Heim Föstudagsviðtalið Magnús Rúnar Magnússon

Magnús Rúnar Magnússon

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 113 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Magnús Rúnar Magnússon og er þriggja barna faðir, konan mín heitir Hjördís Halldórsdóttir. Fæddur á Akureyri og alin upp að mestu á Eyrinni. Var í Oddeyrarskóla upp í 6. bekk undir stjórn Indriða Úlfssonar og fór svo í Glerárskóla og kláraði grunnskólann þar. Fór í Verkmenntaskólann til að læra bifvélavirkjun og var á samningi á Bíla og búvélaverkstæðinu Draga í nokkur ár. Kláraði reyndar ekki þetta nám og hætti að vinna við viðgerðir á bílum og landbúnaðartækjum.

Ég byrjaði að spila á trommur um fermingu og var því alltaf að brasa í hljómsveitum á þessum tíma. Var í nokkrum böndum eins og EXIT, Hún Andar, Flow, Útópíu og einhverjum fleirum. Ég flutti svo til Reykjavíkur 1996 og byrjaði að vinna á Landflutningum.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa hjá Samskipum og hef verið þar síðan 1998. Ég sinni verðtilboðum og þjónustu í kringum búslóðaflutningum til og frá Íslandi. Ég á þrjár stelpur og elsta er 10 ára þannig að síðustu ár hafa mikið farið auðvitað í að sinna því sem snýr að því að vera foreldri og þáttakandi í atvinnulífinu. Það er auðvitað aldrei dauður punktur í þessu öllu saman og maður reynir að leggja sig fram um að vanda sig á öllum sviðum.

Ég byrjaði líka að tromma aftur fyrir nokkrum árum og hljómsveitin mín Trúboðarnir gáfu út plötu á síðasta ári og fylgdum við henni eftir með tónleikum hér og þar. Það hefur því verið mikið fjör á öllum vígstöðvum síðustu ár.

Hérna er hægt að hlusta á plötuna okkar Óskalög Sjúklinga.

 

Hvert er draumastarfið?

Þegar ég kláraði stúdentsprófið í MH þá ætlaði ég alltaf í Félagsfræðina en svo hef ég sett það pínu til hliðar þar sem ég hef ekki í raun gefið mér tíma frá öðru. Gæti vel hugsað mér að vinna við félagsráðgjöf af einhverju tagi. Gera eitthvað alvöru gagn í samfélaginu. Þessar pælingar geta svo alltaf breyst frá ári til árs.

 

Innskot Lappara: Maggi kom fram í Skaupinu 2015 en hann er einn af þessum skeggjuðu 🙂

Klipping: Lára Hanna

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Dagurinn hefst 6:45 (bannað að snooza) við hjónin komum svo stelpunum öllum á fætur og gefum morgunmat plús öll þessi helstu smáatriði. Er mættur í vinnu klukkan 08:00 og vinn til 16:00. Ég sé alltaf um að sækja á leikskóla og þessháttar. Seinniparturinn er svo undirlagður í skutl, matseldina og þessa hluti sem tengjast heimilishaldinu. Betri helmingurinn kemur svo yfirleitt í kvöldmat og svo tekur við kvöldrútínan með börnin eins og margir þekkja. Þegar ró fer að færast yfir liðið eftir átta þá taka önnur verkefni við. Reynum yfirleitt að vera komin í rúmið um 11 leytið.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Nú er maður að reyna að koma skíðunum inn í rútínuna og fjölskyldan öll byrjuð að skíða. Ég skíðaði aldrei sem barn þannig að ég elska að komast upp í fjöllin og finnst þetta í raun vera alveg frábært fjölskyldusport. Veit svo ekki hversu duglegir við Trúboðar verðum í byrjun árs en ég ætla líka að reyna að koma einhverri líkamsrækt inn í þetta.

 

Eitthvað slúður úr bransanum sem við þurfum að vita?

Ég er arfaslakur í slúðrinu. Sennilega alltaf síðasti maður til að frétta allt. Heyri auðvitað sögur úr tónlistarbransanum en hef þær sjaldnast eftir, þær eru líka ekki prenthæfar.

 

Lífsmottó?

Reyna að njóta dagsins í dag… Lífið er núna.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég elska Roxette.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Sennilega hringja strax í konuna og fá ráðgjöf. Kaupa eitthvað af eignum til að leigja út og fjárfesta í framtíðinni og styrkja svo Barnaspítala Hringssins reglulega.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Ég verð auðvitað að nefna Karl og Atla Örvarssyni. Ingimar Eydal, Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson og svo nefni ég Fúsa Óttars fallbyssutrommara sem var í Baraflokknum… Svo eru þarna fullt af öðrum meisturum og ég að gleyma einhverjum. Fatta reyndar núna að ég bý í Kópavogi.

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins fyrir utan Stebba Him?

Björk Guðmundsdóttir er auðvitað eitt fremsta tónskáld okkar tíma.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 8.1 Pro hérna í vinnunni. Er með iMac heima hjá mér.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er með Iphone 6s, var með 4 og 5 er búinn að festa mig í neti Apple með Ipod og þessháttar.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Ég elska þetta stýrikerfi símans og auðvelda viðmót en ég væri til í að sjá miklu, miklu betri myndavél miðað við hvað maður er að borga fyrir tækið.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Tölvupóstur
  2. Hlusta á tónlist (Spotify)
  3. Facebook – Instagram
  4. Símtöl
  5. Netið

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Nokia 3310 – þvílíkt undur og með Snake

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Endalaust minni, geðveik myndavél og mikill hraði í vinnslu á netinu.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Án gríns þá er það helst að ég skoði lappari.com en svo er það helst greinar í blöðum á netinu og þessháttar.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Áfram Jón, haltu áfram að vera duglegur að halda úti þessari síðu og því sem henni tengist.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira