Heim Föstudagsviðtalið Jón Jónsson

Jón Jónsson

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 72 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”, harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Viðmælandi okkar þennan föstudaginn uppfyllir skilgreiningu föstudagsviðtalsins nokkuð vel en miðað við marga sem komið hafa í viðtalið þá er hann nettur tölvunörd og er frægur (á íslandi). Jón Jónsson er hress og skemmtilegur strákur úr Hafnarfirðinum #220 sem flestir þekkja, einstaklega viðkunnalegur og yndæll drengur.

 

Hér má hlusta á eitt af nýrri lögum hans sem heitir einfaldlega: Gefðu allt sem þú átt…

 

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég er glaðvær piltur úr Hafnarfirðinum sem finnst gaman að syngja, spila á gítar og sparka í fótbolta. Best af öllu er þó að vera faðir og elskhugi..!

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Ég starfa fyrst og fremst sem tónlistarmaður en er líka sjónvarpsmaður, knattspyrnumaður og fjármálafræðari. Eftir að ég útskrifaðist frá Boston University 2009 hef ég verið mikið í tónlistinni og sat lengi vel á tréverkinu hjá svarthvíta liðinu í Firðinum en það hefur sem betur fer breyst síðustu sumur. Ég var ritstjóri Monitor í rúm tvö ár og lærði þar ýmislegt skemmtilegt og kynntist aragrúa af skemmtilegu fólki. Síðustu tvö ár skellti maður líka í tvö afkvæmi og hef því verið að pabbast mikið og finnst það afar ljúft.

 

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

Dagarnir eru svo skemmtilega mismunandi og fer það alveg eftir því hvað ég er að gera hverju sinni og hvaða tími ársins er. Stundum er maður alveg í kappi við tímann að reyna að komast á milli staða og klára öll verkefni dagsins en aðra daga getur maður tekið því meira rólega og bara hugsað um lífið og jafnvel samið lítið lag. En ég spila á gítarinn nánast á hverjum degi, fer á fótboltaæfingu á hverjum degi og borða hafragraut á hverjum degi.

 

Lífsmottó?

Að sjá alltaf jákvæðu hliðarnar.

 

Ef það væri bara einn ríkistónlistarmaður…. væri það þú, Frikki Dór eða Stebbi Him ?

Haha. Geggjuð spurning. Frikki Dór, ekki spurning. Hann myndi ganga á milli húsa og ylja fólki með söng og fallegri nærveru.

 

Hvað er helst að frétta af tónlistinni hjá þér? Eitthvað nýtt eða væntanlegt?

Ég er nýbúinn að senda frá mér plötuna Heim svo nú er það bara að halda áfram að fylgja henni eftir. Það vita það nefnilega ekki allir, en plötur eru alveg ennþá til sölu eftir jól. Nú þarf að velja réttu lögin af henni til að senda í útvarpið og vona að einhverjir falli fyrir einhverju þeirra og skottist út í búð og kaupi eintak. Ég þarf einmitt að plana útgáfutónleika fljótlega. En ég held brátt til Katar þar sem ég er fulltrúi Íslands í alþjóðlegu lagi heimsmeistaramótsins í handknattleik. Það verður skemmtilegt ævintýri. Svo er aldrei að vita nema maður hendi sér á Græna hattinn við tækifæir og hendi einu VIP á ritstjóra Lapparans..!

 

Top 5 tónlistarmenn sem kenna sig við þinn heimabæ?

Bó, Maggi Kjartans, Frikki Dór, Pollapönk/Botnleðja og Jóhanna Guðrún. Og auðvitað Palli Rós. Þetta eru þeir sem koma fyrst upp í hugann!

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á tölvunni þinni?

OS X. Búinn að vera með Macbook síðan að PC tölvan mín gaf upp öndina haustið 2008. Þá var ég ennþá í Boston að læra og þetta hefði mátt gerast mánuði fyrr þegar dollarinn var í kringum 60.

 

Hvernig síma ertu með í dag?

iPhone 6 gull.

 

Hverjir eru helstu kostir og gallar við símann?

Helsti kosturinn er að hann er mjög svo “idiot proof” og af því að ég er með Macbook og AppleTV þá er það mikill kostur að þessi tæki tali öll saman. Helsti gallinn er náttúrulega bara mér að kenna því ég er bara með 16GB síma og því er hann oft fullur hjá mér. Ég var með iPhone 5 áður og þar var batteríið ekki að gera góða hluti í endingu en á sexunni er þetta allt annað líf.

 

Í hvað notar þú símann mest?

  1. Email
  2. Hringja
  3. Senda sms
  4. Calendar
  5. Voice memos (lagahugmyndir)

Svo nota ég hann mikið í allt þetta social media.

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég fékk gamla Nokia 6110 símann hans pabba þegar ég var í 10unda bekk. Það var svakalegt þá að fá gemsa.

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

iPhone

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Ég er frekar glataður í slíku. Var mikið inni á Einstein þegar ég var nýbúinn að fá mér AppleTV. En annars er ég lítið í slíku grúski.

 

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Bara takk fyrir að leyfa mér að vera á þessari geggjuðu síðu. Eins vil ég minna fólk á það að ef við hugsum jákvætt og erum jákvæð við fólkið í kringum okkur þá gerast jákvæðir hlutir í okkar lífi. Og eins og afi sagði alltaf á Stöð 2 í gamla daga: Verum góð hvort við annað því þá gengur allt svo miklu miklu betur.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira