Heim Föstudagsviðtalið Aron Leví Beck
Aron Levi Beck

Aron Leví Beck

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 156 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

 

Hver er þessi Aron Leví og hvaðan er kjellinn?

Fyrst og fremst fyrrverandi landsliðsmaður í íshokkí. Þess utan hef ég undarlega mikinn áhuga á fuglum og spila á harmoniku. Ólst upp hjá ömmu í Laugardalnum en lít ekki síður á Reyðarfjörð sem heimabæ. Starfa sem byggingafræðingur á arkitektastofu í Reykjavík þó ég sé nú reyndar líka lærður málari. Alltaf einlægur, stundum pínu sjálfhverfur en sit aldrei auðum höndum.

Væri reyndar meira til í að vita hvar „kjellinn“ er frekar en hvaðan hann er því ég hef ekki heyrt um „kjellinn“ síðan 2008. Annars kem ég úr flestum höfuðáttum eins og gott íslenskt rok….

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég vinn á arkitektastofu á Hverfisgötu við að hanna hús. Í gegnum tíðina hef ég fengist við margt; sinnt starfi hitaveitustjóra í Fjarðabyggð, unnið við fuglarannsóknir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, tekið þátt í verkefni hjá Startup Reykjavík, unnið rannsókn um hvernig best væri að nýta umframvatn sundlauga til upphitunar á gróðurhúsum, steinsteypurannsóknir hjá Eflu verkfræðistofu og margt fleira.

Svo inn á milli reyni ég líka að gera eitthvað skemmtilegt.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ríf mig á fætur, bursta perlurnar og gleymi að borða morgunmat. Tek strætó í vinnuna (stundum rækt fyrir vinnu). Ég vinn frá 9-17, eftir kl. 17 sinni ég ýmsum verkefnum sem tengjast félagsstörfum eða fyrirtækinu sem ég er meðeigandi að. Þaðan fer ég oft beint á viðburð eða fund. Ef ekki, þá finnst mér mjög gaman að fara í Happy Hour með skemmtilegu fólki og ræða daginn og veginn. Ég skila mér heim vanalega um 22-23 á kvöldin, þá er það þáttur eða lesa einhverja borgarskipulagssnilld.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Það er mikil uppbygging í gangi Reykjavík þessa dagana því er svolítið mikið að gera hjá mér í vinnunni. Annars strengdi ég smá áramótaheit um að tileinka mér hollara mataræði á nýju ári og á betri tímum ásamt því að hringja aðeins oftar í ömmu.

 

Hvert er draumastarfið?

Mest spennandi væri að hafa áhrif á það hvernig Reykjavík þróast, taka virkan þátt í því og koma mínum áherslum í borgarmálum á framfæri!

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Á heimsmeistaramóti í Mexíkó var ég valinn besti leikmaður íslenska landsliðsins í íshokkí, á sama tíma yngsti leikmaðurinn á mótinu. Ég gaf meira að segja eiginhandaráritanir! Síðan þá hefur lífið verið samfelldur táradalur.

 

Lífsmottó?

Illu er best aflokið.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er rangfeðraður. Ekki einu sinni smá að grínast. Ég hlýt að toppa flesta í þessum spurningalið! Annars reyndist það hin mesta gæfa því ég eignaðist hrúgu af freknóttum nýjum systkinum og fékk loks að átta mig á hvaðan flestir mínir verstu ókostir koma!

 

Hvað myndir þú gera við 500 milljóna lottóvinning?

Sökum þess hve húsnæðisástandið í borginni er snúið núna myndi ég sennilega byrja á að kaupa mér huggulega íbúð. Síðan myndi ég klára að borga yfirdráttinn, koma einhverjum aurum til þeirra sem þurfa og leggja svo restina inn á bók hjá þessum dásamlegu bönkum okkar sem kunna svo voðalega vel að fara með peninga. Bland í poka fyrir rest.

 

Topp 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Eins og flestir vita á öll almennileg músík tengsl til Reyðarfjarðar. Nægir að nefna:

Þröstur í Mínus
Birkir Fjalar í I adapt og Döðlunum
Og bróðir hans, Andri Freyr á flandri, var í Bisund
Bóas Hallgríms var í Reykjavík!
Meiraðsegja Helgi Seljan á að baki stuttan en gifturíkan tónlistarferil
Auðvitað verð ég svo að nefna föður minn – Rúnar Þór sem er reyndar að vestan.

 

Býr tæknipúki í þér?

Það er alveg vottur af tæknipúka í mér. Ég hef hins vegar alltaf átt erfitt með að leyfa mér að eiga það sem mig langar í. Lottóvinningurinn myndi hjálpa talsvert til.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 10.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Samsung Galaxy S5.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Hann sinnir öllu því sem hann þarf að sinna en ekkert mikið meira en það. Mér finnst myndavélin vera drasl og rafhlaðan mætti auðvitað endast margfalt lengur.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Vekjaraklukku, hringja, Twitter, Messenger og er farinn að nota hann meira fyrir tölvupósta. Svo nota ég náttúrulega RunKeeper mjög mikið (plís ekki fara inná prófælinn minn, hann virðist ekki hafa uppfært sig síðan 2014 vegna tæknilegra örðugleika).

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Hann var gulur með lítinn skjá. Virðast hafa verið einhverjir tæknilegir örðugleikar þar líka því ég fékk eiginlega aldrei símtöl né skilaboð.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Fyrst og fremst þarf að vera rafhlaða sem endist margfalt lengur, með háhraðatengingu alls staðar og að hægt sé að nota hann á sama hátt án vandræða hvar sem er í heiminum.

Gott væri líka að losna við fyrrgreinda tæknilega örðugleika, þeir virðast viðvarandi.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Það eru fyrst og fremst síður sem tengjast mínu starfi. Þetta eru helst spjallþræðir þar sem fagfólk í byggingar- og borgarmálum ræðir tæknilegar úrlausnir á þeim forritum sem eiga við hverju sinni.

https://www.revitforum.org/
https://geonet.esri.com/

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Vissu þið að krían á heimsmet í farflugi, næstum 71.000 km á ári – til tunglsins og til baka. Tvisvar. Getið þið ímyndað ykkur flugþreytuna? Ekki nema von hún sé smá geðvond. Fyrir meira gott #fuglatwitter fylgið mér @aron_beck.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

1 athugasemd

Birkir Fjalar 01/04/2019 - 11:47

Hvar hefur þessi verið allt mitt líf?
Reyndar svaraði hann einum #mávatwitter frá mér og það var unaðslegt, ef ég man rétt.
Sjá hvað hún lúkkar líka!

Reply

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira