Heim Föstudagsviðtalið Aðalheiður Snæbjarnardóttir

Aðalheiður Snæbjarnardóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 116 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Aðalheiður Snæbjarnardóttir betur þekkt sem Heiða. Ég fæddist á Akranesi en er að vestan og bjó í stuttan tíma á Ísafirði þegar ég var á leikskólaaldri, því miður er mamma ekki að vestan og treysti ekki heilsugæslunni þar árið 1981 þannig að ég ólst upp á Akranesi þangað til ég flutti til Hafnarfjarðar 1995 og svo flutti ég til Reykjavíkur 2012.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég er klæðskeri, viðskiptafræðingur, eigandi Kanils ehf, stjórnarmaður í Festu, mikil áhugamanneskja um samfélagsábyrgð bæði einstaklinga og fyrirtækja, tísku, föt, markaðsfræði, neytendur, ofl. Ég vann við klæðskurð í nokkur ár, lengst á saumastofu Spaksmannsspjara svo ákvað ég að skipta um starfsvettvang og lærði viðskiptafræði. Eftir það nám var ég agastjóri hjá VERT markaðsstofu í tæplega þrjú ár þegar klæðskurðurinn var farinn að toga í mig aftur þannig að núna reyni ég að sameina öll áhugamálin mín sem sjálfstæður atvinnurekandi. Ég er fyrst og fremst að búa til Kanil barnafötin mín og þróa framleiðsluna í átt að því að vera fjöldaframleidd en með gagnsæja og sannanlega samfélagsábyrga virðiskeðju. Einnig veiti ég fyrirtækjum ráðgjöf um innleiðingu samfélagsábyrgðar, tek að mér verkefnastjórnun á stökum verkefnum og að lokum dett ég stundum inn í saumaverkefni.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég er í draumastarfinu mínu núna og vinn að því að stækka fyrirtækið mitt þannig að ég geti ráðið draumastarfsfólkið sem fyrst 🙂

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Ég er alveg vonlaus á morgnanna en ég ríf mig alltaf framúr með betri helmingnum svo ég sofi ekki fram að hádegi, svo er dagskráin sjaldan eins heldur fer bara eftir verkefnum vikunnar. Draumadagarnir eru þegar ég næ að vinna í tölvunni fyrir hádegi, fara í ræktina í hádeginu og vera á vinnustofunni eftir hádegi. Ég reyni að hitta betri helminginn í kvöldmat á hverju kvöldi og eyði svo kvöldunum í að vinna í tölvunni, teikna snið og vinna í næstu fatalínu Kanils.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ég er að klára að vinna með Íslensku Óperunni en ég réði mig inn á saumastofuna þeirra síðustu vikurnar fyrir Don Giovanni sem verður frumsýnd núna 27. febrúar. Ég er að undirbúa opnun á vefversluninni Kanill.is sem að opnar í síðasta lagi í byrjun apríl, ég er að undirbúa mjög metnaðarfulla vetrarlínu fyrir Kanil en það verður fyrsta heildstæða línan sem ég framleiði. Ég er á leiðinni til London á Textile Forum efnasýninguna í byrjun mars til að velja mér byrgja og efni í línuna, það verður að sjálfsögðu eins samfélagslega ábyrgt og hægt er. Svo er ég búin að vera að vinna að skýrslu um stöðu samfélagsábyrgðar hjá spennandi fyrirtæki og skýrslan mun væntanlega koma út á næstu dögum svo er ég að skoða nokkur önnur verkefni sem eru í bígerð með vorinu.

 

Eitthvað slúður af Twitter sem við þurfum að vita af?

Það er hægt að fylgjast með öllu mikilvægasta slúðrinu hjá @adalheidursn í rauntíma flesta daga, ég vil ekki ljóstra neinu upp utan twitter.

 

Lífsmottó?

Ég get allt.

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég var ekki alltaf í tengslum við raunveruleikann sem barn og var ákveðin í að verða prinsessa þegar ég yrði eldri, svo ég bjó til mína eigin prinsessu þjálfun svo ég yrði nú tilbúin þegar kallið kæmi. Í þjálfuninni fólst meðal annars að ganga um með bækur á höfðinu svo ég yrði bein í baki og ég bý ennþá að því og er alltaf bein í baki.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Borga upp íbúðina okkar, bjóða öllum foreldrum og systkinum okkar Péturs í risaskemmtilega fjölskylduferð á skemmtiferðaskipi, fjárfesta eitthvað og flýta töluvert mikið fyrir stækkun Kanils.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Þar sem ég tel Akranes, Ísafjörð og Hafnarfjörð sem heimabæi mína þá tel ég að sjálfsögðu upp fulltrúa frá þeim öllum.

  1. Botnleðja
  2. Reykjavík!
  3. Sign
  4. Nine Elevens
  5. Halli Melló

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins?

Högni Egilsson í augnablikinu.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OS X

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6 gylltan

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostir: hann er besti sími sem ég hef átt, með besta stýrikerfi sem ég hef prófað (átti áður LG síma með Windows stýrikerfi og Samsung Galaxy S4). Hann er einfaldur og tók enga stund í uppsetningu, öll öpp virka best í honum, hann passar vel í lófa, snertiskjárinn er betri en á öðrum símum sem ég hef átt, myndavélin er sú besta sem ég hef átt, batteríið endist mér allan daginn þótt ég sé í honum 24/7.

Gallar: front facing myndavélin er ekki mjög góð en það er allt í lagi þar sem ég tek bara selfies fyrir #sunnudagssjálfan á twitter á sunnudögum og þær þurfa ekki að vera góðar.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Audible
  2. Twitter
  3. Gmail
  4. Símtöl/sms
  5. Instagram

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 5110

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Bara einhver iPhone ég sé ekki fram á að fara nokkurn tíman í annan snjallsíma aftur.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég fylgist með Lapparanum.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Fylgist með Kanil í framtíðinni 🙂

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira