Heim Föstudagsviðtalið Rögnvaldur Már Helgason

Rögnvaldur Már Helgason

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 170 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver er þessi Rögnvaldur og hvaðan er maðurinn?

Ég er 29 ára Garðbæingur og titlaður fjölmiðlafræðingu, en bý núna á Akureyri eins og ég hef gert frá árinu 2010 að undanskildu einu og hálfu ári. Bý hér með kærustunni og dóttur okkar. Sökker fyrir flestu sporti og með of mörg áhugamál svo ég næ aldrei að sinna neinu einu þeirra almennilega.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Hóf nýlega störf hjá Markaðsstofu Norðurlands, þar sem ég vinn að verkefni sem snýr að bættri upplýsingagjöf til ferðamanna á landsvísu. Sinni þar einnig útgáfumálum og sé því um samfélagsmiðla, heimasíðu og fleira. Áður starfaði ég hjá RÚV sem fréttamaður á Norðurlandi, þar áður vann ég hjá DV þetta ár sem ég var í Reykjavík.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Um þessar mundir er ég lítið hrifinn af því að fá mér morgunmat, svo yfirleitt er það bara að koma mér í föt og barninu í leikskólafötin. Svo förum við keyrandi eða hjólandi í leikskólann, sem er ekki í hverfinu, áður en ég mæti í vinnuna um 8:15. Eftir vinnu og leikskóla tekur fótboltaæfing hjá stelpunni við, svo er það „úlfatíminn.“

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Þetta sumarið eiga fjallahjólreiðar hug minn allan, svo oftar en ekki reyni ég að fara út og þá er geggjað að vera með Hlíðarfjall og Kjarnaskóg í bakgarðinum.

 

Hvert er draumastarfið?

Það er að sjálfsögðu atvinnumennska í fótbolta. Draumur, vissulega.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Fæðing dóttur minnar, flækjum það ekkert.

 

Lífsmottó?

Muna að lofa jafn mikið og maður lastar. Margir sem mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Eitt sinn lék ég aðalhlutverkið í söngleiknum Hárinu, þegar ég var í 10. bekk. Það er ansi sturlað og kaldhæðið í ljósi þess að ég varð orðinn sköllóttur 25 ára.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Setja hluta af upphæðinni í fasteign, bíl og utanlandsferð með allri fjölskyldunni. Slatti færi í góðgerðarmál, ekki veitir af í heilbrigðismálum til dæmis. Því næst færi einhver peningur í áhugamálin og restin færi inn á bók.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Garðabærinn ríkur af þeim svo ég þarf að nefna aðeins fleiri. Of Monsters and Men, Mínus, Dikta, Pétur Ben, bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir og mjög hlutlaus verð ég að nefna hér systur mína, söngkonuna Ingibjörgu Fríðu.

Mér finnst ég ekki heldur geta sleppt því að nefna hér umboðsmann Íslands, Harmageddon-liðann Mána Pétursson. Hann þjálfaði mig í fótbolta fyrir 20 árum síðan og kenndi okkur 8-9 ára guttunum að meta Prodigy, því upphitunun fólst í að hoppa í takt við slagara á borð við „Breathe“ og „Smack My Bitch Up.“ Þræleðlilegur alltaf.

 

Býr tæknipúki í þér?

Já, þokkalegur. Pæli svolítið í því sem ég er að nota en þá fyrst og fremst út frá notagildi. Er ekki með einhverja tækni bara af því hún á að gera eitthvað svo kúl, það þarf að virka fyrir mig og skila einhverju almennilegu.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Er með Windows 10 á vinnuvélinni en Sierra á Macbook tölvunni heima, sem þjónar helst sem Plex server í dag.

 

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6s.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Stýrikerfið er helsti kosturinn, það er einfalt og þægilegt í notkun. Rafhlaðan er hins vegar einhver sú alversta sem ég veit um, mér stendur reyndar til boða að láta skipta henni út samkvæmt einhverju prógrammi hjá Apple.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Facebook og Instagram notkun stendur upp úr, það tengist kannski mest vinnunni. Myndavélin þar á eftir, svo Snapchat og tölvupósturinn og netvafstur.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það var Nokia 5110, notaður sími frá bróður mínum sem uppfærði í hinn vinsæla 3310. Fullt af frontum og takkaborðum sem maður átti á þann gimstein.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

 

Rafhlaðan endist í 3-5 daga í eðlilegri notkun, ég bið ekki um meir. Held samt að símarnir eins og við þekkjum þá geti ekki þróast svo mikið meir hvað notkun varðar.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Lapparinn auðvitað, svo dettur maður inn á þessar síður af og til í gegnum Twitter eins og Cnet og Techcrunch.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Taktu sénsinn, þú sérð ekki eftir því!

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira