Heim Föstudagsviðtalið Þórður Snær Júlíusson

Þórður Snær Júlíusson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 166 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

Hver er þessi Þórður Snær og hvaðan er maðurinn?

Ég er 36 ára, giftur tveggja barna faðir. Með BA-próf í stjórnmálafræði og MSc í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla. Svo er ég Þróttari, Kjötverji og almennt nokkuð hress.

Ég er komin af Suðurnesjafólki og þar býr þorri stórfjölskyldunnar. Sjálfur ólst ég að mestu upp í Laugardalnum og flutti þangað aftur með fjölskyldunni fyrir rúmu ári síðan. Fer ekki þaðan aftur. Rugl að búa annarsstaðar.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er ritstjóri Kjarnans og hef verið í því starfi í næstum fjögur ár, eða frá stofnun. Ég er líka á meðal eigenda miðilsins. Frá því að ég fór að vinna fullorðinsvinnu hef ég bara unnið í fjölmiðlum, og við kennslu þeim tengdum. Sú hringekja hófst fyrir um ellefu árum á gamla Blaðinu. Síðan þá hef ég starfað á Fréttablaðinu, 24 Stundum, Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og var svo viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins áður en við stofnuðum Kjarnann.

Áður en ég varð fullorðinn vann ég við alls konar skrýtið. Vann til dæmis í mörg sumur í álverinu í Straumsvík að mestu við að ýta á „endurræsa“ takkann á álsög. Svo róteraði ég ruslatunnum í fjölbýlishúsum í Kópavogi. Það var ekki gefandi vinna.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna milli 6:30 og 7, og fer annað hvort í ræktina eða vinn aðeins, eftir því hvaða dagur er. Vek svo dóttur mína og græja það sem þarf að græja fyrir daginn hennar. Sonur minn er bara mánaðargamall þannig að hann og móðir hans sofa venjulega lengur þessa daganna. Ég kem dóttur minni í skólann og fer í vinnuna. Þar er ég vanalega frá um 8:30 til um fimm. Það skemmtilegasta við blaðamennsku er að dagurinn er í raun aldrei eins. Maður er alltaf að takast á við einhver ný mál sem koma upp og oftast kemur eitthvað upp sem sprengir upp daginn og breytir öllum áætlunum. Og í stanslausum samskiptum við fólk, sem er skemmtilegt.

Eftir vinnu sæki ég dóttur mína, fer í búð og heim að elda þegar ég er á þeirri vakt. Svo er borðað, lært og öllum komið niður. Ef færi gefst þá stelst ég stundum til að vinna aðeins á kvöldin líka.
Semsagt mjög borgaralegt og hefðbundið allt saman.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ég var að eignast barn, og það auðvitað það sem er merkilegast þessa dagana. Svo var knattspyrnusumarið að hefjast, sem þýðir að framundan séu dásamlegir tímar á hræðilegum útivöllum, í roki og úrkomu, með sama fólkinu og ég hef setið með í sirka tvo áratugi, drekkandi vont kaffi að horfa á Þrótt í 1. deildinni. Og Kjarninn auðvitað. Hann er alltaf fyrirferðamikill.

 

Hvert er draumastarfið?

Að reka sjálfstæðan og gagnrýnin fjölmiðil sem leggur áherslu á gæði og dýpt í umfjöllun um stjórnmál, efnahagsmál og viðskipti. Ég er því í draumastarfinu, þótt ég væri alveg til í að Kjarninn myndi vaxa enn meira og ná að gera enn fleira.

 

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Börnin, konan mín og Kjarninn. Í þessari röð.

 

 

Lífsmottó?

Allt er ekkert eitt og sér.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég skal koma með þrjár. Ég var einu sinni með permanent, hef séð nánast allar kvikmyndir sem Kevin Costner hefur leikið í og er með orðið „Tónik“ húðflúrað á vinstri löppina á mér á japönsku. Tveir aðrir vinir mínir eru með annars vegar „Gin“ og hins vegar „&“ húðflúrað á sama stað.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Greiða niður húsnæðislánið okkar og þeirra sem standa okkur næst. Hluti myndi fara í fjárfestingu í Kjarnanum og svo færum við örugglega í nokkur góð frí. Ekkert glamrugl að minnsta kosti. Myndi kannski kaupa mér rafbíl. Já, og nýtt hár handa nokkrum vinum mínum sem hafa ekki haft slíkt ofan á höfðinu í allt of langan tíma.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég er náttúrulega úr Keflavík, eða foreldrar mínir. Þannig að það eru þá Hljómar, Hjálmar, Trúbrot, Valdimar og DJ Óli Geir.

 

Býr tæknipúki í þér?

Jájá, en fæ mikla leiðsögn hjá framkvæmdastjóranum okkar, Hjalta Harðarsyni. Hann er ægilegur tæknipervert.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Er með Mac.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6S.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Mér finnst fáir gallar við hann, utan þess hvað ég nota hann mikið. Það hefur sannarlega galla að vera með gátt inn í þann heim sem ég vinn í í vasanum alla daga. En ég er að reyna að vinna í ákveðnu kerfi til að hafa stjórn á þessu.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Neyslu frétta, samskipti við starfsmenn Kjarnans og helstu vini mína. Svo tekur tölvupósturinn mikinn tíma. Já, og myndir auðvitað. Ég tek mikið af myndum og myndböndum á símann.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Drasl. Man ekkert hvað hann hét. Einhver tilboðspakki hjá Tali. Og það var ástæða fyrir því að hann var á tilboði.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Tól sem gerir öll önnur stýritæki óþörf.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Get ekki sagt að ég sé mikið í því. Fæ samt oft tech-hlutann hjá Business insider í feedið hjá mér. Kíki oft á þær fréttir.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Almenningur ræður hvernig fjölmiðla hann fær. Og fjölmiðlun kostar. Hægt er að gerast stuðningsaðili Kjarnans hér: https://kjarninn.is/sidur/vertu-med/

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira