Heim Föstudagsviðtalið Kjartan Atli Kjartansson

Kjartan Atli Kjartansson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 110 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Kjartan Atli Kjartansson og er uppalinn á Álftanesi. Gekk í Garðaskóla, spilaði með Stjörnunni og flutti síðar í Garðabæinn. Þannig að ég er stoltur fulltrúi þessara tveggja fyrrum sveitarfélaga. Valkvíðinn fór þegar þau sameinuðust.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa hjá 365. Hef verið að skrifa í Fréttablaðið og á Vísi í rúmlega tvö ár. Meðfram því stýri ég Domino‘s körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport, hlaðvarpinu Hiphop og pólitík auk þess sem ég hef tekið að mér önnur verkefni.

Ég hef þjálfað körfubolta í fjórtán ár og finnst æðislegt að komast úr amstri hversdagsins, inn í íþróttasalinn, þar sem önnur lögmál gilda og umheimurinn skiptir engu máli.

Áður en ég fór í fjölmiðla starfaði ég við kennslu, var umsjónarkennari á mið- og unglingastigi við Álftanesskóla og gegndi síðar hlutverki svokallaðs sérfræðings, þar sem ég tók að mér kennslutengd verkefni innan skólans. Var æðislegur tími.

 

Hvert er draumastarfið?

Kannski hljómar það klisjulega, en núverandi störf eru hluti af því sem ég mig hefur dreymt um að starfa við. En ég er bara þannig gerður að ég er ekki mikið að pæla í svona hlutum, ég nýt bara lífsins.

Þannig að, til þess að svara spurningunni, er örugglega ekkert eiginlegt draumastarf til í mínum huga. Það eru kostir og gallar við allt.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Dagarnir mínir eru ansi hektískir. Vikan er svona að komast í frekar fast form núna. Að skrifa í blöð er mikil vinna. Þar byrja ég daginn og skrifa eins og vindurinn. Mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga fer ég síðan af blaðinu og að þjálfa í Garðabænum. Oft er ég niðri á blaði fram að kvöldmat.
Fimmtudagar og föstudagar eru svo helgaðir Körfuboltakvöldinu. Þá er unnið frameftir.

Helgarnar fara svo mikið í þjálfun.

Svo er pabbalhutverkið auðvitað í forgangi þarna. Samverustundirnar með dóttur minni gefa mér mikið og er ég svo heppinn að við foreldrar hennar eigum í frábær samstarfi. Þannig hefur myndast ótrúlega mikill sveigjanleiki sem nýtist öllum, enda mikill vinskapur á milli allra. Svo fæ ég líka að þjálfa dóttur mína og vinkonur hennar í körfubolta. Það er frábært.

Ég er mikið að, allan daginn, alla daga. Fram á kvöld. Og mér finnst það frábært.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Þátturinn á svolítið hug minn þessa daga, enda erum við að ýta honum úr vör. Við höfum fengið frábær viðbrögð og maður er fyrst og fremst þakklátur fyrir það. En að þættinum koma miklir keppnismenn, sem láta lof ekki stíga sér til höfuðs.

Ég er svo með allskonar verkefni í gangi, hugmyndir og plön, sem malla í höfðinu.

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Í mínu starfi eru tölvur og tækni algjör grunnforsenda. Allt sem ég geri er tækninni háð. Ég skrifa auðvitað allt á tölvur, vinn mikla vinnu fyrir fréttirnar í gegnum þær. Fyrir þættina eru tölvur og tæknin auðvitað eins og súrefni fyrir manneskju.

Í þjálfuninni hef ég líka alltaf notað tæknina. Ég nota símann til að taka iðkendur upp og sýna þeim hvað má bæta, til dæmis í skotstílnum. Síðan fá 14 ára strákarnir sem ég þjálfa heimanám, oft í Youtube-myndböndum og greinum sem þeir eiga að lesa.

Svo skrifa ég um dægurmál í Fréttablaðið og þá er mikilvægt að fylgjast vel með, til dæmis þáttum í sjóvnarpi. Þá er mikilvægt að vera með gott „setup“ þar; að geta horft á hluti í tímaflakkinu og á frelsinu.

 

Lífsmottó?

Að gera það sem manni þykir gaman.

 

Sturlið staðreynd um þig sem fáir vita?

Ég er frekar opinn maður. Átti mér eitt leyndarmál hér áður fyrr, að ég safnaði húsum og lestum í jólaþorp. En ég opinberaði það svo og var til umfjöllunar í jólablaði fyrir síðustu jól. Þar með féll síðasta vígið, öll leyndarmálin uppi á borðinu.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Ferðast um heiminn með mínum nánustu, fjölskyldu og vinum. Og kaupa mér flottan bíl.

Og fljúga góðvini mínum Olivier Angenot heim frá París reglulega.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Á Álftanesi eigum við auðvitað Hauk Heiðar í Diktu. Restin af þeirri sveit er úr Garðabænum. Fleiri flottir tónlistarmenn eru af nesinu, eins og Tryggvi M. Baldvinsson. Sveitin Vintage Caravan er líka frá Álftanesi.

Úr Garðabænum er svo auðvitað fullt af hæfileikaríku tónlistarfólki. Ég var í árgangi með Röggu Gröndal. Mínus er auðvitað að hluta úr Garðabæ, Ómar Guðjóns og bara svo mikið af nettum tónlistarmönnum. Síðan má ekki gleyma Conspiracy Crew, sem var frábær rapphljómsveit.

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins?

Gísli Pálmi.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Ég pæli ekki mikið í stýrikerfum. Nota Windows í tölvuna.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Hef verið mikill iPhone-maður og er með 5s. En hef undanfarið verið að prófa Motorola Moto X Play og hann er gjörsamlega frábær.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostirnir við Motoinn er að hann er kvikur, skjárinn er frábær og hann er í þægilegri stærð.

Gallinn er eiginlega bara að maður var orðinn vanur iPhone og allri þeirri bestun sem símanum fylgir.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Spotify
  2. Hlaðvörp
  3. Facebook
  4. Twitter
  5. Snapchat

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Bleikur Siemens-sími sem var á tilboði í BT. Þegar maður hélt að gemsarnir væru bóla. Síðan átti ég líka Sagem síma. Besta við hann var að aftur á bak hét hann Megas. Það var án gríns það besta. Annars var hann dapur.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Vá, ég er ekki svona mikill símamaður að ég eigi draumasíma.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég kíki reglulag inn á Lapparann. Síðan á ég góða vini, sem eru mikil tæknisnillingar. Þeir hjálpa mér að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast. Þeir svala þessari þörf manns vel.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Gangið hægt um gleðinnar dyr.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira