Heim Föstudagsviðtalið Markús Sveinn Markússon

Markús Sveinn Markússon

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 78 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

 

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Innfæddur Reykvíkingur af Árnesingaætt í föðurætt og frá Hrísey í móðurætt, kominn af Víga-Hrappi og Hákarla-Jörundi. Pabbi og föðurafi voru skipstjórar hjá Tryggva Ófeigssyni og móðurafi útgerðarmaður. Móðir mín, sívinnandi, dvelur nú á DAS. Vorum fimm bræðurnir og allir urðu landkrabbar. Ég hef mjög gaman af hvers kyns íþróttum en ætli hlaup og golf séu ekki fyrirferðarmest þessa dagana. Tæknisinnaður og hef gaman af grúski og ýmsum tæknilegum jaðaratburðum.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Faglega má segja að ég sé “Microsoft”-maður, fékk mína fyrstu MCSE vottun 1997. Hef alla tíð síðan reynt að halda þekkingunni við en það tekur mikinn tíma. Starfa nú sem kerfisstjóri hjá Kortaþjónustunni, við að halda uppi 24/7/365 greiðslukortaþjónustu. Tek stundum hliðarspor samt, lærði t.d. vefforritun fyrir tveimur árum og hef skellt upp tveimur vefsölusetrum.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Vakna með Moggann í rúminu, nú þarf maður ekki að labba og sækja hann lengur, bara opna símann. Kíkt á samfélagsmiðla líka, svo sturtan og vinnan. Eftir vinnu langar mig oftast að gera eitthvað úti við s.s. skreppa í Bása í golf, sund, ganga eða eitthvað slíkt með frúnni. Svo er það imbinn og tölvan seinni part kvölds. Helgarnar svipaðar nema hvað meiri tími gefst til frístunda. Er sennilega ekki mjög mannblendinn, jafnvel eigingjarn á eigin tíma, þ.a. mér finnst t.d. Facebook alger snilld. Gefur manni tækifæri á að gefa aðeins af sér og viðhalda tengslum með lítill fyrirhöfn.

 

Lífsmottó?

“Svo uppsker hver sem hann sáir”.

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Hef ekki fylgst neitt sérlega vel með íslenskri tónlist í gegnum tíðina, veit heldur ekkert hvað grúppurnar heita í dag. Eitt er þó víst, að gæðunum fleygir endalaust fram þessa stundina. Nefni bara þá sem mér dettur fyrst í hug:

– Bubbi
– Sykurmolarnir
– Ríó Tríó
– Todmobile
– Spilverkið

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

Windown 10 Technical Preview. Vel heppnað sýnist mér. Ég sé ekki fyrir mér að ég muni nokkurn tímann á lífsleiðinni nota Mac OS eða Linux 🙂

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Nokia Lumia 930

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Snilldarsími. Myndavélin er samt stærsti kosturinn. Frá því að ég fékk fyrsta myndavélasímann minn hef ég verið að bíða eftir að hafa síma og gæðamyndavél í sama tækinu. Þessi sími er “næstum” því kominn með það. Svo er það auðvitað allt hitt þ.e. GPS staðsetningar- og leiðsögutæki, vasaljós, hallamál, dagbók, vekjari, Internet, póstur, Endomondo o.s.frv. o.s.frv.. Nota hins vegar tónlist ekki neitt. Eiginlega eini galli símans er að horn hans eru full skörp, væri betra að hafa mjúk horn þegar símanum er haldið lengi.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Vafr/tölvupóstur
  2. Hringja/svara
  3. Myndavél
  4. Vekjari/áminning
  5. OneDrive

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Hinn ódrepandi Nokia 1610. Skil ekki hvað varð af honum, væri ekki leiðinlegt að eiga hann ennþá.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Líklega Microsoft Lumia 1020

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Dettur fyrst í hug Microsoft Virtual Academy og Microsoft TechNet.

 

Eftirminnilegt augnablik?

Þegar hringmyrkvinn varð hér um árið ætlaði ég að taka hann upp, en skýjaspá var óhagstæð. Helst að eitthvað mundi sjást eitthvað við Skagatá eða þar í grennd. Tók upptökuvél, þrífót, rafsuðugler og límband og ók af stað norður í land kl. 20 að kvöldi. Vildi ekki lenda í umferðinni eða láta aðra taka alla bestu útsýnisstaðina áður en ég mætti. Það er skemmst frá því að segja að enginn annar virtist hafa minnsta áhuga á þessu. Sá engan nema RAX á hvíta Land Rovernum sínum. En ég náði góðum myndum 🙂

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Vil bara benda fólki á að tapa sér ekki í amstri nútímans og tækninni. Gömul heilræði, húsráð o.fl. eiga yfirleitt vel við í dag. Sem dæmi sagði afi minn gjarnan “Allt vill lagið hafa” þegar eitthvað stóð á sér, eða þegar setja þurfti eitthvað saman. Maður á ekki að brjóta hluti þegar maður er að vinna með þá, heldur hagræða þeim með lagni. Það á við á flestum sviðum.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira