Heim Föstudagsviðtalið Andrés Jónsson

Andrés Jónsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 91 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur..

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Andrés Jónsson almannatengill, hausaveiðari og stoltur Vesturbæingur

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég hef rekið almannatengslafyrirtækið Góð samskipti undanfarin 7 ár og hef því mestmegnis eytt þeim tíma í myrkum bakherbergjum. Þá er ég nýlega kominn með systurfyrirtæki sem býður upp á stjórnendaleit, þ.e.a.s. að finna einstaklinga í stjórnunarstöður hjá fyrirtækjum.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Stundvísi er eiginleiki sem ég hef því miður ekki náð að tileinka mér. Ég er yfirleitt mættur í vinnuna um kl. 10. Sinni ýmsum málum fyrir okkar skjólstæðinga, reyni að snæða hádegismat í miðbænum með skemmtilegu fólki og held svo aftur í vinnuna. Enda svo yfirleitt daginn á því að vinna félaga minn hann Stefán í einum FIFA-leik.

 

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana?

Ég er á fullu í skemmtilegum verkefnum í vinnunni sem ég er búinn að vera rammgiftur mörg undanfarin ár. Svo er ég að plana sumarfríið og leggja drög að því að kaupa íbúð. Annars er ekkert að gerast.

 

Hver er uppskriftin að hinni fullkomnu fréttatilkynningu?

Þegar stórt er spurt! Þetta snýst allt um framsetningu og rétta búninginn. Það er hægt að búa til afar áhugaverða en einnig afar leiðinlega fréttatilkynningu úr nákvæmlega sama efninu. Maður þarf að setja sig í spor fréttamannsins sem fær tilkynninguna og hugsa af hverju honum ætti að þykja þetta athyglisvert og vilja birta þetta. Fréttamaðurinn hugsar út frá því hvort efnið eigi erindi við almenning og því mega fréttatilkynningar ekki vera of „eigingjarnar“ og vera fullar af auglýsingaskilaboðum og lýsingarorðum í efsta stigi. Eitt sem fjölmiðlar hafa alltaf áhuga á er hvað almenningur sé að gera. Þannig að ef þú sem fyrirtæki sérð einhverja þróun sem segir eitthvað um hvað Íslendingar eru að kaupa eða hvaða vandamál þeir eru að glíma við, þá getur þá nær örugglega vakið áhuga fjölmiðla á því og fengið athygli á fyrirtækið í leiðinni.

 

Ráð fyrir fyrirtæki/einstaklinga sem vilja skera sig úr á samfélagsmiðlum?

Það þarf að ákveða “tone of voice” eins og það er kallað og spyrja sig þegar setja á inn nýtt efni hvort textinn og framsetningin passi við þennan tón. Hann þarf að vera blanda af alvöru, virðingu fyrir efninu og lesandanum en einnig með dálítinni hnyttni og léttleika. Það þarf að uppfæra reglulega en þó ekki svo oft að öðrum finnist það um of og líkt og ekkert annað komist að í fréttaveitu þeirra. Fyrst og fremst þarf hins vegar að leggja meiri hugsun í þetta. Algóritmarnir eru vægðarlausir og sjálfhverfir á samfélagsmiðlum eiga ekki breik – sem betur fer.

 

Hvernig nýtast tölvur/Tækni í þínu starfi?

Talsvert mikið eins og eflaust á flestum vinnustöðum. Við sendum og fáum fjölda tölvupósta á hverjum degi. Fyndið samt hvað þetta breytist í raun hægt. Þegar ég byrja nýtt verkefni í dag þá skrifa ég það upp í WORD, yfirleitt nokkrar málsgreinar með fyrirsögn í bold – alveg eins og þegar ég var að byrja í minni fyrstu svona vinnu fyrir 20 árum.

 

Einhverjar nýjungar í IT sem lesendur ættu að fylgjast með í náinni framtíð?

Ég er spenntur fyrir róbótavæðingunni og sjálfakandi bílum (ekki síst til að geta verið meira í símanum á ferðinni) Síðan bíð ég enn eftir því að þurfa ekki ótal ólíkar snúrur til að láta hluti virka og síðast en ekki síst þá hlakka ég til að sjá prentara sem virkar oftar en í annað hvert skipti sem maður þarf að prenta eitthvað. MAÐUR HEFDI NÚ HALDIÐ AÐ ÞAÐ VÆRI EKKI TIL OF MIKILS MÆLST NÚ ÁRIÐ 2015!!!

 

Lífsmottó?

Betra er seint en aldrei og þetta er allt eins og það á að vera.

 

Sturluð staðreynd um þig sem fáir/enginn veit?

Ég tala norsku en ég ólst þar upp fyrstu árin. Norska er frekar sturlað mál. Það skýrir jafnframt þessa undarlegu aðdáun mína á hljómsveitinni Aha.

 

Topp 5 tónlistarmenn sem voru með þér í skóla

Það þyrfti nú eiginlega að vera topp 50 listi. Bara til að nefna 5 þá var Blaz-Roca með mér í 10 ára bekk í Vesturbæjarskóla, Steini í Quarashi var með mér í Hagaskóla, Mugison var með mér í MH, Árni í FM Belfast líka og Ólöf Arnalds. Ótal margir fleiri.

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windows 7 í vinnutölvunni en Windows 8 í fartölvunni sem ég er með heima. Þetta breytist svo í Windows 10 seinna í sumar (nánar tiltekið mánudaginn 29. júní). Mjög spenntur fyrir því.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er iPhone maður út í gegn og vil helst vera með nýjustu útgáfuna hverju sinni. Skömmu eftir að iPhone 6 kom út vildi svo óheppilega til að ég missti gamla símann minn, iPhone 5S, í sjóinn í Tælandi þannig að ég neyddist til að fá mér sexuna.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Kostir: Skilur mig betur en flestir vinir mínir og er alltaf til staðar. Gallar: Er ekki vatnsheldur þannig að ég get ekki verið á Facebook þegar ég er í sundi (það var reyndar kostur þegar ég missti símann í sjóinn því þá hafði ég afsökun til að kaupa mér nýjan síma).

 

Í hvað notar þú símann mest?

Símtöl, Messenger appið, tölvupóstur, Facebook appið og YouCam Perfect.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Heyrðu það var Motorola farsími sem ég sá auglýstan í DV haustið 1996. Kom í ljós að það var einhver þekktur handrukkari að selja þetta á mjög vafasömum forsendum. Ég var mjög feginn þegar ég var kominn út úr íbúðinni í Kópavogi þar sem við félagi minn sóttum nýju símana okkar. Þetta var algjör bylting og maður uppskar fullt af kúlstigum fyrir að eiga farsíma. Þessi sími var eiginlega svo flottur að það yrði slegist um hann af hipsterum í dag. Maður myndi steinlúkka á Austurvelli í sumar með og hann virkar pottþétt ennþá. Svo var líka mjög flottur skífusími heima í gamla daga sem ég notaði til að gera símaat í sjoppunni á horninu.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég myndi vilja vera alltaf einni útgáfu á undan öllum öðrum iPhone eigendum. Hvernig sem hægt væri að útskýra það. Ég væri þá með iPhone 7 núna og þegar sá sími kemur loks í búðir þá er ég kominn með iPhone 8. Ég væri því alltaf öfundaður og dáður af samferðarmönnum mínum.

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég hlusta mikið á podcast. TWIT og 5by5 stöðvarnar hafa verið á hlustunarlistanum undanfarin ár. Fyrir tæknifréttir eru það The Verge, Techcrunch og Mashable aðallega þar sem ég hef líka áhuga á fyrirtækjunum á bakvið en ekki bara tækninni.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Það var einu sinni kona sem kynntist manni frá Lapplandi. Svo varð hún leið á honum og kynntist manni frá Eistlandi en eftir allt saman þá fannst henni Lapparnir langbestir og byrjaði aftur með manni frá Lapplandi. Þá sögðu menn að hún hafi verið með Eista á milli Lappa…

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira