Heim Föstudagsviðtalið Jóhannes Haukur Jóhannesson

Jóhannes Haukur Jóhannesson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 117 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég er fjölskyldufaðir í Laugardalnum, ég á konu, tvö börn, þriðja á leiðinni og eitt hundskvikyndi. Ég er Kragamaður í húð og hár. Uppalinn í Hafnarfirði, hjarta suð-vesturkjördæmisins, eða Kraganum eins og kjördæmið er gjarnan kallað. Ég er líka hálfur færeyingur og bjó þar meir að segja í þrjú ár frá 7 til 10 ára aldurs.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa sem leikari og skemmtikraftur. Hef prófað allan andskotan sem því tengist, teiknimyndatalsetningu, veislustjórn, útverpsleikrit, sviðsleikrit á stórum og litlum sviðum, sjónvarpsþáttaraðir og kvikmyndir. Undanfarin misseri hefur mér tekist að starfa að mestu leyti erlendis í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

 

Hvert er draumastarfið?

Það var alltaf að verða rokkstjarna. Það blundar í mér ennþá en ég held ég verði að fara að sætta mig við að það er sennilega ekki að fara að gerast. En ég er nú meira en sáttur í því starfi sem ég er núna svo ég kvarta ekki þótt ég fái ekki að túra um heiminn sem tónlistarmaður.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Frekar rólegur þessa dagana. Þetta er svona tarnavinna. Ég er núna að undirbúa mig fyrir tökur sem hefjast í lok febrúar í Kanada. Undirbúningurinn felst í því að fara í ræktina 5 sinnum í viku til að vera í góðu formi, svo les ég ítarefni um verkefnið og hlutverkið ásamt því að læra senur og texta. Dagarnir fara í það núna en svo seinna hefjast sjálfar tökurnar og þá eru þetta 12-14 tíma dagar á setti í tökum. Leika sömu hlutina aftur og aftur þar til allir eru sáttir.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Held ég hafi nokkurn veginn svarað því í síðustu spurningu. Ég vísa þangað.

 

johannes3

 

Eitthvað slúður úr bransanum sem við þurfum að vita?

Hellingur. En ég get ekki látið hafa það eftir mér opinberlega. Ég get þó sagt að það er sprengja á leiðinni með haustinu.

 

Lífsmottó?

Klára. Ef þú byrjar á því, þá klárarðu það. Undantekningalaust. Það verður bara að vera þannig. Alltaf.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég tala og skil færeysku. Reyndar með orðaforða á við tíu ára barn. En það er samt hellingur. Já, hellingur segi ég.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Fjárfesta í fasteignum. Stofna sjóði fyrir börnin mín og mína nánustu. Svo myndi ég splæsa í eins og eina ferð til Japan eða Ástralíu, Saga class á alla familíuna.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Bo Hall, Botnleðja, Margrét Eir, Jóhanna Guðrún, Jón Jónsson og Frikki Dór,

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins fyrir utan Stebba Him?

Gamli kallinn á hljómborðinu með strákunum í Ný Danskri.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OS X El Capitan

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6s

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Notendavænn, sniðugur og…..

 

Í hvað notar þú símann mest?

Athuga hvað klukkan er. Lesa tölvupóst og svara, stundum. Taka lélegar myndir. Skoða Facebook. Skoða Twitter.

 

johannes1

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það var Nokia sími sem mamma haðfi átt en ég fékk þegar hún öppdeitaði. Þetta var árið 1997, ég var sautján ára og er enn með sama símanúmer. Síminn var í hulstri með svona beltisfestingu. Þar hékk síminn meðfram síðunni í svona smellugræju. Það var hægt að grípa símann á augabragði og ekki frá því að manni liði eins og kúreka þegar maður svaraði í hann. Þótti þetta mjög móðins.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Ég læt aðra um að fabúlera um það og segja mér svo hvernig síma mig vantar.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Engum. Ekki einni. Sorry.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já, mér fannst Fassbender frábær í hlutverki Jobs. Varð hugsað til hans rétt í þessu.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira