Heim Microsoft Lenovo ThinkPad P50 og P70 vinnustöðvar

Lenovo ThinkPad P50 og P70 vinnustöðvar

eftir Gestapenni

Þá er komið að öðrum gestapistill hér á Lappari.com en þessir pistlar birtast algerlega óritskoðaðir. Þetta er þó með þeim fyrirvara þó að við lesum þetta yfir og gætum þess að höfundar sýni öðrum háttvísi, pistillinn sé ekki hrein og bein sölumennska og að höfundur fari eftir almennum mannasiðum við sín skrif.

Ritstjórnarstefna Lappari.com tekur á málfari, háttvísi o.s.frv. en gefur ritara frjálst val varðandi efni og efnistök.

————

 

atli_jarl

Atli Jarl

 

Það má með sanni segja að það hafi verið mikið um dýrðir er Lenovo tilkynntu rúmlega 80 nýjar afurðir á IFA ráðstefnunni í Berlín í síðustu viku, en hana sótti ég ásamt nokkrum öðrum kollegum mínum úr Lenovo Insiders hópnum, en einnig sem Lenovo Forum advocate þar sem ég hef tekið þátt í tækniumræðum undanfarin ár.

Það hefur verið mikið skeggrætt um þessar nýju vinnustöðvar í tækniheiminum sl. mánuð eða svo, eins og t.d. má sjá má á síðum Lappari.com að sjálfssögðu, en þær voru tilkynntar á sérviðburði í ágúst. Því voru þessi tvö prufueintök einungis til staðar á Lenovo Launch viðburðinum sem haldinn var áður en IFA ráðstefnan opnaði.

 

p50p70_1

 

ThinkPad P-línan er arftaki W-línunnar, sem flestir ThinkPad notendur ættu að þekkja, en þróun þeirra fellur nú undir ThinkStation deildina, sem einmitt kynnti til leiks nýja línu af vinnustöðvum fyrr í ár sem bera sama línubókstaf, eða P300 / P500 / P700 og P900. Heimasíða Think Workstations

Eins og ég minntist á, þá voru bæði P70 og P50 vélarnar sem til staðar voru prufueintök, sem sást greinilega á „XXXX“  merkingunni á skjárammanum, en því miður gafst lítið svigrúm til að láta á þær reyna. En við náðum engu að síður að kynna okkur margt sem þær munu bjóða upp á.

 

p50p70_2

 

Útlitslega séð eru blessunarlega ekki mikið um breytingar miðað við eldri W-línuna, en þó má sjá einstaka atriði sem Lenovo hafa betrumbætt eftir ábendingar frá notendum. Fyrst ber að nefna nýja 6 hnappa UltraNav útfærslu, sem veitir þeim notendum vélanna sem kjósa að nota TrackPad í stað TrackPoint sömu fínstýringu á skruni með nýja miðjuhnappinum. Þessi UltraNav útfærsla þykir mér alveg einstaklega góð, en með þessu þá eru hönnuðir næstum komnir heilan hring í útfærslunni síðan xx30 línan kom út, nema hvað að hún er í sömu stærð og þeirri sem kom með W540/W541 og W550s vélunum.

Lyklaborðið er í sama full-size stíl og var kynnt til sögunnar á ThinkPad E520 sem síðar var svo farið að nota á T/W540 línurnar, með einstaka kærkomnum breytingum þó. Eins og sjá má á myndinni fyrir ofan, þá hefur flýtitökkunum fjórum fyrir ofan talnalyklaborðið verið breytt úr því að kalla upp reiknivél, vafra, Explorer og til að læsa vélinni, sem fæstir nota nokkurn tímann, yfir í aukalykla sem stýra hljóðstyrk og slökkva á hljóðnema. Við áttum gott samtal við Jerry Paradise, sem er aðalvörustjóri ThinkPad línunnar um einmitt þessa aukatakka fyrir T- og X línurnar líka, þar sem mjög margir notendur, þar með talið ég, keyra þær með FnLk á allan tímann, svo það er mun þægilegra að hafa þessa lausn til staðar í stað þess að stýra hljóðstyrk með Fn lyklum. Við verðum hins vegar að bíða þar til nýjar T- og X- línur verða kynntar á CES í byrjun 2016 með hvort þeir bæti við þessum aukatökkum á þær líka.

 

p50p70_3

 

Það eru komin LED ljós í NumLock og CapsLock takkana ásamt því að LED ljósið fyrir FnLk hefur verið fært upp í Esc takkann. Letrið fyrir F1-12 takkana hefur einnig verið stækkað töluvert eftir ábendingar frá notendum að það væri erfitt að lesa á þá. Það verður svo vitaskuld tveggja þrepa baklýsing fáanleg í lyklaborðunum.

Nýja „Touch“ fingrafaralesarann má svo finna hægra megin á vélunum, til hliðar við lyklaborðið á P70 og fyrr neðan það á P50. Því miður voru þeir ekki uppsettir á prufuvélunum, svo það var ekki hægt að prófa þá. Ef glöggir menn rýna svo í myndina að ofan, þá má sjá HDD LED ljósið góða hægra megin við Lenovo logoið á skjárammanum, sem snýr einungis aftur á P70 og P50 vélunum.

 

Thinkpad P70 - botn

Thinkpad P70 – botn

 

Thinkpad P50 - botn

Thinkpad P50 – botn

 

Ein af stærri breytingum sem P-línan kemur með er sú að rafhlaðan er nú staðsett hægra megin á vélinni framanverðri, en það var einn af göllum eldri véla að skjástýringin var staðsett skammt frá palmrestinu að framanverðu, svo óþægilegt var að hvíla úlnliðinn þar til lengdar er vélin hitnaði við þungavinnu. Aftur á móti hafa rafhlöðurnar minnkað, en á P70 verður rafhlaðan 8 sellu (96Whr) meðan hægt verður að velja á milli 4 (66Whr) og 6 sellu (90Whr) rafhlöðu í P50. Skylake örgjörvarnir eiga aftur á móti að vera sparneytnari, svo það verður að koma í ljós hvað svona vél endist lengi undir einhverju álagi, en svona til að gefa einhverja hugmynd um endingu, þá næ ég að keyra ThinkPad W540 vélina mína, sem er með Intel i7-4800MQ / Quadro K2100M / 32GB DDR3L og tveggja harðadiska uppsetningu í góða 3-4 tíma á sínum 9 sellum miðað við blandaða vinnu. Á myndunum hér að ofan má sjá staðsetningu á rafhlöðu, docking tengi og gríðarstórum botnpanelum, sem veita notanda greiðan aðgang að vélbúnaðaruppsetningu vélanna.

 

p50p70_6

 

Bæði P70 og P50 munu bjóða uppá fjórkjarna Intel Xeon E3-1500M v5 örgjörva, en einnig verða þær fáanlegar með Intel Core i7 fjórkjarna örgjörvum í lægri verðflokkum, hvort tveggja að sjálfssögðu úr nýju Skylake línu Intel. Það má geta þess að báðar þessar prufuvélar innihéldu Intel Core i7-6700HQ örgjörva og 32GB RAM en þær munu einnig báðar geta boðið upp á allt að 64GB DDR4 ECC minni @ 2133 MHz í fjórum SODIMM raufum, tveimur undir vélinni og tveimur undir lyklaborðinu, sem er að mínu mati skref afturábak, þar sem W540/W541 vélarnar buðu upp á allar 4 SODIMM raufarnar á sama stað undir vélinni.

 

Það var mikil reikistefna um hvers konar nVidia Quadro stýringar yrðu í vélunum, en það er þó klárt mál að þetta verða Maxwell stýringar af nýjustu gerð, og hvort þetta verði útskiptanleg MXM-A kort er heldur ekki vitað enn. Því var þó fleygt fram meðal vor að P70 myndi bjóða upp á allt að Quadro M5000M stýringuna, þar sem sú vél mun bjóða upp á 230W straumbreyti, en P50 fari hæst í Quadro M2000M. En þetta eru allt vangaveltur enn, en við munum að sjálfssögðu uppfæra greinina er staðfesting berst af þessum málum.

Skjáirnir sem koma í þessum vélum verða allir IPS, FHD (1920 x 1080) 300 nits, FHD Touch (1920 x 1080) 270 nits og 4K UHD (3840 x 2160) 300 nits, en 4K UHD skjáirnir leysa 3K IPS (2880 x 1620) 300 nits skjáina að hólmi. Til að vernda skjáina hafa hönnuðir nú skipt út fjóru litlu gúmmífótunum sem verja vélina frá nuddi er hún lokuð fyrir mjög snyrtilega gúmmírönd í kringum allan skjárammann, sem veitir vélinni einnig góða rykvörn. Vélarnar munu einnig bjóða upp X-Rite litastilli, og skynjarinn er staðsettur vinstra megin á palmrestinu. Í sönnum ThinkPad-stíl er þessu svo öllu haldið á lofti með tveimur massífum skjálömum sem veita gríðargóðan stuðning við skjáina og framkalla lágmarks-titring eða flökt ef hreyfing kemur á þá meðan að mjög létt reyndist að opna þær með einni hendi án þess að öll vélin tækist á loft að framanverðunni.

 

Thinkpad P70 - bakhlið

Thinkpad P70 – bakhlið

 

Thinkpad P70 - hægri hlið

Thinkpad P70 – hægri hlið

 

ThinkPad P70 - vinstri hlið

ThinkPad P70 – vinstri hlið

 

Það eru afar góðir tengimöguleikar við öll hugsanleg tól og tæki sem þessar vélar koma með, þar sem telja má upp: 4x USB 3.0, þar af 1 Always-Charging – 1x HDMI 1.4 sem leysir eldri VGA tengi af hólmi – 1x Mini DisplayPort 1.2 – 2x (P70) og 1x (P50) Thunderbolt 3 – 1x RJ45 Ethernet tengi – 1x Docking tengi undir vélinni – 1x sambyggt tengi fyrir heyrnartól/hljóðnema – 1x 34mm ExpressCard rauf – 1x SDXC rauf og svo er 1x Smart Card rauf sem hægt er að panta sem aukabúnað. Báðar vélar koma svo með nýjustu gerð af Intel 8260 2 x 2 a/c + Bluetooth 4.1 WLAN korti sem einnig er hægt að panta með vPro og Sierra EM7445 – 4G-LTE-Advanced WWAN korti.

P-línan sýnir svo skemmtilega á sér klærnar er kemur að geymsluplássi. Báðar vélar koma með pláss fyrir 1x 2,5“, allt að 2TB harðan disk og tvær 80mm M.2 Gen3x4 NVMe PCIe SSD raufar, sem saman taka allt að 1TB gagnapláss. Til viðbótar kemur P70 vélin með ultrabay DVD-RW drif, sem hægt er að skipta út fyrir 2,5“ diskabakka sem tekur allt að 1TB harðan disk eða lítið ultrabay cover fyrir þriðja M.2 kortið allt að 512GB. Og til að toppa þetta allt saman kemur vélin með innbygðu RAID 0 eða 1.

Fyrir þá sem hafa séð W700/W701(ds) vélarnar, þá sat það aðeins í mér að það væri ný 17“ ThinkPad vinnustöð á leiðinni, en það þurfti alveg meðalfólksbíl til að frakta þau tæki með sér, en með öllu fóru þær yfir 5 kíló að þyngd. Það var því afar ánægjulegt að taka P70 vélina upp og finna að umfang og þyngd hennar var bara hreint ekki svo galið. Prufuvélin sem þarna var til sýnis var um 3 kílóin, kannski rétt rúm, en skv. spekkum munu þær byrja í 3,4kg meðan P50 byrjar í 2,5kg.

Það var afar ánægjulegt fyrir okkur að fá að skoða þessi skrímsli hjá Lenovo og að sjálfssögðu fréttið þið fyrst af þessu hérna á www.lappari.com Hver svo afköst og allra mikilvægast, verðin, verða á skessunum verður afar forvitnilegt að sjá, en það má auðveldlega geta sér til um að P70 með öllu fari ágætlega yfir milljónina. Svo það er best að byrja að spara, því P50 verður fáanleg um mánaðarmótin október-nóvember 2015 og P70 um mánuði seinna.

Ensku útgáfuna af þessari hands-on umfjöllun má svo finna á Lenovo Forums, en kollegi minn Benjamin Herzig ritaði hana þar ásamt til að leggja til eitthvað af myndefni.

Atli Jarl Martin

 

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira