Heim Föstudagsviðtalið Óskar Ágústsson

Óskar Ágústsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 169 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver er þessi Óskar Ágústsson og hvaðan er maðurinn?

Ég er 42 ára, giftur á þrjú börn. Bjó í Grindavík til 15 ára aldurs. Hef búið í Kópavogi, Árbænum, Cambridge, Southampton, Stockholm og núna aftur í póstnúmeri 110.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem sérfræðingur fyrir enskt fyrirtæki sem stendur og er að vinna í augnablikinu að útbreiðslu á 4K sjónvarpi fyrir Sky í Þýskalandi. Ég hef unnið fyrir fjarskiptafyrirtæki og aðila tengdum þeim síðan 2005 og UT tengda hluti síðan um 2000.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Fótaferðartími er um 7:15. Ég kem eldri börnunum tveimur af stað í skólann. Sá yngsti er í leikskóla þannig að við löbbum saman feðgarnir þangað.

Klukkan 8:15 er ég mættur á símafundi og þeir eru til c.a. 11. Stuttur hádegismatur og oftar en ekki bara tölvan tekin með í eldhúsið. Einu sinni til tvisvar í viku reyni ég að fara út úr húsi í hádeginu að hitta vini i hádegismat..

Vinnudegi lýkur klukkan 15:50 og ég rölti á leikskólann og sæki yngsta fjölskyldumeðliminn. Seinni partur dags er eins og hjá öllum öðrum barnafjölskyldum kaós til 21:00 c.a. eftir það tekur við c.a. einn þáttur á Netflix eða álíka þjónustu.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Það er hellingur um að vera þessa dagana. Ég er nýkomin úr fríi frá Grikklandi og vinnuferð í London. Við hjónin erum á leið til Vestmannaeyja á fótboltamót með dótturina. Það er vinnuferð til Munchen og svo er frí til Englands í kortunum með alla fjölskylduna. Einnig verður höfuðstaður norðurlands heimsóttur áður en sumri lýkur.

 

Hvert er draumastarfið?

Það bíður einhvers staðar eftir mér. En svona í alvöru talað þá er ég í frábæru starfi í dag. Engin föst skrifstofa og allt frekar sveigjanlegt.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Að eignast þrjú börn. Þessir snillingar veita mikla gleði ef undanskilið er þegar USB lyklarnir voru settir í örbylgjuofninn, pissað á Macbook Pro vélina mína og henni svo kastað með Ethernet kapli án atrennu á flísalagt gólfið.

 

Lífsmottó?

Það er allt hægt.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er svaðalega lofthræddur. Einnig hýsti ég stórmyndbandið “Call On Me” fyrir daga Youtube. Gleymum því ekki að ég seldi Herði í Macland “fyrsta skammtinn” af Apple.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Athuga hvort ég fengi einhvern til að fjárfesta í Velodrome braut fyrir hjólreiðar með mér.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Held að það séu nú frekar fáir, en skáldið Guðbergur Bergsson er úr sveitinni minni. En í ljósi þess að ég er aðfluttur kópavogsbúi þá vil ég nefna Fræbblana, Erp og gleymum ekki stórbandinu Búdrýgindi.

 

Býr tæknipúki í þér?

Ég er tæknifíkill það þarf að prófa allt nýja dótið sem er gefið út.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Mac OS á vinnuvélinni minni. Keyri svo sýndarvélar heima og í skýjunum fyrir allt hitt sem að manni dettur í hug. Var að ljúka tveimur árum á Windows á fartölvu, held ég snúi ekki aftur. Debian, OpenBSD, FreeBSD, Ubuntu og NixOS í allt annað sem ég geri.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Huawei P9. Er með ást og hatur á iOS og Android til skiptis.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Fingrafaraskanninn er fljótari að aflæsa símanum heldur en iPhone gerði. USB-C er hlutur sem átti að gerast mikið fyrr, þarf aldrei að spá hvernig snúran snýr þegar ég þarf að hlaða. Helsti gallinn er að þetta er allt Google.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Símafundir við útlönd, ljósmyndir,tónlist, Whatsapp,Skype og Outlook og Amazon Fire TV fjarstýring.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

AT&T GSM sími sem mér hefur ekki tekist að finna mynd af á internetinu. Fékk hann í janúar 1995.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Tökum þetta í smá skrefum. Ég væri til í síma sem gæti leyst fartölvuna mína af hólmi til að byrja með. Hann mætti vera úr Titanium málmi svona til tilbreytingar eða jafnvel koltrefjum (Carbon Fiber).

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Engadget, Verge, Lappari, Wired svo eitthvað sé nefnt er svo með helling í “console” RSS lesaranum mínum.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Það er aldrei of seint að þakka fyrir sig. Einn dagur, vika, 10 ár það skiptir ekki máli. Ef einhver kenndi manni eitthvað gagnlegt er um að gera að þakka fyrir sig. En horfum alltaf fram á við, við getum ekki breytt fortíðinni ekki fyrr en við fáum DeLorean og 1.21 gígawatt.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira