Heim Föstudagsviðtalið Kristinn Snær Agnarsson

Kristinn Snær Agnarsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 138 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Kristinn Snær Agnarsson og er fæddur á Akranesi en alinn upp á Seyðisfirði. Ég bjó um tíma í Svíþjóð þar sem ég var í tónlistarnámi og þar varð ég smá sænskur líka, svo að þetta er góð blanda af öllu mögulegu. Hef samt búið í Reykjavík síðan ég var 16 ára eiginlega. Þetta er alltof flókin spurning!

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég tromma með hinum og þessum listamönnum og hljómsveitum. Undanfarin ár aðalega með John Grant, Ásgeiri Trausta, Baggalúti, Megasi, Bang Gang og Jónasi Sig. Svo inná milli þess sem ég spila tónlist er ég að afgreiða í Tónastöðinni.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég er eiginlega í því held ég!
Að vinna í skapandi umhverfi með frábæru fólki er það sem ég er að gera. Verður ekki betra held ég.
Annars væri ég til í að vera Questlove í einn dag, bara til að prófa það.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Það er ekki til neitt sem heitir venjulegur dagur hjá mér. Ég vakna um 8 leitið, fer í sturtu, fæ mér morgunmat ef ég man eftir því, og svo mæti ég í hvaða það verkefni sem ég er að vinna í þann daginn.
Ég er yfirleitt að koma heim til mín um og uppúr miðnætti.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Undanfarið hefur mestur tími farið í að undirbúa og æfa fyrir tónleika með Ásgeiri Trausta sem eru víðsvegar um Evrópu í sumar. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni og við erum að prófa okkur áfram með allskonar skemmtilegt dót og drasl til að gera þetta sem nördalegast. Svo er ég að spila með Bang Gang líka á Secret Solistice festivalinu og strax eftir það hoppa ég uppí flugvél til Þýskalands með Ásgeiri að spila á festivali.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Ég get ekki valið milli þess að biðja Scarlett Johannsen að byrja með mér og fá ekki nei, eða þegar ég fann 3 ósnerta árganga af Kóngulóarmanninum á bókamarkaði um daginn. Cara Delevingne hljóp mig einu sinni niður á Leifsvelli, það var ákveðinn hápunktur. Hún var að missa af flugi.
En svona grínlaust þá verð ég að segja að spila með Sinéad O’Connor hafi verið ákveðinn hápunktur á ferlinum, ásamt því að koma fram í þætti David Letterman sem var hálf súrrealískt.
En vonandi er hápunkturinn ekki enn kominn. Maður verður að hafa eitthvað að stefna að.

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir vita?

Mér finnst Love Changes Everything með Climie Fisher vera eitt besta lag allra tíma. Svo get ég ekki annað en dillað mér ef ég heyri Don’t Stop Movin’ með S Club 7.

Ég kann ekki að skammast mín. Ég horfi á Gilmore Girls og elska það.

 

Býr tæknipúki í þér?

Ég er óttarlegur tækninörd og finnst fátt skemmtilegra en að lesa mér til um tæki og tól og fikta í þeim. Ég keypti mér sjónvarp um daginn og það tók mig sirka 2 vikur af stanslausri rannsóknarvinnu á netinu. Ég sannfæri mig reglulega um að kaupa hluti sem ég þarf ekki. Sem gott dæmi um það þá á ég Apple Watch.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Ég er að að nota OS X 10.10.5. Ég þori ekki að uppfæra strax ef það kynni að hrófla við stöðugleika Pro Tools forritsins sem er nokkuð til friðs þessa dagana. Það er vandlifað í þessum efnum.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6. Ég bíð að sjálfsögðu spenntur eftir iPhone 7.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helsti kostur er að hann vinnur vel með öllum hinum tækjunum sem ég á frá Apple. Ég fór inní epla-ecosystemið árið 2005 og hef ekki litið tilbaka síðan. Ég á þrjár apple tölvur, símann, ipad, apple tv og apple watch. Ég er viljugur þræll Tim Cook.

Ég elska iOS svona að mestu og get til dæmis nánast ekki að neinu leyti hjálpað mömmu minni með Galaxy símann sinn. Þar meikar ekkert sens fyrir mér svo að ég lét hana bara skipta yfir í iPhone. Símtölum um hjálp hefur snarfækkað.

Gallinn er að hann er örlítið of stór. Ég var voðalega spenntur fyrst fyrir að fá stærri síma en það hefur breyst.

Battaríið mætti endast betur og svo vildi ég óska að ég gæti jailbreikað hann. Ég var með hann þannig og fór bara aftur í “normið” til að getað notað Apple Watch með honum. Sé stundum eftir því. Það voru nokkrir fítusar í jailbreakinu sem ég sakna mikið, til dæmis Activator sem leyfir manni að búa til custom actions. Ég nördaðist mikið í þessu á tímabili. 🙂

 

Í hvað notar þú símann mest?

í engri sérstakri röð:

  1. Facebook
  2. Instagram
  3. Spark
  4. Tweetbot (@kiddi )
  5. Fantastical

Ég er að grínast, ég nota bara Tinder.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég les Daring Fireball nánast daglega. Einnig MacRumors og svo er nýjasta uppáhaldið mitt heimasíðan Lynda.com. þar sem er hægt að nálgast kennsluefni um nánast hvað sem er. Svo er það auðvitað klámsíðan drumblog.us sem er í miklu uppáhaldi.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég þakka fyrir mig og hlakka til að lesa næsta viðtal!

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira