Heim Föstudagsviðtalið Anna Fríða Gísladóttir

Anna Fríða Gísladóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 131 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Domino pizza

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég er tuttug‘og eitthvað gömul stelpa sem er fædd og uppalin í 101 og er það mikil 101 steríótýpa að ég gisti í tjaldi í fyrsta skipti þegar ég var 14 ára.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég tók stórt fullorðinsskref þegar ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur árið 2014 og seinustu 2-3 ár hef ég séð um markaðsmál fyrir Domino‘s ásamt því að taka að mér önnur markaðstengd verkefni utan vinnu. Fyrir stuttu var ég skipuð í framkvæmdastjórn fyrirtækisins, sem ég veit ekki hvað þýðir en veit að mun líta vel út á CV-inu.

 

Hvert er draumastarfið?

Núna felst vinnan mín meðal annars í því að smakka pizzur. Það verður að teljast ansi góð vinna.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Varúð, algengt svar. Nánast enginn dagur er eins hjá mér þar sem vinnan sem ég er í er ansi fjölbreytileg. Flestir dagar byrja hins vegar á því að ég sest niður með kaffibolla og hafragraut heima hjá mér þar sem ég les blöðin. Já, ég er þessi eina í aldurshópnum 18-25 sem les dagblöðin. Einn hluti af vinnunni minni er að sjá um samfélagsmiðla fyrirtækisins sem þýðir að ég er í vinnunni 24/7 og því þarf ég stundum að sinna vinnunni utan hefðbundins vinnutíma og þá á meðan ég er með vinum eða í ræktinni.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Það er nóg um að vera framundan bæði hvað varðar vinnu og einkalíf. Ég er svo heppin að vera boðin til Amsterdam með auglýsingastofunni Pipar/TBWA ásamt öðrum viðskiptavinum þeirra. Síðan ég ein af 60% þjóðarinnar sem er að fara til Frakklands á Ísland – Portúgal og beint eftir í vinnuferð til Las Vegas. Ég hlakka vægast sagt til!

 

Hvernig er drauma pizzan þín?

Það væri að sjálfsögðu Domino‘s pizza [vonandi les forstjórinn þetta]. Ég er mjög hrifin af pizzunni Festival og barðist hart fyrir því að hún kæmi á matseðil. Nachos + Pizza er algjör negla!

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er heimsins besta leikkona. Þar sem ég er einstaklega ómannglögg þá hef ég þróað með mér einstakan hæfileika að eiga samtal við einstakling í hátt upp í 40 mín með manneskju sem ég hef ekki hugmynd um hver er.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

One way ticket to Tortola baby!    …..Nei. Kannski ekki.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Hildur, Retro Stefson, Megas, Hjaltalín og Sprengjuhöllin eru þeir tónlistarmenn sem ég tengi við 101-Hlíðarnar.

 

Hvernig tölvu ertu að nota?

Heima er ég með Mac Air en í vinnunni ThinkPad.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég hef verið á föstu með iPhone síðan 2010. Reyndar hef ég uppfært í yngra model reglulega og er í dag með iPhone 6.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostirnir eru endalausir en einn helsti galli er hvað hann er ávanabindandi og erfitt að vera án hans. Hann verður líka oft batteríslaus sem helst kannski í hendur við mikla notkun.

 

Í hvað notar þú símann mest?

Tölvupóst, Twitter, Instagram, Snapchat og að svara viðskiptavinum sem hafa t.d. fengið pepperónílausa Pepperóníveislu.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Einkabarnið (9 ára) labbaði í BT með pabba sínum sem gaf henni Nokia 3210. Vasapeningurinn fór síðan í að kaupa hin ýmsu front í GSM versluninni hjá Hlemmi. Frábær sími.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég get ekki sagt að ég fylgist reglulega með neinni sérstakri tæknisíðu. Yfirleitt fer ég inn á slíkar síður í gegnum samfélagsmiðla. Ég hlusta hins vegar reglulega á tæknipodköst.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Ég vil þakka fyrir lesturinn og benda á að þeim sem þystir í meira að fylgja mér á Twitter, Instagram eða Snapchat ég heiti annafridagisla á öllum samfélagsmiðlum. Hámarks samræming.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira