Heim Föstudagsviðtalið María Kristín Gunnarsdóttir

María Kristín Gunnarsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 159 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

 

Hver er þessi María og hvaðan er hún?

Ótrúlega normcore húsmóðir í vesturbænum. Á mann og tvær dætur, 11 og 18 ára. Fædd og uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur – gekk í þetta standard kombó Melaskóla, Hagaskóla og MR. Kláraði fyrst ensku í HÍ, og tók svo mun seinna master í lögfræði samhliða vinnu – útskrifaðist 2012. Er líka ættuð úr Vestmannaeyjum og hef gríðar sterkar taugar þangað – mamma og pabbi búa þar í dag og við förum í reglulegar heimsóknir þangað.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa við hugverkaréttarráðgjöf hjá Árnason Faktor. Segir sig auðvitað sjálft hvað það er, er það ekki? Nei, við veitum sem sagt ráðgjöf varðandi vörumerki, einkaleyfi, hannanir og þess háttar. Ef þú finnur upp einhverja snilld þá kemuru til okkar.

Ég er svo aðallega í vörumerkjunum – get séð um ýmis fjölbreytt verkefni fyrir þig – eins og að búa til og clear-a nafn á nýrri vöru/þjónustu, skráningar vörumerkja innanlands og utan, andmæla hjá Einkaleyfastofu eða kvarta hjá Neytendastofu ef einhver er að brjóta á réttindum þínum (við komum samt ekki nálægt Macland kvörtuninni!), samningagerð – omfl.

Ég sé svo annars að Lappari er ekki skráð vörumerki – sem er náttúrulega skandall!
(Innskot Lappara:  OMG, komið að Pro Bono vinnu ??)

Áður starfaði ég við birtingar á auglýsingastofu og þar áður plönun ævintýraferða fyrir erlenda túrista á Íslandi – súperjeppaferðir upp á jökla og slíkt. En augljóslega er mun skemmtilegra að starfa innan um íslenskt hugvit og nýsköpun allan daginn.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna fyrir 7, oft á undan klukkunni – já ég er steríótýpísk A-manneskja og neita að skammast mín fyrir það. Restin af fjölskyldunni er því miður ekki jafn morgunhress svo ég hef yfirumsjón með að koma öllum á fætur og út um dyrnar um 8-leytið. Vinnudagurinn er brotinn upp með frábærum hádegisverði, en við erum svo dekruð í vinnunni að það kemur yndisleg kona og eldar einhverja hollustu ofan í okkur á hverjum degi.

Seinni partur fer svo oftast í matarinnkaup, stússast kringum yngri dótturina, matseld og þess háttar daglegt bras. Tek tarnir í að hreyfa mig – þessa dagana er það mest langir göngutúrar með podcast í eyrunum. Kvöldin fara svo vandræðalega mikið í gláp á hina ýmsu skjái- horft á misgáfulega þætti eða textaspjallað við vini og vandamenn eins og systur mína hinum megin á hnettinum. Stundum kíkir maður samt út með karlinum eða að hitta vinkonur, en allt of sjaldan.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Dagarnir hjá mér yfir hávetur eru nokkuð hver öðrum líkir bara – er að reyna að læra að meta hversdagsleikann og njóta líka mánudaganna. Til að berjast gegn skammdegisþunglyndinu plana ég svo fyrirhuguð útlandaferðalög næstu mánuði – bæði ráðstefnur fyrir vinnuna og svo stórfjölskylduferð til Króatíu í sumar.

Þess fyrir utan er ég mikið að spá í wellness þessa dagana – sérstaklega í gegnum podköst. Er endalaust að hlusta á þætti um líkamlegt og andlegt heilbrigði og hvernig þetta virkar allt best saman. Tek reglulega svona ákveðin svið fyrir og dett alveg á bólakaf í þau – á undan þessu var það minimalismi.

Í vinnunni er það helst vörumerkið ICELAND sem við erum að reyna að berjast fyrir þessa dagana – að leyfa ekki einhverri breskri verslunarkeðju að stela nafninu á landinu okkar.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég er fáránlega sátt við vel launað 9-5 starf, þar sem maður getur kúplað sig algerlega andlega út utan vinnutíma og sinnt fjölskyldu og áhugamálum stresslaust. Hef ekki enn fundið það mikla ástríðu fyrir einhverju að ég væri til í að eyða 24/7 í það eins og frumkvöðlar gera.

Hins vegar hefur mér alltaf fundist ótrúlega áhugaverðar pælingar um yngri systkini ríkisarfa – eins og Harry prins. Held það sé að mörgu leyti geggjað hlutverk – maður fær svakaleg forréttindi án mikilla skuldbindinga. Þessi yngri systkini verðast amk alltaf skemmta sér mun betur en þessi elstu sem þurfa eðli málsins samkvæmt að vera stabílli en andskotinn. Kannski er þetta því ég er elst systkina minna og stabílli en andskotinn sjálf.

 

Hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi, hingað til?

Fyrir utan þetta klassíska – dæturnar og manninn – þá er ég svo heppin að hafa fæðst inn í fáránlega meiriháttar stórfjölskyldu. Við vitum fátt skemmtilegra en að hittast, kíkja í kannski eeeeeinn kaldan, syngja hástöfum við gítarundirspil oþh.

Þess vegna er Þjóðhátíð eitthvað skemmtilegasta sem maður lendir í – og okkur tekst einhvern veginn að toppa okkur á hverju ári. Tökum þetta alla leið, með tvöfalt hvítt tjald, 20-30 fjölskyldumeðlimi, allir saman í Brekkunni, kökur og kaffi úti í sólinni fyrir utan tjaldið á hverjum eftirmiðdegi (alltaf sól auðvitað)– og árleg keppni um hver endist lengst í Dalnum fram á mánudagsmorgun. Ég held reyndar mér hafi aldrei tekist að vinna – í fyrra skreið síðasti heim um kl 11. En já – svona samverustundir eru nett ómetanlegar.

 

Lífsmottó?

Do more of what you love. Love more of what you do.

Flestir eiga auðvelt með fyrri hlutann en ég held að hamingjan komi að stóru leyti ef maður nær þeim seinni – eða góðu jafnvægi af þessu tvennu.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég hef um ævina unnið tvær heilar medalíur. Afreksmanneskja mikil, ég veit. Er einstaklega stolt af þeim báðum – eru báðar silfur og á mjög svölum sviðum. Önnur er af vinnustaðamóti í bekkpressu kvenna (3 keppendur) og hin var á Íslandsmótinu í borðspilinu Catan. Já það er (var?) keppt í þessu og sigurvegarinn fékk ferð út að keppa á Evrópumótinu í Catan. Mikið svekk að hafa ekki unnið.

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Eins og fram hefur komið er ég frekar kassalaga og raunsæ manneskja – myndi eflaust byrja á að borga skuldir, ferðast og dæla einhverjum slatta í dæturnar – td koma þeim upp húsnæði. Svo myndi ég kaupa flottasta og mest pimpaða Landrover sem peningar geta keypt fyrir manninn minn því hann á það innilega skilið.

Stórum hluta myndi ég svo verja í að styrkja rannsóknir á slímseigjusjúkdómi (Cystic Fibrosis) sem bróðurdóttir mín og nafna er með. Þetta er hræðilegur erfðasjúkdómur sem leggst aðallega á lungun, og engin lækning hefur enn fundist við.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Æ þetta er svo erfitt í Reykjavík – ég veit ekki einu sinni hverjir kenna sig við Vesturbæinn… Get samt minnst á að Krummi í Mínus bjó hérna í húsinu og Páll Óskar býr í næstu götu. Þetta er besta sem ég get gert.

 

Býr tæknipúki í þér?

Neeeei, eiginlega ekki. Tókst samt einhvern veginn að lenda í því hlutverki í vinnunni að sjá um hugbúnaðinn sem heldur utan um öll málin okkar. Stysta stráið og allt það…

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 7 – hef ekki enn nennt að uppfæra í 10 á meðan þetta allt virkar ennþá fínt.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 5s

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Mér finnst stærðin fín, myndavélin ágæt í góðri birtu – og hann gerir svona flest sem ég bið um.
Batterýið mætti hins vegar endast MUN lengur, og það er óþolandi þegar hann deyr í kulda.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Messenger, Twitter, Snapchat, myndavélina og hlusta á podköst. Já ok og Facebook. Er minnst að tala í hann.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110 – hélt þetta væri svona nett bóla og alger óþarfi fyrir mig að eiga. 18 árum seinna er þetta fyrsti – og sennilega eini – hluturinn sem ég myndi bjarga í eldsvoða.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Fyrsta krafa er betra batterý. Nettengist vel og ódýrt alls staðar í heiminum. Þolir högg og vatn. Hef ekki hugmyndaflug í útfærslu á dýpri breytingum eins og ígræðslu/hugarstjórnun.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Lappari uppfyllir allar mínar tæknisíðuþarfir – og ég verð að þakka bara innilega fyrir þetta fórnfúsa hugsjónastarf sem ritsjóri síðunnar er að vinna á hverjum degi – er ótrúlega aðdáunarvert .

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Vona bara að þeir lesendur Lappara sem eru ekki enn orðnir fertugir muni höndla þau tímamót jafn vel og ég gerði – af fordæmalausu jafnaðargeði og óviðjafnanlegri HAMINGJU bara. HMU fyrir tips&tricks

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira