Heim Föstudagsviðtalið Ólafur Darri Ólafsson

Ólafur Darri Ólafsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 105 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Ólafur Darri Ólafsson, er faðir, manneskja og listamaður. Hvaðan er góð spurning. Ég fæddist í Connecticut í Bandaríkjunum en myndi eiginlega segja að ég væri Reykvíkingur, alinn upp í Breiðholti.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa við leiklist. Hef duflað við handritskrif, framleiðslu, bráðum leikstjórn enn fyrst og fremst listina að leika. Það er það sem ég hef brallað síðustu 17 árin í leikhúsum, sjónvarpsþáttum, útvarpsleikritum, auglýsingum, talsetningum, kvikmyndum og þess háttar.

 

Hvert er draumastarfið?

Ég er svo heppinn að vera í draumastarfinu mínu, það eru veruleg forrétindi að gera það sem manni finnst skemmtilegast.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Það fer svolítið eftir því hvað er að gerast. Ef ég er ekki að vinna, þá er það morgunmatur með fjölskyldunni áður en ungt fólk fer í skóla og til dagmömmu. Konan fer í vinnuna og ég fer niðrí bæ á skrifstofuna mína (þú tekur eftir að mér finnst það ekki að fara í vinnuna.) Vinn aðeins þar við að lesa handrit, skrifa reikninga, fara yfir bókhald og svo framvegis þar til við hittumst öll aftur um eftirmiðdaginn. Kvöldmatur og svo kannski góð mynd í lok dags.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Þessa dagana er ég í fríi sem er mjög gott því ég er búinn vinna mikið þetta árið og það er kominn tími til að gera nákvæmlega það sem ég var að tala um hér að ofan.

 

Eitthvað slúður úr bransanum sem við þurfum að vita?

Ég reyni að forðast að slúðra um samstarfsfólkið eða þau verkefni sem ég er að vinna, slúður er hvimleitt.

 

Lífsmottó?

Að reyna að gera hið rétta.

 

Sturlið staðreynd um þig sem enginn veit?

Ég get öskrað eins og risaeðla.

 

Hvað mundir þú gera við 500 milljóna Lottóvinning?

Svo rosalega margt að fólk myndi ekki trúa því að það væri hægt að gera svona margt gott fyrir þennan pening.

 

Hver er besti tónlistarmaður landsins?

Get ekki valið einn. Pétur Ben, Jónas Sigurðsson, Baggalútur, Hjálmar, OMAM, Björk, Jóhann Jóhannsson, Samaris, John Grant, Oj barasta og svo mikið fleiri.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OSX fyrir Mac. Er að skipta í dag yfir í El Capitan.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er rosa Apple maður. Þannig að ég er með Iphone 6plus. Hann er mjög fínn, ég skipti í fyrra úr 4s sem var orðinn lúinn.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Er að reyna að líta á hann meira sem síma í seinni tíð. En hann er algjörlega frábær þegar kemur að nánast öllu.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Símtöl
  2. Textaskilaboð
  3. Netið
  4. Tölvuleikir
  5. Í útlöndum hið frábæra app Waze til að rata þegar ég er að keyra.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Það var besti sími allra tíma, Nokia 5110 ef ég man rétt.

 

Hvernig er draumasími framtíðarinnar?

Sími sem veit hvaða símtöl eru í alvöru mikilvæg og vinsar hin úr.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég kíki stundum á Apple orðróma síður, annars eru það meira leiktækni síður sem ég kíki á.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Bara takk fyrir spjallið og gleðileg jól. Bráðum.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira