Heim Föstudagsviðtalið Auður Kolbrá Birgisdóttir

Auður Kolbrá Birgisdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 161 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

 

Hver er þessi Auður og hvaðan er hún?

27 ára ung kona sem heldur oft að hún sé ennþá unglingur, ólst upp í hlíðunum en hef búið allstaðar.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem fulltrúi hjá Völvu lögmönnum. Síðustu ár hef ég verið að læra lögfræði, útskrifaðist með BA próf úr HÍ árið 2013, tók ár af meistaranáminu við KU Leuven háskólann í Belgíu. Vann í Brussel sumarið 2015, skrifaði meistararitgerðina mína og útskrifaðist með þá gráðu í febrúar 2016. Tók svo lögmannsréttindi í desember 2016 og fæ núna að skrifa hdl. fyrir aftan nafnið mitt.
Búið að vera frekar mikið að gera en þegar þú ert að fást við áhugamál þitt þá er maður til í að fórna mörgu. Svo er pro tip að eiga góðan maka sem rennur í bubblubað fyrir þig, eldar mat og þrífur. Mæli með.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna á allra síðustu stundu og hleyp í vinnuna. Tvo daga í viku fer ég samt í pilates sem er mjög krefjandi fyrir b-manneskjuna mig. Í vinnunni fæst ég við fjölbreytt, skemmtileg, sorgleg og krefjandi verkefni allan daginn. Yfir þessa köldu og dimmu mánuði finnst mér gaman að koma heim eftir vinnu og heyra hvað dagur mannsins míns var ólíkur mínum, elda góðan mat, huga að plöntunum mínum eða horfa á nýjasta Chef’s table. Já, og hanga á twitter.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Við erum að flytja, enn eina ferðina (takk leigumarkaður), svo það er búið að vera mikið að gera heima fyrir. Langar mjög mikið að eiga svona venjulegan dag sem ég var að lýsa hér að ofan bráðum en þangað til verð ég að setja saman húsgögn, koma alltof miklu dóti fyrir í fáa skápa og pinteresta ógeðslega mikið. Um helgina ætla ég samt að horfa framhjá öllum kössunum og borða góðan mat, blanda mér kokteil, opna rauðvínsflösku, hlusta á góða tónlist og njóta lífsins í faðmi góðra vina. Er líka mjög spennt fyrir því að fara á Julia og Julia, nýja staðinn í Safnhúsinu við Hverfisgötu, með stuðdóttir minni um helgina og borða kruðerí.

 

Hvert er draumastarfið?

Úff, þau eru svo mörg! DraumaDRAUMA starfið er eflaust að vinna á alþjóðlegum vettvangi við að bjarga heiminum. Eða a.m.k. hjálpa einhverju, gera eitthvað gott. Hvort sem það er umhverfið, stríðþjáðar þjóðir, munaðarlaus börn, réttur til fóstureyðinga, bann við dauðarefsingum, réttindi minnihlutahópa, kvenna, flóttafólks, fanga, dýra (þessi listi er ekki tæmandi). Bara eitthvað easy eins og að sjá til þess að allir í heiminum lifi við lágmarks mannréttindi.
Sjáum til, stundum langar mig að hætta þessu bjarga heiminum bulli og gerast bara viðburðarstjórnandi (eitthvað svona í líkingu við J-Lo í Wedding planner) eða eitthvað sem tekur minna á hjartað, en ég held að það sé aldrei að fara gerast.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

  1. Þegar ég hætti að vera fávita unglingur og tók ábyrgð á eigin lífi.
  2. Al-anon.
  3. Hætta að borða kjöt.
  4. Búa ein í útlöndum.
  5. Játa mig sigraða fyrir ástinni.

 

Lífsmottó?

Ást, gleði, hamingja. – Endurtekið þar til þú finnur bara ást, gleði og hamingju í hjartanu, þá getur þú allt.
Og – alltaf að koma með blóm þegar þér er boðið í matarboð því þá koma aðrir með blóm til þín og ég elska blóm.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég kann ekki á klukku.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Borga niður skuldir minna nánustu og kaupa öruggt þak yfir höfuð mitt og þeirra. Svo myndi ég ferðast um heiminn og stofna eða gefa í „ethical” hjálparsamtök. Kaupa hallir og taka að mér öll munaðarlausu börnin. Væri geggjað ef ég gæti t.d. vingast við Emmu Watson og við gætum fengið stór fyrirtæki til að sýna samfélagslega ábyrgð í fátækum löndum og gefið okkur meira peninga til að setja upp skóla og svona.
Heldurðu að hún sé ekki til í það?

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég hef ekki hugmynd hvaðan tónlistarmenn eru og hvað meinaru með top 5? Er það mínir uppáhalds, frægustu, mest spiluðu eða með flest útgefin lög?

 

Býr tæknipúki í þér?

Já, en ég var einu sinni betri í svona tæknidóti, get a.m.k. uppfært tölvuna mína sjálf og gert svona það helsta en svo verður tækni alltaf flóknari. Ég kann ekki einu sinni á snapchat í dag.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Er með OS X El Capitan á vinnutölvunni. Ég hef átt tæki frá öðrum en Apple (lofa!), bæði HP tölvu og Android síma, en þau tæki hef ég týnt eða eyðilagt nánast af ásetningi því macOS/iOS er stýrikerfi lífs míns og allt annað er dauði.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Bleikan (auðvitað) iphone7.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostir eru eflaust myndavélin og stærðin – bæði raunstærð og minnisstærð. Ég hélt að hann myndi vera of stór fyrir mig því ég er með minni fingur en 8 ára grunnskólabarn en hann er bara mjög passlegur.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Eftir að ég kláraði nám hefur tölvan mín bara verið ofaní kassa og ég nota síma og ipad í allt nema vinnu. Þessa dagana eru mest notuðu forritin eflaust twitter, mail, dagatalið, pinterest, messenger og chrome til að googla IKEA hacks. Ég elska líka að tæknin geti fylgst með tíðahringnum mínum og sagt mér hvað er að gerast í líkamanum (Clue), leyfi mér að hlusta á útvarpsþætti án þess að þurfa hlusta á útvarp (Podcast) og segi mér hvort það séu ógeðsleg efni í snyrtivörunum mínum (Think Dirty).

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég er hið týpíska 90’ barn og fékk nokia 5110.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Bara eins og sjöan mín nema með betra batterýi og kannski ögn minni fyrir litlu puttana mína.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

www.einstein.is hefur hjálpað mér oft við að gera við og græja macbookina mína og sem sérstakur lögfræðingur www.lappari.com kíki ég stundum þangað inn. Annars er það bara sú sem poppar fyrst upp á google-niðurstöðunni þegar ég er í tæknivanda.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Góða helgi!

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira