.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira