Heim Föstudagsviðtalið Iris Edda Nowenstein

Iris Edda Nowenstein

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 137 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Iris Edda Nowenstein og ólst upp í Vesturbænum. Fæddist reyndar í Frakklandi og vissi ekki að Ísland væri til fyrr en ég var að verða sex ára. En þú veist, áfram KR og allt það.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er nýbyrjuð í fyrstu 8-16 vinnunni minni núna, sem talmeinafræðingur á Landspítalanum. Seinustu ár hef ég verið í námi og starfað sem rannsóknarmaður í ýmsum rannsóknum á sviði málvísinda og talmeinafræði samhliða því. Svo hef ég líka kennt íslensku fyrir (aðra) útlendinga, unnið í Ritveri Hugvísindasviðs og ýmislegt fleira.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég byrja alltaf daginn á því að lofa sjálfri mér því að fara fyrr að sofa næst, þamba kaffi og dást að því hvað sjö ára stjúpdóttir mín er fáránlega hress. Svo taka við strætóferðir, meira kaffi, vinna og jafnvel líkamsrækt. Eftir vinnu finnst mér skemmtilegast að hugsa um mat, elda mat og borða mat, lesa Harry Potter fyrir áðurnefnda stjúpdóttur, nördast yfir borðspilum og þáttum með eiginmanninum og kíkja út í drykki með vinum. Algengara: Sofna í sófanum eftir vinnu, panta mat og sinna málfræðigrúski sem ég á að vera búin að skila af mér á meðan ég hangi of mikið á Twitter.

 

Átt þú aflandsfélag?

Þú platar mig í viðtal á fölskum forsendum…

 

Ef ekki, hvað myndir þú nefna svoleiðis félag?

Sko, við @Sentilmennid vorum ekki einu sinni gift á þessum tíma. Hvaða atriði ertu að reyna að búa til hérna?

 

Hvert er draumastarfið?

Draumastarfið á sviði talmeinafræði er í rauninni bara starfið sem ég var að byrja í núna, nema bara á Landspítala sem væri ekki fjársveltur og þ.a.l. betur í stakk búinn til að sinna hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús. Ég held ég endi samt í málvísindarannsóknum, og þar væri draumastarfið rannsóknarstaða (með smá kennslu) við Háskóla Íslands þar sem ég fengi að vinna að þverfaglegum rannsóknum á máltöku, málbreytingum, málhrörnun, málstoli og öðrum hlutum sem byrja á mál-. Mig langar sem sagt bara að vera ríkisstarfsmaður.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ég er nýbúin að verja meistararitgerðina mína í talmeinafræði svo nú er það „bara“ vinna. Og reyndar taka þátt í að koma af stað rannsóknarverkefni um stafræn áhrif ensku á íslensku. Ég er hrikalega spennt fyrir rannsókninni, þetta verður alveg risastórt verkefni og ég fæ að koma að því sem doktorsnemi í málvísindum. Þessa dagana er ég samt spenntust fyrir því að komast í smá frí, ég ætla að fara og knúsa pabba minn og litla bróður í Brussel (sem sagt vöfflur, franskar og bjór) og fylgjast með manninum mínum kaupa sér föt í London.

 

Fyrir utan þetta viðtal, hvað er það besta sem hefur gerst í þínu lífi hingað til?

Æj, bara Ísland almennt.

 

Lífsmottó?

Betra er að banga en biðja (þetta er gamall málsháttur).

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Sennilega á ég ekkert að heita Nowenstein. Langafi minn flutti til Argentínu frá Póllandi og þurfti að láta skrá nafnið sitt þegar hann kom með skipi til Buenos Aires. Hann var hins vegar ólæs og gat ekki stafað eftirnafnið, svo þetta er bara svona ca. það sem starfsmaðurinn við höfnina heyrði. Ég segist alltaf vera hálffrönsk og hálfargentínsk, en argentínski helmingurinn er sem sagt upprunalega frá Póllandi, Úkraínu og Kýpur.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Myndi byrja á því að kaupa mér fáránlega góða espressovél og láta koffínið svo sjá um rest.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég fæddist í litlum bæ alveg upp við París – fæ að nýta mér það og nefna góða tónlist frá París og nágrenni:

  1. Serge Gainsbourg
  2. Air
  3. Nouvelle Vague
  4. Émilie Simon
  5. Camille

 

Býr tæknipúki í þér?

Svona lúmskur. Ég sýni ekki beint frumkvæði þegar kemur að því að nýta mér nýja tækni og get jafnvel verið dálítið tortryggin, en fer eiginlega beint úr því og yfir í „HA HEFURÐU ALDREI PRÓFAÐ ÞETTA APP ÞAÐ BREYTTI SKO LÍFI MÍNU ÉG GET EKKI LIFAÐ ÁN ÞESS“.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 10. Dreymir samt um að vera töff open source týpa.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

LG G4.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helstu kostir eru klárlega frábær skjár og ótrúlega góð myndavél. Batteríendingin varð hins vegar ansi fljótt slök og svo finnst mér lögunin á símanum ekki hentug. Þetta kúpta dæmi lítur alveg vel út en hann vaggar á flötu yfirborði.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Alls konar skipulagsdót (Calendar, Keep o.fl.)
  2. Tölvupóst
  3. Messenger
  4. Samfélagsmiðla
  5. Sem mynda- og raddupptökuvél

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 3310 — sjitt hvað það var hægt að fá sturluð hulstur á hann.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Hann kemur í veg fyrir að ég hafi vekjaraklukku óvart stillta þegar ég get sofið út. Ég bara ræð ekki við þetta verkefni. Alvarlegt vandamál hjá mér. Mikil skerðing á lífsgæðum.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Þó ég fylgdist með öðrum síðum myndi ég samt bara segja Lappari.com.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já. Borðið meira af góðum mat, heimsækið ömmur ykkar oftar, talið frekar íslensku en ensku af fyrra bragði við útlendinga og plís ekki kjósa Davíð Oddsson.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira